Forsíða
Jón úr Vör


 

21. janúar
2009

Ljóðstafur Jóns úr Vör 2009

Sigurrós Þorgrímsdóttir,

stjórnmálafræðingur og formaður lista- og menningarráðs Kópavogs,

flutti inngang að úthlutun verðlauna í ljóðasamkeppninni um Ljóðastaf Jóns úr Vör 21. janúar 2009 og hefur veitt GÓPfréttum góðfúslegt leyfi til að birta það.

Íslensk
ljóð-
list
Íslensk ljóðagerð er ekki á hverfanda hveli. Öðru nær. Því undanfarið hefur mikil gróska verið í ljóðagerð hér á landi. Engu að síður er hún listgrein sem rétt er og skylt að styðja við með ráðum og dáð. Framlag Kópavogsbæjar til viðhalds og endurnýjunar á þessum mikilvæga þjóðararfi okkar Íslendinga er árleg ljóðasamkeppni til minningar um Jón úr Vör.
Stuðn-
ingur
Kópa-
vogs
Árið 2001 ákvað Lista- og menningarráð Kópavogs að halda ljóðasamkeppninni sem bæri heitið Ljóðstafur Jóns úr Vör. Ljóðstafurinn skyldi afhentur á afmælisdegi skáldsins 21. Janúar ár hvert. Verðlaunagripurinn er einn af göngustöfum Jóns, rithöfundar og bókavarðar, auk veglegra peningaverðlauna. Ljóðstafurinn var því afhentur í fyrsta sinn á afmælisdegi skáldsins 21. maí 2002 og var fyrsti handhafi ljóðstafsins Hjörtur Pálsson. Árið 2003 var Ljóðstafurinn ekki veittur en þrjú ljóð fengu viðurkenningu.
  Árið 2004 hlaut Hjörtur Marteinsson stafinn, Linda Vilhjálmsdóttir vann hann árið 2005, Óskar Árni Óskarson árið 2006 Guðrún Hannesdóttir árið 2007 og á síðasta ári var Jónína Leósdóttir vinningshafi ljóðstafsins.
Jón
úr
Vör
Jón úr Vör Jónsson fæddist á Patreksfirði 21. janúar 1917 og lést 4. mars árið 2000, þá búsettur í Kópavogi. Eiginkona Jóns er Bryndís Kristjánsdóttir.

Hann ólst upp á Patreksfirði og stundaði þar nám í unglingaskóla og fór síðan í Héraðsskólann að Núpi 1933 og var þar í tvo vetur. En þess má geta að nokkrum árum fyrr voru einmitt Steinn Steinarr og Jóhannes Úr Kötlum einnig á Núpi.

Að mörgu leyti er það merkileg tilviljun að þessir þrír menn sem allir urðu frumherjar óhefðbundinnar ljóðlistar skyldu nema við þennan litla skóla.

Hann nam við Unglingaskóla Patreksfjarðar, Héraðsskólann á Núpi tvo vetur og Námsflokka Reykjavíkur einn vetur.

Þrátt fyrir lítil efni og þröng kjör, fór hann til Svíþjóðar árið 1938 og var í skóla sænsku alþýðusamtakanna. Jón hlaut styrk til að sækja Norræna lýðháskólann í Genf og dvaldist þar sumarið 1939.

Á þessum tíma var það ekki sjálfgefið að ungir piltar frá fátækum heimilum færu til náms eftir unglingaskólann og lýsir það e.t.v. Jóni betur en margt annað að hann skyldi hafa dug og kjark til að fara til náms á erlendri grund.

Jón vann ýmis störf eftir heimkomuna, í blómabúð, bókaútgáfu og fornbókasölu.
Viður-
kenn-
ingar

Riddara-
kross

Heiðurs-
laun

Jón sagði að bókasöfnin hefðu verið hans helsti skóli. Hann var því hvatamaður að stofnun lestrarfélags og bókasafns á Patreksfirði og þegar hann flutti í Kópavog stóð hann að stofnun Lestrarfélags Kópavogshrepps sem síðar varð Bókasafn Kópavogs. Hann var því frumkvöðull að stofnun Bókasafns Kópavogs og fyrsti forstöðumaður þess 1953 til 1977.

