GÓP-fréttir
*
* 10. - 11. janúar - góðviðrisvetrarferðin | |
Sjaldgæfur veturVart er að minnast annars eins mildilegs veðurfars og haustið 1997 og allt fram í janúar 1998. Teljandi eru frostdagar hér syðra og aðeins örsjaldan hefur gránað í jörð. Þegar leið að vetrarferðinni var ljóst að ekki yrði um vetrarveður að ræða og sumir höfðu jafnvel á orði að inneftir mætti aka á fólksbíl. Reyndin varð þó sú að vegur var grófur af vatnsgangi og fólksbíllinn hefði fljótt fengið illt í magann. Hins vegar reyndist vegurinn að öðru leyti eins og á sumardegi og hvergi á honum snjóföl eða nein önnur vetrarminning. | |
FerðarlýsingAð venju söfnuðumst við saman á Hvolsvelli um klukkan 10 árdegis og héldum þaðan klukkutíma síðar. Við runnum inn að Jökullóni og höfðum uppi ágiskanir um hvort þar væri nokkurn ís að sjá. Þegar til kom sást veikluleg ísspöng framarlega yfir nokkurn hluta lónsins. | |
Í StakkholtsgjáVið héldum innyfir Jökulsá og Steinsholtsá og komum í Stakkholtsgjá. Þar gengum við inn gjána og við lækinn lá planki í straumnum. Þegar hann var settur yfir lækinn var á honum ísblettur. Einnig voru þunnar hjarnskánir sums staðar undir berginu og jörð var frosin. Þegar við komum inn í hvelfinguna þar sem fossinn steypist af himnum ofan var það nýstárlegt að engin grýlukerti sáust og ekkert hrím eða neitt það sem minnti á þá árstíð sem geymir tíunda dag janúarmánaðar á Íslandi. | |
SóttarhellirVið héldum nú vestur fyrir Merkureggjar sem eru yst á Merkurrana. Þar fórum við yfir Krossá og síðan norðaustur með Þuríðarstaðamoldum. Moldunum lýkur við gildrag. Ekið er að næsta gili þar fyrir innan því það gil geymir Sóttarhelli. Vegurinn er að brekkunni og við gengum í hellinn sem fer skáhallt upp undir klett neðarlega í hlíðinni - efst í grasbrekku. Þar veltum við upp sögnum um þennan helli og tilurð nafnsins og settum okkur í spor þeirra pilta sem sagðir eru hafa kastað kerskni að tröllkerlingunni í gilinu. Í lofti hellisins og í hliðum hans er að finna höldur og krossmörk sem eru augljóslega til sannindis um sagnirnar. | |
Assa eða Marsa - og SönghellirVið héldum nú í Húsadal og þangað sem Assan gnæfir yfir húsum Austurleiðar. Assan hefur raunar einnig nafnið Marsa. Á Þórsmörk heitir flest tveimur nöfnum að gömlum sið vegna þess að Eyfellingar höfðu eitt nafn en Fljótshlíðingar annað. Senn verða nöfnin stöðluð við þau sem á kortunum finnast. Það var Páll Sigurðsson, bóndi í Árkvörn í Fljótshlíð, sem sagði mér um 1965 af nafninu Marsa og ætlaði að það stæði í sambandi við orðið mörsugur og kynni að tengjast því að kindur hefðu komist upp en ekki aftur niður - eða að hætta væri á að það gæti gerst - og lent í svelti. Við gengum upp á hana án þess að lenda í neinni hálku og er það merki um óvanalegt tíðarfar. Útsýnið er yfir Húsadalinn og sér til hæða og hálsa og fjalla og jökla í norðurátt en til suðurs er horft í hlíðar Valahnúksins og upp til toppsins. Upp og niður fórum við áfallalaust og gengum síðan inn til Sönghellis sem er rétt hjá. Þar var sungið að venju. | |
