GÓP-fréttir


Haustferð suður Bárðargötu

26. - 28. september 1997

Sjá hér myndir úr haustferð
suður Bárðargötu árið 2005

Úr
Landnámu

Svo segir í Landnámu:

Bárður, sonur Heyjangurs-Bjarnar, kom skipi sínu í Skjálfandafljótsós og nam Bárðardal allan upp frá Kálfborgará og Eyjadalsá og bjó að Lundarbrekku um hríð. Þá markaði hann af veðrum að landviðri voru betri en hafviðri og ætlaði af því betri lönd fyrir sunnan heiði. Hann sendi sonu sína suður um góu. Þá fundu þeir góubeytla og annan gróður. En annað vor eftir þá gerði Bárður kjálka hverju kykvendi því er gengt var og lét hvað draga sitt fóður og fjárhlut. Hann fór Vonarskarð þar er síðan heitir Bárðargata. Hann nam Fljótshverfi og bjó að Gnúpum. Þá var hann kallaður Gnúpa-Bárður.

Ekið
í
Nýjadal

Ferðarlýsing

Föstudaginn 26. september söfnuðumst við saman í húsi Ferðafélags Íslands í Nýjadal. Það stendur vestur af suðurenda Tungnafellsjökuls og er við Nýjadalsá sem rennur í Fjórðungakvísl og er ein af upptakakvíslum Þjórsár. Miklar breytingar eru á þessum árunum á vegum upp frá Þórisvatni. Við Versali hefur venjulega verið farin gamla leiðin neðan hússins. Nú hins vegar eru komnar brýr yfir Kvíslarveiturnar svo best er að aka þann þokkalega veg sem er ofan Versala allt upp fyrir Kvíslavatnið. Þar er vegur á hægri hönd þvert til austurs. Hann var raunar í gerð þessa dagana en brúin er komin og þarna er stutt yfir í Kistuöldu. Þetta er mun betri vegur og fljótfarnari en sá gamli.

Laugar-
dagur:

Gjallandi

Gjósta

Gjóstuklif

Rauðá

Kaldakvísl

Sveðja

Á laugardeginum var lagt upp klukkan 8. Ekið er norður fyrir Tungnafellsjökul og skroppið niður að hinum tignarlega fossi, Gjallanda í Skjálfandafljóti áður en ekið var suður í Gjóstu. Þar var ekið niður Gjóstuklifið. Leiðin liggur undir rótum vesturbrekkunnar og sem minnst út á sandinn þegar þar þarf að aka. Stuttu síðar er ekið upp á garð sem Landsvirkjun setti þar upp fyrir nokkrum árum til að veita þar vötnum. Veturinn næsti á eftir tók af þeim ráðin.

Þar strax var gott vað á Rauðá - en í Vonarskarði eru þau vöð góð sem halda akandi bílum. Það er um það bil það sama og að halda gangandi manni. Við Svarthöfða var Kaldakvísl hóglát á ljúfu vaði og reyndist eina áin á leið okkar suður með Vatnajökli sem var með eðlilegu vatnsmagni miðað við árstíma. Fyrirstöðulaust ókum við síðan Köldukvíslarbotnana og upp hjá hinum mikla en vatnslausa fossi - sem nú var án nokkurs társ. Þegar að Sveðju kom reyndist hún vera margföld á við það sem vænst var. Á henni er eitt þrautavað rétt áður en hún fellur niður í hraun og mjúka sanda og þar komumst við yfir. Leiðin lá nú upp á Hamarsfjöllin eftir leið sem víða er sem einstigi en örugg og án sandbleytu í báðar áttir - þ.e. bæði upp og niður.

Þeim sem eru þarna á sinni fyrstu ferð er bent á að hafa með sér GPS-feril leiðarinnar (Sjá GPS-punkta Sverris Kr. Bjarnasonar) og skoða hann á korti. Leiðin fer ofan af gömlu leiðinni þvert til vesturs um svo grýtt svæði að förin virðast gufa upp og að neðan er farið svo langt suður áður en ekið er upp á fjöllin að ókunnugir álykta að svo langt eigi ekki að leita leiðar.

