Forsíða GÓPfrétta


Aftur á síðu
Sturlu Friðrikssonar

Bræður byggja hallir

Viðtal við Sturlu Friðriksson um Laufásveg 53-55
samið af Björk Þorleifsdóttur - í bókinni:
Hamingjuhöllin Laufásborg 1952-2012.


Sturla Friðriksson - ungur skáti

7. nóv. 2012 - Gísli sæll.
Ég sendi þér hér viðtalið við mig svolítið lagað.
Þetta má fara á vefinn þinn.
Með þessu fylgir mynd af mér sem ungum skáta.
Ég hefði viljað láta fylgja mynd af Sturlubræðrum.
Hana færðu máske síðar.
Sturla Friðriksson

Aftur á síðu Sturlu Friðrikssonar

*

Mennirnir sem byggðu húsin
* Laufásborg er í raun tvö hús sambyggð, Laufásvegur 53 og Laufásvegur 55.

Þau voru byggð árið 1922 af bræðrunum Sturlu (1861-1947) og Friðriki (1860-1938) Jónssonum, en þeir voru oftast nefndir Sturlubræður. Þeir voru ættaðir af Laugavegi 1 og komnir af velmegandi fólki í bænum. Móðir þeirra var Sigþrúður Friðriksdóttir en faðir þeirra var Jón Pétursson háyfirdómari en hann var bróðir Péturs biskups og Brynjólfs konungsritara og Fjölnismanns sem fjallaði um Íslandsmálin á sínum tíma.

Friðrik nam við Lærða skólann og fór að námi loknu til Kaupmannahafnar til að nema lög. Honum leiddist vistin í Höfn og hélt aftur heim til Íslands að ári liðnu og skráði sig í guðfræðinám. Hann útskrifaðist úr guðfræði en tók ekki prestvígslu enda farinn að sinna öðrum málum þegar að námi loknu.

Sturla, sem var frekar vesæll sem ungur drengur, nam hjá Grími Thomsen á Bessastöðum, en fáum sögum fer að því námi annað en að Grímur hafi verið frekar latur kennari.

Þegar Sturla var tvítugur flutti hann aftur til Reykjavíkur og fór að stunda verslun með dyggri aðstoð bróður síns í Sturlubúð, sem var í Innréttingunum næst Herkastalanum í Aðalstræti. Í Sturlubúð mátti kaupa allskyns kramvarning, föt, klæði, kirnur og koppa og innflutt matvæli sem Friðrik keypti í Englandi og Danmörku.

Einn viðskiptavinur bræðranna var Þórður Malakoff, sá hinn sami og sungið er um enn þann dag í dag í laginu um Loff Malakoff, en hann keypti stundum brennivín í krambúðinni.

Reksturinn gekk afar vel hjá Sturlubræðrum og urðu þeir brátt með auðugustu mönnum bæjarins. Færðu þeir út kvíarnar og tóku m.a. að stunda þilskipaútgerð, fasteignaviðskipti, kaup og sölur á jörðum og einnig bröskuðu þeir í virkjanamálum með félaga sínum, þjóðskáldinu Einari Benediktssyni.

* Byggt í kjölfar bruna
* Áður en hallirnar við Laufásveg voru byggðar reistu bræðurnir timburhús undir sig og móður sína við Hverfisgötu. Það hús var gullfallegt og vel útbúið í alla staði.

Árið 1913 reið þó ógæfan yfir, þar sem eldur kviknaði út frá eldhúsi og húsið brann til grunna. Móðir þeirra bræðra var höluð út úr brennandi húsinu á lökum en lökin slitnuðu undan henni og gamla konan féll til jarðar og brotnaði illa og dó stuttu síðar.

Bræðurnir hreinsuðu brátt húsarústirnar og byggðu nýtt og glæsilegt hús á sama stað en þetta hús, sem byggt var í kastalastíl, og speglar útlit Sturluhalla við Laufásveg, hýsir nú danska sendiráðið.

Bræðurnir létu setja járn í steypuna og steyptu þannig loftin og gólfin í nýja húsinu en þetta var alger nýjung í íslenskri byggingalist. Árið 1919 seldu bræðurnir húsið og stóðu þá uppi húsnæðislausir.

* Litið til Laufáss
*Sturlubræður fundu tilvalinn stað fyrir nýtt hús á sunnanverðu Skólavörðuholtinu fyrir ofan bæinn Laufás, nánar tiltekið á Stekkjarkotstúni sem nefndist bæði Eymundsenstún og Eymundsblettur frá árinu 1901 eftir að bóksalinn Sigfús Eymundsson keypti túnið af Þórhalli Bjarnasyni biskupi í Laufási. Sturlubræðrum leist vel á túnið þar sem það var ruddur blettur á meðan mikið grjót var annars staðar á holtinu.

