Forsíða  

Ferða-
réttar-
blogg

Mótmæli við lokunarhótanir
stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs vorið 2010

Í maí 2010 sendi stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs frá sér drög að framtíðaráætlunum um þróun þjóðgarðsins undir heitinu: Stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.
- þau sækirðu hér >>
http://www.gopfrettir.net/skrar/vj_sv_planMai2010.pdf
Frestur var gefinn til 24. júní 2010 fyrir athugasemdir við þá áætlun.
Margt kom þar fjallkæru fólki furðulega fyrir sjónir en athugasemdir GÓP voru við tillögum þjóðgarðsstjórnarinnar um lokanir ferðamannaleiða á Jökulheimasvæðinu.

Athugasemdirnar í sinni upprunalegu mynd - þessa samantekt -
má sækja hér á pdf-formi >> http://www.gopfrettir.net/skrar/GOP_AthsVidVjplan.pdf

Í september barst öllum þeim sem inn sendu athugasemdir sama staðlaða svarið þar sem athugasemdunum var í engu skeytt.
Þú sækir það hér á pdf-formi >> http://www.gopfrettir.net/skrar/vj_sv_svor_vid_aths.pdf

Texti samantektarinnar fer hér á eftir og skýrir sjálfur hvað við er átt.

21. júní
2010

Athuga-
semdir
gegn
áætlun
um
réttinda-
þjófnað

 

Gísli Ólafur Pétursson, kt. 310340-4999
Grenigrund 2B
200 Kópavogur
- -
Símar: 895-0300 og 554-2462
Netfang: [email protected]
Vefur: GOPfrettir.net

Viðtakandi:
Vatnajökulsþjóðgarður
Klapparstíg 25-27
101 Reykjavík
Efni: Athugasemdir ritara, Gísla Ólafs Péturssonar, við vegahluta auglýstrar Stjórnunar- og verndaráætlunar Vatnajökulsþjóðgarðs frá maí 2010.
Efnis-
yfirlit
Inn-
gangur
Inngangur

Athugasemdir ritara takmarkast að mestu við Jökulheimasvæðið í suðvesturhluta Vatnajökulsþjóðgarðs eins og sést á þessari mynd sem fengin er úr tilvísuðum gögnum með tillögunni frá maí 2010.

 
Myndin sýnir þá slóða sem eru inni á vegakorti tillögunnar.
  Erindi þessara athugasemda er að tiltaka þær leiðir sem vantar inn á þessa mynd og sem eru nauðsynlegar fyrir þá sem sækja sér náttúrugleði og lífsfyllingu í að fara um svæðið.

Flestir veganna eru í hlutanum frá fjallveginum sem Vegagerðin merkir F910 og liggur norðan Tungnafellsjökuls allt suður að Tungnaá.

Í lokin verða svo nefndir nokkrir nauðsynlegir vegir sunnan Tungnaár og sunnan Skaftár sem ekki eru færðir inn á kortið.
Rétt er að vekja athygli á óvanalegri litanotkun á þessu korti: - græni liturinn vísar ekki til gróðurlendis.
 

Með þessari samantekt fylgir Excelskjalið EINKENNIJSTADA.XLS um sérstaklega tiltekna staði og leiðir á Jökulheimasvæðinu og staðsetningu þeirra.

