GÓP-fréttir
forsíða 

Siggu-Viggu-leikur

Leikþáttur fyrir heilan bekk
eftir Pétur Sumarliðason
saminn um 1958

Til baka
í ritstörf
Péturs

Pétur setti saman sýniþátt fyrir heilan 12 ára bekk að koma fram á sviði.

Aðrir kennarar fengu einnig að nota þáttinn og voru þá stundum fleiri í þeirra bekkjum en þá bætti Pétur við persónum eftir þörfum.

Hér er ein útgáfan með 23 persónum.

Athugaðu
að þér er heimilt að nota þessa hugmynd og þennan texta
ef þú lætur þess getið hvaðan hann er fenginn og hver höfundurinn er.

* (Tveir stálpaðir krakkar (10-11 ára) sitja við borð og tala saman. Á bakveggnum er bókahilla með allmörgum bókum.)

Telpan: (Reiðilega) En andstyggilegt. Nú verðum við að hírast inni og ég sem var búin að lofa Ástu að koma til hennar seinnipartinn í dag.

Drengurinn: Þú þarft nú ekki að verða fjúkandi vond þó að þú komist ekki til Ástu. Við skulum bara koma og spila Rakka eða Marjas.

Telpan: Nei. Ég nenni ekki að spila og svo er líka ekkert gaman að spila við þig. Þú svindlar alltaf svo mikið.

Drengurinn: O-jæja. Það varst þú sem svindlaðir síðast en ekki ég.

Telpan: Mér er alveg sama.

Drengurinn: (Fer og nær sér í bók, sest við borðið og fer að lesa.)

Telpan: Hvaða bók ertu að lesa?

Drengurinn: Ég er að lesa Sandhóla-Pétur.

Telpan: Æ -. Þú með þínar strákasögur.

Drengurinn: Þetta er nú ekki bara strákasaga. Þú manst þó eftir Elsu, systur hans Péturs. Það var hún sem hugsaði um heimilið og það var ekkert minna sem hún gerði.

Telpan: Já, það er satt. Það er líka oft sagt frá strákum í stelpusögunum. Manstu ekki eftir honum Róbert í sögunni af Baldintátu?

Drengurinn: Jú, það var nú fínn strákur.

Telpan: Heyrðu. - Við skulum taka allar bækurnar okkar og vita hvort við munum eftir öllum sögupersónunum.

(Börnin taka bækurnar niður úr hillunni, stafla þeim á gólfið. Telja upp bækurnar)

Drengurinn: Hér er Róbinson Krúsó.

Telpan: Og hér er Anna í Grænuhlíð.

Drengurinn: Þetta er Kardimommubærinn.

Telpan: Já, og hér er sagan af Siggu-Viggu. Manstu eftir henni?

Drengurinn: Var það ekki hún sem lét festa miðana á allt dótið hans Villa - og þar stóð: Villi á - má ekki snerta?

Telpan: Já, - og páfagaukinn Penelópu. Heyrðu, nú veit ég hvað við skulum gera. Við skulum búa til leikrit þar sem allar sögupersónurnar í bókunum okkar koma fyrir.

Drengurinn: Nei, það er ekki hægt. Þær eru svo margar. Miklu fleiri en allir krakkarnir sem við þekkjum.

Telpan: Nú - jæja. Þá tökum við bara aðalpersónurnar í hverri bók.

Drengurinn: Já. Það er ágæt hugmynd. Nú vantar okkur bara Siggu-Viggu. Hún væri ekki lengi að töfra allar persónurnar til okkar.

Telpan: Já, víst væri það gaman en gallinn er bara sá að það er engin Sigga-Vigga til - -

* (Heyrist barið ákveðið og snöggt og Sigga-Vigga kemur inn.)

Sigga-Vigga: Jæja, telpa mín. Svo þú heldur að ég sé ekki til. Ég er nú samt komin hingað sprell-lifandi og nú ætla ég að hjálpa ykkur með leikritið.

Drengurinn: Nei, heyrðu nú. Þú ert engin Sigga-Vigga. Þú ert bara að plata. Þú ert einhver stelpa úr næsta húsi.

Telpan: Bíddu við. Kannski er þetta Sigga-Vigga. Við skulum spyrja hana um stóra garðinn hennar þar sem krakkarnir eru að leika sér.

