GÓP-fréttir
Uppfært 30.07.2000 |
Var þar ...Starfsþáttatal: |
Kennsla 1960-2000 |
Kennslustörf hafin í janúar árið 1960 við grunnskóla, síðan við unglinga- og gagnfræðaskóla. Frá 1972 og 73 við Menntaskólann í
Kópavogi þegar hann var stofnaður til ársins 2000. Gegndi þar flestum störfum en var þó aldrei áfangastjóri og skólameistari aðeins í
afleysingum í starfi aðstoðarskólameistara um 5 ára skeið. Kenndi lengst af stærðfræði til stúdentsprófs í stærðfræðideild og var
deildarstjóri í stærðfræði en kenndi nokkur ár sálarfræði og einnig stjórnunarfræði á viðskiptabraut. Samdi stundaskrár skólans í nær
20 ár og var námsráðunautur í mörg ár.
Frá 1990 eingöngu kennt á tölvur, bæði notkun skrifstofuforrita (ritvinnsla, töflureikningur, gagnagrunnur, glærugerð og framsetning svo og internetnotkun og vefsíðugerð) og einnig forritun og hugbúnaðargerð. Þar fylgdi umsjón með tölvunetinu. |
Sumarstörf | Starfaði á námsárum í menntaskóla á sumrin við landmælingar og svo við raflínulagnir. Vann eitt sumar eftir stúdentspróf verkamannavinnu við byggingar í Reykjavík og annað sumar með tengdapabba sem þá var bóndi og rak búið á Laugarvatni. Það var þá eitt stærsta kúabú landsins. Tvö sumur skrifstofustjóri söltunarstöðvanna Hafsilfurs og Borga á Raufarhöfn. Eitt sumar við veiðivörslu í Kjósinni. Annað sumar við vatnamælingar og aurburðarrannsóknir í Tungnaá við Jökulheima undir vestanverðum Vatnajökli og í sex sumur Þórsmerkurvörður fyrir Ferðafélag Íslands og Skógrækt ríkisins. Það var verktakastarf þar sem þurfti einnig að ráða starfsfólk, reka verslun og hafa alla aðdrætti á eigin hendi. |
Lögfræðistörf (!) |
Starfaði á sjöunda áratugnum að bæjarmálum í Kópavogi og var þá um sinn ritsjóri bæjarmálablaðs. Formaður stjórnar Bókasafns
Kópavogs og síðar fulltrúi í Skólanefnd Kópavogs og í Fræðsluráði Reykjanesumdæmis.
Hlaut sérstaka og mjög hagnýta reynslu við atburðarás sem hófst með því að samantekin greinargerð fyrir Skólanefnd fór vegna athugaleysis með fundargerðum bæjarstjórnarinnar í fjölmarga óviðkomandi staði. Einhvers staðar var hún send til dagblaðs sem birti úr henni útdrátt sem að lokum varð tilefni bæjarstjórnarmanna að bóka um mig óhróður á fundi bæjarstjórnar. Stefndi til ómerkingar ummælunum og birtingarkostnaðar við samsvarandi birtingu. Flutti málið sjálfur bæði fyrir undirrétti í Kópavogi og fyrir Hæstarétti og dómur féll mér í hag á báðum stöðum. Niðurstaðan áréttaði fyrir stjórnendum bæjarfélaga að ummæli þeirra á fundum bæjar- og sveitarstjórna eru ekki friðhelg með sama hætti og ummæli alþingismanna í ræðustóli á Alþingi. Samkomulag varð um að bæjarstjórn birti stutt bréf frá mér í fundargerð sinni og ég gaf í bæjarsjóð þá upphæð sem mér var dæmd í birtingarkostnað. Þetta reyndist afar fræðandi bæði um lögfræði, málatilbúnað og málflutning og hefur sú reynsla oft komið til góða síðan. |
Friðargæsla (!) |
Vann á námsárum í Osló meðfram náminu sem næturvörður á stúdentabænum. Með því fylgdi það sérstaka verkefni að tryggja friðinn á ölstofu sem þar var rekin - eða réttara sagt: vera þar útkastari. Til allrar hamingju þurfti yfirleitt ekki að beita öðru en fortölum. |
Störf fyrir HÍK Samningastörf fyrir HÍK og BHM Formennska og verkefnastjórnun fyrir Orlofssjóð BHM |
Starfaði frá 1980 til 1989 að margvíslegum málum fyrir Hið íslenska kennarafélag. Var ritstjóri Kennarablaðsins, málgagns HÍK, skrifaði í það greinar, aflaði auglýsinga og las prófarkir að því og síðar einnig að BHMR-blaðinu. Var formaður samninganefndar HÍK um sex ára skeið, átti sæti í stjórn þess, var fulltrúi þess og stjórnarmaður í BHMR þau sex ár. Á þessum árum var auðvitað sífellt verið að semja um kaup og kjör - bæði allra félagsmanna og einnig voru til umfjöllunar fjölmörg úrlausnarefni frá einstökum félagsmönnum. Sótti námskeið um samninga og samningatækni, hafði samstarf við systurfélög og samtök á Norðurlöndunum, kenndi á samninganámskeiðum á vegum BHMR og leiðbeindi trúnaðarmönnum BHMR og HÍK. Var um nokkurra ára skeið formaður Orlofssjóðs BHMR og sinnti landakaupum, kaupum og byggingu orlofshúsa, gerð verksamninga og eftirliti með framkvæmd þeirra. Var í sérstöku verkefnastjórnunar-starfi þegar álag var mikið vegna þessara framkvæmda. |
Hugbúnaðar- gerð og þjónusta |
