Heil
og sæl séum við öll og velkomin til þessa samfagnaðar.
Það þykir til heyra við svona
tækifæri að einhver taki að sér að vera leiðinlegur, standi
upp og flytji ræðu. Þetta hlutverk hefur nú dæmst á mig og verð ég því
að reyna að uppfylla
leiðinlegheitin sem best ég get.
Ekki ætla ég að grípa til
ættfræðinnar þó mörgum ykkar mundi finnast það vísasti
vegurinn til að vera fullkomlega leiðinlegur - nei, enga ættfræði. Því
þó ég hafi á unga aldri kunnað
utan að mörkin á sauðkindum heillar sýslu hefur mér verið algerlega
fyrirmunað að hafa uppi nokkra
forvitni um ættarmörkin á mannfólkinu. Ég held ég viti hvað föðuramma
mín hét, en svo er líka
þekkingin á þrotum. Fyrir mér er það Guðjóna, systir, sem best kann skil
á þessum efnum - og er
reyndar mikill skaði ef hún drífur sig ekki að koma sem mestu af
vitneskju sinni á blað.
Nei, ættfærslur læt ég eiga sig. - En hvað þá um ýmsar minningar?
Æ, - minningar eru
stórvarasamar. Það hef ég rekið mig á. Stundum, þegar ég hef verið að
rekja eitthvað úr minni mínu fyrir systkini mín kemur á daginn að ég man
þetta allt á ská og skjön, -
eins og minnisfleytan hafi lent í veltingi og minnisatriðin grautast
saman. - Þetta var nefnilega ekki
svona heldur hinsegin. Hann hét ekki Óli, - það var hann Stebbi. Ekki
hún Lína - heldur hún Pálmey
gamla. Og auðvitað hafa systkini mín rétt fyrir sér, - og kannski hef ég
líka rétt fyrir mér - því
sjaldnast muna einstaklingar atvikin á sama hátt.
Nei, við skulum fara varlega með
minningarnar. Þær eru að vísu margvíslegar - en oft á
tíðum eru þær líka einkaeign hvers og eins. - Ég vil samt segja við
ykkur systkini og frændur - að
kannski finnst ykkur í dag að þið vilduð gjarnan hafa haft meiri
þekkingu um ætt og uppruna en raun
varð á. Svo finnst mér - og nú vildi ég gjarnan hafa spurt meira - en nú
er of seint að spyrja. Þau sem
vissu svörin eru horfin úr leiknum.
Þetta niðjamót í dag er fyrst og
fremst einn þáttur þess að við getum skilað börnum okkar
fram með meiri þekkingu á ættfólki sínu en við sjálf lögðum upp með. Ég
segi þetta vegna þess að ég
hef grun um að frændgarðurinn um Djúp og víðar hafi í raun verið miklu
stærri en við nokkru sinni
höfðum hugmynd um. Sjálfsagt hefði sú vitneskja getað veitt margvíslega
liðsemd á þeim árum. Það
getur verið betra en ekki þá komið er í ókunnan stað að vita af ættingja
eða tengdamanni fyrir. Þess
hef ég oft orðið var hér á leið minni um Akureyri, Ísafjörð eða
Bolungavík. Á öllum þessum stöðum
hef ég einmitt notið ættartengslanna og einmitt það hefur gert mér
dvalarstundina enn eftirminnilegri.
En fleiri eru hér saman komnir
en niðjar þeirra Kristínar Margrétar Guðmundsdóttur og
Jóns Valdemars Bjarnasonar ásamt niðjum þeirra Maríu Friðgerðar
Bjarnadóttur og Sumarliða
Guðmundssonar. Hér eru einnig samankomnir þeir sem hafa gerst síðunautar
okkar á lífsfleyinu, -
hafa staðið með okkur og þolað sætt og súrt, glaðst og hryggst.
Einmitt ykkur, konum og körlum,
vil ég flytja sérstaka þökk fyrir vináttu ykkar og traust
og trú á okkur - þessa niðja áðurnefndra hjóna.
Og eitt enn.
Menn athuga það ekki ætíð sem
skyldi að hver liðinn tími hverfur í minningadjúpið. Að
liðið örskots augnablik stendur stuttu síðar sem annað hvort
sársaukafull eða gleðiþrungin minning.
Augnablikið verður á augnabliki að minningu.
Og einmitt nú erum við,
frændsystkinin og okkar síðunautar, að skapa afkomendum okkar
minningaraugnablik, minningu sem ég vona að hverjum okkar - ungum og
öldnum - verði dýrmæt
eign um leið og augnablikið er liðið hjá.
Sú var tilætlunin með þessu
niðjamóti - og við skulum öll hjálpast að við að láta það
takast, að minningin um niðjamótið verði okkur öllum geislahlý stjarna á
himni minninganna.
Ekki tala um ættina -. Ekki
gerast heilagur í andlitinu og tala um hve við frændur erum
mikið gáfu- og dugnaðarfólk - og ekki gerast ábúðarfullur og alvarlegur
og tala um spillingu tímans -
. Þið vitið að ég er orðinn svo fjandi gamall! - Nú eða tala um
vorkuldann og öll vandræðin í
búskapnum.
Um hvern fjárann má ég þá tala,
frændur og félagar? Hætta - komið nóg? Já, það er
reyndar satt. Hitt er líka satt að við frændsystkinin erum Bolvíkingar
og Ernirinn heitir enn Ernir. Um
það erum við öll sammála. Áshyrna, - Traðarhyrna og Hrafnaklettur. Allt
er þetta á sínum stað en
Bólin eru horfin. Þangað leitar enginn lengur á lognværu kvöldi með
elskunni sinni - en kannski má
enn leiðast upp á Múrhúsana undir lágnættið.
Víst er Víkin mín orðin breytt.
- Víkin, þar sem ég lék mér sem krakki, hét þá Pétur
Guðmundur Sumarliðason. - kallaður Gummi Summi og var bæði á Hóli og
seinna hjá Betu Hafliða í
innsta húsinu á Sandinum - . Já. Þá var ég Gummi Summ sem kveðið var um:
Guðmundur er gáfnaskýr
glöggur við hjásetu.
Á hóli passar kálfa og kýr
og kindurnar hjá Betu,
Ekki veit ég hvað orðið er af
honum Gumma. Nú heiti ég Pétur Sumarliðason, - jafnvel
Ge-ið er horfið úr nafninu. Kannski Gummi sé kominn heim í Vík ásamt
Björgvin, frænda sínum. Þeir
eru kannski að smala kindunum hennar Betu Hafliða -.
Já Guðmundur Björgvin - . Að
vísu stendur Bé-ið þar enn eftir - en ég kalla Guðmund -
Björgvin og enn kemur fyrir að Björgvin kallar mig Guðmund. Svona mikið
er enn eftir af bernsku
okkar.
Eins og þið hafið heyrt þá eru
öll umtalsefni varasöm enda skal ég nú fara að slá botninn í
þetta. En Víkin, Bolungavíkin er mér hugstæð.
Það var gulhvítur sandur
í minni fjöru
Gul slikja
undir svartur sandur
Við börnin skárum gyllinguna
og stafir okkar stóðu svartir
í sólgullnum sandinum
Ljósgræn voraldan
fyllti dökk strikin
gulhvítu sævarsindri.
Þakka ykkur þolinmæðina. Nú er
leiðindunum lokið. |