GÓP-fréttir  
Ferðatorg 


Ásgeir Jónsson segir frá

Minnsta ferðafélagið fer á fjöll
dagana 9. - 22. september 1950.


Ferðaleið Minnsta ferðafélagsins dagana 9.-22. september árið 1950
og svo þjóðveginn frá Akureyri til Reykjavíkur.
Úr
Árbók
FÍ 1951

Svona millifyrirsagnir eru frá GÓP
sem er uppskrifari og setti atriðisorð í vinstri dálk.

Minnsta ferðafélagið tók þátt í björgunarleiðangrinum frá Akureyri á Bárðarbungu að sækja áhöfn Geysis. Sjá nánar um það í tímalínu Geysis-slyssins en þar nefnir Haukur Snorrason, ritstjóri Dags á Akureyri, þá átta menn sem voru úr Reykjavík og urðu liðsauki leiðangursins:

8 Reykvíkingar voru - með einkunnum Hauks:

  • Guðmundur Jónasson frá Völlum, hinn kunni ferðagarpur. Hann var fararstjóri og forsjá þeirra.
  • Þórarinn Björnsson var með honum í bíl, sá vaski jöklafari sem kom glaður og reifur til tjaldstaðar við Kistufell eftir 25 klukkustunda útivist á Vatnajökli.

Aðrir leiðangursmenn úr Reykjavík voru:

  • Ásgeir Jónsson,
  • Gísli Eiríksson,
  • Sigurgeir Jónsson,
  • Magnús Sigurgeirsson,
  • Jónas Jónasson og
  • Einar Arason.

Frásögn Ásgeirs er hér fyrir neðan.

M.F.F

Minnsta
ferða-
félagið

Áætlanir um leiðaleitir

Lengi hafði það verið í huga félagsmanna M.F.F., Minnsta Ferðafélagsins, að reyna að tengja akvegakerfi Suðurlandsundirlendisins við Sprengisand. Menn sáu í anda Sprengisand og Vonarskarð tengt austur yfir Ódáðahraun við Öskju, Herðubreiðarlindir og aðra þá staði austan Ódáðahrauns, sem vitað var, að ekið hafði verið í áður. Brú á Tungnaá treystu menn sér ekki til að byggja. Því leitaði hugurinn víðar og var staðnæmst við leiðina norðan Hofsjökuls frá Hveravöllum. Þessa leið fór Einar Magnússon menntaskólakennari hausti 1949. Sama morgun og leiðangur Einars fór yfir Blöndu komu tveir af bílum M.F.F. að ánni á sama stað en sneru þaðan á aðrar og troðnari slóðir þegar þeir sáu að aðrir höfðu tekið af þeim vandann.
Þótt þessi torfæran væri unnin var enn eftir að kanna Vonarskarð og tengja Sprengisand við austurleiðina sem við kölluðum, í Öskju, Herðubreiðarlindir og ef til vill Hvannalindir.
Þetta langaði M.F.F. að reyna og laugardaginn 9. sept. sl. skyldi hefjast handa.

Laugard
9. sept
Laugardagur 9. september

Árla morguns var komið saman til lokaundirbúnings. Veður var hið besta og ekki sást syfjusvipur á nokkrum manni, enda áhuginn fyrir þessari tilbreytni sennilega meiri en fyrir daglega þrasinu. Jepparnir okkar kæru, fjórir að tölu, voru nú útbúnir, útnefndur fararstjóri, yfirkokkur, hjálparkokkur o.s.frv.. Einn af bílunum var gerður að kokkhúsi, en í hann var öllum mat troðið. Í hina þrjá var látið bensín, sem var æði mikið, varahlutir til bílanna, verkfæri og alls konar tilfæringar. Þótti sumum all ískyggilegt hversu þungir bílarnir voru orðnir.

