Forsíða
Jón úr Vör


 

21. janúar
2006

Ljóðstafurinn 2006

Þórður Helgason, dósent við Kennaraháskóla Íslands,
flutti við þetta tækifæri eftirfrandi innlegg um skáldið Jón úr Vör
og hefur leyft því erindi að birtast í GÓPfréttum.

Sjá hér nánar um Þórð Helgason.

 

Stafur ljóðs

ljóðstafur

Góðir gestir

Einhvern tíma sagði mér einn kunningja minna að sér þætti það hálfgerð óhæfa að kenna þau verðlaun, sem nú munu brátt verða afhent, við ljóðstaf. Ég tók auðvitað upp hanskann, bæði fyrir ljóðstafinn og Jón úr Vör. Sannleikurinn er náttúrlega sá að Jón vissi allt um ljóðstafi, þótti vænt um þá og notaði gjarna enda ágætur hagyrðingur þótt ekki héldi hann því séstaklega á lofti.

.. í
túni
bragar
Þegar Jón úr Vör litaðist um í túni bragar, sem Egill Skallarímsson kallar svo ríki skáldskaparins, sá hann líkt og ýmis fleiri skáldsystkini hans að það var komi kal í túnið og vart von mikillar uppskeru nema það yrði hvílt um hríð og önnur jörð brotin til ræktunar. Sú staðreynd blasti nefnilega við að endurnýjunar var brýn þöf. Formið var farið að stirðna í öllum liðum og skilaði fáu nýju. Jón, sem og önnur skáld, kynntist því og að víða erlendis hefðu menn um langt skeið brotið ný lönd og fundið ljóðinu þar annan og lífvænlegri jarðveg, þar sem skáldskapurinn sjálfur fékk að njóta sín. Þeim fór nú ört fjölgandi sem áttuðu sig á því að rím og stuðlar auk hinnar hefðbundnu hrynjandi voru ekki forsenda þess sem kalla mætti frambærilega eða góða ljóðlist
1937
Ég ber
að dyrum
Jón úr Vör kom fram á sjónarsviðið með fyrstu ljóðabókina sína, Ég ber að dyrum, aðeins tvítugur að aldri, árið 1937. Ljóðin í þessari frumraun Jóns báru þess örugg merki að skáldið ætlaði ekki einungis að berja að dyrum, heldur bíða þess að opnað yrði og ganga síðan inn. Það er lítill byrjendabragur á þessari bók þótt höfundur væri ungur að árum enda hafði hann æft sig um árabil. Raunar er auðvelt að sjá að þessi frumraun Jóns var eins konar stökkpallur að Þorpinu enda mörg ljóðanna n.k. könnum á hverdagslegu lífi alþýðufólks, þess fólks sem sjaldan fer mikið fyrir en skipti alltaf mestu máli. Líkast til hefur eitt ljóðanna, samnefnt bókinni, vakið mesta athygli. Það les ég nú.

Ég ber að dyrum (Sjá ljóðið hér fyrir neðan.)

1946
Þorpið

tímamóta-
verk

Árið 1946 er merkilegt ár í bókmenntasögu Íslendinga fyrir það að það ár kom Þorpið út. Nú kann fólki að þykja það tíðindi að þetta tímamótaverk vakti sáralitla athygli og lítilla viðbragða varð vart. Öllum er þó nú orðið ljóst fyrir löngu að Þorpið mun halda nafni Jóns úr Vör á lofti meðan íslensk tunga er við lýði. Þorpið er fyrsta íslenska ljóðabókin sem hafnaði með öllu hinu gamla góssi hefðbundnu ljóðanna utan það að Jón notaði ljóðstafi þar sem honum fannst við hæfi. Fyrir það er Þorpið tímamótaverk, en ekki einungis það, heldur ekki síður fyrir meðferð skáldsins á sjálfu ljóðmálinu sem er svo einfalt og auðskilið en samt svo sterkt og grípandi, alveg laust við líkingar og torræð tákn. Ljóðin í Þorpinu eru því afar ólík þeim ljóðum atómskáldanna sem brátt litu dagsins ljós og ollu usla í íslenskri ljóðagerð.
beinar
myndir
Í Þorpinu beitir Jón úr Vör myndmáli sem stundum er kallað beinar myndir, þ.e. myndir sem ekki byggja á líkinga- eða táknmáli heldur vísa beint til raunverleikans. Slíkar myndir eru afar vandmeðfarnar og ekkert íslenskt skáld hefur farið betur með þær en Jón. Ég hef um áratugaskeið kennt nemendum ljóðin úr Þorpinu og það er án undantekninga að nemendur falla kylliflatir fyrir þessum ljóðum þótt þau lýsi veruleika sem nú er orðinn afskaplega fjarlægur ungu fólki. Ég hugsa að vart sé að finna betri mælikvarða á góð ljóð en viðbrögð þessa unga fólks.
sam-
mannlegur
endur-
ómur
Og af hverju fellur fólk fyrir þessum ljóðum? Ég held að því sé auðsvarað. Það er vegna þess að í þeim er að finna streng sem alltaf á við og hljómar öllu fólki. Ljóðin í Þorpinu eru um okkur öll í gleði okkar og sorgum. Ég les nú ljóðið Uppboð til að minna okkur á þennan streng.

