GÓPfréttir
Forsíða


 

Guðrún Gísladóttir
bókavörður Orkustofnunar 1952-1990

Þurfti að finna
eigin lausnir
á öllum vandamálum í safninu


Guðrún Gísladóttir

Viðtal
dr. Sigrúnar Klöru Hannesdóttur

við Guðrúnu Gísladóttur
fyrir ársritið Bókasafnið árið 2010.

 

Viðtalið er hér á pdf-formi
- eins og það birtist í tímaritinu -
með góðfúslegu leyfi ritstjórnar þess. 

 

Bókasafnið
er
fagtímarit
Upplýsingar
Bókasafnið
er fagtímarit á sviði bókasafns- og upplýsingafræða og hefur komið út frá árinu 1974. Útgefandi er Upplýsing - Félag bókasafns- og upplýsingafræða.

Tímaritið er ársrit og gefið út í apríl/maí ár hvert og sérstök ritnefnd hefur veg og vanda af útgáfu þess.

Dr. Sigrún Klara Hannesdóttir.
Myndin er tekin á alþjóðlegu móti The Delta Kappa Society í Noregi 2009.
Dr. Sigrún var einn af stofnendum þeirra samtaka hér á landi árið 1975 - um það leyti sem fyrstu Evrópufélögin voru stofnuð. Hún hefur gegnt ýmsum embættum fyrir samtökin á alþjóðavettvangi og var til dæmis fyrsta Evrópukonan til að gegna embætti varaforseta. Á þessu þingi var hún heiðruð fyrir framlag sitt og þá hafði aðeins einn einstaklingur áður hlotið þann heiður í sögu Evrópusamtakanna sem eru að verða fertug. 
Delta Kappa samtökin voru upphaflega stofnuð í Bandaríkjunum árið 1929.
Ritari þakkar dr. Sigrúnu fyrir að fá að nota þessa glæsilegu og minnisverðu mynd
.

Viðtalið er hér á pdf-formi eins og það birtist í tímaritinu.

Guðrún Gísladóttir
1957

Ég var að endur-finna
þessa mynd 
- sennilega tekin 1957 á
Orkustofnun,
Laugavegi 118 
í húsi Egils Vilhjálmssonar: 
(ALLT Á SAMA STAÐ!)

Kveðja, Jaggi 
(Jakob Jakobsson 
- 13. nóv. 2002)

 

 

Ath!
Innskot
GÓP
Í viðtalinu - hér fyrir neðan - eru myndirnar stærri og heldur fleiri - og auk þess hefur ritari til glöggvunar skotið inn upplýsingum um breytingu heitis stofnunarinnar úr Raforkumálaskrifstofan í Orkustofnun árið 1967 - sama ár og Guðrún lauk námi í bókasafnsfræðum. Atriðisorð í vinstri dálki setti GÓP.
* Þurfti að finna eigin lausnir
á öllum vandamálum í safninu

Sigrún Klara Hannesdóttir ræðir við Guðrúnu Gísladóttur,
elsta núlifandi bókasafnsfræðinginn

F.
1920
Guðrún Hólmfríður Gísladóttir fæddist á Eyrarbakka 5. september 1920. Foreldrar hennar voru Gísli Ólafur Pétursson læknir og Aðalbjörg Jakobsdóttir kona hans.