Á
Hveravelli
Okkar margreyndi og ágæti fararstjóri, Guðmundur Jónasson frá Völlum, bifvélavirki, gaf fyrirskipun um að haldið skyldi af stað um hádegið og haldið á Hveravelli. Þegar þangað kom um kvöldið var skollin á þoka og suddarigning.
Sunnud
10
. sept
Sunnudagur 10. september

Þreyttir en vongóðir um betra veður næsta dag lögðumst við til hvíldar en morguninn eftir reyndist sama veður. Var nú samt ákveðið að hefja ferðina því að öruggt þótti að komast á Sprengisand þótt skyggni væri ekkert. Var þar nokkuð treyst á bílförin frá fyrra ári. Blanda reyndist vatnslítil og var nú ekið hispurslaust austur með jökli. Einn úr okkar hópi hafði farið þessa leið áður en um okkur hina er óhætt að segja að við erum enn í dag litlu nær um það, hvernig þarna er umhorfs. Aksturinn að Jökulsá austari gekk þó greiðlega en hliðsjón af gömlu bílförunum höfðum við annað slagið.

Þegar komið var að Jökulsá austari var komin bleytuhríð en sem betur fór stytti fljótlega upp og um leið létti þokunni svo að við fengum nokkurt skyggni austur úr. Til orrustu við ána lögðum við hughraustir en hún var versti farartálminn að því er okkur hafði skilist á þeim sem fóru árið áður. Hafði jafnvel verið haft á orði að jeppar færu aldrei yfir hana. Vatnið reyndist í mitt læri og botninn blautur, en árnar kölluðum við ávallt blautar þegar í þeim leyndist sandbleyta. Yfir ána gekk okkur þó ágætlega og brátt vorum við komnir fram af Langahrygg niður á sandinn.

Í skála
Ferðafélags
Akureyrar
í Laugafelli
Eftir ráðleggingum okkur fróðari manna ókum við norður með Laugafellshnúknum að vestanverðu, síðan yfir Laugafellið að skála Ferðafélags Akureyrar. Þessa leið hafði leiðangurinn árið áður ekki farið og reyndist hún ekki heppileg. Þó má e.t.v. kenna þar nokkru um að við lentum í þoku og náttmyrkri og mátti mjóu muna að við fyndum skálann þá um kvöldið. Í skálann komum við eftir sem næst 12 tíma ferð sem gekk í alla staði greiðlega.
Mánud
11
. sept
Mánudagur 11. september

Þegar morgunhanarnir risu úr rekkju næsta morgun gaf að líta alhvíta jörð og veðurútlit ekki gott. En brátt snerist lánið á sveif með okkur, sólin gægðist fram úr þykkninu og nú áttum við eftir að upplifa einn af dýrlegustu dögum ferðarinnar.Var nú haldið af stað í skyndi og ekið austur frá sæluhúsinu upp Lambalækjardrög en síðan sveigt suður á Sprengisand. Af Lambalækjardrögum gaf að líta besta útsýni til Hofsjökuls og yfir dagsverk okkar daginn áður, en nú var kom inn hugur í menn og haldið var áfram fullri ferð.

Útsýnis-
alda
(910 m)

915 m
á
kortinu
!!

Þegar útsýni suður Sprengisand tók að opnast höfðu menn hug á að komast sem hæst til þess að fá glæsilegast útsýni í allar áttir. Í því skyni ókum við upp á háa sandöldu beint austur af Háöldum. Við urðum ekki vonsviknir. Alda þessi er 910 m yfir sjávarmál, nafnlaus á kortinu. Við gáfum henni nafnið Útsýnisalda. Nú var orðinn heiðskír himinn og blasti við okkur fjallahringurinn. Trölladyngja í austri, síðan Kistufell, Vatnajökull, Tungnafellsjökull, Hágöngur í suðri en Hofsjökull í vestri. Arnarfell hið mikla sást greinilega en í nærsýn var Fjórðungsalda og Fjórðungsvatn. Á Útsýnisöldu hlóðum við vörðu og vildum mæla með því að allir þeir, sem eiga leið um Sprengisand í skemmtiferð, gefi sér tíma til að staðnæmast þar.