Öllu þessu svæði er rétt lýst sem eyðimörk. Það er þakið hraunum, misgrófum söndum og melum. Eldsumbrot hafa hlaðið fjöll og vatnagangur grafið djúpa dali. Hrikalegust er eldsprungan Heljargjá sem norðan Gjáfjalla er víðast full hraunum sem vængi þarf til að komast yfir. Sunnan Gjáfjalla er hún meira og minna sandi orpin. Gjáfjöll og Bláfjöll eru háreistar malareyjar í hraunakraðakinu en Vatnsleysuöldur lægri. Vegir svæðisins eru víða ærið ósléttir og eknir löturhægt. Ummerki þeirra fjúka gjarnan út í veður og vinda sem þarna eira engu. Tvö ráð eru ein til að finna þá. Önnur er að þekkja svæðið eins og fingur sína en hin er að hafa leiðina á GPS - og sú aðferð er öruggari. Eftir  að snjóa leysir og komið er fram í júlí hefur vatn hripað niður í eyðimörkina og þá eru aðeins tveir staðir sem geyma nothæft drykkjarvatn. Þeir eru ekki auðfundnir. Annar er Tekjulindin í námunda við Jökulheima en hinn er æ meira blotnandi sandbleytusvæði við "leið 16" í norðvestur frá Rauðhóli. Bleytan hefur aukist markvert eftir tilkomu stíflunnar við Syðri Hágöngu. Leið 16 er fyrsta leiðin inn á svæðið fyrir 1950 - á meðan bílar urðu að koma norðan að, fara yfir Köldukvísl úr Illugaveri og suður fyrir Gjáfjöll í Jökulheima. Vegir svæðisins eru færir óbreyttum heimilisjeppum.

Landið er haglaust og flokkast undir óbyggðir náttúruverndarlaga.
Vonar-
skarðs-
vegur
Inn þarf að setja veginn gegnum Vonarskarð
Þessi vegur er svo merkilegur og nauðsynlegur að sérstök umfjöllun undir nafninu VONARSKARÐ fylgir þessari samantekt og finnst einnig á http://www.GOPfrettir.net/Vonarskard
 
* *
20
leiðir
18 + 2 leiðir fari inn sunnan Hágöngulóns og norðan Tungnaár

*

Burt
höfðu
fallið
leiðir
19
og
20


Taktu eftir leiðunum sem merktar eru 19 og 20.
Athugasemdir um þær féllu niður í bréfinu sem sent var.
Þær eru hafðar hér með til að viðhalda heildinni fyrir lesandann.

Ritari telur mjög mikilvægt að þeim leiðum sem hér eru inn færðar bláar á lit verði öllum bætt á vegakort þjóðgarðsins. Þær eru mikill gleðiauki ferðamönnum bæði til umferðar og fjölbreyttrar útivistar. Sumar þeirra eru auk þess nauðsynlegar veiðifélögum, Landsvirkjun, Vatnamælingum og fleiri stofnunum.

Ferðamenn á öllu þessu svæði þurfa að hafa GPS-tæki í bílum sínum og í því tiltækt leiðasafn svæðisins. Slík tæki eru ódýr miðað við útgerðarkostnað bíls til ferðar um svæðið og auðvelt að hafa leiðasafnið vel aðgengilegt og ókeypis.

Minnt er á meðfylgjandi fylgiskjal: EINKENNIJSTADA.XLS um nánari lýsingar og staðsetningu staða og leiða sem nefnd eru í lýsingunum.

EinkenniJstada.xls >> http://www.GOPfrettir.net/skrar/EinkenniJstada.xls 

Músaðu
á
myndina
til að
sjá
leiðar-
lýsingar
Sigurjóns

*

Notaðu
svo
Bakk-
hnappinn

(Back
Space)

til að
komast
hingað
aftur!!


Músaðu á myndina til að sjá nánar um leiðirnar
Lýst
leiðum
norðan
Tungnaár

1. „Leið 16“ sem Sigurjón Rist skrifar um í bók ferðafélags Akureyrar 1958 liggur inn á svæðið á vaði yfir Köldukvísl við Illugaver, fer um Rauðtopp/Rauðhól og Gjáfjallanes og áfram sunnan Gjáfjalla, yfir Heljargjá og til Jökulheima.
Megnið af leiðinni er í auglýstum tillögum en
a) vantar bút frá vaði á Köldukvisl að Gjáfjallanesi.
b) Einnig vantar leiðina norðan Tekjulindar og inn á Dórveg. Leiðin norðan Tekjulindar er mjög skýr, fylgir landslagi og hefur verið í notkun frá öndverðu.
Þessi upphaflega leið til Jökulheima tengist mörgum sögnum frá fornu fari og er ómissandi.