Systkinin heima við héraðslæknishúsið á Eyrarbakka 1934.
Jakob, Guðmundur, Sigurður, Guðrún, Ketill, Pétur og Ólafur.
* „Við vorum sjö systkinin, sex bræður og ég og á heimilinu var líka yngri fóstursystir. Eldri fóstursystir mín og systir dóu úr veikindum þegar ég var fimm ára. Einn bróðir minn var Jakob Gíslason sem var orkumálastjóri um langt skeið. Heimilið var mjög gestkvæmt og alltaf nóg rými fyrir gesti og gangandi.“
Krókótt
námsleið
Þegar Guðrún ætlaði að hefja nám í framhaldsskóla voru ekki margir kostir í boði, einkum fyrir börn sem búsett voru í dreifðum byggðum landsins. Þá var ekkert landspróf og í raun engin inntökupróf í menntaskóla nema í 1. bekk svo það gat verið flókið að komast inn. Það varð því úr að hún fór með frænku sinni Bergljótu Haralz, dóttur Aðalbjargar Sigurðardóttur, til Ísafjarðar til að undirbúa sig undir menntaskólanám. Þar var hún einn vetur í gagnfræðskóla Lúðvíks Guðmundssonar á Ísafirði. Þeir sem útskrifuðust hjá Lúðvík gátu síðan komist til Ágústs H. Bjarnasonar í Gagnfræðaskóla Reykvíkinga og áfram beint í 4. bekk í M.R. og það var leiðin sem Guðrún fór. Hún hóf nám í fjórða bekk menntaskólans árið 1937 og fór í stærðfræðideild, en þá voru bara tvær deildir í M.R., máladeild og stærðfræðideild. Ætlun Guðrúnar var að útskrifast sem stúdent 1940 en hún gifti sig árið 1939 og var maður hennar Pétur Sumarliðason, kennari. Það setti svo strik í reikinginn að fyrsta barn hennar fæddist 1940 og það seinkaði því að hún lyki stúdentsprófinu um eitt ár. Stúdent varð hún því 1941.

„Ég hef þess vegna tilheyrt tveimur útskriftarárgöngum en ég þekkti betur þá nemendur sem útskrifuðust árið á undan mér enda hafði ég verið með þeim í nærri þrjá vetur. Við í árganginum frá 1941 höfum lengi hist reglulega, fyrsta þriðjudag í mánuði. Fyrst voru þetta heimboð en það var alltof mikil fyrirhöfn og of mikið álag á þá sem tóku á móti hópnum á hverjum tíma. Nú hittumst við á Grand Hótel og þá koma bara þeir sem vilja og það er engin fyrirhöfn fyrir hvern og einn.“

Eftir að drengurinn fæddist fór Guðrún með hann austur á Eyrarbakka. Þar var stórfjölskyldan og alltaf nóg rými fyrir ný börn. Þar skildi hún drenginn eftir og fór til Reykjavíkur til að ljúka stúdentsprófinu. Eftir stúdentsprófið tóku við enn meiri barneignir og 1944 voru strákarnir orðnir þrír. Svo fæddist sá fjórði 1949 - og að lokum dóttir árið 1961. Einn vetur kenndi Guðrún stærðfræði í Kvennaskólanum, en það var ekki auðvelt að vinna úti því þá voru engin barnaheimili.

1945 var Rafmagns-eftirlitið
til húsa í gamla pósthúsinu við Austurstræti
Á stríðsárunum var talið gott að koma krökkum í sveit og þá gat hún komið strákunum sínum fyrir og þegar þeir voru farnir í sveitina fór hún að svipast um eftir sumarvinnu. Guðrún leitaði þá til Sigurðar Thoroddsen verkfræðings og spurðist fyrir um sumarstarf. Það var dálítið skondið að hann útvegaði Guðrúnu vinnu hjá Rafmagnseftirliti ríkisins, hjá bróður hennar, án þess að hann vissi fyrirfram hver var umsækjandinn!
1946 Rafmagnseftirlitið fluttist að Laugavegi 118 og varð deild í Raforkumálaskrifstofunni sem þá var stofnuð.
Úr
útreikn-
ingum

 

í

 

bækurnar

 

 

UDK

Hvað gerðir þú fyrst á Raforkumálaskrifstofunni?

„Á þessum tíma voru miklar mælingar í gangi á hálendinu og síðan þurfti að reikna út mælingarnar til að hægt væri teikna eftir þeim og búa til kort. Þetta var mjög gott starf fyrir mig og ég gat gert alla þessa útreikninga heima. Ég reiknaði síðan út hvað þetta tók mig langan tíma og ég fékk síðan út á það svolitla kauphækkun. Seinna fékk ég vinnu við að teikna kortin.“

