GÓP-fréttir * *
Haustferðin 30. sept. - 2. okt. 1994

Lambaskarðshólar 
- Eldgjá 
- Sveinstindur 
- Strútslaug 
- Hrafntinnusker

Við Silfurfoss

Í Lambaskarði skammt austan Eldgjár steypist Syðri-Ófæra ofan í djúpt gil í breiðum og freyðandi litlum Gullfossi sem væri glæsilega réttnefndur Silfurfoss.

Undir brattri hlíð skarðsins er húsið sem við gistum báðar nætur haustferðarinnar. Það ber fremur kotlegt nafn, Hólaskjól, sem mun tákna skjólið við Lambaskarðshóla en væri mun tilkomumeira og kallaði til sín ferðamenn ef þar héti: Við Silfurfoss.

Allt umhverfið er fallegt og fimm mínútna gangur upp á hraunkambinn þar sem fossúðinn merlar mosann á sumardegi og leggur flúruð ísnet í frosti haustsins.

Á laugardagsmorgni

Það var glaðabjart klukkan 8 þegar ekið var af stað gegnum Eldgjá eftir Nyrðri-Fjallabaksleið upp Herðubreiðarhálsinn. Morgunsólin ýtti hlýlega á eftir okkur yfir snjófölina en aftan við dunaði Skaftá á hraunflúðum undir Leiðólfsfelli. Þeir fremstu dokuðu undir Herðubreið og leiddu svo hópinn norðaustur af leiðinni og stefndu til Sveinstinds sem mótaði fyrir í fjarska. Leiðin liggur eftir dal austan Grænafjallgarðs. Austan megin er hann girtur háum hálsum og fjöllum og upp úr standa Herðubreið, Gjátindur og Grettir en nær stýrir Ljónstindur Nyrðri-Ófæru ofan í Eldgjá. Stikurnar við veginn eru sumar traustar en sumar liggja slegnar til jarðar. Þær eru kærar í sorta:

Stikur kærar standa nær
stuðning færa manni -
bylur ær að ending slær
allar þær - í gamni.

En nú var ekki bylurinn ær heldur yndislegur haustmorgunn með glaðabirtu utan og innan sálar. Andartak misstum við samband við forystubílinn:

Veröldin öll er ein yndis-sjón
- ekur hér góður flokkur -
komið er samband við Sigurjón
og Sveinstindur hlær við okkur.

Áætlunin: Á Sveinstindi klukkan 11.15

Um tíuleytið vorum við sunnan undir Sveinstindi og treystum taugarnar með því að ganga upp eystri brúnina. Snjór var í hlíðinni og nokkurt frost þegar ofar dró og var þá margt barnið lipurt að líða upp kamba og klífa á toppinn. Bjart var uppi yfir heim að líta. Hópurinn stóð undir hinni miklu vörðuhæð og naut víðsýnis og sólar - einmitt þegar klukkan varð 11.15. Ásamt hópnum dokar frásögnin eitt andartak til að virða fyrir sér fjallahringinn vestan frá Langjökli, norður til Hofsjökuls, austur til Vatnajökuls, suður á sjó út og til Mýrdalsjökuls. Nær eru Langisjór og Fögrufjöll og Lakagígar suður í miðri hraunbreiðunni.

Vestan megin niður

Erfitt er að slíta sig ofan af toppi heimsins en um síðir héldum við niður. Þeir vöskustu fóru sömu leið en við hin tókum vesturleiðina ofan af hæstu bungunni. Brátt mættum við björgunarsveit úr Reykjavík sem þarna var að þjálfa sig og hugðist svo ganga niður með Skaftá. Þar þekktust margir sem mættust. Af öxlinni héldum við suður með gilskorningi og til bílanna. Sú leið er þægileg hvort sem fara skal upp eða niður.