Stefna var nú tekin beint á Jökuldal í Tungnafellsjökli vestanverðum. Lá leið okkar vestan Fjórðungsvatns, sem næst fyrir enda vatnsins, en þar ókum við yfir bílför þau er Páll ferðagarpur Arason skildi eftir er hann ók úr Bárðardalnum suður að Tungnaá um árið. Akvegur á Sprengisandi reyndist okkur prýðilegur. Að vísu voru nokkur giljadrög á leið okkar, sem þurfti að gæta varúðar við vegna sandbleytu. Undir kvöldið var komið í mynni Jökuldals og þar tjaldað en næsta dag var ætlunin að tengja hann við Vonarskarð.

Að vísu hafði verið talað um að aka suður í Eyvindarver og freistast til að hitta leiðangur Einars Magnússonar, en Einar hafði tilkynnt okkur að við myndum ekki eiga öræfin einir um þessar mundir. Úr þessu varð þó ekki því að veður reyndist sérlega gott næsta dag og fannst fararstjóra okkar sjálfsagt að helga það Vonarskarði sem átti áhuga ferðalanganna óskiptan.

Þriðjud
12
. sept
Þriðjudagur 12. september

Leiðina upp í skarðið völdum við rétt vestan við Jökuldal. Reyndist þessi leið tiltölulega greið, að vísu nokkuð brött er upp undir brún kom. Vorum við á tímabili komnir upp fyrir snjólínu en þar urðu á vegi okkar ýmsar torfærur, einkum aurbleytur.

Þarna uppi blasti við Vonarskarð, Bárðarbunga, Hágöngur, Kaldakvísl og enn fremur urmull af fjöllum og hnúkum sem við kunnum engin nöfn á, enda nafnlaus á kortinu – því miður.

Leiðin niður í skarðið var valin sem næst beint af augum og var flest notað sem akvegur, svo sem lækjarfarvegir, hamragljúfur o.fl.. Loks blasti við sléttur sandur á allstórum kafla. Við vorum komnir niður í Vonarskarð.

Var nú haldið norður á bóginn, skroppið yfir Köldukvísl á kafla til þess að fá greiðfærari veg. Áin reyndist vatnslítil þarna og sem næst tær. Var nú orðið stutt í jökulinn, úfinn og hrikalegan, en á honum var sýnilega talsverður skafrenningur, enda vindur allmikill suður skarðið.

Gist nærri
Snapadal
Tjaldstæði var ekki girnilegt á þessum slóðum svo að leitað var vestur yfir Köldukvísl aftur og valinn næturstaður í nánd við hverasvæðið. Fundum við þar mosaþembur nokkrar sem var tjaldað á. Ekki reyndist tjaldstæðið gott og mátti búast við að tjöldin brygðu á leik ef meira hvessti. Svo varð þó ekki og sváfu allir vel um nóttina, en allmikið var kvartað um eymsli daginn eftir.
Miðvikud
13
. sept
Miðvikudagur 13. september

Að morgni var veður sæmilegt en sýnilegt var að breyting var í aðsigi. Voru tjöld tekin upp í skyndi og haldið af stað norður skarðið eftir leiðum sem valdar höfðu verið kvöldið áður, en þá var gengið á fjöll.

Héldum við okkur vestanvert í skarðinu undir hlíðum Tungnafellsjökuls, þar eð við töldum þá leið heppilegasta til þess að forðast sandbleytur – sem nóg er af í Vonarskarði. Sennilega eru þarna nóg tækifæri til að missa bílana fyrir fullt og allt, en allt gekk slysalaust, þótt mjóu munaði í eitt skipti. Þar bjargaði einungis hversu fljótir menn voru og samtaka. Það er dálítið ónotaleg tilfinning að sitja í bíl sem sígur hægt og rólega niður í kviksyndi – en þegar svo stendur á gildir engin elsku mamma. Harðar fyrirskipanir kveða við – og best er að gegna í flýti.

