GÓP-fréttir


Ferð að framhlaupi Tungnaárjökuls:

Jökulheimar 17.-19. febrúar 1995

Veðrið
Stórkostlegt veður

Veður var aldeilis frábært á föstudeginum 17. febrúar. Sólin skein á snjóbjarta veröld og setti gullna bjarma um okkar fjallaleið. Það er mikill munaður að ferðast á slíkum degi.

Var af sólu silfurflóð
sett á veröld alla
þar sem bæði glit og glóð
glæddi jökulskalla.

Hótel
Hrauneyjar
Hrauneyjar - ný aðstaða

Tveimur kílómetrum neðan við Hrauneyjafossvirkjun er nú komið 40 manna hótel. Hér má fá eldsneyti á bíla og allan viðurgjörning fyrir fólk og gistigjald er kr. 1000 yfir nóttina í eins og tveggja manna herbergjum. Hótelstýran sagði að þetta væri kynningarverð og yfir vetrarmánuðina er opið frá kl. 5 á föstudagskvöldi þegar starfsfólkið kemur uppeftir til 6 á sunnudagskvöldi þegar starfsfólkið fer aftur niður í byggð. Það kom sér vel fyrir okkur að hráolían sem þar er seld er blönduð steinolíu til að hindra vaxmyndun í frosti.

-20oC
Of gott færi

Næstliðnar vikur hafa margir þurft að snúa við á Jökulheimaslóð sökum afleitra snjóalaga og erfiðrar færðar. Í bjartri nóttinni varð frostið mikið og stórbætti færið. Það var því ekki að ástæðulausu að um ritara fór nokkur uggur um að örðugra yrði að komast til baka í boðuðu hlýrra veðri á sunnudeginum.

Degi brá - og skein þá skært
skart af stjörnuhaddi
síðan hóf sig tunglið tært
í tuttugu stiga gaddi.

Fullt tunglið hnikaði sér upp á himininn þegar við voru komin upp fyrir Hraunvötnin og skein yfir allt inn með Ljósufjöllum.. Frá Heimaskarði sást til Jökulheima í bjartri nóttinni og þar vorum við á 10 bílum fyrir klukkan 02.

Nýr
dagur
Morgunvísan:

Nú er lag að nýta dag,
nú skal rís'á fætur:
okkur gengur allt í hag
ef að vanda lætur.

 
Framhlaup Tungnárjökuls

Veðurspár boðuðu áhlaup þegar á liði daginn en morgunninn var fagur með sól yfir jökulinn. Við ókum inn að jökuljaðrinum þar sem hann hrynur fram í þverhníptu ísberginu. Hann hefur hlaupið fram um nærri kílómetra en hraðinn er nú um 5 metrar á dag sem er helmingur þess sem mest varð. Svo lítil hreyfing var á jaðrinum að það taldist til viðburða að ritari stóð nærri þegar heyrðist töluverður dynkur og hjarnflykki hrærðist undir fótum hans.

Framhlaup jökuls er hrikalegt sjónarspil og Sigurjón Pétursson mælti í talstöðina:

Að sér dregur andann hljótt
á áratuga fresti
út svo púar undur skjótt
með ógurlegum bresti.

Tungnárjökull hljóp síðast fram fyrir 50 árum en ef álykta má af hegðun hans nú virðist fjarri því að hann komist nálægt því sem hann var fyrir aðeins 30 árum. Fróðlegt verður að skoða hann næsta sumar.

Stafna-
skarð
Um Stafnaskarð

Við lögðum leið okkar frá jökulröndinni um Heimabungu, vestan Fóstrufells, um Stafnaskarð og norður með Bláfjöllum. Stefnan var tekin á hálendið fram af Hamrinum norðan við Syðri-Systur en þegar leið að hádegi fór að kemba þar fram af og senn var þar allt í sorta. Við snerum þá upp á fellið við Svelginn sem svelgir Sylgju og höfðum þar stutta viðstöðu. Runnum svo aftur suður í Stafnaskarð þar sem sumir fóru niður á skíðum. Klukkan 2 vorum við aftur í Jökulheimum og þá brast bylurinn á.

+10oC+ 
Sólin sökkvir bílunum

Veður voru betri sunnar og vestar svo að allmarga bar að garði í Jökulheimum en hlutu þar að bíða af sér veðrið. Auk þeirra bættust fjórir bílar í okkar hóp klukkan 04.30. Það voru því samtals 18 bílar sem lögðu upp á sunnudagsmorgninum. Aftur var farið inn að jökli fyrir þá nýkomnu en haldið heimleiðis þegar leið að hádegi.

Sól var á lofti og himneskt veður, frábært skyggni og næstum of heitt í skærri, snjóhvítri birtunni. Það var mikill munur á hitastiginu frá því að við komum akandi inneftir í 20 stiga gaddi og jafn mikill var munurinn á færinu. Nú var aðeins liðlega helmingur bílanna sjálfbjarga og þó voru færri aflögufærir til að hjálpa öðrum. Ferðin sóttist því seint. Klukkan 01 voru þó allir komnir niður á veginn við Þórisvatn og sloppnir úr snjóakistunni.

Fyrir-
hyggja

og

sam-
hjálp

Lærdómsrík heimferð

Þetta var lærdómsrík heimferð. Þeir sem hingað til hafa farið flestra sinna ferða en lágu nú á maganum uppgötvuðu þau sannindi að þegar þyngd bíls nálgast 1500 kg þýðir ekkert minna en 36" dekk með góðri upphækkun og aðeins 38" með driflæsingum eru áreiðanlegar.

Miklu betur gekk þegar haft var fast milli þyngri bíls og annars sem aflögufær var en hitt seinkaði verulega þegar sífellt var verið í uppkippingum. Við þessar þungu aðstæður var í raun ekkert sem hét að kippa í því allir voru svifaseinir.

Enn
ein
góð
ferð

Bestu þakkir!

Þegar á reynir kemur ágæti ferðafélaganna í ljós. Þeir sem þrotlaust aðstoðuðu þungfærustu bílana, tóku þá öftustu að sér eða fóru fram og aftur með bílalestinni að ljá aðstoð eftir þörfum skiptu sköpum um að við sluppum þokkalega frá þessu ævintýri og að menn komust til Reykjavíkur um fótaferð á mánudagsmorgninum. Þegar þessi heimferð kemur í hugann fer mér þann veg að ég fyllist þakklæti í garð ferðafélaga minna. Það er hvort tveggja að svona reynsla þjappar okkur saman og um leið heitum við því hver og einn að verða betur sjálfbjarga næst. - Vonandi gefst okkur bráðlega harðfennisfæri í frostbjörtu veðri um helgi.

* * *

Efst á þessa síðu * GÓP-fréttir * Ferðaskrár