Forsíða
GÓPfrétta

 

 

Aftur á
síðu Sturlu
Friðriks-
sonar

Búvísindi Reykjavík 10, bls. 5-8, 1992
Stefán Aðalsteinsson:

Uppsetning
og atriða-
dálkur
GÓP

Störf dr. Sturlu Friðrikssonar 70 ára

*  *  *

 

Bústörf
í
æsku

UPPRUNI OG ÁHUGASVIÐ

Uppeldi sitt hlaut Sturla á ríkmannlegu menningarheimili í Reykjavík. Inn í það uppeldi ófst gildur þáttur þar sem voru kynni hans af búskap. Hann rak kýr Sturlubræðra úr Briemsfjósi til beitar í Vatnsmýrina og vann við heyskap fyrir bú þeirra á sumrum og við mjaltir á vetrum. Þá kynntist hann einnig búskap utan Reykjavíkur. Hann var í sumardvöl á Laxfossi í Borgarfirði, hjá sr. Jóni á Kálfafellsstað og hjá Jóni alþingismanni Pálmasyni á Akri.

 

Frjótt
félagslegt
umhverfi

Sturla ber sterkan svip af erfðum sínum og umhverfi. Hann er dæmigerður fræðimaður sem er ekkert í ríki vísinda og mennta óviðkomandi. Hann er fjölfróður um flesta þætti tilverunnar á Íslandi frá fornu fari og fram á þennan dag. Býr hann þar að sterkri löngun til að fræðast frá unga aldri, en einnig að því að hafa haft náin kynni af sérfræðingum á mörgum sviðum vísinda frá unga aldri. Meðal þeirra má nefna frænda hans Níels Dungal prófessor, frumkvöðul í ýmsum greinum læknavísinda á Íslandi, Þorvald Thóroddsen, jarðfræðing og yfirburða fræðimann, sem var giftur frænku hans, og Halldór Hermannsson, bókavörð við Cornell háskólann í Íþöku í New York ríki, sem var tengdur honum í föðurætt og var þjóðsagnapersóna í lifanda lífi fyrir þekkingu sína á íslenskum bókakosti.
Fjölfróður
og
víðförull

 

Sturla er fjölmenntaður í vísindum og hefur skoðað furður náttúrunnar í öllum heimsálfum. Jafnframt hefur hann hlotið fágaða framkomu í veganesti frá barnæsku. Hann umgengst alla, háa sem lága, með hlýlegri kurteisi. Hann er góður fulltrúi Íslands þegar hann ferðast með erlendum þjóðhöfðingjum um heiminn.
 

 

1941 MR
1944 BA
1946 MA

NÁM Í SKÓLA - VÍSINDANÁM

Sturla lauk stúdentsprófi frá menntaskólanum í Reykjavík vorið 1941 og sótti fyrirlestra í heimspeki, læknisfræði og efnafræði við Háskóla Íslands næsta vetur. Sumarið 1942 venti hann sínu kvæði í kross og sigldi til Bandaríkjanna með Goðafossi í skipalest, 20 daga ferð á hættuslóðum stríðsátaka. Þá um haustið hóf hann nám við Cornell háskólann í Íþöku og lagði stund á erfðafræði. Þar lauk hann fyrst bachelorsgráðu (BA-prófi) 1944 og síðan mastersgráðu 1946.

Kennsla
ofl
1950 HÍ
kynbætur
jurta
Þegar heim kom frá þessu námi í Bandaríkjunum var ekki um auðugan garð að gresja með störf á sviði erfðafræði. Sturla tók því fyrst að sér kennslu en vann jafnframt hjá Skógrækt ríkisins. Á árinu 1950 kom hann síðan til starfa hjá Búnaðardeild Atvinnudeildar Háskólans. Tók hann þar við sérfræðingsstarfi á sviði jurtakynbóta. Dr Áskell Löve hafði gegnt þessu starfi áður en horfið frá því þegar hann réðst prófessor við háskólann í Winnipeg.
Rannsóknir

og

tilraunir

Sturla hófst þegar handa um tilraunir á jurtastofnum og kynbætur á þeim við mjög frumstæð skilyrði. Hann fékk í fyrstu til umráða landskika á Varmá í Mosfellssveit, en þar var ekki einu sinni skýli til að matast í hvað þá að sinna innivinnu. Eigi að síður hlaut þessi skiki nafnið Tilraunastöðin á Varmá, og stóð undir nafni.