Ekið norður Vonarskarð - með fljótinu austan Gjóstu

Fyrsta
nótt
af
fjórum
við
Gæsavötn

Þegar norður í skarðið kom og sýnt þótti að björninn væri unninn var numið staðar við Skjálfandafljót og sigursælir ferðalangar gæddu sér á hádegiskaffi. En ekki var til setunnar boðið, áfram skyldi haldið norður með Skjálfandafljóti og yfir það við Rjúpnabrekkukvísl. Var nú sveigt upp að jökli, en takmarkið þennan dag var að komast að Gæsavötnum. Þangað var komið um miðjan dag og var þar ágætur tjaldstaður.

Þá vorum við komnir að Ódáðahrauni. Vonarskarð var að baki og þar með fyrra hlutverkinu lokið. Hið síðara var eftir, sem sé að komast austur yfir hraunið. Var nú gerður út könnunarleiðangur, ekið upp brekkurnar fyrir ofan Gæsavötn, upp undir Gæsahnúkinn og inn fyrir hann. Lítið var á þessari ferð að græða annað en það, að sýnilegt þótti að rekja mætti hraunið sæmilega greiðlega.

Veður var nú tekið að breytast og brátt var skollin á hríð svo að ekki var um annað að ræða en snúa við og var ekkert að styðjast við nema bílförin. Það sem eftir var dags héldu menn kyrru fyrir í þeirri ákveðnu von að næsti dagur yrði betri.

Fimmtud
14
. sept
Fimmtudagur 14. september

Þetta fór á annan veg. Næsta morgun var alhvítt um að litast og bílar og tjöld fennt. Hafði snjóað talsvert um nóttina og skafið, en ekki höfðu tjaldbúar hugmynd um að slíkt hefði skeð, svo að ekki hefur farið illa um þá. Á þessum stað gistum við fjórar nætur en ekki breyttist veðrið.

Til tilbreytingar voru gerðir út nokkrir könnunarleiðangrar en árangurinn varð ávallt sá sami, ekki var hægt að átta sig á neinu sökum dimmviðris. Í þessum leiðöngrum töldum við okkur hafa komist lengst ca 12 km í áttina til Kistufells, að því er við héldum, því ekki var gott að átta sig á hvar Kistufell mundi vera þegar skyggni var ekki nema nokkrir metrar.

Föstud
15
. sept
Föstudagur 15. september

Á öðrum degi við Gæsavötn eða nánar til tekið 15. sept., var veðurútlit á þá lund að menn héldu sig í svefnpokunum fram eftir morgni. Kokkurinn okkar ágæti færði okkur kaffi í rúmið með morgunútvarpinu.

En brátt setti menn hljóða. Útvarpið tilkynnti að flugvélarinnar Geysis væri saknað. Þessi frétt réði miklu um það hversu lengi við dvöldumst við Gæsavötn, því að útvarpið fræddi okkur um að búið væri að leita sem næst alla líklega staði nema norðanverðan Vatnajökul og svæðin norðan hans, en við dvöldumst einmitt á því svæði miðju. Seinna kom í ljós að loftlína að flaki Geysis á Bárðarbungu frá tjaldstað okkar mundi um 20 km.. Hálft í hvoru áttum við von á orðsendingu gegnum útvarpið, því vitað var fyrir sunnan að við myndum dveljast á þessum slóðum. Enn fremur mátti búast við að til okkar sæist úr lofti þegar rofaði til, en til flugvélar sáum við einu sinni og flugvéladyn heyrðum við annað slagið. Því miður höfðum við ekki talstöð.

Sjá hér tímalínu um bókina Geysir á Bárðarbungu þar sem segir frá þætti Minnsta ferðafélagsins í björgunarleiðangrinum.

