GÓP-fréttir
 
JÖRFÍ og
Jökulheima-
þættir

Jöklasystur

Pétur Sumarliðason og

Jökulheimar

Með aðstoð gestabóka Jökulheimahúsanna er hér upp rifjuð vera Péturs Sumarliðasonar og fjölskyldu hans í Jökulheimum á árunum 1963 - 1970 svo og heimsóknir - og einnig heimsóknir fyrir og eftir þetta tímabil.

PS: Örnefnatafla - áttaviti 
GÓP: Heimferð Valgerðar Gísladóttur þann 14. ágúst 1967
með aðstoð varðarins í Veiðivötnum,
Gunnars Guðmundssonar frá Heiðarbrún, kennara og skólastjóra.

14. júlí 1957 - frá Sóleyjarhöfða til Jökulheima
1957 Hópurinn við Sóleyjarhöfða
Mynd: Sigurjón Rist. Hann gaf þátttakendum eintak og þetta er eftir mynd Sigríðar og Jakobs.
 Frá vinstri: Hjálmar Þórðarson verkfræðingur, Eberg Elefsen vatnamælingamaður,
Steingrímur Pálsson, Guðmundur Thoroddsen læknir og prófessor, Guðmundur Kjartansson
jarðfræðingur, Guðrún Gísladóttir bókasafnsfræðingur, Ásdís Sveinsdóttir Thoroddsen,
Sigríður Ásmundsdóttir og Jakob Gíslason rafmagnsverkfræðingur og raforkumálastjóri.
Fyrir framan sitja Guðmundur Jónasson og Sigurður Thoroddsen verkfræðingur.

14. júlí 1957
kl. 19

Heljargjár-
leið úr
Illugaveri

komum við undirrituð hingað frá Sóleyjarhöfða. Vorum í R-376, bílstjóri Guðmundur Jónasson. Fórum frá Köldukvísl gegnt Illugaveri suður yfir hraunið. Komum við á Rauðtoppi og síðan sem leið liggur með Gjáfjöllum yfir Heljargjá, sem reyndist æði tímafrek. Ferðin gekk þó í alla staði vel og slysalaust og var gott hingað að koma í hreinan og þokkalegan kofann að Jökulheimum.

Þökkum gistinguna
Sigurður Thoroddsen (sem skrifar textann)
, Ásdís Thoroddsen, Guðrún Gísladóttir, Guðmundur Kjartansson, Jakob Gíslason, Sigríður Ásmundsdóttir, Guðmundur Thoroddsen, Hjálmar Þórðarson, Guðmundur Jónasson.

1963 1963
24. ágúst 1963 Komum 24. ágúst og fórum 25. eftir góðar móttökur í skálanum af húsbóndanum þar, Pétri Sumarliðasyni.
Sveinn Erlendsson, Grund, Álftanesi og 12 ferðafélagar með Gunnari Guðmundssyni á R-346
25. ágúst 1963

Um leiðir.

Komum hér frá Laugum með viðkomu í Veiðivötnum í mildu og góðu veðri. Gistum hér í húsinu, tjaldi og bílnum.

Förum héðan inn að "jökli" og síðan í NV að Köldukvísl, norður Sprengisand.

Fengum ljómandi móttökur hjá Pétri veðurspámanni og talstöðvarstjóra. Hafi hann og aðrir er hlut eiga að máli kærar þakkir.

(Edda Imsland, Reykjavík, og ferðahópur með þeim Ómari Hafliðasyni og Guðmundi Jónassyni.)

17. ágúst
- 1. sept 1963
Kom hingað laugardaginn 17. ágúst og hef dvalið hér síðan.
Verkefnið var veðurathuganir en í því reyndist ég mesti skýjaglópur. Á mæla tókst mér þó oftast að lesa rétt. Þennan hálfa mánuð hefur verið einmuna blíða. Vindátt oftast SA andvari, einstöku sinnum örlað á kuli. Oftast þurrt, hiti hæst 10,1 gráða, eina nótt -1,2 gráður.

Einvera hefur verið lítil. Hér hafa komið um 104 gestir, þar af hafa gist eina eða fleiri nætur rúmlega 40. Einverunætur hafa aðeins verið 6, - alltof fáar.

Hér er sérstaklega gott að vera. Andi hússins hlýr og góður. Það finnst jafnt morgunn, kvöld og miðjan dag, að hingað stefna margra hugir og allir góðir.

Ég hef reynt að taka til hendi þegar næði var til. Bar karbol á timbur, hlóð meðfram húsinu, gerði hreint eins og ég gat.
Sonur minn, Pétur Örn kom með Sigurjóni Rist en Sigurður Sverrisson tekur við störfum hér.
Ég mun sakna Jökulheima. Hér vildi ég gjarnan dvelja aftur - þá lengri tíma við meira næði.

Pétur Sumarliðason,
Pétur Örn.

1.9.1963 29.8 - 1.9. '63
Vatnamælingamenn frá RARIK hafa verið við merkingu slóða innan Tungnaár og gist hér um nætur. Stikur settar niður með 100 m milli bilum, þéttari á beygjum, sem næst 12 á km að meðaltali.
Stikurnar eru 2½" x 2" x 240 cm með tveimur fótklömpum og endurskinsmerkjum.
Borað fyrir stikum með staurabor á dráttarvél.
Sig. Sverrisson fluttur frá Tungnaá til Jökulheima laugard. 31.8 en Pétur Sumarliðason og sonur hans, Pétur Pétursson, fara með okkur héðan.
... (um regnmæli og álestra) ...
Sigurjón Rist, Þórður Sigfússon, Sveinn Sigurkarlsson, Guðjón Samúelsson.
1964 1964
30. maí 1964 Að kvöldi þess 30. maí kom 13 manna leiðangur í Jökulheima til þess að setja þar upp veðurstöð, skoða landið og skemmta sér. Veðurstöðin starfar á vegum veðurstofu Íslands en Jöklarannsóknafélagið leggur til húsnæði og ýmsan búnað. Veðurathugunarmaður verður Pétur Sumarliðason.
Þessir voru í leiðangrinum:
Flosi Hrafn Sigurðsson, Pétur Sigurðsson, Stefanía Pétursdóttir, Anna St. Sigurðardóttir, Ágúst Stefánsson, Helga Ágústsdóttir, Anne and James Penfield - US Embassy, Leifur Steinarsson, Pétur Sumarliðason, Vikar Pétursson, Einar Torfi Ásgeirsson, Guðmundur Jónasson.
Að undanskildum Einari, Vikari og Pétri Sumarliðasyni héldu leiðangursmenn til Reykjavíkur þann 31. maí.
20. júní 1964 Hef dvalið hér síðan 30. maí. Þakka gott húsaskjól og veðurguðunum gott veður.
Vikar Pétursson, Einar Torfi Ásgeirsson.


