GÓP-fréttir




Jökulheima-
annáll

Útdrátt í vinstri dálki
gerði GÓP

Aldarminning
Guðmundur Jónasson
Fjallabílstjóri
11. júni 1909 – 5. mars 1985

eftir Gunnar Guðmundsson
birtist í Mbl í júní 2009.

Sæktu hér ítarlegt viðtal við Gunnar
um Guðmund Jónasson, fyrirtækið og fleira
í pdf-skrá úr blaði SaF, Samtaka ferðaþjónustunnar. 

Úr
fréttabréfi
JÖRFÍ í
október
2009

Sjá neðst:

Höfðingleg minningargjöf til JÖRFÍ

14. júlí 1957 - frá Sóleyjarhöfða til Jökulheima
1957 Hópurinn við Sóleyjarhöfða
Mynd: Sigurjón Rist. Hann gaf þátttakendum eintak og þetta er eftir mynd Sigríðar og Jakobs.
 Frá vinstri: Hjálmar Þórðarson verkfræðingur, Eberg Elefsen vatnamælingamaður, Steingrímur Pálsson, Guðmundur Thoroddsen læknir og prófessor, Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur, Guðrún Gísladóttir, Ásdís Sveinsdóttir Thoroddsen, Sigríður Ásmundsdóttir og Jakob Gíslason rafmagnsverkfræðingur og raforkumálastjóri. Fyrir framan sitja Guðmundur Jónasson og Sigurður Thoroddsen verkfræðingur.

Fæddur
11. júní 1909
Guðmundur Jónasson fæddist á Sauðadalsá á Vatnsnesi en fluttist 5 ára með foreldrum sínum að Múla í Línakradal og ólst þar upp til fullorðinsára.
Ökuskírteini
nr. 18
18. des. 1929
Guðmundur hóf ævistarf sitt tuttugu ára gamall, þegar hann fékk ökuskirteini sitt 18. desember 1929, útgefið á Blönduósi og var það númer 18 í Húnavatnssýslu.
1930
-
1937

vöru- og
fólks-
flutningar

 

og

R-346

!!

Vorið 1930 eignaðist hann sinn fyrsta bíl, nýjan Ford vörubíl sem kom með skipi til Hvammstanga og var skráður H - 3. Fyrstu árin voru flutningar Guðmundar með vörur og fólk um Húnavatnssýslu og hafði hann tiltækt farþega-boddý á vörupallinn. Sumarið 1934 tók hann að sér flutninga á símavinnuflokki sem lagði símalínur víða um land. Næstu sumur var hann með símaflokknum við línulagnir í Dalasýslu, um Norðurland og austast í Axarfirði.

Á þessum sumrum varð Guðmundur oft fyrstur að fara ófarnar slóðir á bifreið, fór t.d. um Klofning og einnig Axarfjarðarheiði til Þórshafnar.

Á þessum árum fluttist Guðmundur til Reykjavíkur og hóf akstur á Vörubílastöðinni Þrótti og stundaði ýmsa tilfallandi flutninga en var við símavinnu að sumri. Árið 1939 eignast hann sína fyrstu fullbúnu farþegabifreið, nýjan Chevrolet með 22 farþega yfirbyggingu. Hægt var að taka aftari hluta farþegarýmisins af og setja vörupall í staðinn. Þetta var hagkvæm lausn til að nýta bílinn bæði til farþega og vöruflutninga. Þessi bifreið bar skráningarnúmerið R-346 og var sá fyrsti í eigu hans með það númer, en síðar báru margar bifreiða hans þetta númer.

1938
bú og börn
Haustið 1938 kvæntist Guðmundur Stefaníu Eðvarðsdóttir frá Helgavatni í Vatnsdal. Þau eignuðust 3 börn, Gunnar, Signýju og Kristínu.
Tenging
við
Ármenninga


Nýr 346

Árið 1939 tók Guðmundur að sér flutninga á fólki fyrir skíðadeild Ármanns að nýbyggðum skála félagsins í Jósepsdal. Kynnin af Ármenningum urðu til þess að margir þeirra urðu traustustu ferðafélagar hans á komandi árum.

