GÓP-fréttir

Markmiðslýsingar
með hliðsjón af
flokkunarkerfi
Benjamin Bloom

Markmið Markmið áfangans er að nemendur læri undirstöðuatriði sem þeir þurfa að hafa á valdi sínu til þess að ná tökum á heilda- og smæðareikningum (integral og differential calculus). Kynnt eru frumatrið falla og grafa, veldisfalla, logariþma og hornafalla. Fjallað er um markgildi og samfelldni falla, breytihraða þeirra og snertla og um útleiðslur afleiða einstakra falla.
Hvað er nám ? Hvað merkir það að læra? Hvernig er unnt að ákvarða að einhver hafi lært tiltekið atriði?

Um þetta hefur verið fjallað ítarlega bæði af einstaklingum, heimspekingum og stjórnskipuðum nefndum. Ein slík nefnd var
A Committee of College and University Examiners
sem skilaði af sér niðurstöðu árið 1956 í bókarformi undir heitinu:

Taxonomy of educational objectives

Ritsjóri var Benjamin S. Bloom og með honum í nefndinni voru Max D. Engelhart, Edward J. Furst, Walker H. Hill og David R. Krathwohl.

Þeir röðuðu einkennum þekkingarinnar í flokka þannig að í fyrsta flokki eru einföldustu minnisatriði, í þeim næsta bætist við skilningur á þeim atriðum sem um var fjallað. Í þeim þriðja bætist við getan til að hagnýta sér það sem lært var og beita því. Í fjórða flokknum eru þeir komnir sem geta hagnýtt sér atriðin í þremur fyrstu flokkunum til að greina vísbendingar og raða rökum. Í 5. flokk er nemandinn kominn þegar hann getur notað þekkingu sína til að setja fram nýjar hugmyndir um efnið og í 6. flokki er hann þegar hann er orðinn fær um að vega og meta verk á sviði viðkomandi fræða.

1 - 6 Hér eru talin einkenni þessara 6 flokka í stuttu máli. Efst er 6. flokkurinn því hann hvílir á 5. flokknum - sem hvílir á 4. flokknum ... osfrv. Ekki er unnt að komast hjá því að hefja námið á fyrsta stiginu - en einstaklingar geta haft afar mislanga viðdvöl á hverju stigi.
6 -Mat

Sá sem hefur
þetta á valdi
sínu
ætti að fá 10.

Dæmigerðar spurningar eru svona:
Dæmdu, leggðu mat á, raðaðu, endurskoðaðu, veldu. Hvað finnst þér?

Í stærðfræði:
Nemendur geti metið úrlausnir á verkefnum sem þeir hafa sjálfir samið eða sem aðrir hafa samið, þannig að í mati þeirra sé að meðaltali mest 10% frávik frá mati kennara og á einstökum þáttum prófs sé mest 15% frávik.

Nemendur geti samið próf úr námsefni annarinnar sem dreifir hinum prófuðu milli einkunnanna 3 og 9 og sem gefur tíðustu einkunn á bilinu milli 4,5 og 6,5.

5 -Nýmyndun

Ætti sá sem
hingað nær
að fá mest
8,5 -
eða etv 9 ?

Dæmigerðar spurningar eru svona:
Dragðu fram, gerðu áætlun, komdu með tillögu, settu fram hugmynd, orðaðu það, endurraðaðu, breyttu skipaninni, dragðu saman, búðu til, undirbúðu.

Í stærðfræði:
Nemendur geti - á grundvelli 1 - 4 hér fyrir neðan - leitt út rökstuddar ályktanir og umsagnir um áður óséð stærðavensl og á stærðfræðilega réttan hátt búið til jöfnuvensl milli stærða sem ekki hefur verið sérstaklega getið á námsönninni.

Nemendur geti samið spurningar, verkefni og dæmi þannig að af úrlausninni megi draga ályktun um hvort hinn prófaði veldur hinum 4 atriðum sem talin eru hér fyrir neðan að því er tekur til hins prófaða efnisþáttar.

4 -Greining

Ætti sá sem
hingað nær
að fá 7,5 ?

Dæmigerðar spurningar eru svona:
Hvers vegna eigum við að virkja við Eyjabakka? Hvers vegna eigum við ekki að virkja við Eyjabakka? Taktu saman yfirlit, greindu, aðgreindu, reiknaðu, prófaðu, berðu saman, gagnrýndu, dragðu skýringarmynd, athugaðu, rökræddu, spurðu, tengdu, leystu, rannsakaðu ...

Í stærðfræði:
Nemendur geti greint hvenær texti inniheldur uplýsingar um stærðfræðileg vensl, náð og raðað saman kjarnaupplýsingunum, borið þær saman við vitneskju sína og skilning og síðan notað þær til að leysa fyrirliggjandi verkefni.

3 -Beiting

Finnst þér
ekki að þeir
sem hingað
ná ættu
að fá
6 ??

Dæmigerðar spurningar eru svona:
Þýddu þessa setningu. Hvernig ber að túlka þetta? Hvernig er hægt að orða þetta öðruvísi og í framsöguhætti? Hvernig notarðu þessa reglu? Sýndu mér ... Skrifaðu leiðbeiningar fyrir okkur. Hvað var svona sérstakt við Fjölnismenn?

Í stærðfræði:
Nemendur noti vitneskju sína og skilning til að leysa stærðfræðiverkefni sem eru hliðstæð þeim verkefnum sem þeir hafa mætt á námsönninni. Þeir geti flokkað stærðir sem skilgreindar eru í próftexta, ákveðið hvort þekkt vensl gildi í áður óþekktu samhengi, valið og fylgt reikniaðferð og rökstutt hvort líkur eru til þess að niðurstaðan sé rétt.

2 -Skilningur

Flestir
komast
hingað
um
mörg
atriði.

Dæmigerðar spurningar eru svona:
Geturðu lýst því með öðrum orðum? Hvað segirðu um það? Eru þau ólík? Rakstu á það aftur? Geturðu útskýrt það nánar? Þekkirðu þetta? Finndu ... Segðu frá ... Rifjaðu upp. Hvað meinti maðurinn?

Í stærðfræði:
Nemendur geti skilgreint stærðfræðihugtök án orðalags kennslutexta eða/og með eigin útskýringum. Á sama hátt geti þeir rökstutt og leitt út reglur, sannanir, venslajöfnur, aðferðir og flokkanir þær sem sérstaklega eru tilteknar með námsefninu. Þeir geti bætt frekari eigin útskýringum inn í þann kennslutexta sem þeir mættu á námsönninni eða ritað sinn eigin rökstuðning á annan fullnægjandi máta.

1-Minni

Allir
hefja
leikinn
hér!!

Dæmigerðar spurningar eru svona:
Hvað situr eftir af því sem átti að muna? Geturðu nefnt? sagt mér hvað átt er við með orðinu mannvirki? endurtekið? talið upp .. ? Veistu hver .. ?

Í stærðfræði:
Nemendur geti ritað skilgreiningar kennslutexta (þ.e. kennslubókar eða kennara) á þeim stærðfræðihugtökum sem komið hafa fyrir á námsönninni eða í aðfararnámi. Nemendur kunni utan að þær reglur, sannanir, venslajöfnur, aðferðir og flokkanir sem hverju sinni eru sérstaklega tilteknar með námsefninu. Nemendur þekki ofantalin atriði, hugtök, reglur, venslajöfnur, aðferðir og flokkanir þegar þeir sjá þau í sams konar samhengi og þeir hafa áður mætt þeim í á námsönninni í kennslutexta.

Efst á þessa síðu * GÓP-fréttir