Gestir staldra við og frásögn birtist í Vísi 28. júlí 1964
170. tölublað 28.07.1964

15. júlí 1964 Ég kom hingað 3. júlí með "Jöklurum" og hefi dvalið hér síðan og liðið alveg prýðilega. Kveð ég því Jökulheima og húsbóndann þar með hlýhug og þakklæti fyrir ánægjulega samveru.
Bj. Bjarnason.
16. júlí 1964 Komum hingað að norðan og ætluðum yfir Tungnaá á kláfnum - en hann var auðvitað ekki tilbúinn þrátt fyrir loforð vegamálastjóra - og verðum sennilega að hunskast norður aftur. Við þökkum Pétri fyrir góða fyrirgreiðslu og ágætar móttökur.
Sigmundur K. Ríkarðsson og fimm aðrir ferðafélagar á tveimur R-bílum.
24. júlí 1964 Ferðafélag Íslands
Hingað komum við neðan frá Veiðivötnum þar sem við eigum tjaldbúðir. Þáðum hér afmæliskaffi og ágætar móttökur hjá Pétri, húsráðanda. Reynt að gera við móttöku- og senditæki en óvíst um árangur á þessu stigi málsins.
Einar Þ. Guðjohnsen og 13 ferðafélagar með Gísla Eiríkssyni á R-7140. 
25. júlí 1964 Komum hingað kl. 17:45 og höfðum þá farið yfir Tungnaá á kláfnum fyrir ofan Hald kl. 08:00 í morgun og ekið Búðaháls og yfir brúna á Köldukvísl.
Förum héðan kl. 19:30 og ætlum að tjalda norðan Köldukvíslar og halda síðan norður Sprengisand í Bárðardal í fyrramálið.
Þökkum kærlega góðar móttökur Péturs Sumarliðasonar.
P.S.: Farartækin eru 2 jeppar: R-317 og G-2841.
Guðjón Valgeirsson, Torfi Hjartarson, Stefán M. Stefánsson, Hrafnkell Stefánsson, Jón Hrafnkelsson.

Guðjón kom með móttakara. Sá reyndist ekki hafa þolað ferðalagið og var smá huggun að þeim skiptum. P.S.

2. ágúst 1964 Lögðum af stað kl. 05 frá Reykjavík og mættum R-7140 við Tungnaá. Var hann á leið að Jökulheimum með vistir og fengum við að fljóta með yfir "pollinn".
GGí og Björg tveggja ára.
21. ágúst 1964 Komum hingað að kvöldi 20. ágúst 17 saman norrænir jarðfræðingar og kokkurinn Charlotta með Pétri Kristjánssyni. Áttum góða nótt í Jökulheimum og gengum a ðmorgni þess 21. ágúst inn í jökul. Farið héðan klukkan nær 14.

Umgengni Péturs, veðurathugunarmanns, er aðdáunarverð og mjög til fyrirmyndar og vil ég þakka það sérstaklega af hálfu Jöklarannsóknafélagsins
Sigurður Þórarinsson.

Guðrún Gísladóttir og Björg Pétursdóttir (2 og ½ árs) héldu með þessum hópi áleiðis til Reykjavíkur og þakka báðar fyrir dvölina og ég þeim veruna. P.S.

1. sept. 1964 Úti er sunnan stinningsgola og regnið bylur á glugganum. Þetta er síðasta nótt mín einn í húsi í Jökulheimum á þessu sumri. Að morgni er Guðmundur Jónasson væntanlegur til þess að skila mér aftur í mannamorið.

Tíð hefur verið heldur votviðrasöm í sumar. Fyrstu 20 dagana af júní var oftast þurrt og bjart veður en síðan brá til vætu sem hélst að mestu fram til 1. ágúst. Síðan var oft yndislegt veður fram að 20. ágúst. Komst hiti hæst í rúm 15 stig en nú síðustu hálfa aðra vikuna hefur aftur brugðið til rigningar.

Yfir þessa þrjá mánuði - eða 92 daga, hafa 37 dagar verið þurrir en 55 daga hefur verið meiri eða minni úrkoma.

Hér hafa í sumar dvalið hjá mér, fyrst sonur minn , Vikar, frá 30. maí til 20. júní, síðar fóstri minn, Bjarni Bjarnason, frá 4. júlí til 14. júlí, og síðast kona mín og dóttir, Guðrún Gísladóttir og Björg.

Ferðafólk hefur verið nokkuð í sumar. Fyrsti ferðabíllinn kom 11. júlí. Alls hafa komið hér 353 gestir og af þeim hafa 187 gist en 166 aðeins litið á staðinn.

Allt hefur þetta verið indælis fólk og þakka ég því öllu fyrir góða umgengni og viðkynningu.

Hér með er lokið öðru veðurathugunarárinu í Jökulheimum. Enn er þetta ár aðeins þrír mánuðir en þá verður vel þegar Jökulheimar byggjast svo að þar verði kaffi á könnu allt árið.

Það er kominn í mig ónotalegur byggðahrollur svo best mun að kveðja nú.

Pétur Sumarliðason.

2. sept. 1964 Komum hingað kl. 16 í gær á R-342 með Guðmund Jónasson við stýri eftir 6 klst. akstur. Erindið var að loka veðurstöð í Jökulheimum og sækja Pétur Sumarliðason, sem dvalist hefur óslitið við veðurathuganir síðan 1. júní.

Auk þess hafði Pétur unnið JÖRFI margan greiða, borið karbolín á húsavið, málað þök og veggi. Öll umgengni á staðnum með ágætum.

Gengið var frá skálaviðum eftir því sem unnt var en þeir verða að liggja úti í vetur aða sjálfsögðu. Veður var stillt og hlýtt en talsverð rigning hefur verið í nótt og fram umn hádegi.
Brottför um kl. 14 áleiðis til Reykajvíkur.
Jón Eyþórsson, Sigrún Jónsdóttir, Vikar Pétursson, Pétur Örn Pétursson, Guðmundur Jónasson, Helgi Kristófersson, Leifur Steinarsson.

13. sept. 1964 Lagt var af stað af Lækjateig 3 föstudag 13:40 11. sept. á R-342 sem Guðmundur Jónasson stýrði. Gekk ferðin greiðlega enda veður blítt og fagurt. Komum í Jökulheima kl. 20:30.

Laugardag 12. var steypt og hellulögð stétt fyrir dyrum á væntanlegum "Norðurskála". Var því lokið um kl. 15. Veður ágætt. Kl. 10 f.h. kom Þórður Sigurðsson við fjórða mann í R-1069. Hafði lagt af stað kl. 04:25 að nýlokinni veislu á Hótel Sögu.

Að lokinni steypuvinnu var farið á jökul. Carl Eiríksson sótti stiku II og stóð hún þá aðeins 34 sm niðurí ís. Leysing 5/7 - 12/9 !

Allan daginn vann Pétur Sumarliðason af kappi við bikun á skálaviðnum og lauk því að mestu um kvöldið en því sem eftir var snemma daginn eftir.

Um kvöldið upphófst kvöldvaka með góðum gleðskap. Við þorsta var helst drukkið leysingarvatn úr Tungnaá og skenkti Þórður það úr vasapela sínum sem mun taka eitt gallon á ameríska vísu.

Sunnudag 13. sept.
Veður með eindæmum blítt og fagurt. Um 10-leytið var ekið af stað inn að Fóstrufelli. Sást þá að ekkert vatn var í kvíslinni innan fellsins. Var þá haldið upp með á alla leið inn undir Skvettifoss en hann var líka horfinn.

Heimleiðis ók G. Jónasson þvert yfir Bláfjöll og var útsýni dýrlegt þar efra.

Heima í skála voru þau Margrét dómari, Stefán og Hörður og höfðu til reiðu herlegar kræsingar er við komum heim.

Ekki ber að gleyma því að Þórður setti drif í Jökul II og var í því handfljótur. Margt fleira var gert til gagns og skemmtunar í Jökulheimum, gengið frá skálaviðum til vetrargeymslu, sett ný fánasnúra í stöngina o.s.frv..

Þökk sé hreppstjóra, samferðafólki öllu og veðurguðum.
Jón Eyþórsson, Stefanía Pétursdóttir, Lalla Erlendsdóttir, Pétur Sumarliðason, Þórður Sig., Halldór Thoroddsen, Vigga Jónsdóttir, Stefán Bjarnason, Ingibjörg Þorsteinsdóttir, Margrét Halldórsdóttir, Halldór Gíslason, Heiðar Hafliðason, Carl J. Eiríksson, Ómar Hafliðason, Guðmundur Jónasson.