2. Leið inn í Heljargjárkverk, þarna vantar stuttan stubb frá Péturstorgi inn í botninn við Gjáfjöllin til að geta skoðað mikla sandskafla og fallegt bólstraberg. Þetta er börnum mikill gleðistaður og svalar jafnframt forvitni hinna eldri. Ófært er niður frá Dór-hring vegna þess hve laust bergið er, þó stutt sé að fara.

3. Leið frá Péturstorgi niður að Mána. Á þessari leið er fylgt gjárvegg og ekið í foksandi. Miðja leið er vatnamælingarskúr. Leiðin hefur fyrr á árum verið rudd með ýtu að hluta. Leiðin gefur sérstaklega góða möguleika á fjölbreyttri heimferð úr Jökulheimum.

4. Leið við Mána, Saxa og Font. Ekið er að mestu í foksandi um þessa þrjá merkilegu gíga. Einungis lítill hluti leiðarinnar er innan þjóðgarðsins.

5. Leið frá Þórisóssleið, norðan Gjáfjalla, um Alviðru, sem er veðurstöð við borholu, að Heljargjá norðanverðri (30) og áfram til að skoða Gímu og Gám á Vatnsleysuöldum, endar við borholu í Hágönguhrauni (26). Virk leið vísindamanna sem jafnframt er afar mikilvæg ferðamannaleið fyrir almenning.

6. Leið frá Gjáfjallahring norður að Heljargjá norðanverðri opnar almenningi leið að Heljargjánni þarna megin en víðast er afar erfitt að komast nærri henni. Þessi leið norður af Gjáfjöllunum er veigamikil tengibraut og liggur um harða og slétta mela. Gríðarleg stytting leiðar frá Jökulheimum að Hágönguhrauni og umhverfi.

7. Veiðimannavegur frá Þórisósleið niður í Botnavatn. Stikuð leið. Mest notuð af veiðimönnum við Botnavatn og Þórisvatn. Hluti leiðarinnar er innan þjóðgarðs.

8. Bárðargata inn undir Kerlingu og inn á Bárðargötu aftur. Leið sem mest er notuð til að koma göngufólki að Kerlingu til fjallgöngu.

9. Frá Borholu norður að Hágöngulóni um Hágönguhraun og Hraungil síðan austur að Bárðargötu, erfið leið á stöku stað fyrir heimilisjeppann en hægari á hærri dekkjum. Hafa ber í huga að vaðið neðan við stífluna yfir útfallið á Hágöngulóni er ekki alltaf fært. Á þessari leið hafa Vatnamælingar borað 4 holur en þær eru flestar ónýtar til mælinga. Leiðin er að mestu utan þjóðgarðs. Hún er ævintýraleg og hefur auk þess það mikilvæga hlutverk að tengja hringleið um Hágönguhraun.

10. Leið frá Rauðhól austan Köldukvislar um Köldukvislarfitjar. Endar við slóðann sem liggur norður Vatnsleysuöldur. Á þessari leið er borhola Vatnamælinga.

11. Leið hjá Sáttmálsörkinni. Hún er hraunhella. Af henni standa 4x4m upp úr umhverfinu og hún er 40cm jafnþykk. Hún stendur bein upp á rönd og er merkilegt náttúruundur. Leiðin er ógreinileg. Eins og fyrr segir verða ferðamenn á Jökulheimasvæðinu að hafa í bílum sínum GPS-tæki og leiðasafnið tiltækt í því.

12. Bláfjöll, frá Dór yfir Bláfjöll að Bárðargötu. Yfir 50 ára gömul leið með glæsilegu útsýni og skemmtilegri komu að Dór í norðausturenda Gjáfjalla.

13. Leið frá Bárðargötu við fossinn Fleygi yfir á Dórleið. Þarna er mælahús með jarðskjálftamælum Veðurstofunnar. Þessi slóð er mjög greinileg og mikið farin. Hún skiptist í 2 hluta að vestanverðu þar sem nyrðri slóðin er með brattri og ævintýralegri malarbrekku niður til vesturs en torfær til austurs.

14. Veiðimannaleið og landsvirkjunarleið frá Þórisósi að Útigönguhöfða. Þetta er leið sem heimamenn nota. Á leiðinni eru 3 borholur.

