Forsíða
Ofvirknivefur
Ofvirknibók

© Ragna Freyja Karlsdóttir, sérkennari:

Spurt og svarað um ofvirkni

 

2004 Um liðsinni við barn með ofvirkni og hvatvísi án athyglisbrests

Þessi greining er óalgeng. Í skólanum eru þessir tveir þættir, þ.e. hvatvísin og athyglisbresturinn, það sem veldur barninu og kennurunum mestum erfiðleikum - sérstaklega ef kennarinn hefur ekki grunnþekkingu á AMO eða AD/HD, þ.e. athyglisbresti með eða án ofvirkni.
Öll þau ráð og aðferðir sem eru góðar fyrir barn með ofvirkni og hvatvísi með athyglisbresti eru einnig þær aðferðir sem best duga til að hjálpa barni með þessa greiningu án athyglisbrestsins. Um þau ráð og aðferðir vísast í Ofvirknibókina.  Athyglisbresturinn og einbeitingarskorturinn er það sem oftast veldur því að barnið nær ekki tökum á náminu þótt það hafi meir en næga hæfileika.

Jákvætt aðhald og atferlismótun með jákvæðu umbunarkerfi er alltaf besta aðferðin og sú langsamlega árangursríkasta.

Foreldrafélag ADHD-barna hefur skrifstofu í Sjónarhóli og vefur þess er http://www.adhd.is
Þar er gott bókasafn og einnig er gott að senda þangað póst með fyrirspurn.
Einnig eru ýmislegt nytsamt á ofvirknivefnum og vísanir til annarra vefja.

1997 Svör við fyrirspurnum nemenda í fjarnámi KHÍ til meistaraprófs í uppeldis- og kennslufræðum.
Fyrirspurnirnar komu í kjölfar innleggs í janúar 1997 - nánar tiltekið dagana 21.-26. janúar.
Tiltekinn einstaklingur spyr spurningar og upphafsstafir hans eru innan sviga við fyrirsögn svarsins.

Athuga ber að þessi svör eru gefin áður en Ofvirknibókin var gefin út og þess vegna er þar hvergi vísað til hennar.

1 Um fyrirmæli (HH)

Þegar fyrirmæli eru gefin þarf að vera tryggt að nemandinn hlusti, athyglin beinist að kennaranum og augnsamband náist. Best er að munnleg fyrirmæli séu ekki margþætt heldur fá og skýr og verkefnið beri með sér hvað gera skal. Það er ágætt ráð að láta nemandann endurtaka með eigin orðum fyrirmælin sem gefin voru. Sumum ofvirkum nemendum þykir mikilvægt að fyrirmæli séu undirstrikuð með sjónrænum hætti og ég held að margt megi nota úr TEACCH-kerfinu þegar unnið er með ofvirka nemendur. Í því kerfi skiptir öllu máli að festa, reglusemi og samkvæmni sé í fyrirrúmi og það er einmitt fyrirkomulag sem hentar ofvirka nemandanum.

2 Námserfiðleikar (HH)

Námserfiðleikar ofvirkra nemenda eru í sjálfu sér þeir sömu og annarra nemenda. En það sem veldur námserfiðleikum hjá ofvirkum nemendum má oftast rekja til einbeitingarskortsins, úthaldsleysisins og hreyfivirkninnar en ekki endilega til getuleysis. Þau byrja oft snemma að heltast námslega úr lestinni og eftir því sem árin líða verður æ erfiðara að halda í við jafnaldrana. Vansældin og kvíðnin eykst og hætta er á að til viðbótar ofvirkninni bætist óheppilegt hegðunarmunstur. Þegar svo er komið þarf ekki aðeins að kljást við námserfiðleika nemandans heldur ekki síður byggja upp sjálfstraust og sjálfsvirðingu hans.