1965 1965
31. maí 1965 JÖRFÍ-skálabyggjarar og jöklulfarar að störfum 27. maí til 7. júní 1965. Ítarleg skýrsla Jóns Eyþórssonar, Sigurðar Þórarinssonar, Guðmundar Jónassonar, Magnúsar Eyjólfssonar þar sem hver segir sinn hluta. Þar segir að hinn
31. maí 1965, kl. 18:30, komu þeir Ómar og Pétur og tók Pétur fljótt til óspilltra mála að setja upp talstöð og veðurathugunartæki. Loftnetsstöng var reist NA frá skála.
4. júní 1965

Norðurseta
fokheld

Skjalið
í
hornsteini
hússins.

Rigndi talsvert og mjög til baga. Þakið járnklætt. Sett gler í glugga. Erfitt að standa á þaki við neglingar vegna bleytu. Gengið frá listum á göflum og kringum glugga. Húsið fokhelt um kvöldið að undanskildum dyraumbúnaði.

Um kvöldið var gengið frá hornsteini hússins. Er hann nyrst í vesturgafli að innanverðu. Þar er innmúraður blýhólkur og í honum eftirfarandi fróðleikur:

"Hornsteinn að þessu húsi Jöklarannsóknafélags Íslands var lagður þ. 4. júní 1965.
Grunnur var steyptur sumarið 1964, grind smíðuð og flutt á staðinn auk ytri klæðningar. Þessir hafa unnið að smíði hússins dagana 27. maí - 5. júní 1965:
Stefán Bjarnason, yfirsmiður, sem einnig teiknaði húsið,
Páll Pálsson, húsasmíðameistari,
Halldór Gíslason, trésmiður,
Hörður Hafliðason, járnsmiður,
Ómar Hafliðason, bílstjóri,

Ráðskonur voru með prýði:
Auður Ólafsdóttir, frú,
Ingibjörg Árnadóttir, frú,
Ólína Sigurgeirsdóttir, frúarefni.

Einnig voru þeir Pétur Sumarliðason, veðurathugari í Jökulheimum, og Jón Eyþórsson til aðstoðar við bygginguna.
Veður var fremur óhagstætt þessa daga, votviðri en hlýtt.

Á þessu ári voru í stjórn JÖRFÍ: Jón Eyþórsson, Sigurður Þórarinsson, Sigurjón Rist, Árni Stefánsson, Trausti Einarsson.

Hreppstjóri í Tungnárbotnahreppi
Guðmundur Jónasson"

Skjali var dagsett í Jökulheimum 4. júní 1965 og undirritað af Jóni Eyþórssyni og Stefáni Bjarnasyni.

Um kvöldið var skálað fyrir nýja húsinu í Cúbu-rommi og Bretaveigum.

Óhætt má fullyrða að hinn nýi skáli í Jökulheimum sé bæði vel viðaður og smíðaður af mikilli vandvirkni. Ef eins vel tekst með einangrun og innri frágang og ytra byrðið má óhætt telja hann "fyrirmynd" góðra fjallaskála.

(Þetta skráir Jón Eyþórsson.)

14. júní 1965

Um leiðir

Var hér dagana 8. - 14. júní og fékk hér afbragðs góðar móttökur hjá Pétri Sumarliðasyni. Fórum nokkrar ferðir um nágrennið á jeppa: í Heljargjá, í Botnaver að Gnapa, og að ánni sem hvarf í fyrra en var nú komin aftur. Í Heljargjá fórum við frá Jökulheimum norðan Ljósufjalla. Þetta voru ógleymanlegar ferðir.
Carl J. Eiríksson.

Eftirmáli
Ekki má láta þess ógetið að Carl kom hér þegar mest lá við og reyndist hinn mesti bjargvættur, - lagaði talstöð, mótor, hleðslutengingar og óteljandi fleiri hluti sem hann færði í lag - auk ógleymanlegra ferðalaga er við áttum saman.
Pétur Sumarliðason.

4. júlí 1965 Hingað komnir í gærkvöld kl. 21:30 eftir tólftíma ferð úr Reykjavík með nokkrum vélarhagræðingum á Selfossi (30-45 mín) enda með bifvélavirkja um borð, áð við Kláf á Tungnaá (kltíma og kort) og útsýnis hinkri á Búðarhálsi. Skyggni besta sem fengist hefur í síðastliðin 1000 ár. Hiti í morgun 17 stig. Ökumaður Gísli Ólafur Pétursson, fararstjóri, og farkostur Y-1519. Börn tolldu ekki í fötum fyrir hita báða daga.

Hallgrímur Jakobsson (sem ritar textann), Sigursveinn D. Kristinsson, Bjarni B. Pétursson, Ragnheiður H. Óladóttir, Gísli Ólafur Pétursson, Ólafur Freyr Gíslason - 5 ára, Guðrún Gísladóttir, Björg Pétursdóttir - 3 ára - sem verður eftir hjá pabba sínum fyrst um sinn.

20. júlí 1965 Í þetta sinn hef ég dvalið hér í Jökulheimum í rúma viku ogliðið ágætlega í félagi við þau Björgu og Pétur. Ég kveð því Jökulheima með þakklæti og góðum huga.
Bj. Bjarnason.
22. júlí 1965 Úr Veiðivötnum ...
Guðrún Gísladóttir
25. júlí 1965 Komum hingað í heimsókn til Péturs. Kveðjum hann með góðum óskum.
Sæmundur Guðmundsson, Laugalandi, Rang., Bergsteinn Sigurðsson, Njörvasundi 11, Rvík. 
. .
30. júlí 1965

Um Stórasjó

Fórum frá Reykjavík mánudag. Unnið að rannsóknum við efri hluta Þjórsár fyrri hluta vikunnar og dvalist þá við Hald. Í gær var unnið við rannsóknir við Þórisvatn og komið hingað um kvöldið. Í dag förum við til Reykjavíkur með viðkomu til rannsóknar á stíflustæði Stórasjóar.
Haukur Tómasson, Allan H. Nicol, United Nations, New York, USA.

Með þessum tveimur heiðursmönnum fengum við Björg Pétursdóttir (3 ára) far til Reykjavíkur. Hafði ég þá dvalið hér í góðu yfirlæti viku tíma en Björg nokkuð lengur. Var ég mjög heppin með veður og átti hér góða dvöl.
Guðrún Gísladóttir.

2. ágúst 1965 Laugardag 31. júlí.
Lagt upp úr Reykjavík kl. 07:30 á jeppa R-2417 og Rauð R-12204. Veður bjart en nokkur N-sveljandi. Ókum sem leið liggur um Búðarháls og komum í Jökulheima kl. 17:20. Ókum norðan við Þórisvatn, þreytandi hraunvegur mestan hluta leiðar.
Var þegar byrjað að steypa reykháf og steypt undir loft. Þá var timbri hagrætt og undirbúið að setja eunangrun (2" plast) í gólf og klæða þil.

Sd.1. ágúst.
Dýrlegt veður en 2 st. frost var í nótt og grasmælir sýndi -7 gráður. Hemað á pollum. Gólf klætt í jötunmóði og þó vandlega frá öllu gengið. Upp úr hádegi ekið norður undir Dór og gengið á fjallið. Veður og útsýni eins og best má verða.
Síðan farið í gólfið og lokið um 23-leytið. Var þá kaffi á borðum og ýmsar dýrlegar krásir, fastar og fljótandi, sem húsfreyjur Jökulheima höfðu ýmist flutt með sér eða fundið í farangri bænda sinna eða einhleypra umkomuleysingja.
Um miðnætti var kveikt herleg brenna undir suðurglugga. Var setið að kaffidrykkju m. m. nokkuð fram yfir miðnætti og flutti Pétur kröftuga drápu gestum sínum.