„Fljótlega var mér falið að athuga um bækur stofnunarinnar. Bókasafnið var í einu horninu á teiknistofunni, en stofnunin hafði keypt mikið af bókum til að styðja við starfsemina. Margir fræðimenn komu til að vinna á Raforkumálaskrifstofunni eftir stríðslok og því var keypt efni sem þeir þurftu á að halda við sína vinnu. Bókasafn stofnunarinnar var þó ekki stórt, en strax var reynt að hafa reglu á safninu og fylgjast með innkaupum. Raforkumálaskrifstofan hafði keypt þýska kerfið UDK, sem var mjög flókið, en eins og allir bókasafnsfræðingar vita byggir þetta kerfi á Dewey en notar formgreinarnar öðruvísi. Ég byrjaði samt að reyna að flokka bækurnar eftir þessu kerfi og koma skikki á safnið. En þetta var bara ígripavinna hjá mér í byrjun.“

Björn
Sigfússon
kannar
bókasöfn
ríkis-
stofnana
Svo gerðist það að Björn Sigfússon háskólabókavörður fékk það verkefni að fara í ríkisstofnanir og kanna hvernig ástandið væri á bókasöfnum þeirra. Hann kom á Orkustofnun og var undrandi að Guðrún skyldi nota þetta þýska kerfi og hrósaði henni fyrir að hafa komið því í notkun. Eftir úttekt Björns kom svo að því að ríkisstofnanir voru skyldaðar til að ráða einhverja til starfa til að annast bókasöfnin. Ástandið var með besta móti á Hafrannsóknarstofnun þar sem Óskar Ingimarsson var umsjónarmaður með safninu og Veðurstofunni þar sem Svanlaug Baldursdóttir vann, auk Raforkumálaskrifstofunnar. Eftir þetta var Guðrún ráðin í fasta vinnu við bókasafnið.
 

 

Í
nytsamt
réttinda-
nám

En hvernig stóð á því að þú fórst að læra bókasafnsfræðina?

„Þegar ég var komin með bókasafnið á mína ábyrgð var Svanlaug Baldursdóttir nýbúin í náminu en hún var fyrsti útskrifaði bókasafnsfræðingurinn frá Háskóla Íslands 1964. Ég man sérstaklega eftir viðtali við hana sem vakti athygli mína á þessu námi. Mér fannst þetta spennandi og auk þess fannst mér ég þurfa að bæta við þekkingu mína til að sinna starfinu betur. Annað mál var að þegar ég var að byrja með bókasafnið máttu stofnanir ekki borga fólki almennilega sem ekki hafði próf í þeirri grein sem það vann við. Ég var svo heppin að stofnunin var jákvæð í minn garð og óskaði eftir því að ég lærði til starfans. Þar sem þetta nám var samkvæmt beiðni fékk ég að sækja tímana í vinnutímanum. Jakob Björnsson sem þá var orkumálastjóri hvatti mig til þess að fara í skóla og afla mér réttinda. Ég fór því og sat í tímum hjá Birni Sigfússyni og Ólafi Hjartar.“

