GÓP-fréttir 
Ferðatorg 
Ferðaskrá 
Vaðatal


Liðsinni í erfiðleikum - Af-felganir

Land cruiser 24volt - HDJ80 startar ekki

Í þessum leiðbeiningum er gert ráð fyrir að ekki sé hætt fyrr en bíllinn fer í gang. Næsta ráð miðar við að fyrri ráð hafi verið reynd og ekki dugað til að bíllinn starti.

Áður en þú byrjar skaltu ganga úr skugga um að sjálfskiptur bíll sé með skiptistöngina í Park-stöðu eða Neutral-stöðu.

Góður prufulampi hefur straumfreka peru í útleiðsluvörðu perustæði með minnst meterslöngum þráðum og kjaftvíðum klemmum á endum. Athugaðu að mælitækin geta gjarnan skilað hárri spennu þótt ekki fylgi umtalsverður styrkur straumsins.


Mynd 1: Geymarnir eru tveir. Númer 1 er bílstjóramegin.

Geymir númer 1 er undir plasthlíf til að minna á að í hann á ekki að tengja aukarafbúnað.
Það er vegna þess að spennan frá hans plúspóli til jarðar bílsins verður 24 volt þegar startað er.
Það eyðileggur allan búnað sem ætlað er að starfa á 12 voltum.


Mynd 2. Allur rafbúnaður skal tengjast við rafgeymi 2 til að vera í 12 volta sviði.

(1) Gefa straum með öðrum bíl
Gerum
ráð fyrir
að annar
bíll sé
til staðar
að gefa straum
  • Gefðu straum á geymi 2.
    • Ef bíllinn startaði hafa geymarnir verið of lítið hlaðnir. Láttu athuga geymana við næsta tækifæri og hvort hleðslan er í lagi. Láttu álagsmæla þá - því þeir geta sýnt 12 volta spennu þótt þeir hafi ekki mikla álagsgetu.
  • Gefðu strauminn þannig að kaplarnir frá straumgjafanum fari á kaplana sem liggja frá geyminum (þ.e. ekki tengja bara við pólana).
    • Ef bíllinn startaði þá eru kaplarnir ekki nógu vel tengdir við geymasamböndin á póla geymisins, eða þau brotin, laus eða/og óhrein. Taktu geymasamböndin af, hreinsaðu allt vel og skrúfaðu þétt saman.


Mynd 3. Rafbúnaður sem tengist geymi 1 er í 24 volta sviði þegar startað er.

  •  Gefðu strauminn á geymi 1.
    Gættu þess að nota báða póla geymisins en ekki tengja mínusinn við jörð bílsins. Það er vegna þess að í startinu verður 24 volta spenna milli jarðar bílsins og plús-póls geymis 1.
    Með því að tengja í báða pólana truflast ekki rafsvið bílsins sem gefur strauminn því spennumunurinn milli pólanna á geymi 1 er alltaf 12 volt - eins og öllum 12 volta geymum.
    • Ef bíllinn startaði núna er geymir 1 hugsanlega ónýtur. Láttu athuga hann og álagsgetu hans. Í leiðinni er sjálfsagt að athuga geymi 2 á sama hátt. Ef þú þarft að endurnýja einn geymi skaltu endurnýja þá báða - nema sárstutt sé síðan þú endurnýjaðir þá.
  • Gefðu strauminn þannig að kaplar frá straumgjafanum fari á kaplana sem liggja frá geyminum en ekki bara á pólana sjálfa.
    • Ef bíllinn startaði núna eru geymasamböndin brotin, óhrein eða laus og flytja ekki nóg. Hreinsaðu þau upp. 
  • Gefðu strauminn eins og næst fyrir ofan - þannig að kaplar frá straumgjafanum fari á kaplana sem liggja frá geyminum en ekki bara á pólana sjálfa. Tengdu auk þess vír frá plús-gjafanum samhliða græna bræðivarinu.
    • Ef bíllinn startaði núna er græna bræðivarið brunnið sundur. Í lagi getur verið að setja vír í staðinn en láta athuga málið betur þegar tækifæri er til.
(2) Virkar 24v-relay-ið?
Ekki er nóg
að gefa straum.