Mánudag 2. ágúst.
Dýrðar veður. Steyptur "kragi" um reykháfsfót og ýmislegt smávegis.
Áætluð brottför kl. 13. Ekið um Veiðivötn.
Sá er þetta ritar þakkar, f.h. Jöklarannsóknafélagsins, góð og gagnleg handtök í þessari ferð við Norðurskála en sjálfur þakka ég kærlega góðan viðurgerningog ánægjulega samfylgd.

Pétri Jökulheimabónda þökkum við öll hlýlegar móttökur. Hann hefur lokið við að einangra veggi skálans.

Jón Eyþórsson, Ingibjörg Árnadóttir, Ólína Sigurgeirsdóttir, Auður Ólafsdóttir, Magnús Árnason, Ólafur Stefánsson 2ja ára, Halldór Gíslason, Kristjana Harðardóttir 6 ára, Páll P. Ólason, Hörður Hafliðason, Stefán Bjarnason.

7. ágúst 1965 Komum 5. ágúst yfir Breiðbak í dágóðu veðri og björtu, - gengum á jökul úr Jökulkróki, - litum á Fleygi heitinn og áttum gott kvöld með karli, föður vorum.
7. ágúst heimsóttum við Dórinn og tókum ofan fyrir sjóndeildarhringnum. Förum nú heim eftir dýrðlega dvöl.
Gísli Ólafur Pétursson, Ragna Freyja Karlsdóttir
12.. sept. 1965 Jón Eyþórsson lýsir Vatnajökulsför sem hófst 10. sept. og lauk 13. sept. Þar á meðal segir frá því að Guðmundur Jónasson lagaði veg norðan Nýjafells inn að jökli. Síðar segir að næsta dag ók Guðmundur niður með Nýjafelli að sunnan og mældi jökulinn um leið. Frá M-vi (sem er tiltekið fastmerki) voru nú 400 m að jökli en voru 350 m í fyrra.

Svo segir áfram:
Heima í Jökulheimum var flest tilbúið til brottferðar. Veðurtækin tekin ofan; athugunum lauk á miðnætti 11. sept. Þá höfðu þeir Páll Pálsson og Magnús Karlsson lokið við einangrun í skála og lakkað gólf undir skörulegri stjórn Vigdísar Jónsdóttur.
Höldum heimleiðis um kl. 14:30 og ritum hér nöfn okkar til staðfestingar:
Jón Eyþórsson, Vigga Jónsdóttir, Ingibjörg Árnadóttir, Ómar Hafliðason, Bjarni Benediktsson, Adda Bára Sigfúsdóttir, Magnús Karlsson, Hörður Hafliðason, Pétur Örn Pétursson, Páll Pálsson, Guðmundur Jónasson.

12.. sept. 1965 Hér með lýkur þriðja veðurathugunarári í Jökulheimum, 3 mánuðir rúmir. Um 160 næturgestir hafa verið en alls tæpir 300 komið - fyrir utan hlaðfólk.

Einmunasumar og indæl vera og þakka ég bæði veðurguðum og gestum ánægjuleg viðskipti á sumrinu.

Pétur Sumarliðason.

1966 1966
30. maí 1966 Pétur Sumarliðason kemur til veðurvörslu.
2. júlí 1966 Komum hér með Guðmundi Jónassyni á R-356 sem flutti skemmtiferðafólk er gisti í Norðursetu. Dveljumst hér uns ferð fellur til byggða.
Guðrún Gísladóttir og Björg Pétursdóttir.

Ferðin féll úr Veiðivötnum föstudaginn 8. júlí. Fórum við Björg með Guðrún og sóttum rafgeymi fyrir talstöðina.
P.S.

16. júlí 1966 Aðfaranótt 14. komu hingað vatnamælinga- og aurburðarrannsóknamenn. Komum frá Þjórsá við Sóleyjarhöfða. Síriti VHM129 settur í Tungnaá neðan Gnapa. Nánar tiltekið:
Sigurjón Rist, Helgi Björnsson, Halldór Eyjólfsson.
24. júlí 1966 Komum hér í gærkvöldi, hópur frá Ferðafélagi Akureyrar, neðan frá Veiðivötnum. Erum á norðurleið. Ætluðum reyndar að fara hjá garði en sandstormur hrakti okkur hingað. Í upphafi var líka áætlað að hafa hér viðkomu. Fengum hér hinar ágætustu viðtökur og gistingu í nótt. Okkar bestu þakkir til Péturs fyrir móttökurnar og hamingjuóskir í tilefni dagsins.
Jón D. Ármannsson (og 44 ferðafélagar og tveir bílstjórar).

Einnig 13 manna hópur á þremur bílum sem fylgdi Ferðafélagi Akureyrar.

24. júlí 1966 Þessir þrír bílar biðu af sér óveðrið neðan Ljósufjalla, sneru bílnum undan. Var afturrúðan svo mött að varla sást skuggi í gegn. Komu á sunnudagsdmorgni hingað og gistu næstu nótt. P.S.

Föstudaginn 22. júlí brá til norðanáttar með 4 - 6 vindstig. Sást nokkurt sandfok. Hélst sama veður um nóttina en um kl. 15 þann 23. júlí herti veðrið og varð að sandstormi 8 - 9 vindstig. Barðist ferðafólk hingað í húsaskjól. Ferðafélag Akureyrar og Árni Kjartansson með eina 5 - 6 jeppa í samfylgd. Aðfararnótt þess 24. júlí svaf hér alls 96 manns - langflest í húsaskjóli - í Nýja skála og hér inni og í skemmunni. Fernt af mínu fólki svaf í bíl sínum.

Er þetta versta veður sem ég hef upplifað hér og kom sér vel að hér er byggð - en sem afmælisveður þótti mér einum um of hert á stögum.

Um kl. 17 þann 24. júlí lægði svo að gestir héldu úr hlaði. P.S.

Pétur
Sumarliðason
fimmtugur
24. júlí 1966

Afmælis-
gestina
flutti
Ólafur
Bergsson
á G-815

Í Jökulheima til heimsóknar
með hafnfirskum Óla við tókum far.
Þar við höfum í gleði gist -
og gott við áttum í þeirri vist.
Mikið lifandis, skelfingar, ósköp er gaman
þegar Pétur er fimmtugur.

Valborg Bentsdóttir - orti, Vikar Pétursson, Aðalbjörg Jakobsdóttir, Cheryl David, Þorvarður Einarsson, Einar Þorvarðarson, Ólafur Gíslason, Lise Gíslason, Susie Ingvarsson, Ingibjörg Sigvaldadóttir, Sigvaldi Einarsson, Eva Ólafsdóttir, Bjarni Pétursson, Guðrún Gísladóttir, Björg Pétursdóttir og P.S.

Guðrún og Björg fóru heim 1. ágúst með Jóni Eyþórssyni og ferðafélögum úr JÖRFÍ.

Sigurður Sigurðarson, dýralæknir,
og samstarfsmaður Guðmundar Gíslasonar á Keldum (mágs Péturs)
sagði GÓP árið 2006 að af þessu tilefni hefði Guðmundur sagt:

Fimmtíu árin að færa í letur
mér finnst of snemmt - hann má gera betur -
en mikið er hvað hann getur
- ég meina hann Jökulheima-Pétur.

