Forsíða 
Ofvirknivefur 
Ofvirknibók 

Er ég ofvirkur? - með athyglisbrest?

Hér á eftir fara spurningar sem svipar til þeirra sem sérfræðingur um athyglisbrest og ofvirkni mundi spyrja þig. Svör þín við þessum spurningum geta ekki gefið þér fullnaðarsvar um það hvort þú hefur athyglisbrest eða ert ofvirkur en spurningarnar geta aukið tilfinningu þína fyrir því hvað ofvirkni er. Þegar þú svarar geturðu betur gert þér grein fyrir því hvort rétt kunni að vera að fara á fund sérfræðings um athyglisbrest og ofvirkni til að fara í raunverulega athyglis- og ofvirknigreiningu. 

Þessi spurningalisti er raunar víða notaður og margir sem hafa þýtt hann. Hér er hann fenginn úr bókinni Driven to Distraction eftir þá Edward M. Hallowell, M.D. og John J. Ratey, M.D. ISBN 0-684-80128-0 

Þýðandi spurninganna er GÓP. Hér er orðið ofvirkur alls staðar notað þar sem höfundar nota ADD í merkingunni athyglisbrestur. Ennfremur er lesandinn ávarpaður í kyni þess orðs, þ.e. hann lesandinn. Spurningarnar eiga jafnt við um konur og karla. 

100

100 spurningar! - 100 já? 
Ef já-svörin verða mjög mörg er það vísbending um að athyglisbrestur með ofvirkni kunni að vera til staðar. Það er samt auðvitað svo að mjög margir munu svara mjög mörgum spurningum játandi án þess að það geti talist merki um neitt óvenjulegt. Þess vegna fylgir hér enginn viðmiðun um samband fjölda já-svara og líkindi á athyglisbresti með ofvirkni. Líttu á þetta sem óformlega forkönnun og á niðurstöðuna sem vísbendingu um hvort leita beri til sérfræðings til frekari athugunar.

1. 