3 Sérstakir erfiðleikar stúlknanna (HH og KÞA)

Ofvirkni drengja í yngri bekkjum grunnskóla leynir yfirleitt ekkert á sér enda oftast mótþróafull og ögrandi. Þessu er öfugt farið með stúlkurnar. Hegðun þeirra ber það oft alls ekki með sér að þær séu ofvirkar. Það hefur sýnt sig í faraldsfræðilegum könnunum að með ofvirkni greinist ein stúlka á móti hverjum fjórum drengjum. Hins vegar er það aðeins EIN stúlka sem leitað er með til greiningar og meðferðar á móti hverjum NÍU drengjum. Ég hef heyrt að rannsóknaraðilar íhugi að skilgreina annað greiningarmat fyrir stúlkur en drengi. Hugsanlegt er að stúlkurnar séu í raun mun fleiri og að erfiðleikar þeirra séu meira tengdir athyglisbresti en hreyfiofvirkninni. Þessar stúlkur sitja væntanlega í sínum sætum og eru engum til ama. Það er því hætta á að þær verði aðeins skilgreindar sem hægfara í námi og fái þess vegna ekki aðstoð við hæfi. Ég hef rekið mig á að erfiðleikar margra ofvirkra stúlkna brjótast á unglingsárum út með tilfinningalegum truflunum, kvíðni, þunglyndi og oft verulegum hegðunarerfiðleikum.

4 Greining ofvirkni - hvernig og hverjir (ST og LG)

Um síðustu áramót var tekið í notkun nýtt alþjóðlegt greiningarkerfi, ICD-10 í stað DSM-3N sem áður var notað. Ofvirknigreiningin felst í því kanna þrjá þætti. Þeir eru: athyglisbrestur, hreyfivirkni (ofvirkni) og hvatvísi og einkenni þeirra verða að vera gagntæk, þ.e. þau verða að koma fram við mismunandi aðstæður, vera stöðug í tíma - þ.e. hafa verið til staðar undanfarna 6 mánuði og hafa komið fram ekki síðar en við 7 ára aldur. Greiningaviðmiðin eru 18 og verða 10 þeirra að vera til staðar til þess að nemandinn greinist ofvirkur.

Í greiningarstarfinu á BUGL, sem ég þekki best til, er þverfaglegt teymi sem heldur utan um greininguna. Upplýsingar eru fengnar frá foreldrum og kennurum um þroskaferil, skólasögu, hegðun, athyglisbrest, námsstöðu og fleira. Sálfræðileg próf eru lögð fyrir, læknir skoðar börnin og fleira. Teymið safnar saman öllum upplýsingunum og skrifar greinargerð. Það dregur ályktanir og fjallar um þær og gerir skriflega grein fyrir niðurstöðum sínum.

Áhersla er lögð á að ofvirknigreiningin er þverfagleg vinna þar sem að koma sálfræðingar, geðhjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar, geðlæknar og kennarar.

Páll Magnússon, sálfræðingur á BUGL, hefur þýtt greiningarviðmiðin í ICD-10 og hefur gefið leyfi til að þau fái að fara í gagnabankann.

5 Ofvirkur nemandi í bekk er engill í sérkennslu (GB og ST)

Ef nemandi hefur verið greindur ofvirkur eru allar líkur á að einkennin komi sterklega í ljós í stórri bekkjardeild. Einkennin geta verið vægari á einum tíma en öðrum en ef nemandi fær gott aðhald, mikla aðstoð og óskipta athygli - t.d. í sérkennslutímum með einum kennara - þá getur hann þar verið alveg eins og engill!

Líka má hafa það í huga að þegar ofvirkur nemandi vinnur að verkefnum sem vekja sérstakan áhuga hans eða hann velur sjálfur verkefni þá geta ofvirknieinkenni hans verið í lágmarki. Hann getur líka sökkt sér af mikilli einbeitingu í verkefni - gott dæmi um það er þegar sumir nemendur vinna á tölvu - en þá er oft erfitt að fá þá til að hætta!

Ef nemandi hefur verið greindur ofvirkur og sýnir ofvirknihegðun við tilteknar aðstæður en ekki við aðrar aðstæður sem þó geta ekki talist lagaðar að ofvirkni hans þá getur verið ástæða til að kanna málið frekar.