16. ágúst 1966

Haraldur Björnsson orðsnillingur (1917-1988) var staddur í Jökulheimum hjá Pétri Sumarliðasyni er þar bar að garði GÓP og RFr og þau öndvegishjónin Árna Jakobsson og Jónu Jakobsdóttur. Með Pétri og Haraldi var einnig Bjarni sonur Péturs og Ragnheiður Óladóttir kona hans. Þeir vor með Pétri að setja upp rennslismæli á Tungnaá í svonefndum Jökulkróki þar sem hún þá kom undan jöklinum. Að kvöldi sagði GÓP Haraldi að sjálfur hefði hann lengi reynt árangurslaust að koma saman vísu um föður sinn, Pétur, sem Jökulheimabónda. Ekki var meir rætt um það en við brottför næsta dag var þessi vísa komin í gestabókina: 

Það er ekki tímatap
að tefja við einn lítinn stanz
og játast undir jöklaskap
Jökulheimahúsbóndans.

Haraldur Björnsson, Bjarni Pétursson, Ragnheiður H. Óladóttir.

Jökulsá í Jökulkróki
étur snjá og þeytir stróki.
Hún er grá með flúðaflug
fleygist á í þungum hug.

Brunar ferleg - breytileg,
byltir sér á margan veg,
sett var hér upp sífellt rit
sem skal vera eftirlit.

Gísli Ólafur Pétursson, Ragna Freyja, Árni Jakobsson, Jóna Jakobsdóttir.

16. sept. 1966 16. eða 18. september lýkur veðurgæslu sumarsins 1966 (?)
24. sept. 1966 Y-1519
Gísli Ólafur Pétursson, Bjarni Pétursson, Pétur Sumarliðason.
1967 1967
10. júní 1967 Guðmundur Jónasson, Ómar Hafliðason, Magnús Eyjólfsson.

Í fylgd með ofanskráðum ágætismönnum og í fylgd með fleirum kom ég hér til starfa fyrir Veðurstofu Íslands sumarið 1967.
Pétur Sumarliðason. (Dvaldi til 1. sept.).

21. júní 1967 Komum hér með útbúnað og vistir Gísla Ólafs Péturssonar, starfsmanns orkudeildar RARIK. Einnig voru 5 tunnur bensín fyrir Gísla, 5 tunnur þyrlubensín, 2 tunnur bensín orkudeildar RARIK og 1 tunna steinolía til upphitunar.

Sæmilegasta færi er nú hingað. Áin var í ca 100.
Förum til baka á morgun. Tökum tómar tunnur hér að beiðni Péturs.

Halldór Eyjólfsson, Ingimar Ingimarsson Ingimundur Jónsson.

Með þeim kom Ólafur Freyr Gíslason til dvalar.

22. júní 1967 Kominn til vatnslítillar Tungnaár.
Gísli Ólafur Pétursson. (Dvaldi til 1. sept.).

5. júlí 1967
Komu Ragna Freyja Karlsdóttir, Ragna Freyja Gísladóttir og Freyja Rún Gísladóttir.

24. júlí 1967 Höfum dvalið í Jökulheimum dagana 5. - 24. júlí í góðu yfirlæti og yndislegu veðri - en því miður í sérstöku óleyfi Jóns Eyþórssonar, sem hann er vinsamlega beðinn afsökunar á.
Ragna Freyja Karlsdóttir og dætur tvær, Freyja og Rún.
6. ágúst 1967 Pétur Sigurðsson, Sigríður Sveinsdóttir, Guðlaug Pálsdóttir, Grétar Hjartarson

Ofanrituð fóru yfir Tungnaá undir ágætri leiðsögn Gísla Ólafs Péturssonar

7. ágúst 7. ágúst Höfum dvalið tvær nætur í Jökulheimum og haft þar góða vist. Við þökkum af alhug hlýtt hugarþel og ágæta fyrirgreiðslu Péturs og Gísla, sonar hans. óskum þeim og fjölskyldum þeirra alls hins besta og þökkumgóða viðkynningu.
Guðjón Sigurðsson, Valdís Daníelsdóttir (Dæja), Árni Jakobsson, Jóna Jakobsdóttir.
14. ágúst 1967 Komum 4. ágúst með flugvél í Veiðivötn. Förum á báti yfir Hófsvað. Þökkum góða dvöl. Tökum með okkur Björgu Pétursdóttur, sem hér hefur dvalið í 6 og hálfa viku.
Guðrún Gísladóttir, Valgerður Gísladóttir.
1. sept. 1967 Pétur Sumarliðason, Gísli Ólafur Pétursson og Ólafur Freyr Gíslason héldu heimleiðis. Leiðin var lögð yfir Tungnaá á Gnapavaði, suður Breiðbak og hjá Sveinstindi, um Eldgjá og Mýrdalssand.
1968 1968
3. júní 1968

Beðið við
Hófsvað vegna
mikils vatns í
ánni.

Laugardaginn 1. júní 1968 um kl. 9 f.h. var lagt af stað úr Reykjavík í Jökulheima. Þrír bílar voru í ferðinni: R-342, Rauður og vörubíll frá Vegagerð ríkisins en hann flutti snjóbílinn Gusa, sem fenginn var að láni í þessa ferð. Allt gekk tíðindalaust austur byggðir og var komið að Hófsvaði um kl. 18:30.

Ekki varð lengra haldið í bili því áin var í hrokavexti og svo mikil að rétt sá í hæstu klöppina í hólmanum. Einn samfelldur vatnsflaumur milli landa og vatnið móbrúnt á lit af vikur- og sandburði. Áin óx stöðugt fram á miðnætti og var ekki annað að gera en búa sig undir nóttina.

Næsta dag, hvítasunnudag, fór aðeins að lækka, - en smátt var það.

Mánudaginn, annan í hvítasunnu, hafði loks rénað svo í ánni að vætt reyndist út í hólma. Voru það Guðmundur og Ómar sem óðu og könnuðu. Reyndist ótryggt vegna sandbleytu undan hólmanum. Ýmislegt varð til tafar við að komast yfir en í Jökulheima var komið rétt fyrir miðnætti.

Rannsóknir
á jökli
Þriðjudaginn 4. júní var unnið að því að koma snjóbílnum og flutningi á jökul og um kl. 01, aðfaranótt miðvikudagsins voru báðir bílarnir, Gusi og Jökull II, komnir af stað upp jökulhallann.

Þetta var tvöfaldur leiðangur. Annar í Grímsvötn undir stjórn Sigurðar Þórarinssonar, en hinn á vegum Eðlisfræðistofnunar Háskólans og trúlega undir stjórn Páls Theodórssonar. Var ferð þeirra heitið á Bárðarbungu og víðar um jökulinn.

Veður var heldur erfitt á jökli svo sem marka má af vísu þeirri er leiðangursmenn sendu "hreppstjóranum" þann 12. júní:

Ferðast er í fýlu hér
- færðin batnar eigi,
til hreppstjórans þó hugsað er
hlýtt á þessum degi.

Íbúar Grímsvatnahrepps.

Fyrri hópurinn kom af jökli um kl. 15 þann 13. júní en hinir um kl. 3 um nóttina.
Föstudaginn 14, júní héldu leiðangursmenn til byggða.

Veðurvarsla

Allt þetta
er ritað
25. ágúst

Eins og undanfarin ár var undirritaður með í þessari ferð til Jökulheima og hófust veðursendingar að morgni 4. júní.

Af misgáningi var hér engin gestabók í vor og barst ekki hingað fyrr en 24. ágúst. Frásögn af leiðangri 1968 er því mjög ófullkomin og sett hér aðeins til þess að hans sjáist getið í þessari bók.

Pétur Sumarliðason

25. ágúst 1968 Björg Pétursdóttir - 6 ára,
Guðrún Gísladóttir,
Vikar Pétursson.

Þessi þrjú fóru heim með JÖRFA-fólki. Björg hefur dvalist hér frá 1. júlí.
Guðrún verið hér síðastliðna viku en Vikar kom hér í heimsókn yfir helgina.
Situr veðurathugunarmaður nú einn eftir í Jökulheimum.
P.S.