Kofinn við Skaftá

Eftir að hafa kannað leiðir og slóðir til Fögrufjalla héldum við til baka og svo í sveig niður að Skaftá að kofanum og kláfnum. Kofinn er gripahús með svefnbálki og hefur komið sér vel í vondum veðrum. Þröngt mundi þar um 15 menn þó notað væri allt húsið. Hér undum við í sólbjörtu logni og lá ekkert á.

Kláfurinn

Ekið var til baka að ánni og komið að kláfnum sem mörgum lék forvitni á að skoða. Í hér-um-bil-máli er pallur hans 1x2m með 25 cm hliðum. Hann gengur á 70 metra löngum streng yfir ána - og er ekki allra meðfæri.

Um vatnavegu

Skammt til baka frá kláfnum fylgdum við vegi til vinstri eftir melhálsi. Innan skamms lá leiðin í lækjarfarveg. Saman runnu fleiri lækir og að lokum var ekið eftir ánni. Úr breiðu Hvanngilinu rennur á í þá sem við ókum. Á ármótunum ókum við upp Hvanngilið og síðan á þurrt. Þessi vatnaleið sunnan undir Hellnafjallinu er bæði spennandi og eftirminnileg.

Ævintýri okkar beið
undir hverjum rana
og hjá Gretti leynileið
lá í Skælingana.

Við ókum nú niður að Gretti þar sem Blautalónið lokar leið. Veröldin var hvít og sólbjört og glerþunnur ís í fjöruborðinu endurómaði léttum, skærum hljómum þegar þunnum ísdiskum var þar skellt á skeið. Þótti það verðug tónlist við þunga trommusóló Síðujökuls í en-lausu ferðinni.

Margur hefur komið að þessum vegarenda og horfið aftur frá Blautalóni. En leynileiðin er í fjöruborðinu undir Gretti. Þegar upp kemur þræðir hún sandgil og skorninga gegnum móbergshryggi uns komið er á austurbrún fjalllendisins þaðan sem sér yfir Skaftá og hraunin úr Lakagígum - allt til Vatnajökuls.

Skælingar

Ofan af þessum mikla útsýnispalli er haldið niður hlíðar, brekkur og slakka uns kemur í Skælingana. Þar eru merkilegar hraunmyndanir sem til hafa orðið þegar hrauntjörn byrjaði að storkna - og skyndilega brast fyrirstaðan og hraunið flóði út úr tjörninni. Eftir standa gríðarlegar skögultennur eða skælar úr hraunsteypu. Í síðdegislogni á hausti er það bæði unaður fyrir líkamann og stórfenglegt fyrir augað að ganga niður að læknum þar sem hrauntjörnin hefur verið dýpri og því hreinsast öll burt nema við brekkufæturna umhverfis þar sem á verði stendur skæll við skæl.

Eldgjá og Ófærufoss

Skammt neðan Skælinga er ekið upp á eystri brún Eldgjár og á móts við Ófærufoss sem breiðir úr sér þar sem hann fellur niður í skuggann í gjánni. Jarðfræðingurinn, Jóhann Ísak, hefur þá kenningu að Eldgjá hafi orðið til á svipaðan hátt og Almannagjá við Þingvöll. Fyrst hafi gosið á sprungu, síðan orðið jarðsig austan við sem hallaði eystri barminum og að lokum hafi hluti hans sigið ofan í sjálfan gíginn og myndað þessa miklu gjá.

Á öðrum björtum degi

Í morgunljóma sunnudagsins héldum við á 18 bílum áleiðis inn í Álftavatnskróka þar sem Syðri-Ófæra fer undir hraunhaft. Þar undum við góða stund og þeir Hafþór og Gunnar Eydal sýndu okkur hvernig þar má yfir aka. Síðan héldum við sem leið liggur suðvestur með Bláfjalli og tindinum 8:15 þar sem við stóðum í en-lausu ferðinni. Nú var landslag hins vegar með öðrum hætti því aðeins var snjóföl á og margt sem þá var fleygifært var nú úr seiling. Í það sinn var það Guðmundur Rúnar Brynjarsson sem leiddi okkur með list í gegnum hálendið og niður að bökkum Hólmsár og þó nú væri veröldin önnur lék hann aftur sama leikinn.