6 Aðstoð við bekkjarkennara með ofvirkan nemanda (GB, ÞK og SB)

Talið er að 3-5 prósent grunnskólanemenda séu ofvirkir. Samkvæmt því er að jafnaði einn ofvirkur nemandi í hverri bekkjardeild á landinu. Nú er það svo að bekkjarkennarar þurfa að glíma við margan vanda í bekknum sínum. Það er ekki ólíklegt að í honum séu 2-5 nemendur sem þurfa mikla aðstoð - og svo eru það "hinir nemendurnir" með sína erfiðleika sem líka eiga rétt á að fá kennslu. Ef ofvirkur nemandi sýnir mikinn hreyfióróleika og hvatvísi í bekk fer mestur tími kennarans í að sinna honum og hinir sitja meira og minna á hakanum. Við slíkar aðstæður - og þó þær væru vægari - tel ég það alveg nauðsynlegt að bekkjarkennarinn fái aðstoð. Aðstoðin þarf að vera fólgin í því að inn komi kennari sem fyrst og fremst sinni ofvirka nemandanum innan bekkjar og utan.

Fáein orð um aðstoðina við ofvirka nemandann:

Á undanförnum árum hef ég farið inn í bekki í mörgum skólum til að athuga ofvirka nemendur við venjulegar bekkjaraðstæður. Í flestum skólastofum ríkir ákveðin regla og venjur. Farið er eftir stundaskrá, bækur og verkefni eiga sér sinn tiltekna stað, unnið er ákveðinn tíma að verkefnum, skipulagðir eru valtímar, sögustund höfð í nestistíma osfrv.

Margur ofvirkur nemandi getur haldið skóladaginn út ef ramminn kringum hann er afmarkaður dálítið betur. Eitt af því sem þar þarf að hafa í huga er hvar nemandinn er staðsettur í stofunni, fara yfir stundaskrána hans þegar hann byrjar skóladaginn, gæta þess að verkefnin séu við hæfi, skipuleggja hlé milli verkefna og undirbúa hann undir breytingar, hugsanlegt umbunarkerfi, umbun í lok dags og/eða í lok viku. Þetta þarf ekki að vera mjög tímafrekt þó það sé dagleg regla.

Það þarf að vera sjálfsagt í skólanum að kennari sem er að sligast undan álaginu geti leitað til samkennara og stjórnenda um aðstoð og fengið ráðgjöf innan eða utan skólans.

7 Skipulagt umhverfi (ÞK)

Ofvirkur nemandi þarf á góðu skipulagi að halda á öllum stigum grunnskólans. Hann á erfitt með að skipuleggja sjálfur tíma og vinnu og þarf því aðstoð við það. Ég er sammála þér um að gæta verður varúðar þegar um unglinga er að ræða. Ekki má misbjóða þeim eða niðurlægja frekar en aðra. Heppilegast er að hafa unglinginn með í ráðum og fá hann til að segja til um hvað muni gagnast honum best. Ofvirki nemandinn er kennara sínum þakklátur þegar hann áttar sig á því að kennarinn hefur skilning á erfiðleikum hans og vill hjálpa honum.

8 Lyfjagjöf (ÞK)

Ekki er vitað hvað veldur ofvirkni og ástæður geta verið fleiri en ein. Þó er talið að erfðir valdi mestu. Það sem erfist eru truflanir á boðefnum í heila - t.d. dopamini. Reynt er að hafa áhrif á þessi boðefni með örvandi lyfjum eins og ritalini, þunglyndislyfjum eins og aurorixi eða þessi lyf gefin saman.

Þú spyrð hvað mér finnist um lyfjagjöf. Mér finnst eins og mörgum öðrum að ekki eigi að gefa lyf nema brýna nauðsyn beri til. Hvað viðkemur ofvirkum nemendum og lyfjagjöf hef ég margsinnis séð svo jákvæðar breytingar að ég er hlynnt því að lyfjagjöf sé reynd. Lyfin stjórna ekki ofvirkum nemanda heldur hjálpa honum að halda truflandi áreitum í skefjum þannig að hann getur betur einbeitt sér og þau draga úr hvatvísinni. Lyfjameðferð nýtist best þegar hún er samhæfð kennslu og heppilegum uppeldisaðferðum forráðamanna og annarra sem vinna með ofvirka nemandann.