Um miðjan sjötta áratuginn tókst síðan að fá leigða spildu úr landi Korpúlfsstaða. Þar var smám saman byggð upp aðstaða, bæði geymsluhús fyrir uppskeru, vinnuaðstaða innanhúss og gróðurhús til tilrauna. Þessi staður fékk nafnið Korpa. Þar tókst Sturlu að koma af stað mörgum verkefnum í prófun og kynbótum á jurtum sem fengu margháttað gildi fyrir íslenskan landbúnað.

1957
námsleyfi

1961
doktor

Árið 1957 fékk Sturla leyfi frá störfum við Búnaðardeild og hélt til framhaldsnáms við háskólann í Saskatoon í Saskatchewanríki í Kanada. Þar skipulagði hann tilraunir með kynbætur á belgjurt þeirri sem kölluð er lúserna erlendis en refasmári í íslensku. Vann hann þar að tilraunum og námi með nokkrum hléum vegna starfa sem kölluðu að við Búnaðardeild, en árið 1961 hafði hann lokið rannsóknum sínum á refasmáranum og hlaut doktorsnafnbót fyrir ritgerð sína um það efni.

Dr Sturla Friðriksson við athugun á kolagröf á uppblásnum mel við Sandvatnshlíð

Snjall
og
útsjónar-
samur
RANNSÓKNIR

Sturla Friðriksson var hugmyndaríkur í vali á rannsóknaverkefnum. Hann sá oft hvar hægt var að prófa nýja og forvitnilega hluti með tiltölulega einföldum tilraunum. Oft gáfu þessar einföldu tilraunir svo glögg svör að ekki þurfti lengra að leita.

 

Snarrótin:

uppgötvun

fræði

og

fordómar

Þegar kal gekk yfir tók Sturla eftir því eins og aðrir að snarrót lifði oft af í kölnum túnum þó að annar gróður hyrfi að mestu. Þegar kal var mest áttu þeir bændur helst heyskapar von sem bjuggu við snarrótartún. Sturla hóf þá leit að snarrót sem ekki yxi í áberandi þúfum og mætti sá í tún þar sem mikil kalhætta væri. Hann fann slétt snarrótartún á Fjöllum í Kelduhverfi og fékk fræ af þeim. Fræinu sáði hann í flag í Þverholtum á Mýrum og gat að fáum árum liðnum boðið bændum sem bjuggu við kalhættu snarrótarfræ í nýræktir sínar. Aðalsteinn bróðir minn á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal fékk að prófa snarrótina frá Sturlu. Hún var þrjú sumur að ná sér á strik en kom þá í frábæran vöxt. Punturinn varð klofhár fullvaxinn, þúfur sáust engar, graslagið við jörð var þétt og mjúkt og fóðurgildi stóðst fyllilega samanburð við meðaltöðu.

Snarrótin virtist vera mjög góður kostur fyrir bændur sem bjuggu við mikla kalhættu. Samt reyndu hana fáir. Má þar kenna um að erlendir búnaðarháskólar kenndu það að snarrót væri óalandi illgresi og einskis nýt til fóðurs. Þau fræði máttu sín meira en innlendar staðreyndir.