Sigga-Vigga: Bíðið þið nú bara við, krakkar mínir. Ég sé að þið eigið heilmikið af bókum. Hafið þið lesið þær allar?

Börnin: Já - já.

Sigga-Vigga: Jæja. Gott er það. Nú skuluð þið sjá hvort ég er nokkuð að plata. Ég vel hérna þrjár bækur - en þið megið ekki sjá hvaða bækur ég vel. Svona, lokið nú augunum. Nei - telpa mín. Það er bannað að kíkja! Grúfið ykkur niður á borðið! (Velur þrjár bækur og felur þær.) Jæja, krakkar. Nú verðið þið að þekkja söguhetjurnar ykkar. Ég tel einn, tveir, þrír og svo megið þið opna augun.

* (Meðan börnin grúfa sig fer Sigga-Vigga fram að hurðinni og opnar fyrir þremur persónum sem staðnæmast síðan við borðið hjá krökkunum. Þau eru: Róbinson Krúsó í tjásuðum hnébuxum og með byssu um öxl, Rósa Bennett í hvítum hjúkrunarbúningi og Baldintáta í venjulegum skólabúningi.)

Sigga-Vigga: Einn! - Tveir! - Og þrír!

(Börnin líta upp og stara furðuaugum á þessar persónur.)

Róbinson: Jæja, drengur minn. Hérna sérðu þrumustafinn minn. En hvernig stendur annars á því að ég er hingað kominn?

Drengurinn: Já! Þú ert Róbinson Krúsó. - En það er hún Sigga-Vigga sem ber ábyrgð á því að þú ert hér.

Telpan: (Gengur til Rósu, hneigir sig fyrir henni.) Heyrðu - ó, komdu sæl og velkomin. Heitir þú kannski Guðrún eins og skólahjúkrunarkonan okkar? Hún heitir nefnilega Guðrún.

Rósa: Stattu rétt, stúlka mín. Nei. Ég heiti ekki Guðrún. Ég er yfirhjúkrunarkona. Tilbúin í uppskurð eftir tvær mínútur.

Telpan: Ja- há. Nú þekki ég þig. Þú ert Rósa Bennett, hjúkrunarforingi hjá flugsveitinni.

Baldintáta: (Skoppar í kringum Róbinson og Rósu, hermir eftir þeim. Þegar þau þagna segir hún:) Nei, - sjáðu nú bara. Hvaða lýður er þetta eiginlega? Lítill, skrýtinn kall með byssu og rígmontin stelpa í hvítum kjól?

Drengurinn: Heyrðu nú, Elísabet! Þú varst nú líka kölluð Baldintáta og þú varst svo orðhvöt og ósvífin að það átti að reka þig úr heimavistarskólanum.

Baldintáta: Hvað ert þú að þenja þig, drengur minn? Þú ert bara monthani og ég tala alls ekki við þig!

* (Sigga-Vigga hefur nú valið sér fjórar bækur og sett til hliðar og nú kemur annar hópur inn: Anna í Grænuhlíð, Siskó, Lotta Vincent og Hrói Höttur.)

Anna: (Heilsar telpunni.) Væri yður sama þó að þér kölluðuð mig Kordelíu?

Telpan: Nei, heyrðu nú. Þú heitir þó ekki Kordelía?

Anna: Ne - ei. Eiginlega heiti ég það ekki en mér þætti svo vænt um að vera kölluð Kordelía. Það er svo fallegt nafn.

Telpan: Nú man ég hver þú ert. Þú heitir Anna Shirley, - Anna í Grænuhlíð.

Siskó: (Berfættur - skyrta, buxur - með poka í hendi.) Getur þú vísað mér veginn til Portó?

Drengurinn: Til Portó - -. Nei, þann stað þekki ég ekki.

Siskó: Ég ætla norður í land þangað sem faðir Ameríkó á heima.

Drengurinn: Já, þú ert Siskó og varst flækingur í Lissabon og heitir í raun og veru Fransiskó Ribero.

Lotta: Geturðu sagt mér hvar Bjarnarstaðir eru?

Telpan: Bjarnarstaðir? Eru þeir ekki einhvers staðar fyrir norðan?

Lotta: Ég veit það ekki. Það er stór herragarður og ríka frúin þar ætlar að taka mig í fóstur.