Mynd 4

Aftan við geymi 1 er öryggjabox með einu 50A-öryggi. Ef relayin virka ekki skaltu athuga öryggið.

Ofar á myndinni sést svart plastlok yfir relay-inu sem skiptir yfir í 24 volta startstraum.


Mynd 5. Hér hefur plasthlífin verið tekin af.

Taktu eftir mjóa vírnum - græna bræðivarinu.
Það gefur strauminn á startara-relay-ið. Við of mikið álag bráðnar vírinn og flytur ekki straum. Þetta er sem sagt öryggi. Líkleg skýring er útleiðsla á leiðinni frá startara-relay-inu til startarans eða útleiðsla í startaranum sjálfum. Hann getur sem sagt verið bilaður. Enginn straumur liggur á þessari leiðslu nema meðan startað er. Ef ekki er um útleiðslu að ræða er í lagi að setja venjulegan vír í staðinn og skipta svo seinna þegar bræðivar fæst. 


Mynd 6. Hér sést hvernig tengt er í relay-ið.

(2+) er kapall frá plúspóli geymis 2. Mínuspóll geymis 2 er tengdur í (Jörð) - þ.e. beint í boddý bílsins og einnig í vélina.

Venjuleg stilling á þessu relay-i er sú sem tengir annars vegar saman (1-) og (Jörð) og hins vegar saman (1+) og (2+). Þannig sér relay-ið um að báðir geymarnir eru samsíða-tengdir. Plúspólar þeirra eru tengdir saman og mínuspólar þeirra eru tengdir saman.

Relayið virkar þannig að eftir að hafa fengið stýristrauminn - sem markar komu sína annars vegar með smell-hljóði frá tengiplötu inni í því sem heyrist og titringi sem finnst ef um er haldið - rofnar upphafstengingin en saman tengist einungis (2+) og (1-). Þar með raðtengjast geymarnir. Settu voltmæli með plús-þráð í plúspól á geymi 1 og mínusþráð í mínuspól á geymi 2. Mínusþráðurinn getur raunar farið í jörð bílsins hvar sem er. Þegar allt virkar eins og vera ber sýnir mælirinn nú 24 volt.

Hafðu ljósmikla peru tengda við nógu langa víra til þess að þú getir fest vírana og látið peruna sjást innan úr bílnum þegar þú þarft að snúa lyklinum. Prófaðu nú:

  • A - tengdu peruna við (2+) og (1-). Það á strax að loga ljós.
  • Snúðu svisslyklinum í fulla startstöðu. Ljósið á að slokkna - vegna þess að nú á plús-straumurinn í (2+) að vera beintengdur við (1-) og þá er enginn spennumunur á milli.
    • Ef relay-ið heyrist/finnst taka við sér en ljósið slokknar ekki þá er relay-ið bilað - því að það tengir ekki saman (2+) og (1-).
  • B - tengdu peruna við (1-) og (Jörð). Ekkert ljós á að koma í upphafi.
  • Snúðu svisslyklinum í fulla startstöðu. Nú á að koma ljós - vegna þess að (Jörð) er áfram jörð frá geymi 2 og (1-) er nú með beintengingu við plúspólinn á geymi 2 (í gegnum (2+)).
    • Ef relay-ið heyrist/finnst taka við sér en ljósið kviknar ekki þá er relay-ið bilað því að það tengir ekki saman (2+) og (1-).
  • C - tengdu peruna við (1-) og við plús-pólinn á geymi 1. Ljós á að loga strax.
  • Snúðu svisslyklinum í fulla startstöðu. Ljósið á að loga áfram - vegna þess að þótt heildarvoltafjöldinn eigi að hafa hækkað í 24 volt þá er aðeins 12 volta munur milli póla sama geymis.
    • Ef slokknar á perunni er geymir 1 ónýtur. Skýringin er þessi: þótt hann sé venjulega samtengdur við geymi 1 þá breytir relay-ið tengingunni þannig að plús-straumurinn frá geymi 2 fer nú í mínus-pól geymis 1 en enginn strumur frá geymi 2 kemur í plúspól geymis 1. Þar kemur aðeins sá straumur sem fer í gegnum geymi 1. Komi enginn straumur merkir það að enginn straumur kemst í gegnum geymi 1. Hann er því ónýtur. Það hefði raunar einnig komið fram í fyrstu lotu með straumgjöf frá  öðrum bíl.
(3) Fer 24v-relay-ið ekki í gang? Heyrist ekki í því og slær ekki í því?
  Stýristraumurinn til 24v-relay-sins kemur frá tímarofa sem meðal annars sendir straum til glóðarkertanna.

