GÓP-fréttir




Jökulheima-
annáll

Hver var
Guðmundur
Jónasson?

Gunnar Guðmundsson í mars 2007:

Fordinn
Guðmundar Jónassonar

1952

Ford F6
undirvagn

Á árinu 1952 eignaðist Gunnar Guðnason þáverandi sérleyfishafi á leiðinni Reykjavík-Þingvellir nýjan Ford F6 undirvagn.

Á þessum tíma voru innflutningshöft á Íslandi og mjög erfitt að fá nauðsynleg leyfi til bifreiðainnflutnings, en sérleyfishöfum voru veitt innflutningsleyfi þar sem þjónusta þeirra var nauðsynleg og í almenningsþágu.

  Á þessu tímabili voru nær allar yfirbyggingar fólksflutningabifreiða byggðar hérlendis og hafði svo verið alla tíð frá komu fyrstu bifreiða til landsins.

Sennilega hefur undirvagninn komið síðla vetrar, og ekki tími til að ljúka yfirbyggingu fyrir sumarið og yfirbyggingunni því frestað. Um sumarið varð Gunnar fyrir óhöppum með Ford bifreiðar sem hann átti, það bilaði vél og brotnaði afturhásing og var hvort tveggja tekið úr nýja undirvagninum og frestaðist svo alveg yfirbyggingin.

1956

Guðmundur
kaupir
undir-
vagninn

Síðla árs 1956 kaupir Guðmundur Jónasson það sem eftir var af undirvagninum af Gunnari. Var hafist handa við standsetningu.

Innflutningsleyfi fékkst fyrir nýrri diesel vél og keypt af Ræsi hf ný Mercedes-Benz Om 312 vél 100 hestafla ásamt viðeigandi gírkassa sem sett var í undirvagninn. Ford afturhásing með tvískiptu drifi var sett undir, ásamt nýjum 8.25x20-hjólbörðum.

Þetta var gert á verkstæði Guðmundar að Þverholti 15A þar sem Jósúa Magnússon sá um ísetningu og smíði sem þurfti til að koma vélinni fyrir, en hann hafði unnið við ísetningu á samskonar vélum í Reo bifreiðar Norðurleiða hf.

Um áramót var undirvagninn tilbúinn til yfirbyggingar og fluttur á yfirbyggingaverkstæði Egils Vilhjálmssonar að Laugavegi 118, en Egill hafði um áratuga skeið byggt yfirbyggingar bifreiða, bæði strætisvagna fyrir Reykjavík, en Egill var einn eigenda SVR, og einnig yfirbyggingar á sérleyfis- og hópferðabifreiðar. Efni í þessum yfirbyggingum var burðargrind úr eikartré klætt með stáli.

Jón
Sigvaldason

og

sænska
aðferðin
við að
byggja
yfir
hóp-
ferða-
bíla

Jón Sigvaldason bifreiðasmiður hjá Agli hafði skömmu áður kynnt sér nýjungar og unnið við yfirbyggingasmíði í Svíþjóð. Eftirtaldar nýjungar voru notaðar við yfirbygginguna:
  • þverstálbitar ofan á grind,
  • burður í hliðinni var krossviður í gluggahæð
  • og hliðarstafirnir upp í þakhæð límdir og skrúfaðir utaná krossviðinn
  • einangrun sett að utanverðu milli stafa
  • og þar utaná stálklæðning fest í stafina.
  • Bifreiðin var með vinstri handar stýri og inngangsvængjahurð handopnuð með sveif. Að sjálfsögðu var hurðin á vinstri hlið enda vinstriumferð hérlendis á þessum tíma.
  • Sætin sem voru smíðuð og klædd á verkstæðinu voru 27 talsins auk 5 veltisæta í gangi.
  • Mjög stór geymsla var upp í þakhæð aftast í yfirbyggingunni og var hún stór þar sem hlutverk bifreiðinnar var áætlunarakstur milli Reykjavíkur, Hólmavíkur og Drangsness.
  • Auk þess var farangursgrind á þaki bifreiðarinnar og festing fyrir aukavarahjól.

 

Dugði
vel

Svo fór að þessi bifreið var sú síðasta sem yfirbyggingaverkstæði Egils Vilhjálmssonar smíðaði yfir stóra farþegabifreið og með þeim síðustu sem byggðar voru úr tré hérlendis. Strax ári seinna voru fyrstu málmyfirbyggingar byggðar. Ending bifreiðarinnar sýndi að nýja sænska yfirbyggingaraðferðin dugði vel á holóttum íslenskum vegum.

til
margra
nota

að lokum
heyvagn

Bifreiðin þjónaði hlutverki sínu vel sem áætlunarbifreið og var notuð til Hólmavíkurferða auk ýmissa hóp og fjallaferða hjá Guðmundi Jónassyni til ársins 1964. Þá keypti Bjarni Guðmundsson í Túni bifreiðina og notaði til ferða í nokkur ár. Hann seldi hana síðan frystihúsi á Skagastönd þar sem hún var notuð til að flytja starfsfólk að og frá vinnustað. Það varð síðasta verkefnið.

Að lokum var hún rifin og grindin notuð fyrir heyvagn.

2007

Skrifað í mars 2007 * Gunnar Guðmundsson

GÓP-fréttir forsíða * Jökulheima-annáll * Ferðatorg