Bræðurnir keyptu lóðina, 4.000 m2 á 35.000 krónur þann 2. maí 1922.

* Sturluhallir rísa
*Nú var hafist handa við að reisa húsin sem síðar áttu eftir að hýsa leikskólann Laufásborg.

Friðrik sem var listhneigður og drátthagur gerði frumtillögur um hvernig húsið átti að líta út og eru takkarnir á þakbrún hússins m.a. hans hugmynd, en Einar Erlendsson, sem síðar varð húsameistari ríkisins, hafði yfirumsjón með hönnuninni. Pétur Þorvaldsson trésmiður sá líklega um að smíða húsið en hann sá einnig um smíði húsanna við Laufásveg 49 og 51, sem þeir Sturlubræður létu reisa nokkru síðar.

Nýtískulegar aðferðir voru notaðar við húsbygginguna. Húsin voru steypt og steinar settir inn í veggina og steypustyrktarjárn var einnig notað til að styrkja veggi og gólf. Þar sem húsin voru stór, eða alls 922 m2, dugði járnstyrktarefnið ekki til og því var gripið til þess ráðs að bæta trollvír við. Þess ber að geta að grunnur húsanna var handgrafinn en það var stutt niður á stóra og mikla klöpp og lítið sprengiefni var notað þar sem það var svo erfitt að sprengja klöppina, en þó var það gert á einum eða tveimur stöðum.

Húsin voru höfð með flötum þökum sem var nýnæmi á þeim tíma og var bárujárn sett á þau með hæfilegum vatnshalla. Bárujárninu var stungið undir múrhúðina efst við takkana til festingar og svo voru rennur undir bárujárninu fyrir vatnið að norðanverðu. Þá var skólp lagt frá húsunum en það þótti mjög flott og nýtískulegt að hafa vatnssalerni í stað kamra.

* Viður frá Fossafélaginu Títani
* Það er skemmtilegt að segja frá því að viðurinn sem notaður var í húsin var innflutt eðalfura sem hafði verið ætlað allt annað hlutverk. Þeir Sturlubræður voru stórtækir athafnamenn, sem höfðu í félagi við Einar skáld Benediktsson stofnað Fossafélagið Títan. Ætlunin var að virkja Þjórsá og leggja járnbraut frá Þjórsá til Reykjavíkur en þangað átti að flytja áburð sem búa átti til við ána.

Besti fáanlegi bryggjuviður var keyptur til bryggjusmíða í Skerjafirði en þaðan ætluðu þeir félagar að flytja áburðinn til Englands.

Þessi áform urðu að engu þegar virkjun við Þjórsá var hafnað árið 1922 og leystist Fossafélagið upp í kjölfarið. Þess í stað var bryggjuviðurinn notaður til húsbygginganna við Laufásveg. Þetta var einstaklega góður viður sem fúnaði alls ekki þótt á hann reyndi og var auðvelt að smíða úr honum.

* Sturlubræður flytja inn
*Á meðan á byggingu hússins stóð flutti Friðrik með eiginkonu sinni Mörtu Maríu Bjarnþórsdóttur(1891-1976) og tveimur börnum, þeim Sigþrúði fjögurra ára og Sturlu sem var kornabarn, í kofa við Laxfoss í Norðurá í Borgarfirði. Um haustið var húsið ekki tilbúið og flutti fjölskyldan þá í veiðihús Sturlu við Elliðaárnar og fékk að lokum inni hjá vinafólki sem bjó í Austurstræti. Það var svo um veturinn 1923 að fjölskyldan gat loks flutt í kjallarann á Laufásvegi 53 og Sturla, sem var einhleypur, flutti á Laufásveg 55, en þá voru húsin reyndar skráð við Bergstaðastræti 58.

Marta María sá um að innrétta Laufásveg 53 en ráðskona Sturlu frú Vídalín sá um innbúið á Laufásvegi 55.

* Upphitun
*Húsin voru fyrst kynt með kolaofnum í hverju herbergi. Þegar húsin við Laufásveg 53-55 voru seld var ákvæði sett í kaupsamninginn um að breyta þyrfti hitakerfi hússins og koma miðstöðvum fyrir í þeim. Þá var settur upp ketill í kjallaranum og lögð rör fyrir heitt og kalt vatn í herbergi og baðherbergi en slíkt var þá komið í tísku.
* Garðurinn
* Sturlubræður voru aldir upp við garðrækt en móðir þeirra plantaði trjám í garðinum við æskuheimili þeirra á Laugavegi 1. Það var því ekki skrýtið að þeir skyldu koma upp fallegum skrúðgarði hið fyrsta við Sturluhallir.

