GÓP-fréttir *   *
Karl Theodór Sæmundsson 
fæddur 29. september 1909 - dáinn 15. ágúst 2004

Karl Theodór Sæmundsson, húsasmíðameistari og um langt árabil kennari við Iðnskólann í Reykjavík, hefur lagt gjörva hönd á fjölmargt um dagana. Hann er listamaður í höndum, tekur frábærar ljósmyndir, málar með vatnslitum, olíulitum og meira að segja með kúlupenna og kaffi! Þó er hann enn fyrirferðameiri sem ferðamaður, leiðsögumaður og fararstjóri um Ísland og um allan heim. 

Nokkrar ferðamyndir:

Úr haustferð Gíslavinafélagsins 1992:
Ljósmyndasíður:
nr. 1 * nr. 2 * nr. 3

Málverkamyndir 


Ákveðinn - með örugg hné
áleiðis á fellið
einbeittur og stilltur sté
stígvélum á svellið.

Málverkasýning í Bogasalnum 1978
Frásögn Karls í júní 2001

Hringur Jóhannesson hafði verið kennari Karls á námskeiðum. Þeir voru vinir og Hringur hjálpaði honum að setja upp sýninguna. Að launum gladdi Karl hann með flösku af 18 ára gömlu brennivíni - en lét þessar vísur fylgja (við lagið: Hvað er svo glatt):

Hún hefur lifað meir en 18 árin
og allan tímann hefur hún beðið þín.
Hjá stöllum hennar teyga margir tárin
og tælt hafa þær marga inn til sín.

Í meyjahópi margur glaður syngur
- mætti svo einnig verða er njótist þið -
en gættu þín á henni, góði, besti Hringur,
og glingraðu ekki fleiri slíkar við.

Horft niður á Eyjabakkana

Þeir Friðgeir Grímsson höfðu gengið upp Lónsöræfin og átt við að etja ýmsa ferðaerfiðleika og torfær klungur. Friðgeir sagði frá þessari ferð þeirra félaganna á níræðisafmæli Karls. Þegar þeir komust loksins upp á hæstu hæðir og horfðu niður yfir Eyjabakkana hafði Karl mælt fram þessa vísu:

Er nú sleppir urð og grjóti
eygjum við græna hagana.
Nú er það bara niðrí móti
næstu fjóra dagana.

23.02.2002: Komdu í kaffi -
Karl sendi GÓP þessa vísu:

Þótt truflist allt þitt tímaspil
og teljir margan vanda
komdu samt í kaffi til
Kalla á Aflagranda.

Öræfanna bros og blik
bjart í fjallahlíðum
er á Kalla ekkert hik
- áttræður á skíðum.

Hugmynd alltaf yfir býr
oft sem tekst að klára,
Kalli, orðinn næstum nýr,
- níutíu ára.

Karl Theodór Sæmundsson
- f.: 29.09.1909 - d.: 15.08.2004


Öndin kemst á æðra stig
- yndi býr í sinni -
hamingjurnar heiðra mig
hér á Þórsmörkinni.

Kveðja

Hjartans þakkir fyrir samfylgdina.
Þegar ég skrifa þetta erum við fjórir saman á ferð austur Flóann og ætlum að skreppa upp í Tindfjöll, - já, sömu leið og við fórum saman í fyrrasumar þegar við hittum hann Magnús í Miðdal og hann dró upp fyrstu gestabók hússins þar sem þú hafðir ritað inngangsorðin - fyrir hálfri öld. Það var einmitt svona dagur - nema ennþá bjartari. Moggaspá hans var sú glæsilegasta sem ég hefi séð. Fullar sólir á Suðurlandi - og það gekk eftir allan daginn. Þetta varð eftirminnilegur dagur. Við höfum rifjað hann oft upp síðan og farið hugferðum sömu stórkostlegu leiðina á kvöldum.