Loka-
verkefni:
Tímarita-
skrá

Lauk
bókasafns-
fræðinni
1967

„Á þessum tíma voru aðalfögin flokkun og skráning. Við lásum Bókasafnsritið sem þeir höfðu samið, Björn og Ólafur. Við fundum okkur auk þess bækur og lásum um prentsögu og annað sem við gátum náð í. Björn var fróður um alla hluti. Hann hafði farið út og skoðað söfn á Norðurlöndunum og hann var mjög vel respekteraður af kollegum sínum á öðrum háskólasöfnum. Ólafur Hjartar hafði lært í Bretlandi og kenndi flokkun og bókfræði. Þegar ég fór í námið taldi Björn að ég þyrfti ekki að fara í námsvinnu því ég ynni á bókasafni, en þetta var ekki rétt hjá honum því ég hefði haft gott af að sjá hvað verið var að gera í öðrum söfnum. Tímarnir voru á eftirmiðdögum og laugardögum svo þetta hentaði vel með vinnu. Kennslan fór fram í Benediktssafni sem var hluti af Háskólabókasafninu. Lokaverkefni mitt í bókasafnsfræðinni var skrá um tímaritakaup í ríkisstofnunum og því lauk ég 1967. Ástandið var mjög bágborið víða og þetta verkefni varð svo að grunni að samskrá um erlend tímarit sem síðan var stækkuð og náði til fleiri stofnana. Eflaust hef ég hrist upp í einhverjum stofnunum með þessari könnun minni.“ 
1967
Orku-
stofnun
Þann 29. apríl árið 1967 afgreiddi alþingi Orkulög (58/1967).
Þau tóku gildi 1. júlí 1967.
Þar með breyttist nafn stofnunarinnar
úr Raforkumálaskrifstofan í Orkustofnun
Jarð-
fræði
Þótt Guðrún væri búin að taka þrjú stig í bókasafnsfræðinni var hún samt ekki með tilskilin réttindi því hún þurfti að ljúka formlegu háskólaprófi eða að minnsta kosti B.A.-prófi. Hún skráði sig þá fyrst í dönsku, en þar var skyldumæting svo það gekk ekki. Um þetta leyti, eða 1969, hófst kennsla í jarðfræði og þá lá beint við að hún færi í jarðfræði þar eð kjarni safnsins voru jarðfræðibækur. Guðrún tók því tvö stig í jarðfræði. Aðalkennarinn var á þessum tíma Sigurður Þórarinsson og hún segir að það hafi verið mjög gaman í jarðfræðinni og námið kom sér einnig mjög vel fyrir það verk sem Guðrún var að vinna á Orkustofnun.
Bók-
menntir
Á þessum tíma var B.A.-prófið fimm stig en verið var að breyta því þannig að það þurfti sex stig og annað hvort tvær B.A.-ritgerðir eða eitt stig í þriðju greininni. Þórhallur Vilmundarson var þá deildarforseti í heimspekideild og var gamall bekkjarbróðir Guðrúnar. Hún sótti um að fá að ljúka B.A.-prófinu eftir gamla kerfinu og skrifaði deildarforseta bréf um málið enda fannst henni ekki henta sér að skrifa lokaritgerð í jarðfræði.
BA-próf
1972
En beiðni hennar fékk neikvæðar undirtektir og þá þurfti hún enn að finna nýja grein til þess að ljúka prófinu. Álfrún Gunnlaugsdóttir var þá að byrja að kenna almenna bókmenntafræði og Guðrún tók þá ákvörðun að skrá sig í bókmenntirnar. Hún segist alltaf haft bækur í kringum sig og þetta nám þótti henni sérstaklega skemmtilegt. B.A-prófinu lauk hún svo 1972 enda þótt B.A.-ritgerðin hafi verið unnin 1967 og því númer tvö af þeim sem útskrifast hafa frá Háskólanum.
* Hvað vannstu lengi á Orkustofnun?

Guðrún og Siglinde Sigurbjarnarson bókavörður.
1952
-
1990
„Það var nú ekki alveg ljóst, því eins og ég sagði þér þá byrjaði ég í lausavinnu við útreikninga á mælingum og síðan teikningar. Þegar farið var að reikna út lífeyrissjóðsréttindi mín þá var miðað við árið 1952, en ég var viðloðandi stofnunina fyrir þann tíma, þótt ég hafi ekki verið á bókasafninu.“

Sigríður Valdimarsdóttir, Ingibjörg Gísladóttir, Erla Sigþórsdóttir
og Guðmunda Andrésdóttir sem lítur til Guðrúnar sem myndar
.
Lausna-
smíði
„Það var nokkuð merkilegt við þetta starf, að við urðum að finna lausnir á öllum vandamálum sem upp komu í skipulagningu og rekstri safnsins. Ég gat ekkert leitað því þekking á þessu sviði var mjög á byrjunarstigi á landinu. Skipulagning á Bókasafni Orkustofnunar var því mikill skóli fyrir mig. Stundum gat ég fengið aðstoð á sumrin einkum við utanumhald með tímaritunum. Ég fann upp á því að sérfræðingarnir hefðu sín tímarit hjá sér og báru þá ábyrgð á þeim. Síðan voru þau sett í geymslu. Ég hélt því fram að bókasafn í tæknistofnun þyrfti ekki að vera stórt ef geymslan væri góð og vel skipulögð.“

