Forsíða GÓP-frétta * * Dagsferð í Mörkina

Hefðirðu viljað vita af ferðinni þó seint væri - til að slást í för? Láttu vita! 13. mars 1999 - Heppnir dags-skreppu-menn

Á föstudagskvöldinu ákváðu Óli og ritarinn að skreppa í Mörkina til að lífga sálaryl og renndu á einum bíl austur úr borginni klukkan liðlega 8 á laugardagsmorgni. Veður var ágætt þegar upp var lagt og ekki mikill norðanblástur á heiðinni. Sem sagt, ágætt veður sem sífellt varð betra með heiðum himni og stillilogni í Þórsmörk.
Aðlaðandi vetrarfæri

Færi var ágætt en snjórinn í slóðunum varð ekki greiðfær fyrr en á 6 pundum. Frá kvöldinu áður var slóð eftir stóran bíl. Ekki hafði nýlega verið farið upp að Jökullóni en lítið var í og ísar viðráðanlegir án þess að hönd kæmi að. Fyrir hádegi vorum við í Básum þar sem var þriggja hásinga bíll frá slysavarnadeild og leiðangursmenn sjálfsagt löngu risnir úr rekkju og nú úr heyrnarfæri í björtum og stilltum skóginum.

Rausnarleg veröld

Við renndum yfir í Langadal. Kast hefur komið í ána og rifið upp skarir en nú var hún niðri og við tókum hana yfir í Fremri-Slyppugilshrygg og komum í kyrrð og ró - einir í heiminu. Skálinn var við bestu heilsu utan og innan og ritari dáðist að frágangi síðustu gesta. Ef skýringar var þörf þá kom hún í ljós þegar litið var í gestabókina. Þar hafði enginn ritað frá vetrarferð Gíslavinafélagsins 23. - 24. janúar sl. Við settumst utan húss á borð móti suðri og nutum veraldarinnar.

Tímaleysið

Klukkan var eitt þegar við lögðum leið okkar aftur fram yfir Krossá og niður með Stakkholtinu og héldum síðan yfir Krossá aftur við Merkureggjar og ókum í Húsadal. Það var einkum til þess að ekki væri augljóst að við hygðumst líta á Markarfljótið. Í Húsadal var sama einmuna blíðan enda er þar betra skjól og meiri gróður en annars staðar á Mörkinni. Hér voru heldur engar mannaferðir og ef ekki hefði verið fyrir hina sístækkandi byggð Austurleiðar í mynni dalsins - og raunar líka fyrir farartækið - þá hefði þetta alveg eins getað verið Þórsmerkurferð fyrir þrjátíu árum.

Fram yfir Fljótið

Við ókum niður með varnargarðinum sem heldur að Markarfljótinu ofan úr gilinu og þar stuttu neðar fengum við þægilegt vað á syðri álinn. Sá nyrðri var þyngri en ekki umtalsverður. Þar með vorum við komnir á afrétt Fljótshlíðinga. Við ókum niður með enda Fauskheiðarinnar og komum að garðinum út í Lausölduna og héldum síðan áfram sandana niður með Þórólfsfellinu og ókum upp á garðinn við bergið.

Hjá Tumastöðum að Gunnarssteini

Veðrið var alltaf jafn yndislegt og við ákváðum að aka gegnum Vatnsdalinn og hjá Þríhyrningi upp á Rangárvelli. Færið var hið þokkalegasta svo að við komumst upp með að minnka ekki aftur loftið í dekkjunum. Eyðilegt er að horfa til gamla bæjarins að Reynifelli en nú eru að rísa sumarhús í jaðri landsins fram að Rangá. Þar við ána renndum við að Gunnarssteini og rifjuðum upp þá sögu þegar Gunnar, Kolskeggur og Hjörtur vörðust þar á fjórða tug manna - og rýrt gerðist fyrir þeim smámennið. Við sáum fyrir okkur hvernig Gunnar hóf Egil í Sandgili upp á atgeirnum og fleygði honum fimmtán metra yfir í ána.

Klukkan var nærri 18 þegar við komum í borgina aftur eftir aldeilis yndislega ferð.

Efst á þessa síðu * G-vinir / ferðatal * GÓP-fréttir