9 Flokkun fatlana (ÞK)

Í lögum um málefni fatlaðra eru skilgreindar ýmsar fatlanir bæði andlegar og líkamlegar. Þær eru: þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðing og fatlanir vegna langvarandi veikinda eða slysa. Ofvirkni er ekki greind sem fötlun í þessum lögum. Forráðamenn fatlaðra og sjúkra barna eiga rétt á umönnunarbótum sem greindar eru í fimm flokka eftir því hver fötlunin er. Samkvæmt þessum skilgreiningum eiga forráðamenn ofvirkra barna ekki rétt á þessum umönnunarbótum en einhverjir hafa þó fengið bætur á þeim forsendum að um sjúk börn sé að ræða og þær eru þá í flokki 4 eða 5 - þ.e. lægstu bæturnar. Um þetta vísast til þessara laga og til Tryggingastofnunar ríkisins.

10 Atferlismótun (AÞE og LG)

Það hefur sýnt sig að ýmsar aðferðir atferlismótunar henta vel til að breyta hegðun ofvirkra nemenda. Lögð er áhersla á að

  • a - styrkja jákvæða hegðun sem fyrir er - eða styrkja nýja jákvæða hegðun,
  • b - breyta hegðun til betri vegar og viðhalda hinni jákvæðu breytingu
  • c - stöðva óæskilega hegðun.

Jákvæðar og neikvæðar styrkingar má nota til að auka tíðni æskilegs atferlis og minnka tíðni óæskilegs atferlis. Styrkingin verður að koma strax í kjölfar hegðunarinnar.

Ef notuð er jákvæð styrking í kjölfar æskilegs atferlis t.d. með aukinni athygli, hrósi eða einhverjum forréttindum hlýtur nemandinn umbun fyrir æskilegt atferli. Jákvæð styrking hefur góð áhrif á ofvirk börn sem eru því vanari að fá neikvæð skilaboð.

Ef notuð er neikvæð styrking í kjölfar óæskilegs atferlis t.d. með ávítunum, hefur atferlið neikvæðar afleiðingarí för með sér fyrir nemandann því honum refsað fyrir óæskilegt atferli.

Ef jákvæð styrking atferlis s.s. bros, hrós og forréttindi, er fjarlægð þá minnka líkur á að það atferli verði endurtekið. Það er nemandanum refsing að missa jákvæðu styrkinguna.

Ef neikvæð styrking atferlis s.s. skammir og refsingar, er fjarlægð eykur það líkur þess að það atferli verði endurtekið. Það er nemandanum umbun að neikvæð styrking er fjarlægð.

Dæmi um styrkingakerfi eða umbunarkerfi getur verið þegar nemandinn safnar merkjum sem að lokum veita honum umbun svo sem að fara í bókasafn, fara í tölvu osfrv. Hægt er að bæta því við slíkt kerfi að nemandinn missi merki við óæskilega hegðun.

Einnig er hægt að gera formlegan samning sem nemandinn og kennarinn skrifa undir.

Markmið og styrking verða að vera við nemandans hæfi.

Slokknun - eða time-out - getur virkað vel á ofvirkan nemanda og hægt er að hugsa sér þessa aðferð í mismunandi stigum eða í mismunandi útfærslu.

Almennt gildir að umbun er mun áhrifaríkari leið en refsing til að breyta hegðun til batnaðar.

11 Ráð til foreldra (KÞA)

Í greininni minni í Glæðum er lögð áhersla á jákvætt samstarf heimilis og skóla. Þegar þessi tengsl eru gagnkvæm getur það hjálpað bæði foreldrum og kennurum að leita lausna við ýmsum málum sem upp koma. Flestir foreldrar lýsa erfiðleikum heima fyrir þegar nemandi á að vinna heimaverkefnin sín. Ef hægt er að koma því við að ofvirkur nemandi vinni heimaverkefnin sín í skólanum er að jafnaði þungu fargi létt af heimilunum.

Hafi nemandi ekki verið greindur ofvirkur geta foreldrar leitað til Göngudeildar BUGL og óskað aðstoðar. Einhverjir af foreldrahópunum sem sótt hafa fræðslunámskeið um ofvirkni á BUGL hafa haldið hópinn og þannig fengið gagnkvæman styrk.

Ég held að innan foreldrafélags misþroska barna sé hópur foreldra sem eiga ofvirk börn.

Efst á þessa síðu *Forsíða * Ofvirknivefur * Ofvirknibók