Siglinde horfir til Helgu Sveinbjörnsdóttur, tækniteiknara.
Jón Ingimarsson, verkfræðingur, blaðar í kortum.
Margt
getur
skemmti-
legt
skeð
„Efnafræðingar og aðrir fræðimenn á rannsóknarstofnunum Háskólans höfðu ekki aðgang að miklum bókakosti á sínum vinnustað en gátu nýtt sér safnið hjá mér. Margir voru að vinna mjög merkileg frumkvöðlaverkefni á þessum tíma. Má þar nefna Sigurð V. Hallsson sem vann miklar rannsóknir á þaraþurrkun og kom að stofnun Þaravinnslunnar á Reykhólum og Baldur Líndal efnaverkfræðingur sem var aðalmaðurinn í rannsóknum á vinnslu á kísilgúr. Þarna var því um hreina efnafræði að ræða og þeir þurftu mikið af bókum og fengu aðstöðu hjá Orkustofnun. Bækurnar urðu svo eftir hjá okkur þegar þeir fóru.“

„Ég man líka eftir ungum verkfræðingi sem kom til okkar. Hann hafði verið í framhaldsnámi í England en kom svo til mín og bað mig að útvega sér sérstaka gamla bók. Hann gat lesið bókina á British Museum en ekki fengið hana lánaða. Hann hafði reynt að fá hana lánaða í millisafnaláni en hafði ekki haft erindi sem erfiði og hafði svo frétt að hægt væri að fá bækur í millisafnaláni í gegnum Háskólabókasafn. Ég sagði honum að ég héldi að bókin væri á safninu og það stóð heima. Í Bretlandi hafði hann ekki getað fengið aðgang að þessari bók en svo var hún bara í bókasafninu hjá okkur!“

„Mér fannst uppbygging safnsins takast mjög vel og ég man eftir því að ég hringdi einhvern tíma í Björn Sigfússon og spurði hann um rit. Hann svaraði því til að væri ritið ekki til hjá okkur þá væri það ekki til á landinu. Margir komu til að nota safnið og engum var vísað frá.“

Námsdvöl
í
Danmörk
1968
Guðrún fór í tveggja mánaða námsdvöl á Tæknibókasafnið í Danmörku árið 1968 og fannst gott að finna að þar voru sömu vandræðin og á litla safninu hennar þó þar væru sérfræðingar á hverju strái. Sérfræðingar sáu t.d. um að velja bækur í safnið og þarna voru haldnir bókavalsfundir fyrir allar sérgreinarnar. Bókaverslanir sendu bækur í safnið og menn gátu ákveðið hvað átti að kaupa með bækurnar fyrir framan sig. Hjá Orkustofnun völdu sérfræðingarnir sjálfir bækurnar og safnið sá svo um að kaupa þær inn. Hins vegar var oft erfitt að eiga við tollinn. Guðrún þurfti að fara á staðinn og gera grein fyrir hverri bók sem kom og svo þurfti að ákveða hvernig ætti að tolla þær. Í þetta fór gríðarlegur tími.

Á bókasafninu. Guðrún við símann. Erla Sigþórsdóttir með bollann og Páll Ingólfsson, landfræðingur, sem ráðinn var ritsjóri að skýrslum stofnunarinnar.
Skýrslur
Orku-
stofnunar
Annað mál sem Guðrún þurfti að sjá um voru skýrslurnar sem Orkustofnun gaf út. Mikil vinna fór í að halda utan um þær. Reynt var að draga úr útgáfu á öllum þessum skýrslum og loks var kosin nefnd til að ákveða hvort tiltekið efni skyldi gefið út í skýrslu eða ekki Síðan var Páll Ingólfsson landfræðingur ráðinn ritstjóri að skýrslunum. Guðrún var mjög ánægð með þá ráðstöfun og segir að hann hafi verið einstaklega góður starfsmaður og nákvæmur. Tekin var ákvörðun um staðlað og sérhannað útlit fyrir hvern flokk og síðan var auðveldara fyrir safnið að annast þær.
Skjala-
varsla
„En skjalamálin hvíldu líka á mér. Það var mikið að gerast í skjalamálunum á Norðurlöndunum á þessum tíma. Rafmagnsveitur á Norðurlöndunum höfðu unnið sameiginlega að uppbyggingu skjalakerfis og norrænn sérfræðingur kom til okkar til skrafs og ráðagerða. Ég var send út til að kynna mér notkun á kerfinu og fór þá bæði til Danmerkur og Noregs. Niðurstaða mín var sú að kerfið væri ágætt en passaði ekki fyrir Orkustofnun sem ekki var rafveitusafn. En uppbygging kerfisins var mjög handhæg og mér tókst að laga það að efni stofnunarinnar.
Nyt(?!)
samt
verkfall
Á Orkustofnun var mikið til af gömlum gögnum sem þurfti líka að gera til góða en lítill tími til að sinna því verkefni. Eitt árið var ég svo heppin ef svo má segja að á skall langt verkfall hjá starfsmönnum BSRB. Meginhluti starfsemi stofnunarinnar lagðist niður og ég var ein á bókasafninu. Ég tók þá öll gömlu skjölin og skráði þau, merkti og kom þeim inn í kerfið enda gat ég unnið að þessu án truflana.“
Faglegt
samstarf
Hvernig var samvinnan hjá ykkur í sérfræðibókasöfnunum?