Samdi árið 1989 hugbúnað til að annast úthlutun orlofshúsa Orlofssjóðs BHMR. Hugbúnaðurinn er skrifaður í hlutbundnu forritunarmáli og ræður við að afgreiða umsóknir þar sem hver umsækjandi getur raðað fjölda óska í innbyrðis forgangsröð. Óskafjöldi á hverri umsókn hefur verið á bilinu frá 1 til 200 en hámarksfjöldinn er hverju sinni margfeldi fjölda orlofsvikna og fjölda orlofsstaða. Forritið skoðar hvern nýjan umsækjanda og ef sá kemst ekki í sinn uppáhalds valkost spyr forritið þann sem þar er á fleti fyrir hvort hann geti ekki fært sig í annan stað sem hann hefur gefið upp sem jafngóðan. Eigi hann slíkan valkost en sá er upptekinn þá spyr forritið þann sem þar er sömu spurningar - osfrv. Finnist að lokum einn sem getur fært sig í lausan kost eru allir færðir til og hinn nýi kemst í sitt uppáhalds hús. Takist það ekki er á sama hátt reynt að koma honum inn í hans næsthelsta kost - og svo framvegis. Þessu forriti fylgir sérstakt gagnagrunnsforrit sem heldur utan um daglega vinnslu, skráningu á greiðslum og skilar listum og skýrslum fyrir bókhald. Forritið var í gangi við Orlofssjóð BHMR til vorsins 1999. Á þeim tíma var óskað margra viðbóta og ég bætti við það og breytti svo að lokum var það notað af mörgum tölvum á NT-neti. Forritið var ekki skrifað fyrir músarnotkun og með nýju starfsfólki var ákveðið að skipta um forrit til þessarar vinnslu. Nýja forritið ræður að vísu ekki við úthlutun af sama gæðaflokki og mitt forrit. Það er hins vegar notað við fleiri orlofssjóði, söluna og eftirfylgnina annast stórt fyrirtæki með mannafla - og við það má nota músina. Það létti óneitanlega á mér að losna undan þjónustukvöðinni þótt þessi hugbúnaðarviðskipti hafi á þeim árum fært mér nokkrar tekjur. |
Bókaútgáfa og innflutningur Samning |
Flutti inn bækur um tíu ára skeið og dreifði þeim til verslana. Hef samið um það bil 15 kennslubækur um ritvinnslu, forritun og notkun gagnagrunnsforrits. Gaf þær út sjálfur og annaðist tilurð þeirra að öllu leyti með viðeigandi samningum við prentsmiðjur og önnur bókagerðarfyrirtæki. Þær eru þó ekki á markaði lengur - utan ein sem heitir Íslenska Access-bókin . Allar hinar eru orðnar úreltar - nema máske kennslubók mín í forritunarmálinu Pascal, en hún hefur aldrei verið formlega gefin út þótt hún hafi verið notuð í MK um fimm ára skeið. Tók saman og gaf út Nýju stóru söngbókina. Hef einnig unnið til útgáfu bók eftir annan höfund, gefið hana út og dreift. Þetta er ljóðabók sem ber nafnið Í erli dægranna og er eftir Pétur Sumarliðason. |
Umboðsstörf | Hef annast umsýslu með fjármál vandamanna þegar þeir hafa dvalið erlendis, gengið frá skjölum við fasteignaviðskipti þegar seldar hafa verið fasteignir án milligöngu annarra - og verið fyrirsvarsmaður og verkefnisstjóri húsfélags í Reykjavík. |
Smíði og viðhald | Hef búið í sama timburhúsinu undanfarin 30 ár - sem þó er að mörgu leyti ekki hið sama og í fyrstu. Hef endurbætt það á margan hátt og þá breytt því bæði að utan og innan. Hef þá notið úrvals aðstoðar en einnig unnið það mikið sjálfur. Hef lært þannig töluvert til trésmíða auk þess sem almennt viðhald timburhúsa krefst af hóflega fjáðum eiganda. Á þó fremur heiðurinn af viðhaldi utanhúss. |
GÓP-fréttir | Vefsíðan á internetinu http://www.gopfrettir.net hefur fyrirsögnina GÓP-fréttir og er þar skráð 10. árgangur. Það er framhald af pappírs-GÓP-fréttum sem áður voru gefnar út í 350 eintökum og dreift frá og með árinu 1990. Upplagið var stærra þegar kynntur var hugbúnaður og bækur og sérútgáfur voru notaðar til að skipuleggja samkomur og ættarmót. Almennar GÓP-fréttir kynntu viðtakendum áætlanir um hópferðir í hópbílum og hópferðir á fjórdrifsbílum og þar var einnig sagt frá ferðum sem farnar höfðu verið. Viðtakendur voru þeir sem farið höfðu í fyrri ferðir. |
>> | Tilteknir starfsþættir og viðfangsefniRitarinn komst yfir eyðublað þar sem taldir voru upp einstakir starfaþættir sem tengdust tilteknum störfum. |
Ritarastörf: |
|
Tölvuþekking |
|
Gjaldkera og bókhaldsstörf |
|
Áætlanagerð og/eða bankastörf |
|
Önnur störf |
|
Ýmis skrifstofustörf |
|
Sérfræði- og/eða stjórnunarstörf |
|
Mannaforráð | Starfsmenn MK hafa verið um 60 og nemendur um 350 þegar ég var þar aðstoðarskólameistari. Síðan hefur fjöldi starfsmanna
tvöfaldast og fjöldi nemenda fjórfaldast.