Ert þú, lesandi góður, örvhentur eða ertu jafnvígur á báðar hendur?
2.  Hefur einn eða fleiri í þinni fjölskyldu notað örvandi lyf eða misnotað áfengi, verið þunglyndur eða átt við geðhvörf að stríða sem lýsa sér í því að vera eina stundina spenntur og glaður og finnast allt leika í lyndi en þá næstu í þunglyndi og þykja heimurinn svartur? 
3.  Áttu vanda til að vera mislyndur og stundum þungur í skapi, jafnvel geðvondur?
4.  Þegar þú varst í skóla – var þá talið að þér gengi lakar og fengir lægri einkunnir en þú hefðir átt að geta fengið? Ekki náð að nýta hæfileika þína til fulls?
5.  Áttu erfitt með að byrja á verkum?
6.  Hamrarðu fingrum á borð? Iðarðu fótum t.d. með hællyftum? Ertu á iði? Gengurðu um gólf?
7.  Kemur það oft fyrir þegar þú ert að lesa að þú verður að lesa aftur málsgreinina – eða jafnvel alla blaðsíðuna vegna þess að dagdraumar hafa gripið hug þinn frá efninu?
8.  Ertu sífellt að missa einbeitinguna og sífellt að reyna að ná henni aftur? Áttu erfitt með að fylgja samræðum?
9.  Finnst þér erfitt að slaka á?
10.  Er óþolinmæðin alveg að fara með þig? Ertu óþolinmóðari heldur en hinir?
11.  Finnst þér að þú takir meira að þér heldur en þú ræður við? Finnst þér líf þitt eins og boltabrellisins sem hefur sex boltum fleira á lofti heldur en hendur til að taka við þeim?
12.  Ertu hvatvís? Læturðu allt flakka? Er auðvelt að koma þér úr jafnvægi? Finnst þér að hugdettur og augnabliksfljótræði stýri oft gerðum þínum?
13.  Er auðvelt að trufla einbeitingu þína? Þarf lítið til þess að þú veitir allt öðru athygli heldur en því sem þú vildir vera að einbeita þér að?
14.  Finnst þér stundum eins og athygli þín og einbeitingarorka sé gríðarlega mikil – enda þótt á öðrum tímum sé auðvelt að trufla þig?
15.  Ertu sífellt að skjóta málum og viðfangsefnum á frest? 
16.  Kemur það oft fyrir þig að þér líst vel á eitthvert verkefni og byrjar á því af miklum áhuga – en fylgir því ekki eftir og því lýkur aldrei? 
17.  Finnst þér að fólk virðist eiga erfiðara með að skilja þig heldur en aðra?
18.  Er minni þitt svo götótt að þegar þú ferð í næsta herbergi til að sækja tiltekinn hlut þá hafirðu gleymt erindinu þegar þú kemur inn í það herbergi?
19.  Reykirðu?
20.  Drekkurðu of mikið?
21.  Ef þú hefur einhverntíman prófað amfetamín – fannst þér það þá frekar hjálpa þér að einbeita þér og róa þig niður heldur en koma þér í vímu?
22.  Skiptirðu oft um útvarpsstöð þegar þú ert að aka?
23.  Ertu sífellt að skipta milli stöðva á sjónvarpinu?
24.  Finnst þér þú knúinn áfram rétt eins og í brjóstinu sé óstöðvandi mótor?
25.  Þegar þú varst barn varstu þá kallaður dagdreyminn, latur, úti að aka, hvatvís, orðhvatur, truflandi – eða bara óþægur?
26.  Finnst þér erfitt að tala við þá sem þér eru nánastir, vini og fjölskyldufólk? Áttu erfitt með að halda samræðurnar út? 
27.  Ertu alltaf að flýta þér – jafnvel þegar þú vildir helst ekki vera að flýta þér?
28.  Heldur þú að þér sé verr við það en öðrum að bíða í biðröð?
29.  Er þér aldeilis ómögulegt að fá þig til að lesa leiðbeiningarnar fyrst?
30.  Ertu alveg ferlega uppstökkur?
31.  Verðurðu stöðugt að gæta þín og sitja á þér til að segja ekki eitthvað sem ekki á við og þú síðan sérð eftir?
32.  Ertu spilafíkinn? Happdrættisfíkinn? Spennufíkinn?
33.  Finnst þér þú vera að springa þegar einhver er að tala og tekur heila eilífð að koma sér að efninu?
34.  Varstu mikilvirkur eða ofvirkur í æsku?
35.  Dregstu að kringumstæðum sem búa yfir mikilli spennu?
36.  Reynirðu oftar að bjástra við það sem veldur þér erfiðleikum heldur en hitt sem þú átt auðvelt með?
37.  Hefurðu mikið innsæi? Kemur það oft fyrir þig að þú skoðar flókið viðfangsefni, sérð lausnina og um þig fer þessi tilfinning: A-ha! Finnst þér þessi hæfileiki vera meiri hjá þér en mörgum öðrum?
38.  Finnst þér þú oft vera í kringumstæðum sem þú alls ekki hafðir ætlað þér? Blandarðu þér í mál sem þú alls ekki hafðir ætlað þér að flækjast í? 
39.  Mundirðu frekar vilja láta tannlækni bora í tennurnar í þér heldur en útbúa eða fylgja minnislista?
40.  Ertu sífellt að heita þér því að koma betri reiðu á líf þitt en finnur þig svo jafnan á sama stað: í miðri óreiðunni?
41.  Finnst þér oft eins og þú sért fullur af löngun – en vitir ekki í hvað þig langar? 