„Við héldum mikið saman, þessi svokallaði náttúrufræðihópur, bæði þau sem unnu á Keldum og á Hafrannsókn. Það þurfti að ráða fram út alls kyns vandamálum og gott að geta haft samvinnu og samstarfið var ákaflega gott hjá þessum hópi. Tölvuleitirnar voru að byrja og þar var Kristín H. Pétursdóttir ein af forvígismönnunum þegar hún kom úr sínu framhaldsnámi frá Bandaríkjunum. Ég veit að yfirlæknirinn á Borgarspítalanum hafði miklar áhyggjur af því að hafa ekki læknisfræðibókasafn en svo kom Kristín og innleiddi þar alls kyns nýjungar.“

Félags-
mál
Hvað með félagsmál stéttarinnar. Tókstu ekki þátt í þeim?

„Ég gekk fljótlega í Bókavarðafélagið og ég man að þar var Ólafur Hjartar mjög virkur, en ég var ekki sérlega virk til að byrja með. Ég var þó í stjórn 1964-1970. Ég man líka að árið 1968 fóru fjórir fulltrúar frá Íslandi til Bergen til að taka þátt í 11. norræna bókavarðaþinginu en auk þess reyndi ég að sækja ráðstefnur og þing eins og kostur var. Ég var líka í stjórn Félags bókavarða í rannsóknarbókasöfnum 1975-1977. En svo stofnuðum við Félag bókasafnsfræðinga árið 1973 og ég var einn af stofnfélögum þess félags og í fyrstu stjórn þess. Íslenskufræðingarnir vildu ekki viðurkenna þetta félag og ég man að Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður átti það til að tala niður til okkar og sagði gjarnan „væna mín“ ef honum fannst við of kröfuharðar enda flestar konur. Ég held ég hafi verið frekar respekteruð vegna þess að ég var búin að vera svo lengi í þessu fagi og líka eldri en hinir stofnfélagarnir. Við reyndum að útskýra fyrir þeim að við værum bara að reyna að styrkja okkar réttindi en vildum ekki standa í neinu stríði við þá. Enginn efast um það lengur að það þurfi menntun í bókasafnsfræði til að sinna safnstörfum. Skjalastjórar eru núna mjög virkir og ég var stofnfélagi í Félagi um skjalastjórn. Það hefur líka verið misskilningur um að skjalamálin snúist alfarið um gömul skjöl. Það þarf ekki síður að halda vel utan um ný skjöl. En vissulega er þetta smám saman að verða viðurkennt.“

Kven-
réttinda-
mál
Þú varst mjög virk í kvenréttindafélaginu líka. Hvernig kom það til?