Telpan: O - ó! Þú ert að koma frá munaðarleysingjahælinu og ert kölluð Lotta Vincett. Annars ert þú raunverulega Beta María.

Hrói: (Bogi um öxl, stafur í hendi. Við drenginn:) Hvar eru þeir Litli Jón og Tóki munkur? Eru þeir ekki komnir enn?

Drengurinn: Þeir hafa ekki sést hér.

Hrói: Nú, hvað er þetta? Ég hélt að ég myndi hitta þá hérna. Er þetta ekki í Skírisskógi?

Drengurinn: Nei, - ekki aldeilis. En ég veit að þú ert Hrói Höttur og varst frægur skógarmaður í Englandi.

* (Sigga-Vigga sést vera að skoða eina bók sem hún hefur tekið af borðinu og í einni svipan koma Bakkabræður þrammandi inn á sviðið.)

Gísli: Gísli, Eiríkur, Helgi! Faðir vor kallar kútinn!

Eiríkur: Gísli, Eiríkur, Helgi! Ekki er kyn þótt keraldið leki. Botninn er suður í Borgarfirði!

Helgi: Gísli, Eiríkur, Helgi! Bölvaður kötturinn étur allt - og hann bróður minn líka!

Sigga-Vigga: Hvaða náungar eru þetta? Ég hef aldrei séð þá áður.

Drengurinn: (Hlær að henni.) Nú varst það þú sem þekktir ekki persónurnar.

Telpan: En við þekkjum þá. Þetta eru Bakkabræður.

Drengurinn: Velkomnir, Bakkabræður. En varið ykkur! Sjáið þið stóra herskipið?

Gísli: Gísli, Eiríkur, Helgi! Flýjum inn í bæinn og lokum öllum dyrum og gluggum.

Eiríkur og Helgi: Forðum okkur - - Gísli, Eiríkur, Helgi!

* (Sigga-Vigga hefur tekið til aðrar fjórar bækur og lagt til hliðar og nú koma inn þau Adda, Soffía frænka, Beverley Grey og Sandhóla-Pétur.)

Adda: (Með ferðatösku.) Hefurðu séð nokkurn prest á jeppa? Ég er ráðin þangað.

Telpan: Prest á jeppa? Nei, heyrðu nú. Hvaða ferðalag er eiginlega á þér?

Adda: Nú ég er bara að fara í sveitina.

Telpan: Já. Nú þekki ég þig. Þú heitir Adda og ert að fara í kaupavinnu á prestssetrið.

Soffía frænka: (Víkur sér að drengnum.) Hver býr í þessum ruslakofa?

Drengurinn: Ruslakofa? Þetta er enginn ruslakofi! Ég heiti - heiti - -

Soffía frænka: Þú heitir, - þú heitir! Svona, heilsaðu svolítið kurteislegar. Komdu hérna nær mér og lofaðu mér að sjá á þér eyrun.

Telpan: (Hlæjandi) Nei, sjáið þið bara! Þarna er Soffía frænka komin.

(Soffía frænka lítur á telpuna og strunsar framhjá henni.)

Beverley: (Snúðug) Af hverju fæ ég aldrei frið til þess að lesa fyrir hávaðanum í ykkur?

Telpan: Við höfum ekkert hátt og þú mátt lesa þig til dauða fyrir okkur. Annars skaltu tala við Siggu-Viggu. Það er hún sem stjórnar þessum leik.

Beverley: Ég þekki enga Siggu-Viggu og hún er ekki ein af Alfasystrunum í Vernonskóla.

Telpan: Sæl Beverley Grey! Vertu nú ekki vond við okkur. Við erum bara að leika okkur svolítið.

Sandhóla-Pétur: Sæll vertu. Hefurðu nokkuð rekist á dreng sem heitir Jörgen?

Drengurinn: Jörgen? Nei, ég þekki engan Jörgen.

Sandhóla-Pétur: Nú! Ég hélt hann væri kominn. Við verðum báðir hásetar á Ernu í sumar. Hún fer á Íslandsmið.

Drengurinn: Heyrðu! Nú veit ég hver þú ert. Þú ert Sandhóla-Pétur er það ekki?

Sandhóla-Pétur: - Jú, - en hefurðu þá ekki séð hann Jörgen? Ég verð víst að fara og gá að honum.