Hann átti sæti í stjórn Rithöfundafélags Íslands og Rithöfundasambandsins.
Jón úr Vör hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín. Hann var heiðursfélagi Rithöfundasambands Íslands, hlaut Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu og þáði heiðurslaun listamanna frá árinu 1986.
Byrjaði
12
ára
Jón fór ungur að yrkja og sagði hann sjálfur hafa byrjað að semja ljóð um 12 ára aldur, - vísur um fugla fyrir vestan, skrítna karla, fátækt fólk og baráttuljóð verkamanna.

Haft er eftir Jóni að á Núpi hafi orðið þáttaskil er hann flutti sitt fyrsta kvæði og það, sagði hann, var meira að segja birt á prenti.

Ljóðið var birt í Vesturlandi blaði Sjálfstæðismanna á Vestfjörðum og fékk hann greiddar fyrir það 10 kr. Þetta var í fyrsta sinn sem hann fékk greiðslu fyrir skáldskap.
Ég ber

dyrum
Fyrsta ljóðabók Jóns úr Vör, Ég ber að dyrum, orti hann aðeins tvítugur að aldri, árið 1937. Bókin seldist í 400 eintökum í áskrift og var frábærlega tekið og kom önnur útgáfa út mánuði seinna í 250 eintökum.

Titilkvæðið í bókinni: Ég ber að dyrum, lýsir gráma hversdagsleikans, þar sem rukkari og vinukona finna til skyldleika í umkomuleysi sínu. Stuðlum slept og rími kastað og fyrirheit gefin um það sem koma skyld.

Þess má til gamans geta að Jón var rukkari fyrir Blómabúðina Flóru árið 1936.

Næsta bók Jóns Stund milli stríða kemur út árið 1942 en þar gerir hann enn tilraun til að yrkja órímað.

Þorpið Bókin sem hann er einna kunnastur fyrir, Þorpið, kom út árið 1946. Þetta var fyrsta safn óhefðbundinna ljóða sem kom út á Ísland. Jón var því ótvíræður frumherji þess ljóðastíls sem varð síðan ríkjandi í íslenskri ljóðlist.

Bókin fékk dræmar viðtökur og var allt að því þurrlega tekið og lá nánast í þagnargildi næstu 10 árin. Þegar deilt var á ljóð sem þessi var ákaflega áberandi umkvörtun um ljóðstaf- eða rímleysi þeirra.

Heimir Pálsson segir í bók sinni: Straumar og stefnur í íslenskum bókmenntum sem kom fyrst út 1978:

,,Þorpið er safn órímaðra og óbundinna ljóða, upprifjun á sögu sjávarþorps sögð í einföldum ljóðmyndum. Nýlundur bókarinnar eru eftir á að hyggja fyrst og fremst tvær:

Annars vegar er þar kveðið að mestu án hefðibundinna brageinkenna og hitt, sem þótti sæta meiri tíðindum, hvert Jón úr Vör sótti yrkisefni sín. Bókin greinir frá hversdaglegu lífi í hversdaglegu þorpi.”

--

En 10 árum síðar árið1956 kom ný útgáfa af Þorpinu út í aukinni útgáfu og um svipað leyti var bókin gefin út í Svíþjóð og hlaut frábæra dóma sænskra gagnrýnenda sem meðal annars kölluðu ljóðin ,,Minnismerki íslenskra örbirgðar”. Í Þorpinu yrkir hann um Patreksfjörð, þaðan kemur hann og þar liggja rætur hans

Mikil-
virkur
Jón var enginn meðalmaður í íslenskri ljóðlist og segja má að hann hafi verið á margan hátt brautryðjandi.

Hann var afkastmikið ljóðskáld og hafa komið út á annan tug ljóðabóka eftir hann en auk þess hafa ljóð hans verið birt í óteljandi blöðum og tímaritum og annars staðar þar sem um íslenskan skáldskap er fjallað.
Ljóða-
sam-
keppnin
Góðir gestir,

Í Kópavogi lifði Jón úr Vör og starfaði stærstan hluta ævi sinnar eða í yfir hálfa öld og hér býr hann þegar hann gefur út bækur sínar, allar nema þrjár þær fyrstu.

Við Kópavogsbúar lítum á Jón sem okkar listaskáld og var hann kjörinn Heiðurslistamaður Kópavogs árið 1996. Bókasafn Kópavogs hélt upp á 50 ára útgáfuafmæli Þorpsins sama ár, með kvöldvöku þar sem flutt voru erindi um bókina og skáldið.