„Ég var mjög lengi í Kvenréttindafélagi Íslands. Móðursystir mín, Herdís Jakobsdóttir, var fyrsti formaður Sambands sunnlenskra kvenna árið 1928 og í gegnum störf hennar kynntist ég kvenréttindamálum. Ég byrjaði sem ritari á fundum hjá henni og komst því vel inn í málin og þegar ég flutti til Reykjavíkur 1944 gekk ég í Kvenréttindafélagið og var í stjórn þess frá 1952 og sat landsfundi félagsins. Á þessum tíma gátu allir stjórnmálaflokkar sem áttu menn á þingi tilnefnt fulltrúa í stjórn Kvenréttindafélagsins. Tvö baráttumál okkar má nefna hér, en það var að fá sömu laun fyrir sömu vinnu og síðan að konur fengju að hafa aðskilið skattaframtal. Þessi sameiginlegu skattaframtöl löttu konur til að fara út að vinna því það hækkaði skattinn á eiginmanninum. Á vegum Kvenréttindafélagsins fór ég einu sinni á svokallaða Eystrasaltsviku sem haldin var í Austur-Þýskalandi. Þar hitti ég Bruno Kress sem var gamall kennari minn og hann var okkur innan handar með þýskuna. Ég átti að segja fréttir frá Íslandi en þá var nýbúið að samþykkja lög þess eðlis að allir ættu að fá sömu laun fyrir sömu vinnu. Þetta vakti mikla athygli og ég var mjög hissa að sjá að við vorum framarlega í þessu málflokki. En samt er enn verið að ræða um kvennastörf og karlastörf hérna hjá okkur. Enn má nefna eitt stórt mál í réttindabaráttunni. Á Orkustofnun og fleiri ríkisstofnunum var komið upp því sem kallað var óunnin yfirvinna. Þessa óunnu yfirvinnu fengu karlarnir fyrst og fremst og sagt var að þeir fengju þessa tíma fyrir að lesa sér til og halda við þekkingu sinni. Ég sagðist nú aldeilis þurfa að lesa mér til ekki síður en þeir og svo var tekið tillit til þess og ég fékk þessa óunnu yfirvinnu líka - og seinna fengu allir hana.“

Guðrún hefur komið víða við og hún var t.d. í stjórn Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna og í nefnd til að undirbúa Kvennafrídaginn 1975 og Kvennavikuna 1980.

Heiðurs-
félagi
Þessi frumkvöðull í stétt bókasafnsfræðinga hefur hlotið margvíslegan heiður fyrir lífsstarf sitt. Má þar nefna að hún er heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands og í Félagi um skjalastjórn og hún var ennfremur gerð að heiðursfélagi í Bókavarðafélagi Íslands árið 1997.

Það hefur verið gaman að horfa til baka með Guðrúnu og rifja upp hversu mörg og flókin verkefni þurfti að leysa á frumbýlingsárum rannsóknarbókasafns fyrir 50 árum. Hvernig leita þurfti lausna fyrir notendur safna fyrir tíma tölvuvæðingarinnar, án netsins og án allra þeirra þæginda sem okkur finnst sjálfsagt að séu við hendina núna til að létta okkur störfin. Við þökkum Guðrúnu fyrir spjallið og óskum henni til hamingju með stórafmælið sem verður seinna á árinu 2010.

Stuttur
útdráttur
á
ensku
Abstract

Had to find own solutions to all the library problems

Gudrun Gisladottir, who will be 90 later this year, describes her life and career. She finished secondary school in 1941 but for family reasons she had to postpone further education and care for her four boys. In the early 1950s she was employed by the Icelandic Energy Institute to work with mapping out energy resources of the highlands of Iceland. Gradually she became involved with the library which she classified according to a German version of the UDK (Universal Decimal Classification) system. This was the beginning of systematic organization of special libraries in Iceland. Gudrun enrolled in the University of Iceland in 1964 to study librarianship and finished her studies with the creation of a union catalogue of research journals in government institutions. As one of the pioneers in Icelandic research librarianship she had to develop her own solutions to all issues that came up in her library. Gudrun became a founder of the Association of Professional Librarians in 1973 and the Icelandic Records Management Association –IRMA in 1988. She has received honorary membership from Upplysing - The Icelandic Library and Information Science Association as well as the Icelandic Women’s Rights Association.
*

2000

Gudrun Gísladóttir 2000

Guðrún Gísladóttir 2000
Mynd: Jakob Jakobsson

Til baka > Guðrún Gísladóttir  * Efst á þessa síðu * Forsíða