Laugard
16
. sept
Laugardagur 16. september

Svo fór að lokum að þolinmæðina brast. Kokkurinn okkar var einnig farinn að minnast ískyggilega oft á að kokkhúsið væri orðið nokkuð létt. Þetta samfara óbreyttu veðurútliti réði því að ákvörðun var tekin um að halda norður í Bárðardal og komast þaðan í samband við Reykjavík.

Sunnud
17
. sept
Sunnudagur 17. september

Að morgni sunnudagsins 17. sept. voru tjöld upp tekin við Gæsavötn og skyldi nú halda rakleitt að Mýri í Bárðardal. Fórum við vestur fyrir Skjálfandafljót, síðan norður með því yfir hinn varðaða Sprengisandsveg og niður í Kiðagilsdrög. Þar hittum við á bílför Páls Arasonar og héldum við þeim norður að Kiðagili.

Ekið var vestan við Kiðagilshnúk, yfir Fossgilsmosa, en síðan sveigt austur á ásana við Skjálfandafljót. Veður hafði verið hálfrysjótt allan daginn og lítið skyggni en nú snerist í slyddubyl á norðan. Aurbleytur voru svo miklar eftir langvarandi rigningar að melarnir héldu sums staðar varla gangandi manni – hvað þá bifreiðum.

Tók nú að skyggja en við vorum ákveðnir að komast að Íshólsvatni. Myrkur og bylur tóku af allt útsýni en við héldum stöðugt til norðausturs í þeirri öruggu vissu að Skjálfandafljót mundi stöðva okkur ef of austarlega væri farið. Eftir talsverð hlaup og hringsól tókst okkur loks undir miðnætti að finna vatnið. Gekk þetta kraftaverki næst enda niðamyrkur og færð afleitt.

Við
Íshólsvatn
Rétt er þó að geta þess að um kvöldið töldum við okkur vera komna að að suðvesturhorni vatnsins, sem og áætlunin var, en að morgni varð reyndin sú, að við vorum staddir norðausturhorn vatnsins.
Mánud
18
. sept
Mánudagur 18. september

Þegar haldið var austur og norður frá vatninu fundum við brátt troðnar slóðir. Leiðin frá Ísólfsvatni að Mýri sóttist heldur seint vegna bleytu. Var á tímabili svo komið fyrir okkur að þrír af fjórum bílum voru fastir í einu. Tók glíman við að losa bílana morgunhrollinn úr mönnum.

Að Mýri komum við um hádegisbilið og var okkur tekið með kostum og kynjum. Ekki var örgrannt um að við þættum heimtir úr helju, því að fólkið í sveitinni hafði séð ljós á afréttinum kvöldið áður og var gert ráð fyrir að gera út björgunarleiðangur ef ekki bólaði á einhverjum upp úr hádeginu.

Frá Mýri var hringt til Flugumferðarstjórnarinnar í Reykjavík og aðstoð okkar boðin ef hennar væri óskað. Var boði okkar tekið og við beðnir að hafa samband við Reykjavík frá Fosshóli. Má þá eiginlega segja að okkar orlofsferð hafi verið lokið, - það sem eftir fór stóð beint í sambandi við Geysisslysið.

Símtal við Reykjavík frá Fosshóli gaf til kynna að þess væri óskað að við færum inn á Mývatnsöræfi. Var því haldið til Akureyrar með alla bílana til að birgja sig upp með nesti og nýja skó. Þegar þangað kom fengum við gleðifréttina að Geysir væri fundinn. Áttum við nú von á að okkar þætti væri lokið og farið var að tala um Reykjavík.