Um Kambsgil í Strútslaug

Símtal við hreppsyfirvöld leiddi í ljós að ekki voru meinbugir á að fara í Strútslaug. Var því ákveðið að taka Öldufellsleið og Hólmsárfoss af dagskrá og halda beint í Skóflugil. Gjarnan mætti skipta þar um nafn og kenna það frekar við þann merka kamb sem ber veginn úr gilbotninum upp á fjöllin sunnan við Strútslaug. Væri það velnefnt Kambsgil.

Upp kambinn er glæsileg akstursleið og vel fær öllum fjórdrifnum bílum. Á örskotsstundu lyftumst við úr þröngum gilbotninum hátt upp á fjöllin þar sem til baka var yfir snædrifinn sandinn að líta. Hádegissólin ljómaði Mælifellið, stakt og glæsilegt, austan við Veðurhálsinn - og okkur á ferð um malarása og grjótagil og að lokum urðir og eyrar allt að Strútslaug. Hún er grafin í mölina skammt neðan grasbrekku og rennur í hana heitur lækur. Vel væri gjört að kasta til hliðar urðinni úr braut og næst lauginni svo mildara væri að komast og leggja bílum en ef til vill til lítils ef vatnagangur er mikill í leysingum á vorin. Öll leiðin er stórfengleg og við lítinn tilkostnað mætti með ýtu gera grófu hlutana færa lágum fjórdrifs-fólksbílum á síðsumardegi. Ef menn gæta þess að skilja ekkert eftir er þetta einn þeirra staða sem þolir fjölmarga gesti - líka fótfúna og bakveika, gamalt fólk og fatlað, þreyttar húsmæður og lítil börn.

Mælifellssandur og Syðra-Fjallabak

Klukkan var orðin fjögur þegar aftur var ekið úr Kambsgili í átt til Mælifells og á Mælifellssand. Nú var haldið vel áfram til að ná í Hrafntinnusker fyrir ljósaskiptin. Bjartur Mýrdalsjökull var á vinstri hlið, úfinn og mikið sprunginn eins og venjulega á haustin. Enn skopaði hugurinn á skeið til en-lausu ferðarinnar:

Nú er ekki illt að sjá
ef ekið er í sprungu -
nú yrði Gunnar í nýrri gjá
næstum á hverri bungu!

Allt var bjart að jöklabaki. Torfajökull og Kaldaklofsfjöll risu til himins á hægri hönd en í vestri Tindfjallajökull. Við ókum Hvanngil og hjá Álftavatni og loks hjá Laufafelli, þar sem leiðin liggur til norðurs um Reykjadali, og höfðum stuttan stans undir siginni sól. En áfram héldum við - kýldum stöðugt á það - því spurningin var:

Verður lokum verka náð?
Víst mun tími ráða.
- Ég kann ekkert annað ráð
en að kýla á'ða.

Hrafntinnusker - og heim

Bílarnir runnu viðstöðulaust yfir fannir sem ekki hafði leyst allt sumarið. Í rauðu kvöldskini frá dansandi sól á vesturfjöllum náðum við í íshellinn mikla þar sem voru margar og stórar hvelfingar og sumar fullar af gufumekki.

Heim var nú haldið á Landmannaleið yfir hálsinn mikla vestur af Litla Mógilshöfða inn í dimmrauðan vesturhimin. Það var stórfenglegur lokahluti frábærrar ferðar.

Gunnar, verslunarstjóri í Árnesi, dokaði eftir hópnum. Þar áttum við góða kveðjustund og lögðum strax á ráð um vetrarferðina í Þórsmörk undir fullu tungli í janúar 1995.

Efst á þessa síðu * Ferðaskrár * Forsíða GÓP-frétta