15. sept. 1968

 

Örnefni

Yfirlit - sumarið 1968.

Júnímánuður var kaldur og votviðrasamur. Þó úrkoma væri ekki nema 87,8 mm. dreifðist hún á 23 daga af 27 en eins og framar segir í þessari bók byrjuðu veðurathuganir ekki fyrr en 4. júní. Eftir hvítasunnuflóðið hreyfðist áin varla og mátti hlaupa hana á aurunum neðan við Stak síðast í mánuðinum. Held þetta kaldasta júnímánuð sem ég hef verið hér (frá ágúst 1963).

Júlímánuður var hlýr - 4 ½ dagur léttskýjaðir en 22 dagar með úrkomu, alls 76,6 mm. Mestur hiti sumarsins, 18,7 gráður þann 5. júlí en 15 dagar með lágmark ofan við 5 gráður. Var því mikil bráðnun á jökli. Mánuðurinn óvenjuhlýr.

Í ágústmánuði voru aðeins 9 dagar ofan við 5 gráður. Frost nokkrar nætur um miðjan mánuðinn, mestur hiti 18 gráður. Mánuðurinn var óvenju úrkomusamur. Voru 18 úrkomudagar með alls 123,1 mm en léttskýjaðir aðeins 5 dagar. Gerði mikið hvassviðri þann 24. og 25. ágúst, 10 - 11 vindstig og úrkoma þann 25. var 31,8 mm. Vegna úrkomu og nokkurra vindasamra daga mun bráðnun hafa verið allmikil á jökli en þó mátti heita að áin þyrri um miðjan mánuðinn.

September vvar óvenjuhlýr. Lágmar aðeins einu sinni 2 gráður en oftast 4,5 - 7 gráður. Úrkomudagar 8 og úrkoma 46,4 mm og yfirleitt heldur vindasamt. Þann 13. var hitinn 16 gráður, mest logn og minna en hálfskýjað. Þann 14. var svartaþoka, lágmark 4 gráður, austanvindur.

Örnefni:
Þrjár tillögur um nöfn á kennileitum set ég hér til athugunar.

  • 1. Geirafell. Röðin er þá til suðvesturs: Rati, Gnapi og síðan Geirafell. Er það auðþekkt af mosageirunum er ganga uppeftir því.
  • 2. Nubbur. Stefna SSA. Þetta litla fell hefur komið upp úr jöklinum síðan í júlí 1964. Sá þó aðeins dökkna fyrir því síðast í ágúst 1963.
  • 3 Forni. Gígurinn hér norður í hrauninu í stefnu aðeins vestan við Dórinn.

Tvö eldri nöfn þykir mér rétt að skrá hér einnig:

  • Steðji og Standur eru efst í röðli Bláfjalla og skera sig vel úr héðan af hlaðinu og víðar.
  • Félagar heita þar sem eftir er af rauðagígnum sem Tungnaá fellur í gegnum. Félagar nefndust áður Rist og Táberg.

Nöfn þessi gáfu þeir Jón Eyþórsson og Guðmundur Jónasson:

Hörður Hafliðason kom á Rauð til flutnings á manni og tækjum og var lagt héðan úr hlaði kl. 11:00 sunnudaginn 15. sept. og þar með lokið veðurathugunum 1968.
Sjá bók II.
Pétur Sumarliðason

20. sept. 1968 Eftir lestur fremri síðu er lagt til að 2. atriðið, sem þar er nefnt Nubbur, haldi sínu fyrra nafni - karlkynsorðinu Glær.
Gísli Ólafur Pétursson, Jóhann Sigurðsson, Magnús Þór Einarsson, Egill Jón Sigurðsson, Hreiðar Jónsson, Árkvörn, Fljótshlíð.
27. okt. 1968

Rauðaskarð

Lagt af stað úr bænum föstudaginn 25. okt. kl. 18 og farið um nýju brúna. Voru þó óglöggir vegir á pörtum.

Laugardaginn var ekið inn í Rauðaskarð og gengið þar í gegn og upp á jökuljaðarinn og honum fylgt upp undir efra vatn.
Hvergi vottaði fyrir rennandi vatni og ekki sýnilegt annað en ekkert rennsli sé neinsstaðar undan jökuljaðri né frá upptökum undir skriðjökultungunni.
Veður var brúklegt, NA 4 og 2 stiga frost og smárenningur annað veifið.

Komið heim um kl. 21.

Sunnudagur. NA 3-4 og frost svipað. Var ætlun að fara yfir í Botnaver en það hefur dregið í skafla og því öruggast að hafa bjart til byggða. Förum héðan um kl. 12 - ekki síðar.

Pétur Sumarliðason, Guttormur Sigbjarnarson, Hjörleifur Guttormsson, Björg Pétursdóttir, Elsa G. Vilmundardóttir, Þórður Á. Magnússon, Guðrún Gísladóttir, Gyða Guðmundsdóttir, Carl J. Eiríksson.

1969 19669
3. júní 1969 Pétur Sumarliðason kemur til veðurvörslu.
15. júní 1969 Lóðsuðum Guðrúnu frameftir (að norðlenskum sið) að eindregnum fyrirmælum frá Jökulheimum yfir ljósvakann. Áætlunin stóðst vel (á stjörnufræðilegan mælikvarða) aðeins 36 tíma á eftir!

Jakob Jakobsson
Pétur Jakobsson - 4 ára
Georg Blakeman (f-in-law Jakobs)

from Scotland - visiting "Jökulheimar".

24. júlí 1969 Jökulheimabóndi heimsóttur af nokkru starfsfólki Orkustofnunar vegna þeirra þáttaskila sem urðu dag þann í lífi hans. Við þökkum lífsmunaðinn.
Guttormur Sigbjarnarson, Guðmunda Andrésdóttir, Kristinn Einarsson, Elsa G. Vilmundardóttir.
29. júlí 1969

Örnefni

Þökkum ágæta gistingu og áfyllingu eftir velheppnaðan leiðangur um Ljóshóla að Tröllakötlum og síðan þjóðleið um Þumlu að Jökulheimum.
Guttormur Sigbjarnarson, Kristinn Einarsson, Sigurður Bjarnason, Páll Ingólfsson. .
11. ágúst 1969 Viðtakan er vörm og hlý
vekur líf í steinum.
Bestu þakkir berum því
bónda í Jökulheimum.

Jón Ögmundsson frá Kaldárhöfða Árn. (orti), Guðrún Edda Gunnarsdóttir, Elsa G. Vilmundardóttir, Vilmundur Pálmason, Guðrún Lára Pálmadóttir, Sigrún Eygló Sigurðardóttir.

19. ágúst 1969 Komum frá Selfossi mánudagskvöld (18. ágúst) í Jökulheima. Þökkum Pétri Sumarliðasyni og dóttur hans sérstaka gestrisni þeirra sem líður okkur seint úr minni.
Reykdal Magnússon, Gréta O. Óskarsdóttir, Páll Auðunsson, Anna Þorláksdóttir, Axel Þórðarson, Sigurlaug Guðbjörnsdóttir.
24. ágúst 1969 Komum hér 20. ágúst og höfum dvalið hér í besta yfirlæti síðan.
Halldór Jakobsson, Rvk, Helgi Hóseason, prentari.
27. ágúst 1969 Komum hér og dvöldum í besta yfirlæti 26. og 27. ágúst. Þökkum kærlega fyrir góðar viðtökur:
Ólafur Jónsson, Kópavogsbraut 45, Sigríður Gísladóttir, Valdimar Þórsson, Norðurbrún 19, Dóra R. Guðnadóttir.
31. ágúst 1969 Lokið veðurathugunum í Jökulheimum sumarið 1969. Stóðu frá 3. júní til 31. ágúst.
Heldur leiðinlegt tíðarfar, votviðrasamt og sólarlítið.