15. Milli hrauns og hlíða. Leiðin er í foksandi. Mikilvæg flýtileið í Gjáfjallanes. Svæðið er allt frekar seinfarið og sums staðar afar seinfært. Það skiptir því miklu máli í skipulagningu ferða og vali leiða að eiga í viðlögum fljótlega millileið eins og þessa. Sporin á þessari leið hverfa þegar hvessir.

16. Leið frá Péturstorgi niður að Mána. Þessi leið fer hærra og veitir fjölbreytt útsýni þótt hún sé nokkru seinfarnari en leið 3.

17. Leið um Helgrindadal. Sviphreinn og nakinn sandadalur austan við fjallið Helgrindur. Öllum jeppum fær niður til suðurs. Frekar brött sandbrekka er ofan í dalinn. Ævintýraleg leið, skemmtileg og um leið mikilvæg tengileið sem gefur færi á að fara upp á Gjáfjöllin úr Gjáfjallanesi og svo hér niður til suður og í Heljargjá sunnan Gjáfjalla.

18. Styttingur í Veiðivatnahrauni. Þessi leið en stikuð af Sigurjóni Rist og félögum á sama hátt og Þórisóssleiðin með stikum sem grafnar voru niður með staurabor. Á hverri stiku er kross neðst í holunni. Þessi útbúnaður Sigurjóns virkaði eins og til var ætlast. Stikurnar hafa staðið í áratugi. Leiðin er meira notuð af Landsvirkjun og öðrum stofnunum en ferðafólk notar nyrðri leiðina.

19. Leið í Heljargjá norðan Gjáfjalla. Eitt meginerindi ferðamannsins norður yfir Gjáfjöll vestan Heljargjár er að komast að henni. Þessi leið liggur í hliðargjá sem ekki er full af hraunum en þaðan er örskammt að ganga að hraunagrautnum í Heljargjá norðan Gjálfjalla. Leiðin frá norðurhlíð Gjáfjalla liggur um harða mela.

20. Leið til Vatnsleysisöldu. Greið og ævintýraleg leið um mela og sanda sem tengir leiðanetið á þessu svæði. Nauðsynleg tengileið þegar farinn er hringurinn upp undir Syðri Hágöngu, upp með Sveðju og á leiðina frá Jökulheimum í Vonarskarð.

  6 leiðir sem vantar sunnan Tungnaár og sunnan Skaftár
Leiðir
sunnan
Tungnaár
og
sunnan
Skaftár
Lýst
leiðum
sunnan
Tungnaár

 

101. Leið suðvestur með Langasjó að norðan. Þetta er leið fær heimilisjeppanum uns virkjað verður eða Skaftá fer aftur að renna í Langasjó eins og hún gerði fram til ársins 1960. Þetta er ævintýraleg leið fyrir kletta sem ná út í vatnið og um stutt dalverpi sem enda í bröttum og sérkennilega vindsorfnum sandsteinsklettum og móbergsgiljum. Frábær valkostur við sandaleiðina suður Breiðbak.

102. Spennandi ævintýraleið eftir þröngum lækjarfarvegi norðan Faxa vestur á sandaflæmi við Tungnaá og að veiðihúsum við Botnlangalón.

103. Sérstök og ævintýraleg styttileið frá veginum að skála Útivistar, undir Mosfelli nærri Sveinstindi, fyrst eftir mel en síðan lækjarfarvegum að ármótum í Hvanngili þar sem ekið er norður með Hellnafjalli á Sveinstindsveg.

104. Þetta er einmuna spennandi og fjölbreytt leið um mela og jökulölduland jökulmegin við Skaftáreldahraunið. Hún opnast þegar Skaftá dettur niður á hausti - eða fyrr ef hún verður brúuð eða henni veitt í Langasjó. Alltaf er öllum jeppum fært að fara suður með Síðujökli og svo til suðvesturs að norðurenda Fremrieyra, þar yfir Brunná og á veginn eftir Fremrieyrum. Hann tengist veginum frá Miklafelli í Blæng.