  Eldri leiðin fer yfir deiga vatnsbotninn ofan fossins en þar eru bleytur og bratt aðkomu.
Hamarsfjöll

Grjótháls

Jökulgrindur

Jökulheimar

Þarna var veður bjart, stundum skein sólin á okkur og stundum meir á umhverfið en þaðan er horft niður á háslettuna þar sem Hágöngurnar standa handan Köldukvíslar. Vestur undan er Tröllahraunið með rauðum gígum. Við ókum upp að jöklinum og svo suður að gilinu sem geymir Sylgju. Næsta háls norðan Sylgju nefnum við Grjótháls og hann endilangur er lykillinn að þessu hálendi að sunnan. Síðan er farið suður að Þorni og sunnan þess er haldið vestur í átt til Bláfjalla þar sem leiðin liggur milli hrauns og hlíða í þokkalegum sandi og litlum hraunhöftum niður að Systrakvísl. Hún kemur upp í Innri-Tungnaárbotnum og rennur norðan Jökulgrinda. Hún var nú all vatnsmikil. Við fórum suður um Stafnaskarð og skoðuðum fossinn Fleygi sem nú fleygði þessari all vatnsmiklu á. Það var merkasti Fleygir sem sést hefur í næstum hálfa öld. Hugsanlegt er þó að vatnið í kvíslinni hafi aukist við framhlaup Tungnaárjökuls fyrir tveimur árum. Í Jökulheima komum við fyrir klukkan 18.
Sunnu-
dagur:

Tungnaá
Breiðbakur
Landmanna-
laugar

Sunnudaginn tókum við snemma og ókum af stað kl. 6:10. Tungnaá var óvenjulega mikil miðað við árstíma en greiðlega gekk þó að komast yfir hana á Gnapavaði. Vegurinn liggur suð-vestan Gnapa og í sveig fyrir Botnaverið. Síðan er ekið upp brattar brekkur uns komið er upp á Breiðbakinn. Við ókum austur og síðan suður að Langasjó og fram FögruvöllFögru sem næst er jökli af Fögrufjöllum. Þar reyndist Skaftá vera með sumarvatni svo að þaðan varð frá að hverfa. Þá fórum við aftur upp á Breiðbakinn og eftir honum að Sveinstindi og síðan áfram niður á Landmannaleið við Herðubreið hjá Eldgjá. Þaðan héldum við í Landmannalaugar og áfram heim. Til Kópavogs komum við á tímanum milli 17 og 18.
Ferð í
hausthlýju
Þetta var skemmtileg ferð um fjölbreytt og afar sérstætt land og leiðin er sérlega skemmtileg. Milt og hlýtt haust setti dálítið strik í reikninginn. Þetta varð því ekki dæmigerð haustferð heldur meira eins og sumarferð þar sem vantar þann kulda sem setur mark sitt á vatnsmagn ánna.
>>
Ritari þakkar ferðafélögum frábæra samfylgd.
Ferðir

um

Vonarskarð

Ferðir um Vonarskarð

Ekki eru þekktar ferðir annarra en Gnúpa-Bárðar um þessa leið fyrr en fyrir 150 árum þegar Björn Gunnlaugsson fór frá Stóra-Núpi þann 27. júlí 1839. Fimmtíu árum áður (3. sept. 1794) hafði Sveinn Pálsson séð af Snæfelli að skarð er milli Vatnajökuls og Blánípurs, en svo nefnir hann Tungnafellsjökul. Það taldi hann vera Vonarskarð.

Ekið

um

Vonarskarð

Gísli Eiríksson, sá ágæti bílstjóri í byggð og á fjöllum, hafði fyrr á árum sagt einum ferðafélaganum í okkar för að hann var á ferð með Minnsta ferðafélaginu á hálendisferð í september árið 1950 þegar flugvélin Geysir fórst á Vatnajökli. Þeir óku í þeirri verð norður Vonarskarð og gistu í tjöldum sínum við Gæsavötn. Þar heyrðu þeir í fréttum að flugvélarinnar væri saknað. Þeir hrepptu erfitt veður - það sama og setti niður Geysi - en fóru síðan norður af og í lið með björgunarleiðangrinum sem sótti áhöfn vélarinnar í suðaustur Bárðarbungu. Sjá hér frásögn af þeirra ferð og Tímalínu bókarinnar Geysir á Bárðarbungu.