HúsadalsflötNú var haldið austur úr Sönghelli, yfir tvö gróin gil og inn á flötina við litlu klettana tvo þar sem áður stóð lítið hús sem Skógræktin átti. Nú er þar aðeins grunnurinn eftir því það brann fyrir hálfum öðrum áratug. Annar kletturinn er eins og assa með útbreidda vængi og hugsanlegt er að hann hafi áður borið þetta nafn en það síðan færst yfir á Mörsuna. Það eru nefnilega ókunnugir sem færa örnefnin til þegar þeir þurfa að nefna kennileiti án þess að kunna nöfn þeirra. Með nægilegri endurtekningu festist breytingin í sessi og að lokum kennir faðir syni og heimildarmenn verða til. (Hvað hét Þingvallavatn áður?!) Við gengum þvert yfir skógartunguna að slóðanum sem forðum lá upp að gamla húsinu sem Austurleið flutti inn í Húsadal um 1965 en fjarlægði þegar uppbyggingin hófst fyrir mynni Húsadals. Leið okkar lá inn á Húsadalsflöt og við rústirnar rifjuðum við upp söguna af þeim sem hér bjuggu árið 1802-3. Það voru hjón frá Gularási í Austur-Landeyjum þau Sæmundur Ögmundsson frá Krossi, þá 25 ára og Guðrún Jónsdóttir frá Hallgeirsey, 29 ára, - og frá Hólmum í Austur-Landeyjum þau Magnús Árnason, 22 ára, og Þuríður Guðmundsdóttir, 27 ára. Frá þessu greinir Þórður Tímasson í Skógum ítarlega í bók sinni Þórsmörk, land og saga á bls. 136 og 137. Sæmundur var faðir Fjölnismannsins Tómasar Sæmundssonar. Margar sögur eru viðhafðar um þennan búskap og tilurð hans en ein saga er þar fyrir sjónum manna og það er sú sem greinir frá því hversu í jörð hafa gengið rústir þess húss sem búið var í fyrir 196 árum. | |
Í Skagfjörðsskála og GlugghelliHér á flötinni skiptum við liði. Flestir gengu suður yfir hálsinn hjá Snorraríki en hinir aftur til bílanna og fóru með þá inn í Langadal. Hvanná var sérlega gróf og mikill skælingur um urðina því veg hafði víða tekið af. Við komum okkur fyrir og nærðum okkur en héldum svo aftur í gönguferð inn í Slyppugil og upp í Glugghelli. Hann hefur líka nafnið Gatból og á tímum nýrra gesta er hann einfaldlega bólið í Slyppugili og yfir hann læðist nafnið Slyppugilsból. Hann er í klettanefinu sem rís upp af skógarkápunni austan við gilið og útsýnið er glæsilegt úr gatinu yfir Básana og Útigönguhöfðann. Þar hefur margur tekið verðlaunamynd. | |
Kyrrðin og gleðinÍ Þórsmörk sést vel til fjalla og í logni sofna öll hljóð í skóginum. Það er engu líkt að standa þar í kvöldinu undir fullu tungli. Þá eru Tindfjöll á Þórsmörk með ljósum kápum. Himinn er skafheiður og dimma hans ýtir fram kolli Mýrdalsjökuls og Eyjafjallajökuls og mánasilfur leikur í lokkum Útigönguhöfða. Ymur Krossár berst fjarlægur til eyrna og eykur tengsl hugans við náttúru þessa indæla staðar. Það kalla margir að ölvast af dásemd staðarins. | |
Söngvaka og stjörnuskoðunHeima í Skagfjörðsskála vorum við um kukkan 18 og höfðum góðan tíma. Klukkan 20 var kveikt í eldiviðnum að heiman og við undum við bálið til klukkan 22 þegar það var kulnað. Inni hélt söngurinn áfram til miðnættis að við gengum á Fremri-SLyppugilsnef að skoða stjörnurnar. Veðrið var milt en smám saman hurfum við inn í húsið og inn í draumaveröldina. | |
Heim um Bása og MerkurkerKlukkan 11 næsta morgun ókum við suður yfir Krossá og komum í Bása. Við gengum inn með læknum - inn í hann Myndahvamm. Göngufærið var sums staðar ísað en annars með sama hætti og áður. Við runnum vestur úr Goðalandinu, meðfram Stakkholtinu, hjá Fagraskógi og vestur yfir Jökulsá og ferðin gekk fljótt eins og fyrri daginn. Þegar við komum niður að Sauðá var klukkan enn aðeins tæplega 13. Þar gengum við upp á hálsinn sem lokar Merkurkerinu og upp á klettahausinn sem lýtur yfir lækinn. Sumir fóru niður í gilið á bakaleiðinni og voru þar umluktir hömrum á alla vegu - nema til norðurs þar sem Sauðáin rennur. Þaðan héldum við um klukkan 14 og á Hvolsvöll þar sem hópurinn kvaddist með kærum þökkum fyrir góða samfylgd í þessari vetrarleysislegu vetrarferð undir fullu tungli á ársins skemmstu dögum. | |
Þátttakendalisti:
|
Sverrir Bjarnason
|