Nú erum við að fara yfir Ytri-Rangá. Jú, jú, sagðirðu, - leiðin að fossinum er hérna aðeins vestar, - og það var nákvæmlega þannig - rétt eins og svo margt annað sem þú sagðist hafa löngu gleymt og ekkert vita lengur.

Í Inn-Hlíðinni förum við nú hjá Háamúla. Þar tókstu myndirnar fyrir 60 árum þegar þið gistuð þar í krapaferðinni miklu þegar hestarnir lágu dýpra en á kviði og allt varð vindandi í vetrarnóttinni. Erfið ferð en indæl endurminning um gestrisna húsráðendur og svo auðvitað að lokum - enn eina frábæra Tindfjallapáska.

Ofan við brekkurnar í Fljótsdal komum við á skíðalöndin. Forðum var hér ekkert hlemmiskeið - fyrr en snjórinn var lagstur yfir. Þá var hér svifið yfir og sungið í skála.
Þá voru margir fastir gestir í ferðahópum sem nú hafa misst sinn síðasta mann. Með mönnunum hverfa minningarnar - þær sem hvergi eru skráðar - líkt og sú sem Friðgeir Grímsson rifjaði upp á níræðisafmælinu þínu. Þar lýsti hann því þegar þið tveir genguð Lónsöræfin og norður á Fljótsdal:
Þegar við loksins klöngruðumst upp á efstu brúnirnar og horfðum niður yfir Eyjabakkana mælti Karl fram þessa vísu:

Er nú sleppir urð og grjóti
eygjum við græna hagana,
nú er það bara niðrí móti
næstu fjóra dagana.

Við skruppum norður á hálsana til að horfa til Heklu í blíðviðrinu en komum svo að efsta skálanum sem þú varst við að hanna og reisa og bjóst í á hverjum páskum um áratuga skeið. Við tókum af okkur mynd núna - rétt eins og við gerðum í fyrra. Að þessu sinni förum við þó ekki sömu heimleiðina. Eftir nokkra stund erum við komnir aftur niður í Fljótsdal og svo inn að Gilsá við Hellisvelli og horfum til Eyjafjallajökulsins eins og stundum áður þegar við komum vestur yfir Markarfljótið. Já, ég var hrifinn af myndinni sem þú hafðir málað héðan við hlýbjarta snemmmorgunsól.

Hugurinn skreppur að skoða þínar listilegu ljósmyndir. Ég dáðist að auga þínu fyrir myndefni - eins og þegar við ókum fram á ræksni af brú í heiðinni. Stansaðu hérna! sagðirðu og tókst mynd sem ég þóttist viss um að ynni aldrei til verðlauna því ég sá þar ekkert efni. Svo sá ég síðar þessa fínu mynd og mér var ljóst að þú sást allt annað en ég - og svo leiftursnöggt - þótt sjónin væri farin að daprast um of til að aka bíl.

Við ökum frá Gilsá inn fyrir Lausölduna. Ekki sakar að svipast um eftir vaði á Fljótinu. Það brýtur sig álitlega. - Eftir klukkutíma hafa allir álarnir verið gengnir og brotin vaðin. Við reynumst heppnir því við finnum ágæt vöð. Ég kalla þau Karls-vöð að þessu sinni - en eðli allra vaða á Markarfljóti er að breytast ört og byltast og áður en varir eru þau ekki lengur - rétt eins og önnur spor okkar í tilverunni skolast út í ekki neitt þegar tímar líða fram og þeir hverfa sem mundu.

Ég sakna þín, ferðavinur, þótt ég gleðjist yfir þinni hvíld og lausn frá þessu síðasta algjöra ferðahelsi.

Sólin, hún situr í hlíðum,
sindrar hin hvíta mjöll,
glaður þú skundar á skíðum
í skála við Tindafjöll.

Innileg samúðarkveðja til fjölskyldunnar.
Gísli Ólafur Pétursson og Ragna Freyja Karlsdóttir

Nokkrar ferðamyndir:

GÓP-fréttir