105. Þessi leið er öll í þjóðgarðinum. Hún er ýttur vegur gegnum þetta ótrúlega torfæra og sögufræga Skaftáreldahraun sem fæstir komast annars staðar í verulega snertingu við. Þótt vegurinn sé í sjálfu sér vel fær er hann hvergi til hraðaksturs. Á honum leita allir ökumenn að hægfarnasta hraðastiginu. Þessi leið er auðvitað mjög skemmtileg sem tenging við leið 104 en til þess að það geti gengið þarf Skaftá að liggja frá klettunum nyrst frá Tröllhamri svo að unnt sé að aka þar upp - eða niður. Það er frekar sjaldgæft en fer þó allt eftir því hvernig framburðurinn í Skaftá hefur hlaðist upp í árfarveginum.

106. Þetta er fornfræg leið sem liggur frá bænum Skaftárdal norður á Leiðólfsfellsveg. Eigandi jarðarinnar sagði ritara að Vegagerðin hefði viljað bæta veginn fyrir nokkuð löngu - en ekki viljað gera neitt fyrir veginn yfir Skaftá heim að bænum. Það hafði farið illa í bóndann og samningar tókust ekki. Hann leiðbeindi fúslega um leiðina sem fyrst fer um nokkra mýri undir fjallsrótum en rennur svo upp klettahrygg, fer um hóla og hæðir og að lokum eftir þröngum læk á klettagólfi upp að veginum. Leiðin er öll vel fær heimilisjeppanum en nyti góðs af lagfæringu á vegamótunum við bæinn.

Eftir-
máli
Eftirmáli
Hugtökin
vegir og
utanvega
eiga ekki
við í
óbyggðum

Um takmörkun umferðar í óbyggðum
Það er mat ritara að ekki fari milli mála að um Jökulheimasvæðið eigi við ákvæði 19. greinar laga nr. 44/1999. Af samhengi og undanfarandi skilgreiningum er ljóst að ekki er gert ráð fyrir að í óbyggðum séu sérgerðir vegir og þurfi að takmarka þar umferð þá sé það tímabundið og vel rökstutt hverju sinni. Það væri auðvitað mikil eyðilegging á upplifunum ferðamanna á svæðinu ef farið væri að leggja þar vegi - auk þess sem þar væri komið upphaf á enn einni botnlausu peningahítinni - því veðurfar svæðisins eirir engu.