Uppboð  (Sjá ljóðið hér fyrir neðan.)

í
straumi
samtímans
Ég hef nú dvalið nokkuð við Þorpið en þar með er ekki sagt að ljóð Jóns úr Vör, þau sem síðar litu dagsins ljós, séu ekki allrar athygli verð. Þau eru það svo sannarlega. Hver bókin á fætur annarri sannaði, svo ekki varð um villst, að skáldið hafði ekki talað út. Það hnitmiðaði nú ljóð sín meira en það gerði í Þorpinu og fylgdist vel með straumum samtímans og lét í sér heyra svo um munaði ef því fannst það geta lagt lóð á vogarskálarnar.
Gott er
að lifa
Síðasta ljóðabók Jóns úr Vör heitir Gott er að lifa og fullyrða má að sú bók sé verðug verkalok. Fá skáld njóta þeirrar náðar að ljúka lífsverkinu svo glæsilega á gamals aldri.

Á
strönd
orðsins
Ég geri mér grein fyrir því að ég er ekki manna vinsælastur hér inni nú og flestir farnir að bíða eftir að ég hætti - því að spennan er auðvitað að ná hámarki. En ég ætla að leyfa mér að auka lítillega á þessa spennu og lesa að lokum eitt ljóð úr síðustu bók Jóns. Það er ljóðið

 Á strönd orðsins  (Sjá ljóðið hér fyrir neðan.)

Ég ber
að dyrum
Ég ber að dyrum

Ég er rukkari.
Í morgun hringdi ég dyrabjöllu
eins glæsilegasta hússins í bænum.
Það er húðað utan með hrafntinnu
og tröppurnar eru úr silfurbergsmulningi.

Ung stúlka kemur til dyra,
hún er í ermalausum morgunkjól.
Það er vinnukona.

-Er húsbóndinn við? spyr ég
og hampa reikningnum.
-Nei, hann er nýgenginn út.
Röddin er stoltlaus og þýð.

-En frúin? spyr ég
með hægð eftir hikandi þögn.
-Ekki heldur,
og brosir.
Ég þakka,
tek ofan hattinn
og hneigi mig.
-Sælar, hvísla ég.
-Sælir.

Um leið og ég loka hliðinu
lít ég snöggvast til baka,
hún stendur þá ennþá í dyrunum,
brosir til mín bláum augum
og rauðum vörum.

Svo geng ég frá húsi til húss,
frá dyrum til dyra,
allan daginn frá morgni til kvölds,
alls staðar illa þeginn,
óvelkominn gestur
og viðtökurnar eftir því.

Eins og ég, vesall rukkari,
eigi sök á kreppunni,
atvinnuleysinu
og öllum vandræðum
skuldunautanna?

Og eitt er víst:
að fæstir eru fúsir til að borga,
flestir auralausir,
að minnsta kosti í svipinn.
Komdu á morgun, góði,
segja þeir,
seinna,
í miðri vikunni,
um mánaðamótin,
einhverntíma,
aldrei.

Og loks er dagurinn á enda
og ráp mitt stöðvað,
hvíld,
þögul þungbúin nótt.

En blóð mitt kyrrist ekki,
það slær enn í takt við hringiðu dagsins
og strætaysinn,
æst og óstöðvandi.

Og hún,
þessi fallega vinnukona,
sem fann skyldleika okkar
í umkomuleysinu,
undirgefninni,
hún brosir í hug mínum,
hlær í þögninni.

Á morgun?
Hver veit hvað gerist á morgun?
Kannski eitthvað skrítið,
eitthvað fallegt.
Hver veit.

Uppboð Uppboð

Það er skrítið
hvað lítill, útskorinn snældustokkur,
sem ungur maður hefur leikið sér að,
getur lengi vakað í huga hans.

Þegar fyrsta, annað og þriðja
högg uppboðshaldarans
skall á blámálaðri brík hans,
var eins og lítill drengur væri barinn
fyrir það, sem hann hafði ekki gert.

Fóstra grét, þegar húsið okkar var selt,
og víst munum við rökkur kvöldsins áður,
Þegar við gengum á fund sýslumannsins,
eins og við tryðum ekki lengur
auglýsingum símastauranna.

Fátækt fólk kveður eitt þorp og heilsar öðru,
hús þess og snældustokkur er boðinn upp
og slegið hæstbjóðanda,
kindur þess eru seldar á fjalli.

Og þegar lítill drengur spyr:
Fær lambið hennar Kollu að lifa í haust ?
veit enginn nokkurt svar.

Á strönd
orðsins
Á strönd orðsins

Nú á ég ekki framar
von á neinu
sem gæti komið mér
á óvart,
ég vaki og ég sef.

Eins og gamall sjómaður
geng ég á strönd orðsins
með net mín í dögun,
endurnærður
eftir langan nætursvefninn.

Ég horfi á eftir þeim ungu
sem róa bátum sínum
út á hafið...
og er glaður.

Efst á þessa síðu * Forsíða * Tengibrautin