42.  Finnst þér þú vera kynvirkari en aðrir?
43.  Maður nokkur sem reyndist vera ofvirkur hafði þessi þrjú einkenni: hann misnotaði kókaín, las mikið af klámblöðum og var sannkallaður krossgátufíkill. Geturðu skilið hann – jafnvel þótt þú hafir engin þessara einkenna?
44.  Telurðu þig vera fíkinn að eðlisfari?
45.  Ertu meiri daðrari heldur en þú eiginlega ætlar þér?
46.  Ólstu upp í ruglingslegri og markalausri fjölskyldu?
47.  Finnst þér erfitt að vera einn?
48.  Vinnurðu oft gegn dapurleika þínum og þunglyndi á einhvern þann hátt sem gæti hugsanlega haft skaðleg áhrif fyrir sjálfan þig – svo sem með því að vinna alltof mikið, eyða alltof miklu, drekka alltof mikið eða borða alltof mikið?
49.  Áttu við lestrarerfiðleika að etja?
50.  Er ofvirkni og/eða athyglisbrestur í fjölskyldunni þinni?
51.  Áttu verulega erfitt með að þola mótlæti – til dæmis þegar þér tekst ekki að ná fram því sem þú vilt?
52.  Ertu óvær og órólegur nema þú hafir eitthvert grípandi viðfangsefni, eitthvað sem er að gerast?
53.  Finnst þér erfitt að lesa bók – allt til enda?
54.  Hættir þér oft til að brjóta minniháttar reglur og lög frekar en að leggja það á þig að fara eftir þeim? 
55.  Ertu kafinn ástæðulausum kvíða?
56.  Kemur það oft fyrir þig að snúa við tölustöfum eða bókstöfum?
57.  Hefur þú verið ökumaður og átt sök á umferðaróhappi meira en fjórum sinnum?
58.  Ertu óöruggur í peningamálum? Er þar oft eitthvað að gerast sem þú vildir ekki?
59.  Ef þú færð hugmynd – viltu þá framkvæma hana undir eins?
60.  Finnst röð og regla sjaldgæf í lífi þínu en ert rólegri og líður betur þá sjaldan að svo er? 
61.  Hefurðu skilið oftar en einu sinni?
62.  Berstu við að halda uppi sjálfsvirðingunni?
63.  Eru hönd þín og auga ekki verulega vel samvirk?
64.  Varstu dálítill klunni í íþróttum í æsku?
65.  Hefurðu oft skipt um starf?
66.  Ferðu þínar eigi leiðir fremur er að gera eins og hinir?
67.  Er þér eiginlega ómögulegt að skrifa eða lesa minnismiða?
68.  Finnst þér næstum útilokað að færa inn breytingar í minnisbækur og símalista til þess að þar séu sífellt réttar upplýsingar?
69.  Ertu hrókur alls fagnaðar eina stundina eða í einu partíi en læðist með veggjum í öðru?
70.  Ef þú óvænt færð tækifæri til að gera eitthvað fyrir sjálfan þig eða aðra – færð óvænt frí – finnst þér þá oft að þú misnotir það eða að þú verðir niðurdreginn á meðan það varir?
71.  Ertu frjórri og hugmyndaríkari en flestir aðrir?
72.  Er það þér stöðugt vandamál að fylgjast með og taka eftir?
73.  Vinnurðu best í stuttum lotum?
74.  Læturðu þér nægja að bankinn reikni út innistæðuna á reikningnum þínum? 
75.  Ertu venjulega áhugasamur um að prófa eitthvað nýtt?
76.  Finnst þér þú oft verða niðurdreginn eftir velgengni.
77.  Ertu sólginn í goðsögur og aðrar frásagnir sem virðast skýra ýmis fyrirbæri?
78.  Finnst þér að þér takist ekki að sýna hvað í þér býr?
79.  Ertu sérstaklega órólegur og eirðarlaus?
80.  Varstu dagdreyminn í skóla?
81.  Varstu einhverntíman bekkjartrúðurinn?
82.  Hefurðu einhverntíman fengið einkunnina þurftafrekur eða jafnvel óseðjandi?
83.  Finnst þér erfitt að meta þau áhrif sem þú hefur á aðra?
84.  Er þér nærtækt að beita innsæi við lausn vandamála?
85.  Ef þú villist – viltu þá frekar fara eftir eigin tilfinningu og finna út sjálfur hvar þú ert heldur en að líta á landakortið?
86.  Kemur það oft fyrir þig að missa einbeitinguna í samförum þótt þér líki þær vel?
87.  Ertu fósturbarn?
88.  Hefurðu ofnæmi fyrir mörgu?
89.  Fékkstu oft eyrnabólgu í æsku?
90.  Gengur þér allt miklu betur þegar þú ert sjálfs þín herra?
91.  Ertu snjallari heldur en þér hefur tekist að sýna?
92.  Ertu sérstaklega óöruggur?
93.  Áttu erfitt með að þegja yfir leyndarmáli?
94.  Er oft eins og stolið sé frá þér því sem þú einmitt ætlaðir að fara að segja? 
95.  Finnst þér gaman að ferðast?
96.  Hefurðu innilokunarkennd?
97.  Hefurðu einhverntíman velt því fyrir þér hvort þú sért ruglaður eða geðveikur?
98.  Áttarðu þig mjög fljótt á úrlausnarefnum?
99.  Hlærðu mikið?
100.  Áttirðu erfitt með að halda athyglinni nógu lengi til að fara yfir allan þennan spurningalista? 

Efst á þessa síðu * Forsíða * Ofvirknivefur * Ofvirknibók