Veggur með tökkum í stíl við þakið var byggður utan um garðinn. Niðurfallið var lagt í veginn frá hliðinu upp undir tröppunum, stígur var settur í miðjan garðinn og svo var settur pallur í garðinn.

Hinir stórhuga Sturlubræður voru ekkert að planta íslenskum trjám í garðinn sinn heldur létu þeir senda sér tré alla leið frá Noregi. Þar á meðal má nefna silfurreyni en einnig sjaldgæfari tegundir eins og álm, beyki, broddhlyn og hestakastaníu en síðastnefnda tegundin gæti verið sú elsta sinnar tegundar í Reykjavík enda 90 ára gamalt tré.

Auk trjánna voru ræktaðir berjarunnar, sólber, rifs, stikkilsber og hindber en hindberin þrifust ekki. Stikkilsberjarunnarnir voru fengnir frá Guðmundi Guðmundssyni lækni í Stykkishólmi en hann var giftur Arndísi systur þeirra bræðra.

* Húsin seld
* Sturlubræður og fjölskyldur þeirra bjuggu ekki lengi í húsunum við Laufásveg 53-55. Bræðurnir byggðu sér hús númer 49 og 51 við Laufásveg og fluttu þangað árið 1924. Húsin voru byggð með aðeins öðru sniði en húsin við númer 53 og 55.

Sund, sem var um faðmur á breidd, var haft á milli húsanna vegna þess hve frú Vídalín, ráðskona Sturlu, var viðkvæm fyrir barnsgráti. Herbergi frú Vídalín var á mörkum húsanna númer 53 og 55 og heyrði hún son Friðriks jafnan gráta sáran hinum megin við þunnan vegginn. Það var því ákveðið að hafa stærra bil á milli nýju húsanna til að hlífa frúnni!

* Kolakarlar og eldabuskur
* Stór eldavél í eldstæði var nú sett í kjallara húsanna. Bræðurnir réðu til sín kolakarl sem mætti eldsnemma á morgnana og flutti kol úr kolageymslunni yfir í eldstæðið og bætti kolum í eldinn. Kolakarlinn mætti svo aftur á hverju kvöldi og faldi eldinn.

Fleira starfsfólk þurfti í hin geysistóru hús, og voru bæði eldabuskur og stofustúlkur ráðnar til starfa, enda var ekki vanþörf á, því alltaf var verið að bóna gólfin og hreinsa gluggana í Sturluhöllum.

* Nýir eigendur
* Nýir eigendur húsanna við Laufásveg 53 og 55 voru Garðar Gíslason stórkaupmaður og Þóra Sigfúsdóttir sem keyptu Laufásveg 53 og Jón Ólafsson bankastjóri og alþingismaður og Þóra Halldórsdóttir sem keyptu Laufásveg 55. Garðar og Þóra áttu fjögur börn, en Jón og Þóra áttu fimm börn.

Auk þess voru leigjendur á jarðhæðinni á númer 55, þær Ágústa Ólafía Ólafsson og Sólveig Hvannberg, verslunarkonur. sem áttu búð á horni Bergstaðarstrætis og Bragagötu.

Á jarðhæð Laufásvegar 53 bjuggu hjónin Vilhjálmur Albert Lúðvíksson og Helga Gissurardóttir ásamt börnum.

Á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar flutti Garðar til Bandarikjanna en Þóra lést árið 1937. Á þessum tíma bjó elsta dóttirin Margrét á efstu hæð hússins ásamt manni sínum Halldóri Jónssyni, en á miðhæðinni bjuggu bandarískir menn sem störfuðu sem fulltrúar í sendiráði síns lands. Annar þeirra varð síðar sendiherra, en hinn hugaði að Marshall-aðstoðinni á Íslandi. Báðir voru kvæntir íslenskum konum.

Húsin voru í einkaeign til ársins 1950 þegar Reykjavíkur borg festi kaup á þeim og Barnavinafélagið Sumargjöf opnaði leikskólann Laufásborg í Sturluhöllum.

**
Efst á þessa síðu * Forsíða GÓPfrétta * Staðfræði í Njálu * Aftur til Sturlu Friðrikssonar