Tvö
megin
viðhorf
Um sjónarhorn
Sjónarmið manna eru auðvitað ólík að mörgu leyti en til vega mætti hugsanlega í grófum dráttum skipta ferðamönnum í tvo hópa - sem hér verða til aðgreiningar nefndir A-hópur og B-hópur.
A
-
fólk
Til A-hóps eru hér taldir þeir sem líta á bílaveg sem tengingu til náttúruperlu. Þeir láta sér gjarnan leiðast í bílnum og ekkert verður ferðar virði fyrr en komið er á áfangastað og njóta má náttúruperlunnar. Dæmigerð yndissvæði A-fólks eru staðir eins og Þórsmörk, Hornstrandir og fjöllin í Suðursveit.
B
_
fólk
Til B-hóps eru hér taldir þeir sem njóta ökuferðarinnar - vegna leiðarinnar sjálfrar, legu hennar og útsýnis til allra átta, vegna þess að vegurinn er spennandi og yfirferðin hæfir færðinni og víða má stoppa og skoða sig betur um eða una um stund - og snúa til baka ef augnablikinu hentar. Þótt yfirferðin sé oft mjög mikil er B-fólkið lítið þreytt og getur glaðst yfir hverju smáatriði allan daginn. Það þarf ekki að þreyta sig á göngum eða burði og stuttir fætur æskunnar, torgengi fatlaðra og bilaðir mjaðmaliðir ellinnar eru ekki til neinna vandræða. Dæmigerð yndissvæði B-fólksins eru nýjar og gamlar ævintýraslóðir, einnig um öræfi og óbyggðir. Jökulheimasvæðið lendir hjá því hátt á blaði eftir jafnvel stutta kynningu og verður sumum jafnkært og Hornstrandir eru hinum.
Varúð Óheppilegt er ef A-menn eru að meta ferðavirði leiða sem ekki einu sinni tengja saman neitt sem almennt er kallað náttúruperlur - svo sem algengt er á Jökulheimasvæðinu. Þeim er það aðeins tímasóun að skælast slíka braut. Þeir skynja ekki að leiðin sjálf er B-manninum samfelld náttúruperla og för eftir henni bæði munaður og lífsfylling sem mölur og ryð fá ekki grandað.
* B-fólk
Árið 1965 fór ritari ferð í Jökulheima. Einn samferðarmaðurinn var lamaður neðan mittis og hafði verið frá barnsaldri. Ákveðni vann bug á ótrú hans um að hann gæti komist í svona ferð vegna fötlunar sinnar. Allt gekk upp og upplifun hans varð sem himnasending og skaut iðulega upp í samtölum hans og tónlistarsköpun til dauðadags.
* Einn aldraður ferðafélagi ritara féll frá fyrir skömmu. Fáir Íslendingar hafa víðar farið innanlands og utan. Gönguþrek hans var yfir efstu mörkum og í óveðrum skemmti hann sér. Við fyrstu kynnin var hann orðinn liðlega áttræður og ógangfær eftir tvö áföll. Alla æfi hafði hugur hans verið í ferðum og til fjalla en nú gat líkaminn ekki lengur drýgt fyrri dáðir. Síðasta áratuginn sem hann lifði var hann oft farþegi í heimilisjeppum um sveitir landsins og fjöll og firnindi. Þetta var eini ferðamátinn sem dugði honum, ferðamáti sem gaf honum svo sannarlega framhaldslíf.
* Flestir eiga einhvern ævitíma þegar þeim hentar vel að vera A-menn. Þann tíma eru þeir sannfærðir um að þeir verði aldrei B-menn. Þeir muni einfaldlega hætta að hafa áhuga á því að fara til óbyggða þegar líkaminn hættir að vera til afreka. Engan fyrrverandi A-mann hef ég enn hitt sem hugsar þann veg. Allir taka þeir glaðir við sér þegar þeim gefst færi á að koma með í B-ferð.
95%
Íslend-
inga
í
banni

??

Þeir sem ekki deyja í blóma lífsins eiga allir sína tíma takmarkaðrar færni. Stundum vegna æsku, veikinda, fötlunar, bæklunar eða elli. Stundum vegna lítils frítíma frá launavinnu, heimilishaldi, ómegð, umönnun sjúkra, fatlaðra, aldraðra, skyldra og óskyldra. Stundum einfaldlega vegna þess að þeir vilja ekki auka þrek sitt og úthald og stunda þjálfun sem stefnir á allt að því ólympisk markmið. Í þessum hópi eru sjálfsagt vel yfir 90% Íslendinga. Ef leiðir öræfa og óbyggða verða lokaðar bílum verða þær þar með bannaðar öllu B-fólki.

Ritari er B-maður.
* Með kveðju,
Undirskrift: Gísli Ólafur Pétursson
 
Þessar athugasemdir verða sendar í netpósti á uppgefið netfang: [email protected]
og einnig lagt útprentað inn til skrifstofunnar á Klapparstíg 25-27 í Reykjavík.

Athugasemdirnar - þessa samantekt -
má sækja hér á pdf-formi >> http://www.gopfrettir.net/skrar/GOP_AthsVidVjplan.pdf

Tvær fylgiskrár

Vonarskard.pdf
verði skráin viðskila sækist hún hér >> http://www.GOPfrettir.net/skrar/Vonarskard.pdf 
Þú getur skoðað hér vef sama efnis >> Vonarskard 

EinkenniJstada.xls
Heitið er skammstöfun á: EinkenniJökulheimaStaða. Í skránni eru gefnar staðsetningar og ýmis lykilatriði um leiðir og örnefni staða sem tengjast lýsingu leiðanna.

Verði skráin viðskila sækist hún hér >> http://www.GOPfrettir.net/skrar/EinkenniJstada.xls 
* * *

>> Efst á þessa síðu * Forsíða