Grænfóður
auka-
mánuður
sumarsins
 
Sturla vann um tíma að tilraunum með grænfóður, fyrst á Varmá og síðar á Korpu. Þeim tilraunum var ekki mikill gaumur gefinn í byrjun. En fyrstu fréttir af haustbeit lamba á grænfóður fóru eins og eldur í sinu um landið. Þar uxu lömbin eins og á besta afrétti um hásumar. Þá sagði Halldór Pálsson, búnaðarmálastjóri, að Sturla Friðriksson hefði lengt íslenska sumarið um mánuð með fóðurkálinu.
Jurtabætur
korpa
Sturlu-
vingull
Sturla hefur átt frumkvæði að mörgum tilraunum á starfsferli sínum. Má þar meðal annars nefna kynbætur á túngrösum. Þar ól hann fram stofn af vallarfoxgrasi sem hefur hlotið nafnið Korpa og reynist með ágætum til ræktunar, bæði á Íslandi og erlendis. Kanadamenn framleiða fræ af þeim stofni og selja víða. Þá ræktaði hann upp stofn af túnvingli sem reyndist sérstaklega vetrarþolinn og hefur hlotið nafnið Sturluvingull.
Ísland:
rannsóknar-
stofa
frá
fjöru
til
fjalla
Sturla hefur frá unga aldir haft ánægju af fjallferðum. Hann kynntist landinu í langferðum um hálendið, fyrst á hestum en síðar á torfærubílum. Hann hafði næmt auga fyrir því hvernig gróður breyttist frá fjöru til fjalla. Í framhaldi af því hóf hann rannsóknir á vexti og vetrarþoli ýmissa grastegunda við mismunandi skilyrði.

Sturla vildi ekki þurfa að bíða í áratugi eftir köldu árferði til að fá niðurstöður. Hann fann köldu árin, hvert um sig harðara en það næsta á undan, með því að færa sig hærra og hærra yfir sjó. Tilraunirnar á Sprengisandi og Kili eru gott dæmi um hyggjuvit Sturlu við að nota náttúruna og landið sem rannsóknastofu. Þannig fékk hann oft glögg svör með litlum tilkostnaði um fyrirbæri sem kostað hefði of fjár að rannsaka með öðrum hætti. Hagsýni hefur alltaf verið ríkur þáttur í eðlisfari Sturlu.

1963
Nýtt
land

Surtseyjar-
félagið

SURTSEY

Þegar gos hófst 14. nóvember 1963 suðvestur af Vestmannaeyjum var Sturla Friðriksson snemma á ferð yfir gosstöðvunum til að sjá með eigin augum og ljósmynda gosið í öllum sínum mikilfengleik. Síðan fylgdist hann náið með framvindu gossins og ekki hvað síst þegar í ljós kom að gosið myndi byggja upp eyju sem ætti sér varanlega framtíð. Eftir að Surtseyjarfélagið hafði verið stofnað varð Sturla í forystu um að fylgjast með þróun lífs á þessu ósnortna eylandi.

Skráð
eftirlit
með
landnámi
lífs
Ekkert eitt verkefni mun hafa fært Sturlu jafnmikinn hróður og rannsóknirnar á lífinu í Surtsey. Þar var hann árum saman vakinn og sofinn á varðbergi. Öllu varð að fylgjast með, ekkert mátti láta fram hjá sér fara. Rannsóknir á þróun lífs á Surtsey urðu frægar um allan heim. Þar fór saman það tvennt sem þurfti til að mikil saga yrði skráð. Surtsey reis úr hafi sunnan Íslands og þar hóf líf að þróast sem eldur og eimyrja réðu áður. Maður sem þekkti sinn vitjunartíma, Sturla Friðriksson, hafði forystu um að stórviðburðum sem þar gerðust væri vel og rétt lýst.
 

Erfða-
fræði-
nefnd HÍ
merk
störf

ERFÐAFRÆÐINEFND OG ÁSUSJÓÐUR

Árið 1964 átti Sturla Friðriksson aðild að stofnun Erfðafræðinefndar Háskóla Íslands. Góður styrkur fékkst frá Bandaríkjunum til að koma á fót mannerfðafræðirannsóknum á vegum nefndarinnar. Starf nefndarinnar hélst samfellt í 15 ár, eða á meðan bandaríska styrksins naut við. Síðan hefur nefndin verið á hrakhólum. Er þörf á að beina athygli að hinni gagnmerku ættarskrá sem unnið var að á vegum nefndarinnar og er brýn nauðsyn að halda áfram því verki sem þar var unnið.