Undirtektir þessarar ljóðasamkeppni - Ljóðstafur Jóns úr Vör - hafa ætíð verið sérlega góðar og hafa nokkur hundruð ljóð borist í keppnina ár hvert.

Ljóðlistarverðlaunin eru veitt að lokinni samkeppni þar sem öllum er frjálst að senda inn frumsamin ljóð. Ljóðin eru merkt dulnefni og enginn leið fyrir dómnefnd að komast að nafni höfundar fyrr en að vali loknu. Að þessu sinni voru innsend ljóð um 300. Ljóðsstafurinn ásamt veglegum peningaverðlaunum verða afhent vinningshafa hér á eftir.
Dóm-
nefnd
Það er vandasama hlutverk að vera í dómnefnd í slíkri samkeppi þegar velja þarf ljóð úr hundruðum ljóða. Dómnefnd keppninnar skipa að þessu sinni þau:
  • Siguþrúður Gunnarsdóttir, bókmenntafræðingur, formaður,
  • Ingibjörg Haraldsdóttir, skáld og
  • Þórarinn Eldjárn, skáld.

Lista- og menningarráð færir dómnefndinni sérstakar og góðar þakkir fyrir þeirra miklu vinnu.

Við þökkum jafnframt öllum þeim fjölmörgu einstaklingum sem sendu ljóð í þessa samkeppni.

Þakkir
og
heilla-
óskir
Með þessari ljóðasamkeppni vill Lista- og menningarráð Kópavogs heiðra minningu ljóðskáldsins Jóns úr Vör og um leið leggja sitt af mörkum til efla áhuga á ljóðlist. Ekki aðeins þeirra sem yrkja ljóð heldur einnig þeirra sem hafa yndi af því að lesa og hlýða á ljóð. Í mínum huga er þetta hátíð ljóðsins ekki aðeins í Kópavogi heldur um land allt.

Fyrir hönd Lista- og menningarráðs óska ég Antoni Helga Jónssyni sem hlaut ljóðstafinn nú í ár fyrir ljóðið ”Einsöngur án undirleiks” innilega til hamingju –

Jafnframt óska ég Davíð Hjálmari Haraldssyni til hamingju með viðurkenninguna. Ég þakka jafnframt öllum þeim fjölmörgu einstaklingum sem sendu ljóð í þessa samkeppni.
  -------------------------------------------------------------------------

Bækurnar sem Jón úr Vör gaf út eru þessar:
  • Ég ber að dyrum 1937
  • Stund milli stríða 1942
  • Þorpið 1946, endurskoðuð og aukin útgáfa 1956 og síðan gefur Helgafell út vandaða myndskreytta útgáfu af Þorpinu 1979 og aftur 1988 og enn 1999. Myndskreyting þessarar bókar , eftir Kjartan Guðjónsson listmálara var sérstaklega listræn og þótt falla einkar vel að ljóðunum.
  • Með hljóðstaf 1951
  • Með örvalausum boga 1951
  • Vetrarmávar 1960
  • Maurildaskógur 1965
  • 100 kvæði, úrval 1967, valin af Einari Braga.
  • Mjallhvítarkistan 1968
  • Vinarhús 1972
  • Altarisbergið 1978
  • Regnbogastígur 1981
  • Gott er að lifa 1984

Erlendar útgáfur:

  • Islansk kunst, Ariane Wahlgren þýddi 1957.
  • Stilt vaker ljoset, ljóðaúrval á norsku, Ivar Orgland þýddi 1972.
  • Blo natten över havet, ljóðaúrval á sænsku, gefið út í Finnlandi, Mai-Lis Holmberg þýddi 1985.
  • Meden vi lever, ljóðaúrval í þýðingu Inge Knutson 1989.
  • Godt er a leva, Ivar Orgland þýddi á norsku.
  • Godt er a leva, þýðing á vegum verðlaunanefndar norðurlandaráðs, Mai-Lis Holmberg þýddi 1985.
  • Ljóð Jóns hafa einnig birst í erlendum tímaritum og sýnisheftum, ásamt ljóðum annara íslenskra skálda í um 15 löndum.
  • Jón bjó einnig til prentunar rit Kristínar Sigfúsdóttur I – III 1950 til 1952.

Efst á þessa síðu * Forsíða * Tengibrautin