Næsti R-346 var 26 farþega Ford sem kom í notkun 1943. Fyrsta verkefnið var að fara 4 ferðir til Akureyrar sem var 2 daga ferð hvora leið.

Braut-
ryðjandi
á
fjöllum
Árið 1946 eignast Guðmundur sína fyrstu fjórdrifsbifreið sem var Dodge Weapon með 10 farþega yfirbyggingu frá Agli Vilhjálmssyni. Þessi bifreið var sannarlega upphaf hálendisferða hans. Árið eftir bættist við önnur Dodge bifreið og árið 1949 lét hann byggja 19 farþega GMC bifreið sem bar númerið R-346 og er næsta víst að engin bifreið fór oftar slóðir um hálendið í fyrsta, sinn slóðir sem margar eru fjölfarnar enn í dag.
Hófsvað
1950

Sjá
hér
nánari
frásögn

Guðmundur Jónasson finnur Hófsvað 

Sumarið 1950 stóð Guðmundur fyrir leiðangri til að leita að bílfæru vaði yfir Tungnaá. Meðal margra sem voru með í ferðinni var Egils Kristbjörnssonar sem var ferðafélagi Guðmundar til margra ára. Þeir fóru í leitina með gúmmibát og eftir langa leit fundu þeir vað sem var ekið yfir í fyrsta sinn 27. ágúst. Vaðið var kallað Hófsvað eftir hóflöguðum hólma í ánni. 

Eitt aðaltakmark ferðarinnar var að komst til Veiðivatna sem og að komast inná Sprengisandsleið. Hófsvað opnaði miðhálendið bílum af Suðurlandi. Strax í september sama ár var farin fyrsta stóra ferðin með 40 farþega á 3 fjallabílum yfir Tungnaá til Veiðivatna, norður til Nýjadals, yfir Þjórsá og um Kjalveg til baka.

Eldhús-
bíla-
ferðir
Áhugi Íslendinga var mikill fyrir hálendisferðum og á næstu árum fór Guðmundur óteljandi ferðir um nýjar slóðir á hálendinu. Með tímanum fóru erlendir ferðamenn að koma með í ferðirnar og varð þá þörf á fæði fyrir þá, en Íslendingar notuðu skrínukostinn. Það var upphaf þess að með í ferðum voru sérstakir eldhúsbílar þar sem ráðskonur sáu um matseld. Eldhúsbíllinn flutti einnig farangur og viðlegubúnað, en gistingu var aðeins að hafa í tjöldum.

Þessi ferðamáti hélst allt til níunda áratugarins, en með bættu vegakerfi og stóraukinni hótelgistingu hættu tjaldferðir að mestu.

Snjó-
og
jökla-
ferðir

 

 

JÖRFÍ

Myndin er fengin af vef Samgönguminjasafnsins á Ystafelli
http://ystafell.is/default.asp?sid_id=31344&tre_rod=001|004|&tId=1

Snemma vetrar árið 1951 kom til landsins Bombardier snjóbifreið sem Guðmundur hafði fest kaup á. Ekki hafði verið aflað innflutningsleyfa fyrir bifreiðina, en gegn því að fara með bifreiðina til Austurlands og aðstoða við flutninga þar í miklu fannfergi fékkst leyfið. Bombardier bifreiðin sannaði ágæti sitt við flutninga frá Egilsstöðum.

Þegar snjóa leysti og vegir urðu færir lagði Guðmundur í ótrúlega ferð. Þá um vorið var leiðangur á Vatnajökli til að bjarga skíðaflugvélinni sem varð eftir á jökli við Geysisslysið um haustið. Tekin var stefna frá Egilsstöðum suðvestur til Vatnajökuls. Guðmundur og hans aðstoðarmaður komust á Bárðarbungu og fluttu varning úr Geysi af jökli.

Þessi ferð var upphaf Vatnajökulsferða Guðmundar og voru ferðafélagar hans í þeim ferðum margir Ármenningar og komu þeir að stofnun Jöklarannsóknarfélags Íslands sem er stórmerkilegur félagsskapur vísinda og áhugamanna. 

