7. mars
Myndina |
ritaði í Morgunblaðið þriðjudaginn 7. mars árið 2000 - undir efnisheitinu LISTIR - um Jón úr Vör og hefur veitt GÓP-fréttum góðfúslegt leyfi til að birta það. |
Myndin af Jóni úr Vör er tekin um 1946 þegar hann var 29 ára og gaf út ljóðabókina Þorpið |
Þorpið
eftir Jón úr Vör er meðal helstu bókmenntaverka liðinnar aldar. Jón úr Vör sendi frá sér margar aðrar ljóðabækur og stundum gat það angrað hann að menn sáu einkum Þorpið og héldu áfram að ræða um það, en smám saman varð honum ljóst að Þorpið (1946) og önnur þorpsljóð hans sem síðar komu - voru höfuðverk hans. Fyrir jólin í fyrra kom Þorpið í nýrri útgáfu með lýsingum eftir Kjartan Guðjónsson listmálara. Þorpið, sem er órímaður ljóðabálkur um þorp skáldsins, Patreksfjörð, vakti snemma athygli og menn kunnu að meta það þótt margir söknuðu í fyrstu ríms og stuðla. Þetta er fyrsta órímaða ljóðabókin - sé Flugur Jóns Thoroddsens undanskildar, en þar er fleira að finna. |
Jón úr Vör hafði dvalist í
Svíþjóð ásamt Bryndísi, konu sinni, og þar kynntist hann órímuðum ljóðum. Einkum
voru það ljóð öreigaskáldanna sænsku sem höfðuðu til hans, en meðal þeirra voru
Artur Lundkvist og einkum Harry Martinson en sá síðar nefndi skipti mestu máli
fyrir þroska Jóns.
Ýmis sænsk skáld sem síðar komu, eins og Erik Lindegren og Gunnar Ekelöf, voru ekki af þeim skóla sem Jón tileinkaði sér og hann var að minnsta kosti á tímabili andsnúinn þeim og stefnu þeirra. | |
Heimur kreppuáranna,
fátæktarinnar og stritsins, voru helstu yrkisefni Þorpsins. Jón lét sér
yfirleitt nægja að spegla þennan heim, draga upp myndir sem lesandinn gat síðan
ráðið í. Þorpið er þó ekki laust við stéttabaráttu, enda var Jón einn
hinna "rauðu penna". Kristni E. Andréssyni verður aftur á móti tíðrætt um - í
bókmenntasögu sinni, Íslenskar nútímabókmenntir, að Jón sé rómantískur í
Þorpinu og þykir hann ekki nógu skeleggur í baráttunni og ádeilunni. Kristinn hefur nokkuð til síns máls, en það er fremur eftirsjá en rómantíska sem bregður fyrir í Þorpinu. Skáldið getur ekki kastað uppruna sínum á glæ. Niðurstaðan er sú að það verður aldrei bylting í þorpi. | |
Í Með
örvalausum boga (1951) eru fleiri þorpsljóð, viðbót
sem síðan birtist í annarri útgáfu Þorpsins 1956. Lokaorð frá höfundi segja allt sem máli skiptir um ljóðin:
Þetta er vissulega óvenjulegt um ljóð. Segja má að Jón hafi með Þorpinu og fleiri bókum sínum verið einna fyrstur til að stunda markvisst heimildaskáldskap. | |
Einfaldleiki og innileiki
einkenndu ljóð Jóns og einnig má segja að hann sé líka höfundur "opinna ljóða"
sem síðar áttu eftir að vera áberandi, ekki síst í nágrannalöndum okkar. Jón hafði ímugust á tilgerð og upphafningu og þess vegna gat hann ekki sætt sig við súrrealísk ljóð. Hversdagsleikinn, samtíminn, áttu að hans dómi að vera yrkisefni skáldanna. Raunsæið átti að vera í fyrirrúmi. Hinn einfaldi hversdagsmaður að vera höfuðpersónan. | |
Í þeirri endurnýjun íslenskrar
ljóðlistar sem hófst með Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr, flókið
myndmál og óljóst eins og hjá Hannesi Sigfússyni og fleirum var Jón úr Vör ekki
sá sem byggt var á þótt yngri skáld viðurkenndu hann og dáðu. Hann var áfram
trúr sinni öreigastefnu. Engu að síður fór að bera á heimspekilegum ljóðum hjá
honum, m.a. í Með örvalausum boga og ljóðum með trúarefni samanber
Altarisbergið (1978). Jón orti mikið út frá kristilegum efnum. Sé það dregið
saman er það stór hluti verka hans. Kristileg efni hafa verið honum hugleikin en
kristið skáld er hann varla í venjulegri merkingu orðsins. Hann er hins vegar skáld vonar, "veikrar vonar" eins og hann yrkir um í Altarisberginu. | |
Síðustu ljóðabækur Jóns úr Vör, eins og Vetrarmávar (1960), Maurildaskógur (1965), Mjallhvítarkistan (1968), Regnbogastígur (1981), Gott er að lifa (1984) og fleiri bækur, geyma mörg ljóð sem lesendur ættu að geta tileinkað sér. Visst óþol og efasemdir koma fram í þessum bókum, t.d. Maurildaskógi og Mjallhvítarkistunni. Tónninn getur orðið nokkuð þungur og dimmur. | |
Jón gaf ekki út ný ljóð eftir Gott er að lifa en eflaust hefur hann átt efni í margar bækur. Heilsan var tekin að bila. Gott er að lifa var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og þótt hún hefði mikla möguleika varð önnur bók ofan á. Þetta urðu Jóni vonbrigði. | |
Ljóst var að hér heima var mat
manna á skáldskap Jóns úr Vör takmarkað. Það var að mestu bundið við Þorpsljóðin
en minna hirt um aðrar bækur skáldsins. Erlendir bókmenntamenn sem hingað komu
undruðu sig á þessu. Þeir litu margir á Jón sem eitt helsta skáld Íslendinga.