Stuttur
stans
í
Reykjahlíð
Einum úr okkar hópi, Þórarni Björnssyni, sem síðar kom svo glæsilega við sögu eins og kunnugt er, fannst þó rétt að tal væri haft af Þorsteini Þorsteinssyni. Þetta var gert, Þorsteini sagt af ferðum okkar og útbúnaði og þáði hann aðstoð okkar. Okkur var sagt að lagt skyldi upp frá Akureyri undir kvöldið en lítt sáum við til félaga okkar, Akureyringanna, fyrr en að Reykjahlíð við Mývatn. Þangað var komið um miðnætti, sofið sem næst 2 klst., síðan risið úr rekkju, drukkið morgunkaffi og haldið af stað kl. 5.
Þriðjud
19
. sept
Þriðjudagur 19. september

Nú var leiðangurinn orðinn myndarlegri en okkar fyrri útgerð: Fimm jeppar Akureyringanna í fararbroddi, þá við Reykvíkingarnir á okkar fjórum og loks vörubíll einn mikill sem stjórnað var með prýði af ágætismanni er Hólmsteinn heitir.

Ekið var sem leið liggur austur undir brúna á Jökulsá á Fjöllum, þar sveigt til suðurs með ánni og eknar troðnar slóðir að Lindá. Lindá, sem kemur úr Herðubreiðarlindum, er sjálf tær og meinlaus en Jökulsá á Fjöllum og Kreppa hafa brotið sér leið í hana og gert hana að allmiklu vatnsfalli á því svæði þar sem við þurftum að aka yfir hana. Að ánni komum við í birtingu og var veður dýrlegt.

Um morguninn hafði útlit ekki verið sem best, en fór batnandi er á daginn leið. Við hinar dásamlegu Herðubreiðarlindir var snæddur hádegisverður enda þótt klukkan væri ekki meir en 10, en ekki var til setunnar boðið og tekið var til óspilltra málanna við hraunið sem varð að aka yfir á kafla. Gekk það vel. Kunnugir menn völdu leiðina og gengu á undan, þá komu jepparnir, og vörubíllinn sem átti nokkuð erfiðara kom í humátt á eftir. Þegar hrauninu lauk tóku við greiðfærir vikursandar og lá leið okkar fyrir austan Herðubreiðartögl, vestan við Upptyppinga og Vaðöldu að Dyngjuvatni.

Við
Kistufell

Veður fór nú stöðugt batnandi og loks blasti við Kverkfjallaraninn og Dyngjujökullinn. Sýnilegt var að veður við jökulinn var hið ákjósanlegasta, heiðríkja og logn, enda mun okkur seint gleymast aksturinn frá Dyngjuvatni upp Jökulsáraura, sem reyndust þurrir og frosnir nú þótt a sumarlagi séu sem hafsjór. Þarna fór saman stórfengleg og hrikaleg náttúra landsins og hið ákjósanlegasta veður, enda fannst okkur aksturinn inn að jökli enga stund taka og brátt vorum við komnir inn að Dyngjujökli rétt austan við Urðarháls. Í Urðarhálsi austanverðum skildum við eftir vörubílinn sem dyggilega hafði fylgt okkur og var farangri hans skipt á jeppana. Yfir Urðarhálsinn var haldið og í krikann austan Kistufells. –

Loksins vorum við, Reykvíkingarnir, komnir að hinu langþráða Kistufelli, að vísu með smábreyttri áætlun og austan frá. Var eftir atvikum hægt að sætta sig við þau málalok, en ekki voru menn fyllilega ánægðir fyrr en þrír af félögunum voru lagðir af stað gangandi vestur á bóginn til þess að fá fullvissu um hversu langt við áttum eftir óekið til Kistufells er við snerum við til Gæsavatnanna aftur í hríðarmuggunni forðum. Þeir færðu þær fréttir að aðeins mundu hafa verið ófarnir ca. 10 km. til þess að tengja för okkar við tjaldstaðinn í Kistufellskrika.

Í Kistufellskrikann komum við kl. 5 síðdegis og hófst nú undirbúningur til þess að bjarga áhöfn Geysis og þeim fjórum mönnum sem bæst höfðu við meðan við vorum á leiðinni.

