Forsíða 
Ofvirknivefur 
Ofvirknibók 

Ólafur Ó. Guðmundsson - 14.01.2003:

yfirlæknir barna- og unglingageðdeildar 
Landspítala - háskólasjúkrahúss við Dalbraut
og sjálfstætt starfandi barnalæknir. 

Mbl. 
14. jan. 2003

Rannsóknar er þörf
Umræðan
um AMO
- - og 
áhyggjur
af greiningu
og lyfjum
-
Ýmsar
rannsóknir
liggja fyrir
Af og til skýtur umræða um hegðunarvanda barna upp kollinum í fjölmiðlum, sérstaklega þann sem á fagmáli kallast bæði ofvirkniröskun og athyglisbrestur með ofvirkni eða einfaldlega ofvirkni. Í þeirri umræðu kemur stundum fram ótti við að vandi barnanna skuli greindur, sérstaklega ef niðurstaðan leiðir til lyfjameðferðar. 

Aukin notkun örvandi lyfja í kjölfar þess að fleiri eru greindir veldur mörgum áhyggjum, aukning sem einnig tengist þeirri staðreynd að farið er að greina og meðhöndla fullorðna með ofvirkni í vaxandi mæli. Þær áhyggjur eru vel skiljanlegar í ljósi þess að upp hafa komið tilvik þar sem þessi lyf eru misnotuð í tíu- til hundrað-földum skömmtum af vímuefnamisnotendum.

Þá eru langtíma áhrif meðferðar með örvandi lyfjum ekki fyllilega þekkt en þó benda nýlegar rannsóknir til að lyfjameðferð við ofvirkni í bernsku dragi úr áhættu á fíkniefnamisnotkun á unglings- og fullorðinsárum. Skammtímanotkun er hins vegar mjög vel rannsökuð og talin örugg og áhrifarík meðferð við ofvirkni þegar lækningalegir skammtar eru notaðir.

Álíka
algengt
hér og ytra
*
Aðeins ein
innlend
rannsókn
*
orsakir
lítt þekktar
*
Uppeldis-
handbókin
*
Ofvirknibókin

 

Margt bendir til að ofvirkni sé álíka algeng hér og í nágrannalöndunum en aðeins ein rannsókn hefur verið gerð hér á landi um algengi ofvirknieinkenna sérstaklega. Tölur um algengi eru hins vegar á breiðu bili vegna þess hve mismunandi greiningarskilyrðin eru en ofvirkni er algengust hjá 7 til 10 ára strákum ( 2 til 6% ) en sjaldgæfari hjá stelpum og í öðrum aldurshópum stráka. 

Einkennin sem greiningin miðast við eru nánast óbreytt í greiningarkerfum frá miðjum sjöunda áratug síðustu aldar þó að greiningarskilmerkin hafi þróast þannig að þau greina mismunandi hópa og hlutföll barna. Vegna þess hve lítið við vitum um orsakir ofvirkni, þrátt fyrir gífurlegar rannsóknir á því sviði, annað en að líffræðilegir erfðaþættir vega þyngst einstakra orsakaþátta, getum við lítið gert til að fyrirbyggja ofvirkni. 

Við vitum hins vegar heilmikið um áhrif mismunandi meðferðar á ofvirknieinkenni og má í því sambandi benda á Uppeldishandbókina, bók bandarísku barnageðlæknasamtakanna sem var þýdd, staðfærð og útgefin hér árið 2000 sem og Ofvirknibók Rögnu Freyju Karlsdótttur sérkennara. 

Þá er rétt að benda á að einkennin eru ekki nærri alltaf viðvarandi heldur dvína þau í 20-40% tilvika þegar fram á unglingsár kemur. 

Lyf reynast
nytsöm við
ofvirkni-
einkennum
*
fleiri leita
aðstoðar
og því
greinast
fleiri nú
en áður
Margar áreiðanlegar rannsóknir sýna virkni lyfja til skemmri tíma við ofvirknieinkennum, sérstaklega eru örvandi lyf áhrifarík í þessu sambandi og hafa valdið straumhvörfum til hins betra í lífi margra ofvirkra barna. 

Það vakna hins vegar ýmsar spurningar um þá auknu notkun sem á sér stað hér á landi síðustu ár eins og tölur hafa sýnt og fram komu meðal annars í svari heilbrigðisráherra á alþingi 10. desember síðast liðin. Þó að lyfin virki hlutfallslega best á ofvirknieinkenni þarf að hafa í huga að þau geta líka að vissu marki aukið athygli og úthald barna og fullorðinna sem ekki eru ofvirk og meðferðarsvörun ein því ekki endilega staðfesting á réttri greiningu. 

Líklegasta skýringin á aukinni notkun örvandi lyfja er þó sú að fleiri séu greindir og meðhöndlaðir en áður ekki síst vegna aukinnar þekkingar foreldra og annarra sem að uppeldi ofvirkra barna koma, það er fólk leitar sér frekar aðstoðar en áður.

Ef til vill
hefur 
ofvirkum
fjölgað
-
og ef til vill
hefur huglæg
skilgreining
samfélagsins
breyst
og þol þess
minnkað
*
lyf - og önnur
úrræði
Þó að þekking geti skýrt aukna lyfjameðferð að hluta er ýmislegt sem bendir til að eitthvað í nánasta umhverfi barna og unglinga, hvort sem um er að ræða líffræðilega eða félagslega þætti, hafi breyst á síðustu árum þannig að einkenni sem falla undir skilmerki hvatvísi, óróleika og athyglisbrest hafi aukist. 

Þol hinna fullorðnu gagnvart slíkum háttum kann líka að hafa breyst auk þess sem skólaumhverfið og heimilin eru öðruvísi stofnanir en áður. 

Það er því ekki ástæðulausu að staldrað sé við þá aukningu sem orðið hefur í notkun lyfja á þessu sviði. Hætt er við að vægi lyfjameðferðar við ofvirknieinkennum aukist enn frekar sem kann að vera óæskilegt nema hjá þeim hópi barna sem á við alvarlegan athyglisbrest með ofvirkni að stríða. 

Mörg önnur áhrifarík úrræði eru til fyrir hinn stóra hóp sem sýnir einkenni en þarf ekki á lyfjameðferð að halda. 

Rannsókna
er þörf
*
ein í
undirbúningi
*
Grundvöllur
þekkingar
og undirstaða
uppbyggilegrar
umræðu
Nauðsynlegt er að rannsaka faraldsfræði ofvirkni og annarra geð- og þroskaraskana hér á landi, ekki einöngu af faglegum ástæðum heldur ekki síður af samfélagslegum ástæðum. 

Ein slík rannsókn hefur verið í undirbúningi undanfarin ár af hópi fagfólks, rannsókn sem mun tengjast 5 ára skoðun barna á þremur heilsugæslustöðvum í fyrstu. 

Slíkar rannsóknir eru sá grundvöllur sem frekari þekking byggir á og hjálpa okkur öllum í að gera umræðuna uppbyggilegri en stundum vill brenna við.

Í janúar 2003
Ólafur Ó. 
Guðmundsson
Höfundur er yfirlæknir barna- og unglingageðdeildar Landspítala - háskólasjúkrahúss við Dalbraut
og sjálfstætt starfandi barnalæknir.

Efst á þessa síðu *Forsíða * Ofvirknivefur * Ofvirknibók