Deildarstjórn við framhaldsskóla fylgja ekki mannaforráð. Hlutverk deildarstjóra er að vera í fyrirsvari fyrir deildina, viðfangsefni hennar og starfsmenn og hafa frumkvæði að samstarfi starfsmanna og samræmingu milli þeirra og við aðrar deildir skólans. |
Félagsstörf | Störfin fyrir stéttarfélagið voru að sjálfsögðu félagsstörf þótt þeirra hafi verið getið undir liðnum fyrri störf sökum þess að þeim fylgdu margvísleg verkefni sem reyndust mjög menntandi á nýjum sviðum. Margvísleg nefndarstörf, stjórnunarstörf og skipulagsstörf fylgdu með - svo og fundaferðir um allt land hér heima og til allra hinna Norðurlandanna. Störf sem aðstoðarskólameistari MK drógu ritarann einnig inn í verk sem oft voru meira í ætt við félagsstörf svo sem barátta fyrir tilveru MK í nokkru róti sem á þeim árum varð í Kópavogi. Þar var um að ræða hlutverk eins og framsögu, innlegg og fundastjórn á almennum borgarafundum um málefni skólans. Af ýmsum tilefnum voru setnir fundir í menntamála- og fjármálaráðuneyti á þessum árum og setið í samstarfsnefndum og stjórnum með fulltrúum úr þeim ráðuneytum. |
Íþróttir og áhugamál |
Iðka ekki venjulega íþróttir en er nokkuð fíkinn í að leita lausna á margvíslegum þrautum og stunda sund og heit böð til yndisauka
og vellíðunar. Hef stundum verið dreginn til þátttöku í skákmótum með samstarfsmönnum mínum vegna rósrauðrar fornsögu úr
íslenska skák-landsliðinu 1962. Spilaði á þeim árum líka keppnis-bridge.
Skipulegg og stýri ferðum um byggðir og þó einkum um óbyggðir og jökla. Ók eitt sinn þýsku sjónvarpsmyndateymi um landið og annaðist öðru sinni norskan ferðahóp - en í aðrar ferðir fara með allmargir félagar nokkuð reglubundið. Þeir nefna hópinn Gíslavinafélagið. Á sumrin er farið á hópbíl en á haustum og vetrum á fjórdrifsbílum. Stærð hópsins hefur verið á bilinu frá 4 til 104 og bílafjöldi frá einum hópbíl til 22 fjórdrifsbíla. Það er margt sem þarf að hafa í huga og margt skarið af að taka við ferðir um hálendið á öllum tímum árs þegar meginmarkmiðið er að allir hafi gleði af og góða endurminning. Í för eru þá bæði þaulvanir fjallfarar og nýliðar í ferðamennsku. Ef til vill mundi það geta talist til einhverra íþrótta að hlaupa og leita leiða, kanna snjó og ísa og leita vaða og vaða þau straumvötn sem fara þarf yfir. Til þess reyndist vatnamælingasumarið í Jökulheimum sérstaklega nytsamur og mikilvægur námstími. Hef - frá 1994 - tekið ferðamyndir á myndband. Hef ekki aflað menntunar um gerð slíkra mynda - annarar en þeirrar sem allir áhorfendur sjónvarps og kvikmynda öðlast við áhorfið. Sökum þess hversu tímafrekt er að klippa saman myndir er sú línan lögð við upptökuna að hún geti orðið viðunandi atburðarík og áhorfsleg án klippingar - og hefur tekist það þolanlega. |