Miðvikud
20. sept
Miðvikudagur 20. september – björgun Geysismanna

Um þá björgun alla, sem tókst giftusamlega, er svo margt ritað þegar, að það verður ekki orðlengt hér.

Haukur
Snorrasonar
segir
frá
liðsinni
Minnsta
ferða-
félagsins

*  *  *
Um tillegg M.F.F. í björgunarleiðangrinum
segir nánar í frásögn Hauks Snorrasonar, ritstjóra Dags á Akureyri, í bók hans og Andrésar Kristjánssonar og fleiri: Geysir á Bárðarbungu sem Skuggsjá gaf út árið 1963.

Að leiðangurslokum segir Haukur á bls. 130:
Fyrr er sagt frá reykvísku fjallamönnunum sem slógust í för með okkur. Einn þeirra, Þórarinn Björnsson, hafði lengsta útivist allra á jöklinum með Bandaríkjamönnunum. Þáttur þessa fámenna hóps úr Reykjavík í björgunarleiðangrinum var glæsilegur. Þar var valinn maður í hverju rúmi. Hjálpsemi þeirra, drenglyndi og dugnaði var við brugðið í okkar hópi. Það var gott að koma í tjöldin þeirra, hlý og notaleg, og þar var margur kaffisopinn þeginn og brauð með þegar hinn flaustursbúni leiðangur Akureyringa fór að sjá fram á matarskort.

Fimmtud
21. sept
Fimmtudagur 21. september

Kl. 8 að morgni hins 21. september komu síðustu menn af jöklinum og voru þá í skyndi tekin upp tjöldin og haldið af stað, því ekki fýsti menn að dveljast lengur en nauðsynlegt var undir jöklinum, þótt margir væru að vísu hvíldar þurfi, því að allra veðra var von.

Tvær flugvélar frá Loftleiðum h.f. flugu yfir og tilkynntu að þær mundu flytja þá, er bjargað var, til Reykjavíkur. Lentu þær á hörðum melum skammt fyrir vestan Holuhraun og brátt sáum við vélarnar hverfa með farþega sína, en eftir stóðleiðangur Þorsteins, þreyttur og slæptur, en hamingjusamur yfir loknu hlutverki.

Var nú ekið í rólegheitum til baka sömu leið. Í Herðubreiðarlindum var matast og síðan lagt til atlögu við Lindá.

Þar hitti okkur sendiboði frá Reykjavík, flugvél frá Loftleiðum, sem varpaði niður kveðju frá stjórn Loftleiða til Þorsteins Þorsteinssonar. Las Þorsteinn kveðjuna fyrir leiðangursmenn og þakkaði þeim jafnframt vel unnið starf með nokkrum vel völdum orðum.

Var nú haldið áfram í besta skapi og komið að Reykjahlíð undir myrkur. Þar var sest að sameiginlegum snæðingi en síðan ekið rakleitt til Akureyrar. Þangað var komið kl. 1 ½ um nóttina. Hætt er við að bifreiðalöggjöf landsins hafi verið þverbrotin þetta kvöld, að minnsta kosti af okkur Reykvíkingunum. Liðnir voru 46 tímar frá því að við höfðum fengið nokkurn svefn, en frá því að við fórum frá Gæsavötnum voru liðnir liðlega 4 ½ sólahringur með 12 tíma svefni.

Föstud
22. sept
Föstudagur 22. september

Til Reykjavíkur komum við aðfararnótt 23. september kl. 3. Taldist okkur til að alls hefum við ekið í þessari leyfisferð okkar 1770 km..

Til gamans má geta þess að lengsta bæjarleið í þessari ferð okkar var frá Brattholti í Biskupstungum að Mýri í Bárðardal, eða 460 km.

Leið sú er við fórum verður sennilega ekki talin til endurbóta á samgöngukerfi landsins en óhætt er að mæla með henni við alla þá sem hafa yndi af að dveljast á og ferðast um öræfi okkar fagra lands.

* Ásgeir Jónsson

GÓP-fréttir * Ferðatorg