Pétur Sumarliðason, Björg Pétursdóttir.

1970 1970
1. júní 1970 Komum hingað um kl. 18. Farartækið var Lapplander Veðurstofunnar, ökumaður Leifur Steinarsson. Björg Pétursdóttir einnig með í sína sumardvöl.

Snjór var lítill á leiðinni. Nokkrar fannir en hvergi til tafar. Þungfært þó. Hér var þó meiri snjór en ég hefi áður séð og jökullinn alhvítur. Miklar fannir í Tungnaárfjallgarði. Hamarinn alhvítur.

Sett upp mælitæki og talstöð og fyrsta veðurathugun skráð kl. 21. Var þá kalsarigning, 3ja stiga hiti og 4-5 vindstig.
Pétur Sumarliðason.

14. júní 1970 Komum árla morguns með Bjarna Bjarnason. Þokuúr á uppeftirleið, - yndislegur þrettándi í Jökulheimum. Komum á bjartan Dór. Förum út í mistrið og eftirlátum björtustu kveðjur og þökk.
Gísli Ólafur Pétursson, Árni Jakobsson, Bjarni Pétursson, Karl V. Dyrving, Ólafur Freyr Gíslason.
8. júlí 1970 Hér var gott og hlýtt og húsbóndi frjór kennari og fræðari, elskulegur maður. Þökk, þökk!
Steinunn Ingimundardóttir, Varmalandi, Elín Magnúsdóttir, Varmalandi.
18. júlí 1970 Innilegar þakkir fyrir frábærar móttökur, leiðsögn um staðinn og gistingu. Við munum ávallt minnast komu okkar hingað með þakklátum huga til Péturs Sumarliðasonar og eins munu áhrifin frá umhverfinu verða okkur ógleymanleg.
Óskar Þ. Þorgeirsson, Ásbjörg Helgadóttir, Sigurbjörg Ása Óskarsdóttir, Goðheimum 16, Reykjavík.
. .
24. júlí 1970 Þökkum kærlega fyrir sérstaklega skemmtilega kvöldstund.
Inga Kaldal, Bessi Aðalsteinsson. 
27. júlí 1970 Komið um miðnætti úr smá hringferð í glampandi sólskini með Bessa sem ökumann. Þökkum góðar móttökur og afmæliskökur.
Bjarni B. Pétursson, Ragnheiður H. Óladóttir.

Hringferðin var um Sylgju að blöðrugígum, að Hamrinum og niður yfir Hamarskvísl og síðan suður yfir Sveðju, um Hágönguhraun að norðurenda Þórisvatns og síðan innyfir Þröskuld í Jökulheima.

Guðrún, Björg og Bjarni Bjarnason héldu síðan heim og ég loks einn í húsi.

Þátttakendur - auk tveggja bíla - voru:
Bessi Aðalsteinsson, - Y-886. Pétur Sumarliðason, Guðrún Gísladóttir, Skúli Víkingsson,

Birgir Jónsson, - Y-2006, Inga Kaldal, Bjarni B. Pétursson, Ragnheiður H. Óladóttir, Bjarni Bjarnason - 4 ára, Björg Pétursdóttir - 8 ára.

8. ágúst 1970 Þökkum Pétri í Jökulheimum skemmtilega kvöldstund.

Fjarri byggðum fékk sér land
frestaði borgar geimi
er að rjá við auðn og sand
inni í jökulheimi.

Jón Ögmundsson (orti), Guðmundur Sigurðsson, Karl Ragnars, Gunnar Ásgeirsson.

13. ágúst 1970 Hér komu vatnamælingamenn. Komum frá Jökulsá eystri í Skagafirði og förum í vatnshæðarmæla á Þjórsársvæðiu í dag.

Pétur veitti okkur kaffi og las Drottninguna í Algeirsborg.

Áttum hér ánægjulega stund. Förum til byggðar í dag.
Sigurjón Rist, Laufey Hannesdóttir, Pétur Sigurðsson, Davíð Br. Guðnason.

31. ágúst 1970

Örnefnið
Jöklasystur

Þá er þessu veðurathugunartímabili lokið. Sumarið var að mestu hlýviðrasamt nema fyrrihluti júlímánaðar sem var bæði kaldur og norðansveljandi. Hús voru bikuð og máluð ásamt öðru viðhaldi. Gestagangur í hófi. Síðustu vikuna annaðist Pétur Örn veðurathuganir í fjarveru minni.

Á sumrinu - um 16. ágúst - komst ég að Jöklasystrum (Kerlingum). Skriðjökullinn milli þeirra er orðinn mjög stuttur og í heild mun bráðnun hafa verið í meira lagi. Jökulhaftið yfir Tungnaá þynnist og mjókkar stöðugt. Vegna mikils aurframburðar flæmist áin langt út á hraun er kemur til móts við Rata.

Enginn hefur farið Breiðbak á sumrinu.

Pétur Sumarliðason, Pétur Örn Pétursson, Helen Andreasen.

1971 1971
6. júní 1971 Hingað kom vorleiðangur JÖRFA á laugardaginn fyrir hvítasunnu. Lagt á jökul á mánudag. Dýrðlegir dagar. Komið af jökli í gær (laugardag) og haldið heim í dag, sunnudaginn 6. júní. Færð var ágæt inneftir. Jökullinn mátti heita alhvítur, en nú er vetrarsnjórinn horfinn. Virðist mér að skaflar hafi lækkað um 40 - 60 sm á þessari einmuna viku.

Í gærkvöldi var 14 stiga hiti kl. 21 og nú, kl. 14:30, eru 18 gráður í skugganum.

Veðurathugun hefur verið hér frá 1963 en fellur nú niður í sumar.

Eins og sjá má hér framar var allfjölmennt hér þessa helgi.

Pétur Sumarliðason.

16. júlí 1971

föstudagur.

Komum hér á þriðjudagsskvöldi í suddaveðri: vestanátt.
Um kl. 15 á miðvikudegi brá til austanáttar. Fannst mikill fnykur í lofti og var farið af bragði niður í Veiðivötn í talstöðvarsamband að láta vita, því nú vænta Grímsvötn sín.
Í gær, fimmtudag, birti upp af norðanátt. Ekið inn í Jökulkrók, gengið að Meyfelli. Enn hægt að komast þurrum fótum á jökul.

Skemma tjöruborin og sett í ný rúða. Unnu þær Valborg, Kolla og Björg af miklum dugnaði.

Farið héðan um kl. 13:30 áleiðis í bannsettan bæinn.

Pétur Sumarliðason, Kolbrún Helga Hauksdóttir, Valborg Helgadóttir, Jörundur Ákason, Björg Pétursdóttir.

4. ágúst 1971 Var hér á ferð í Ferðafélags-hópi: Pétur H. J. Jakobsson
1972 19672
26. júní 1972 Komum hér aðfararnótt miðvikudagsins 22. júní og förum kl. 09:30 í dag.

Húsin bikuð eftir því sem friður vannst vegna veðurs. Bensíngeymslan ber veðurfarinu vitni. Annars var yndislegt veður suma dagana og allt að 15 gráðu hiti.

Snjór er meiri í fjöllum en ég hef séð í fjölda ára á þessum tíma. Inni í Jökulkróki hefurTungnaá fært sig út bergskorunni þar sem hún hefur runnið amk frá 1963. Virðist hafa verið mikil bráðnun síðastliðið sumar. Enn er ýmsu ólokið hér við hús og hlað. Kannski tækifæri gefist aftur að vitja þessara fornu dvalarstöðva.

Pétur Sumarliðason, Guðrún Gísladóttir, Bjarni Bjarnason - 6 ára, Björg Pétursdóttir.