Þessi leiðbeining nær ekki lengra í átt til þess rofa - því miður.

(4) Fær startarinn ekki stýristraum frá startara-relay-inu?
 
Mynd 7.

Einfalt er að losa startara-relay-ið sem fest er með einum bolta.  Haltu á því í höndinni þegar annar snýr svisslyklinum í startstöðu. Heyrirðu og finnurðu fyrir smelli inni í því?


Mynd 8

Ef þú finnur að það virkar ekki skaltu athuga hvort sjálfskiptingar-relay-ið virkar því að það sendir stýristraum til startara-relay-sins. Þú athugar það svona:

  • Þú kemur höndinni að því þegar startara-relayið hefur verið losað frá. Það er líka einfalt að losa þann eina bolta sem heldur því og þá er hægt að hafa það í höndinni.  Hafðu svissað af bílnum. Gírstöng sjálfskiptingar í Park-stöðu. Haltu um relay-ið. Þegar svissað er á bílinn kveikir relay-ið og þú finnur fyrir því þegar þú heldur á því.
    • Ef það kveikir ekki þarf að taka það úr og athuga hvort það virkar rétt og ef ekki - þá skipta um það. Ef það virkar rétt þarf að athuga hvort stýristraumurinn skilar sér frá svissi.

Fær startara-relay-ið til sín straum - í gegnum græna bræði-varið (sjá mynd 5) - til að senda niður í startarann? Losaðu mjórra og ljósa tengið. Hvíti þráðurinn á að vera með strauminn hvort sem svissað er á bílinn eður ei. Ef ekki er straumur á honum er bræðivarið sennilega bráðnað sundur. Ef einhver önnur ástæða er - má beintengja straum úr geyminu í þennan hvíta vír.


Mynd 9. Hægt er að ná þessu svarta tengi í sundur - með lagi - en illt er að koma stórum höndum að.


Mynd 10. Horft undir startarann.

Snýst startarinn ef hann fær strauminn niður? Það kannarðu með því að leiða straum beint úr geyminum í hinn vírinn sem er svartur með rauðri rönd, Ef startarinn snýst er allt í lagi. Hann fær þó ekki nema 12 volt - en það er ekki ástæða til að halda að hann sé bilaður.

Ef hann snýst ekki er þráðurinn sennilega einhvers staðar í sundur. Athugaðu tengið svarta á mynd 9. Ef til vill þarf að loka því betur. Notaðu ohm-mæli til að kanna hvort þráðurinn er heill frá stýristraumstenginu undir startaranum upp til startara-relay-sins þar sem þú kemst í endann á svarta vírnum með rauðu röndinni.

Kapallinn frá geymi 1 er alltaf með sín 12 volt en fær 24 volt í startinu eins og að framan greinir. Ef geymir 1 er ónýtur er hann með 12 volt sem koma í rauninni úr geymi 2 - uns startað er. Þá dettur spennan niður í núll þar sem plúsinn úr geymi 2 tengist mínus í geymi 1 en kemst ekki í gegnum ónýtan geyminn.

Efst á þessa síðuu * GÓP-fréttir * Sverris-síður *  Ferðatorg * Ferðaskrá * Vaðatal