GÓP-fréttir * *
Þórsmerkurferðin 
14.-15. janúar 1995

Í mildu veðri

Vetur konungur var vissulega kominn til skjalanna með snjóum og ísum en frostið var lítið þegar við ókum austur sveitir laugardaginn 14. janúar. Hann gekk á með éljum en út úr þeim ókum við jafnan í birtu og sól úr skýjarofi. Ef farið er yfir brú í dimmum sorta getur heyrst:

Þetta gengur þétt og vel
það er fært í bækur
að við erum - að ég tel -
á þér, Rauðalækur.

Snjóar og ísar

Færið var ágætt jafnvel óbreyttum bílum og yfir læki var oft farið á heldu og einnig yfir Jökulsá. Heldur var þyngra þegar kom inn undir Stakkholtið en alla leið inneftir voru ferðalangar komnir fyrir myrkur.

Snjó-bál og kvöldvaka

Í hverjum bíl var meðferðis sprek á eld sem kveiktur var eftir kvöldmatinn. Við sátum og stóðum umhverfis og sungum. Fram var haldið gamninu innan húss og upp dregin mörg atriði sem undirbúin höfðu verið í bílunum á leiðinni inneftir. Þessi kvöldvaka verður lengi í minnum höfð - og ekki bara hjá börnunum!

Undir fullu tungli

Að venju var haldið út í stjörnuskoðun um miðnættið og gengið upp á Fremri -Slyppugilshrygginn. Nú brá svo við að ekkert sá til himintungla og var þá sungið mikið ákall. Það bar þó ekki árangur. Snerum við nú heim á leið. Þegar komið var niður undir hús birti hins vegar til og áður en varði var fullt tungl í stækkandi skýjarofi yfir Eyjafjallajökli og hellti töfrabirtu sinni yfir okkur og Mörkina. Við stóðum á flötinni við ljósmerlaðan lækinn á meðan stjörnufræðingurinn kynnti okkur brot af leyndardómum vetrarbrautanna.

Heimferð um Bása

Ekki brugðum við þeim vana okkar að koma við í Básum á heimleiðinni og gengum okkar hefðbundna spöl inn á flötina í botni dalverpisins þar sem brattar og snævafðar kjarrhlíðar rísa allt um kring. Snjórinn var mikill og veröldin vetri mörkuð.

Viðstöðulaust var svo haldið heim á leið. Dálítil él gengu yfir á stundum og þá hæfði að segja:

Ofan gefur snjó á snjó
- snjór er alla vega -
yfir árnar allir þó
aka glæsilega.

Á þjóðveginum

Þegar ekið var frá Hvolsvelli var haldið inn í skapmeira veður og senn fór útvarpið að flytja okkur fregnir af ófærri Hellisheiði. Þá var nú þó svo komið að þeir fjórtán bílar sem voru á heimleiðinni höfðu teygt úr sér og ef maður vildi vita hvernig skyggni og færi var á einhverjum stað þá mátti hringja í þann bílinn sem þar var. Það kom í ljós að þrátt fyrir dimman byl var engin fyrirstaða á leiðinni utan einn lítill skafl eða snjódreif í brekkunni við Skíðaskálann og hefði Vegagerðinni verið nær að hafa þar ruðningstæki svo litlir eindrifsbílar kæmust leiðar sinnar.

Góð æfing

Þetta var góð ferð í þokkalegu færi og ár og lækir voru sæmileg yfirferðar. Það er ánægjulegt að fara ferðir sem krefjast nokkurrar útsjónarsemi og reyna dálítið á ferðalangana. Þessi ferð hélt okkur við efnið og var hin ágætasta æfing.

Ritari sendir samferðafólki bestu þakkir fyrir trausta og skemmtilega samfylgd í ánægjulegri vetrarferð á Þórsmörk.

GÓP-fréttir * Ferðaskrár