Um Bárðargötu hefur Haraldur Matthíasson dregið saman mikinn fróðleik í Árbók FÍ 1963 sem við er stuðst í þessari samantekt. Hann segir meðal annars frá ferð þeirra hjóna 24. júlí 1958 með bílum úr Bárðardal suður í Gjóstu. Hann skrifar: Lengra komast ekki bílar þá leið, því snarbratt er ofan úr skarðinu sunnan megin, og kallast Gjóstuklif. Við brekkuræturnar rekst hann hins vegar á bílför og giskar á að þau séu eftir Minnsta ferðafélagið átta árum áður - en eins líklegt er að þau hafi verið eftir aðra sem þar voru síðar á ferð. Fyrstu leiðangrar um Vonarskarð héldu sig austanmegin í norðurhluta þess en fóru ekki um Gjóstuklif.

Frá 1950 hefur Vonarskarð verið ekið - fyrst sjaldnar en síðan tíðar. Í september árið 1990 fórum við suður skarðið undir öruggri forystu Sigurjóns Péturssonar og vorum 65 saman á 16 bílum. Nú vorum við 29 talsins á 9 bílum. Engin merki sáum við um okkar fyrri för. Ljóst er þó af slóðum að hér er nokkur umferð og er það vel því þetta er sögulega spennandi leið og ferðin sjálf um þennan jökulkringda eyðimerkurdal er mikilfengleg og ógleymanleg upplifun. Okkar leið lá austur yfir Köldukvísl og áfram suður til Jökulheima en einnig er mjög góð leið að aka neðan Svarthöfða strax aftur vestur yfir Köldukvísl og eftir veginum sem þar er að Hágöngum og vestur á Sprengisandsleið.

Eftirskrift Eftirskrift 2004

Bárðargata er á harðsvæðum orðin nokkuð ratljós allt frá Gjóstu suður til Jökulheima ef frá eru skildir lausasandar og deigjur þar sem vetrarleikir náttúruaflanna slétta allt út. Gjóstuklif er að vísu nokkuð brött en fær öllum fjórdrifnum bílum upp stíginn. Leiðin betrumbætta upp á Hamarsfjöllin er einnig orðin svo glögg að létt er að fylgja henni ef bjart er í veðri og þó sérstaklega ef menn þekkja til. Enginn ætti að fara þessar leiðir - hvorki akandi né gangandi - án þess að hafa GPS-tæki meðferðis og sækja sér GPS-punkta Sverris Kr. Bjarnasonar. Á þessum slóðum gerir oft dimm veður svo að erfitt er að halda vegi og ferill vegarins gefur þau einu kennileiti sem ókunnum eru óbrigðul.

Stutt er síðan farið var að bjóða leiðsagðar gönguferðir um þessar slóðir og er það vel því þetta er tilkomumikið landsvæði. Fyrstu skipulegu gönguferðirnar munu hafa verið farnar stuttu fyrir 1990 og var þá flutt inn að Sylgjufelli óhrjálegur gámur til skjóls í áfangastað. Hann hefur nú verið fjarlægður fyrir nokkru og kominn er góður skáli þar í einkaeigu og nefnist Sylgjufell. Í fáein ár voru stopular ferðir fámennra hópa enda þarf þjálfaða gönguíþróttamenn til að halda út slíkar langferðir með allt á bakinu. Því miður er enn misbrestur á að göngumenn gæti þess að hafa GPS-tæki með sér. Öllum er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þótt nú sé komin 21. öldin eru öræfin alltaf söm við sig og jafn lífshættuleg yfirferðar sem áður ef hjálpartæki nútímans hætta að virka. Þar segir fátt af einum - villtum.

GÓP-fréttir * Ferðaskrár