Annars staðar á Norðurlöndum var hann í miklum metum og mikil virðing borin
fyrir honum. Þeir eru ófáir, erlend skáld og bókmenntamenn, sem heimsóttu Jón, nutu gestrisni þeirra hjóna og fræddust af honum um sjálfan hann og íslensk efni. Margir fóru ánægðir af þeim fundi. Það kom þeim á óvart hvað Jón var vel að sér um norræn efni. Gaman þótti þeim að heyra hann spjalla um Stein Steinarr, Halldór Laxness, Magnús Ásgeirsson og fleiri. Þótt Jón væri aldrei bóhem heldur lifði varkáru heimilislífi þekkti hann marga sem lögðu stund á gleðina og gengu hratt um þær dyr. | |
Á tímabili hafði Jón ekki mikið álit á íslenskum samtímaskáldskap en hann fylgdist alla tíð vel með. Þetta breyttist síðari ár. Jón varð jákvæðari og - að ég held - sáttur í hlutverki Þorpsskáldsins. | |
Þótt Jón væri brautryðjandi í skáldskap og rímleysumaður orti hann líka rímað, stundum stökur sér til skemmtunar. Ein bóka hans, Með hljóðstaf (1951) er rímuð og í fyrstu bókinni, Ég ber að dyrum (1937) eru dæmi um góð rímuð ljóð. Í rauninni vildi hann ekki alveg fleygja ríminu. Vond ljóð, rímuð og stuðluð, voru honum ekkert gleðiefni. Sama gilti vissulega um vond órímuð ljóð. | |
Einkum á þeim árum þegar Jón
var fornbóksali, 1952-62, las hann yfir handrit ungra höfunda og leiðbeindi þeim.
Yfirleitt hvatti hann ekki til útgáfu fyrr en góðum árangri var náð. Í
fornbóksöluna í Traðarkotssundi kom undirritaður með fyrstu handritin og beið
þangað til einkunnin "Gott hjá strák" var fengin. Jón las ekki aðeins
yfir handritið heldur fann nafn á bókina: Aungull í tímann. Miðað við
efni bókarinnar og form ljóðanna var þetta heiti kannski of módernískt?
En þetta voru ljóð sem voru Jóni að skapi og ég held að honum hafi þótt höfundurinn hafa fjarlægst um of þann tón sem þarna var sleginn. Að minnnsta kosti þóttu honum það ekki góðar fréttir þegar höfundurinn - eftir ferðalög erlendis - fór að laga sig eftir Rimbaud og Lautréamont. | |
Myndina
af Jóhanni Hálmars- syni tók Jóra Jóhanns- dóttir |
Sé
litið á skáldskap Jóns úr Vör í heild er hann alls ekki svo einfaldur eins og
menn halda. Maurildaskógur og Mjallhvítarkistan hafa að því leyti
sérstöðu. Stundum leynir skáldskapur Jóns á sér með eftirminnilegum hætti,
opnast ekki fyrr en eftir margendurtekinn lestur og á sér leynihólf. Þorpið er eins konar minnisvarði um íslenska örbirgð, eins og komist hefur verið að orði. Fátækt kreppuáranna, basl og barnmargar fjölskyldur. Sú örbirgð mótaði kynslóð Jóns úr Vör, fylgdi henni á leiðarenda. Jón var meðal þeirra hamingjusömu sem auðnaðist vegna gáfna sinna að ljá henni orð, færa hana í skáldlegan búning. Þannig reis minnisvarðinn í skáldskap hans og horfði sífellt til hafs þar sem lífsbjörgina var að finna. |