Snjóbíllinn var notaður til ýmissa flutninga á fólki og varningi, fjölmargar vetrarferðir voru farnar með Sigurjóni Rist til vatnamælinga á hálendinu sem voru nauðsynlegur undirbúningur að gerð vatnsorkuvirkjana, - og ferðir með Jöklarannsóknarfélaginu á Vatnajökul voru árvissar. 

Fordinn
1952

Sjá hér um fordbílinn
Þægilegri
fjallabílar

 

Í byrjun voru allar fjórdrifsbifreiðar Guðmundar notaðar herbifreiðar, en 1957 setti hann nýja Mercedes-Benz dieselvél í eina bifreið sína sem gafst vel og 1960 eignaðist hann fyrstu fullbúnu bifreiðina af þeirri gerð. Síðan voru nær allar bifreiðar Guðmundar af Mercedes-Benz gerð.

Myndin af Guðmundi hér til hliðar er frá ferðaskrifstofu Guðmundar Jónassonar
http://www.gjtravel.is/gjgif/Hist.jpg

Flug-
farþegar
Árið 1959 tók Guðmundur að sér flutninga á flugfarþegum fyrir Loftleiðir og síðar, þegar allt millilandaflug fór um Keflavíkurflugvöll, einnig fyrir Flugfélag Ísland. Fyrirtæki hans annaðist svo þessa flutninga í marga áratugi.
1976
Ferða-
skrifstofa
Guðmundar
Jónassonar
Eftir 1960 fjölgaði erlendum ferðamönnum hratt. Guðmundur hafði í byrjun samvinnu við ferðaskrifstofuna Orlof og síðar Lönd og Leiðir um sölu ferða, en árið 1976 fékk starfsemin fullt ferðaskrifstofuleyfi og hófst þá bein sala á ferðum til erlendra söluaðila og markaðsstarf erlendis.
NASA-
geimfarar
Árið 1969 komu á vegum NASA geimfarar sem voru í þjálfun til tunglferðar. Guðmundur sá um flutning þeirra til Öskju og Veiðivatnasvæðisins.
Pétur
Jónsson
frá
Akureyri >>

Víða hafa velst hans hjól
á vötnum og á heiðum
verið hæst í veldisstól
á Vatnajökli breiðum

5. mars
1985
Hálendið átti hug Guðmundar, þar var hann í ferðum öll sumur til hins síðasta.

Hann lést í Reykjavík 5 mars 1985.

2009 Saga Guðmundar er enn ekki til rituð á einum stað en þessi fáu orð eru rituð í aldarminningu hans 11. júni 2009.
Formaður
JÖRFÍ
skrifar
þessa
frétt
í

Fréttabréf
JÖRFÍ
október
2009

 

HÖFÐINGLEG GJÖF TIL JÖRFÍ

Þann 11. júní síðastliðinn voru hundrað ár liðin frá fæðingu Guðmundar Jónassonar fjallabílstjóra og hreppstjóra í Grímsvatnahreppi. Eins og flestum er kunnugt var Guðmundur mikill brautryðjandi í jöklaferðum.
Hann fann Hófsvað árið 1950 og opnaði þar með leið fyrir bíla inn að Vatnajökli vestanverðum. Guðmundur var síðan um langt árabil í forystuhlutverki í vorferðum á snjóbíl sínum Gusa. Var ratvísi hans og ráðsnilld viðbrugðið eins og lesa má um í mörgum frásögnum í Jökli frá fyrstu 20 árum félagsins. Hann sat á tímabili í stjórn JÖRFÍ og var kjörinn heiðursfélagi þess 1975. Guðmundur lést 1985.


Guðmundur Jónasson ekur Gusa

Í tilefni af 100 ára afmæli föður síns ákváðu börn Guðmundar, þau Gunnar, Signý og Kristín að færa Jöklarannsóknafélaginu 500 þúsund krónur sem nota skal til fyrirhugaðrar stækkunar á nýja skálanum í Jökulheimum.

Við kunnum þeim systkinum hinar bestu þakkir fyrir höfðinglega gjöf en stjórn JÖRFÍ og heiðursfélagar héldu þeim kaffiboð í tilefni af 100 ára afmæli Guðmundar og gjöfinni þann 18. ágúst síðastliðinn.

Magnús Tumi Guðmundsson

GÓP-fréttir forsíða * Jökulheima-annáll * Ferðatorg