1973 1973
9. júlí 1973 Rennt í hlað kl. 13:00 þann 7. júlí. Veður þokkalegt, ASA 4, hiti 3 gráður, nokkurt sólfar.
Komu flugbjörgunarsveitarmenn - vélsleðaherfylkið. Gisti í "Suðursetu". Fengu gott veður á jökul þann 8. júlí.
Við fórum þá á fornar slóðir: í Jökulkrók og að Fleygi.

Í dag, þann 9. júlí, var farið á fætur kl. 06:00. Hreinsað allt rusl úti frá vetur-gistimönnum. "Suðurseta" hreinsuð og þvegin. Öllum matarleifum og drasli hent úr báðum húsum. Settir nýir kveikir í olíuofnana og þeir hreinsaðir. Ofnin hér var ónothæfur. Hafði verið hellt á hann frostlegi og hráolíu og einhverju .. ? Varð að taka olíugeymi frá og hreinsa allt upp. Er nú í lagi.

Vantar gestabók í "Suðursetu". Þyrfti og að setja þar upp einhverjar lágmarksreglur um umgengni og viðskilnað.

Veður: Austan 3 - 4, þokusúld, skýjahæð 0, skyggni 500 metrar, hiti 6,5 gráður. Haldið heim kl. 13:00. Þakka gistileyfi í "Norðursetu" þeim er veittu.

Pétur Sumarliðason, Guðrún Gísladóttir, Bjarni Bjarnason Péturssonar, Haraldur Björnsson.

1974 1974
14. júlí 1974

Sunnudagur

Komum í hlað kl. 20:10 á föstudag.
Veður yndislegt, sólfar mikið, hiti. Áttin N og NA til A. Loftvog 1020, er nú fallandi.

Farið um Þiljuskarð og gengið á Stóra-Topp. Teknar myndir af jökuljaðri. Snjór óvenju lítill og leiðir allar orðnar þurrar og vel færar.

Pétur Sumarliðason, Guðrún Gísladóttir, Ásgeir Guðnason, Hlédís Guðmundsdóttir.

1975 1975
29. júní 1975

Sunnudagur

Komum hér um kl. 01:30 laugardag.
Rigning og súld en hægviðri. Birti upp er leið á daginn.

Snjór óvenju mikill. Páfastóllinn umlukinn skafli. Þiljuskarð ófært. Ekki fært að Dór. Sólfar gott um miðjan daginn og var setið á palli. Hiti um 7 gráður.

Haldið heimleiðis fyrir hádegi á sunnudegi. Sólskríkjan situr á mæni og gætir staðarins. Hún er hér í búsetu sem fyrr.

Pétur Sumarliðason, Guðrún Gísladóttir, Pétur Örn, Björg Pétursdóttir, Anna Día Brynjólfsdóttir, Lise Gíslason.

1977 1977
28. ágúst 1977

Sunnudagur

Komum hingað um kl. 22 föstudaginn 22. ágúst og var þá brennisteinsfnykur í lofti en veður gott. Um nóttina fór hins vegar að hvessa og rigna. Að morgni laugardags tók Landróverinn þá örlagaríku ákvörðun að vera kyrr í 2. gír og hreyfa sig hvergi.

Þegar leið á daginn fór að hvína allhressilega í gamla manninum enda bárust okkur fréttir af rúðubrotum í Breiðholtinu. Pétur lét það ekki á sig fá og hélt áfram að saga sundur jeppann. Linnti hann ekki látum fyrr en gírkassinn sá sitt óvænna og slakaði á.

Aðfararnótt sunnudags náði óveðrið hámarki sínu og svo datt allt í dúnalogn en menn vöknuðu hressir við sólskin og hrafnasöng um morguninn.

Pétur kallar þetta ekki veður en okkur fannst hann hvass.

Á sunnudagsmorgninum fundum við aftur jöklafýluna.

Héðan förum við kl. 10 f.h. og þökkum af alhug.

Ingibjörg Haraldsdóttir, Hilmar Ernesto Ramos - 2 ára, Adrienne Hunter, Toronto, Canada,

SA - 4, alskýjað, hiti 5 gráður, þurrt.
Gírkassinn bilaður. Þó hægt að aka í 2. gír.
Það var nú það.
Pétur Sumarliðason.

1978 1978
30. ágúst 1978 Miðvikudaginn 30. ágúst '78.

Komum hér í gærkveldi í lognsúld. Í morgun farið inn í Jökulkrók og að Fleygi.
Nú við brottför kl. 15:00 er vestangola og skínandi veður.

Pétur Sumarliðason, Björg Pétursdóttir, Pétur Örn og Kleó, Nanna, Sigurður Jakobsson í Jökulheimum í fyrsta sinn 7 ára.

1979 1979
22. júlí 1979 Ógleymanleg ferð með Pétri Sumarliðasyni og fjölskyldu inn úr.
Kristján Sigurðsson frá Lundarbrekku í Bárðardal,
Brynhildur Lilja Bjarnadóttir frá Hvoli, Aðaldal, S-Þing.
1983 1983
23. - 24. júlí 1983 Komum hingað í dýrðarveðri. Fórum í Jökulkrók og að Fleygi. Hér áttum við góða stund.
GÓP og 47 ferðafélagar í sumarferð:
Ólöf Guðmundsdóttir og Lothar Huber,
Kristín Indriðadóttir og Bjarni Ólafsson,
Stella Jónsdóttir, Kjartan Sumarliðason og Sumarliði Már Kjartansson,
Bjarni Sumarliðason og Helga Sigurgeirsdóttir,
Ingvar Jóhannsson,
Nanna Jakobsdóttir, Sveinbjörn Jakobsson
og Sindri Sveinbjörnsson og Hjörleifur Sveinbjörnsson,
Ragna Freyja Gamalíelsdóttir, Sigrún Ragnarsdóttir
Hrafn Sæmundsson og Ester Tyrfingsdóttir,
Aarstein Skiftun,
Kjartan Kjartansson og Dýrleif Yngvadóttir,
Arna Arnfinnsdóttir og Jón Í. Guðmann,
Ingibjörg Haraldsdóttir,
Sigríður Eyþórsdóttir,
Jóhann Ísak Pétursson,
Valgerður Bjarnadóttir,
Andrea Teupke og Mikaela Heidereud,
Karl Sæmundarson og Irma Geirsson,
Sigurður Ragnarsson,
Ómar Árnason og Árni Björn Ómarsson
Guðrún Gísladóttir og Björg Pétursdóttir,
Pétur Örn Pétursson og Kleó
og Nanna Þorbjörg Pétursdóttir og Guðmundur Rúnar Pétursson,
Agnes Huld Hrafnsdóttir og Páll Breiðfjörð Pálsson,
Katrín V. Karlsdóttir,
Otr Karl Árdal og Ingalill Sedvallson og Embla 1og ½ ár,
Karl Jónsson,
Ragna Freyja Karlsdóttir og Davíð Karl Sigursveinsson.
Gísli Ólafur Pétursson.
1993 1993 -
21. ágúst 1993 Gistum hér á leið í Grímsvötn. Veðrið frábært, bjart og frost í nótt. Nú er klukkan 07:30 og við höfum fylgt hópi Axels Þórðarsonar yfir Tungnaá á Gnapavaði.

Gísli Ólafur Pétursson, Ragna Freyja Gísladóttir, Sigurjón Pétursson, Ragna Brynjarsdóttir, Björgvin Hilmarsson, Karl Jónsson, Guðmundur Rúnar Brynjarsson, Guðbjörn Haraldsson, Árni Ragnarsson, Valdimar Einisson, Gunnar Páll Eydal, Gunnar Eydal, Magnús Ásgeirsson.

Efst á þessa síðu * Forsíða