* (Sigga-Vigga hefur enn tekið til fjórar bækur og lagt til hliðar. Nú koma þau inn Margaret, Öskubuska, Berta og Ása-Dísa.)

Margaret: Er þetta kvikmyndaverið?

Telpan: Kvikmyndaverið? Nei, heyrðu nú! Ég held þú sért heldur betur að villast.

Margaret: Nú? Ég átti að mæta í kvikmyndatöku á ófullgerða dansinum. Er það ekki hérna?

Telpan: Nei, - ég held nú síður! Þetta er í Austurbæjarskólanum. En ég veit að þú heitir Margaret O'Brien og ert leikkona.

Margaret: Já. Það er alveg rétt. En hver er þetta þá? (Bendir á Öskubusku.)

Öskubuska: (Hefur tötrasjal yfir sér.) Komið til mín, dúfurnar mínar og allir smáfuglarnir í loftinu og hjálpið mér að tína upp baunirnar svo ég geti dansað í veislunni í kvöld. (Stígur nokkur dansspor. Tötrasjalið fellur afhenni. Prúðbúin undir.)

Telpan: (Hneigir sig fyrir þeim.) Þetta er hún Öskubuska okkar sem eignaðist kóngssoninn. (Þær hverfa til hliðar.)

Berta: (Við drenginn) Fer nokkur járnbrautarlest héðan í kvöld?

Drengurinn: Járnbrautarlest? Það eru engar járnbrautarlestir hér.

Berta: Ég er með áríðandi bréf til föður míns og verð að komast norður fyrir helgi.

Drengurinn: Já, - en ég segi þér satt. Það eru engar járnbrautarlestir á Íslandi.

Berta: Nú - er ég á Íslandi?

Telpan: (Við drenginn) Hvað er þetta? Þekkirðu ekki þessa stúlku? Þetta er hún Berta. Manstu ekki? Berta og Stjarna?

Ása Dísa: (Öskuvond. Stappar niður fótunum) Ég er bara farin að heiman. Síðan litli bróðir kom þykir engum vænt um mig. Pabbi og mamma eru alltaf að hugsa um þetta krakkakríli og hafa engan tíma til þess að hugsa um mig.

Drengurinn: Af hverju ertu eiginlega svona reið? Þú verður að passa þig að þú springir ekki eins og kínverji.

Telpan: Veistu það ekki? Þetta er hún Ása Dísa. Hún er að strjúka að heiman.

Sigga-Vigga: (Veifar hattinum) Jæja, krakkar mínir. Þá er leiknum lokið og þið hafið þekkt allar persónurnar. Nú fer ég heim.

* (Um leið koma tveir krakkar inn á sviðið. Þau staðnæmast fremst á sviðinu og taka tal saman.)

Indriði: Hvað heitir þú?

Sigríður: Sigga Bjarnadóttir heiti ég.

Indriði: Smalar þú í Tungu?

Sigríður: Ég á að sitja hjá í sumar en hvað heitir þú?

Indriði: Indriðið frá Hóli heiti ég og sit hjá eins og þú.

Sigríður: Viltu hjálpa mér að finna ærnar? Ég er svo hrædd við þokuna.

Indriði: Já, já. Við skulum strax fara að leita.

* (Hverfa inn í hringinn sem lokast og allir fara af stað með dansspori og syngja undir lagi Kardemommusöngsins:)
*

Hér er Róbinson
og Rósa Bennett-son,
Hér er Baldintáta, Lotta
og Hrói Hattar-son,
Anna í Grænuhlíð
og hún Adda blíð
hér er Beverley og Berta
sem ei hræðast stríð
og hún Sigga-Vigga
er sá um þeirra leik.

Hér er Soffía
sem ræðst á ræningja,
svo er Siskó, svo er Pétur
og þrír græningjar.
Hér er Margaret
ég um hana get,
svo er Öskubuska og
Ása Dísa er huggast lét
og hún Sigga-Vigga
er sá um þeirra leik.

Ekki gleyma má
því að greina frá
þegar Indriði og Sigríður
þau sátu hjá.
Leiknum lokið er.
Látum enda hér.
Látið tjaldið falla fljótt
ég er að flýta mér.
En það var Sigga-Vigga
er sá um þennan leik.

*

(Tjaldið)

Til baka í ritstörf Péturs

GÓP-fréttir - forsíða * Efst á þessa síðuTil baka í ritstörf Péturs