Vísinda-
félag
og
Ása Wright
Sturla Friðriksson var kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga árið 1960 og var forseti þess árin 1965–67. Hann var frá upphafi formaður Ásusjóðsins, sem ber nafn frænku hans, Ásu Guðmundsdóttur Wright. Sjóðurinn var stofnaður árið 1965 á vegum Vísindafélagsins og veitir árlega einum íslenskum vísindamanni heiðurslaun.
 

 

Víða
farið
og
margt
skoðað
með
góðu
föru-
neyti

VÍSINDI Á ALÞJÓÐAVETTVANGI

Sturla var gerður félagi í Alþjóðadýraverndunarsjóðnum (World Wildlife Fund) árið 1973. Í þeim félagsskap eru bæði náttúruvísindamenn og ýmsir þjóðarleiðtogar. Það þótti fréttnæmt á Íslandi þegar Bernharð prins, eiginmaður Júlíönu Hollandsdrottningar, kom á einkaþotu sinni hingað til lands árið 1978 til að taka Sturlu og Sigrúnu konu hans í langferð. Héðan lá leið þeirra hjóna með prinsinum um Grænland, Labrador, New York og Bahama til Manaos við Amazonfljót í Brasilíu. Þaðan fóru þau með hópi vísindamanna og náttúruskoðara til Suðurskautslandsins þar sem þau heimsóttu ýmsar rannsóknastöðvar og vetursetubúðir landkönnuða. Þau hjón hafa ferðast víðar um heiminn á vegum sömu samtaka. Voru þær ferðir oftast farnar til að skoða sérstætt náttúrufar og dýralíf sem ástæða var til að vernda. Þar má nefna loðseli og sæfíla við Suðurskautslandið, fíla og nashyrninga í Afríku, tígrisdýr í Indlandi, Nepal og Bhutan og hið stórfurðulega dýralíf Galapagoseyjanna sem liggja við miðbaug í Kyrrahafi, vestur af strönd Suður-Ameríku.

 

 

Veiði-
og
vísindi

ÆVINTÝRA- OG VÍSINDAMAÐUR

Sturla Friðriksson er í senn ævintýramaður og vísindamaður. Ég varð honum einu sinni samferða inn á Vestur-Öræfi. Hann hafði fengið leyfi til að fella tvö hreindýr til að skoða vambarinnihald þeirra og kanna hvaða gróður þau hefðu verið að bíta. Það var greinilega mikill hugur í Sturlu þegar við nálguðumst hreindýrin og hann fór veiðimannlega að öllu. Hann valdi sér dýr úr hópnum og fylgdarmaðurinn annað, og þau féllu samtímis. En þegar bráðin hafði verið felld kom vísindamaðurinn í ljós. Allt var vegið og skráð úr dýrunum sem felld höfðu verið og nákvæm skýrsla gefin á prenti um það hvaða gróður þessi tvö hreindýr hefðu verið að bíta síðustu stundirnar í lífi sínu.

Það er margt skylt með veiðiskap og vísindum. Veiðimaður leitar að bráð á líklegum stað og notar þekkingu sína til að nálgast hana og leggja að velli. Vísindamaður leitar nýrrar þekkingar á líklegu sviði og reynir að höndla hana með rannsóknum. Marki sínu nær veiðimaðurinn þegar bráðin fellur. Vísindamaðurinn nær sínum árangri þegar ný þekking kemur í ljós. Þeir stefna báðir beint að sínu marki. Ævintýraþrá og veiðimennska er þeim sameiginleg.

Sturlu hefur hlotnast sú hamingja í starfi að hafa verið í samfelldri ævintýraleit.

Stefán Aðalsteinsson

Aftur á síðu Sturlu Friðrikssonar

Top of Page * The GOP-frettir Main Page