Forsíða


GGí+PS

 Frumherji
í
bókavörslu

Sjá
myndir
í albúmi
 

Afmæla-
söngvar

90

90

 
 

Guðrún Gísladóttir

níræð 5. sept 2010

 

 

 

 

Björg Pétursdóttir:

Ávarp í afmælishófi

  Áður en við fáum okkur að borða langar mig að segja fáein orð.

Í tengslum við afmæli frú Vigdísar Finnbogadóttur barst inn á heimili mitt eins og annarra Íslendinga þakkarkort sem var þáttur í verkefninu "Frá konu til konu" Þar gafst manni tækifæri til að senda frú Vigdísi afmæliskveðju eða skilaboð um hvaða þýðingu hún hefði haft sem fyrirmynd fyrir mig, dætur mínar, vinkonur eða móður. Ég tók nú ekki þátt í verkefninu en ég man að fyrir tilstilli kortsins staldraði ég við og íhugaði hvort einhver ein kona öðrum fremur væri mín fyrirmynd og gegnum mig kannski fyrirmynd dætra minna. Niðurstaða mín var sú að það væri ekki Vigdís Finnbogadóttir, heldur móðir mín, Guðrún Gísladóttir, sem hefur haft ótrúlega mikil áhrif á ýmis lífsviðhorf mín sérstakleg þau sem tengja má jafnrétti.

Og mig langar að taka dæmi:

Hvað varðar mömmu þá er óhætt að segja að sem ung stúlka stefndi hún ekki á hefðbundnar slóðir. Hún valdi að stíga inn á menntabrautina og stefna á stúdentsprófið sem var alls ekki eins algengt 1936 eins og það er nú. Það var ekki bara að hún færi í menntaskóla, heldur fór hún á stærðfræðibraut, og svo átti hún barn á meðan hún var enn í skóla. Hún lét það samt ekki stoppa sig, heldur tók ársfrí og kom svo aftur og kláraði stúdentsprófið 1941. Þegar ég fæddist var hún orðin 41 árs og útivinnandi. Hún hætti ekki að vinna heldur hóf stuttu seinna það sem nú væri kallað nám með vinnu og lauk BA-gráðu í bókasafnsfræði 1972. Þessi eiginleiki hennar að fara ekki hefðbundnar slóðir og þar með láta ekki umhverfið hafa áhrif á hvað þú tekur þér fyrir hendur og hvert þú stefnir, hefur verið mér leiðarljós í gegnum lífið. Áherslan á að lifa ekki í gegnum eiginmanninn og að láta börn og bú ekki hamla því að verða sjálfstæður einstaklingur, með sérhæfða þekkingu, opinn fyrir nýjungum og þróun í starfi, hefur verið mér fyrirmynd sem ég hef verið óspör með orðum og gjörðum að miðla til minna dætra.

Annað dæmi um mömmu sem fyrirmynd man ég að Guðbjörg dóttir mín benti mér á fyrir margt löngu, Á þeim tíma voru þær stöllur mikið saman og Guðbjörg stundum að ræða framtíðaráætlanir og kærasta sem ekki voru alltaf í uppáhaldi hjá okkur foreldrunum. Upplifun Guðbjargar var að mamma reyndi alltaf að draga fram það jákvæða í fari þeirra einstaklinga sem voru til umræðu. Enn fremur benti hún á hvað mamma var hvetjandi þegar hún velti upp nýjum hugmyndum um framtíðarplön. Þessvegna var sérstaklega gaman að Guðbjörg skildi velja að ganga í fótspor mömmu og læra upplýsinga og skjalastjórn. Mamma var einmitt einn af stofnendum félags bókasafnsfræðinga og félags um skjalastjórn.

Mig langar að lokum að gera orð verkefnisins „frá konu til konu“ að mínum. Þar segir: Eins og gjarnan gerist með góðar mæður eru þær til staðar og krefjast einskis á móti. Hætta er á að við gleymum að þakka þeim fyrr en það er um seinan. Þó erum við farnar að skilja hversu mikið þær hafa lagt af mörkum til að skapa ímynd hinnar "íslensku kvenorku" sem víðfræg er orðin.

Takk fyrir allt, mamma, og til hamingju með afmælið!

Texti: GÓP

Guðrún Gísladóttir 90

Hún upp er nú runnin sú ánægjustund
að erum við komin á afmælisfund
Til hamingju! mamma mín! hér erum við
á hátíðarstundu svo glöð þér við hlið!

-- Hæ! Hó! nítíu er´ún * * * *
- vart er á 'enni lát!
því árin sín ber´ún
svo brosandi kát!

Í huganum geymast þau, æskunnar ár,
þar útsærinn ríkir og fjallhringur blár.
og föður og móður við heimilishól
og húsið að mestu í ilmi og sól.

-- Hæ! hó! létt er nú lundin * * * *
- víst er líftíminn ör!
nú dokar þó stundin
á stanslausri för!

Já - austur á Bakka var bræðranna fans
þá bauð henni Pétur í fjölskyldudans
og fimm barna móðir í mörgu tók þátt
og frekari menntun hún sótti sér brátt.

Hæ! Hó! margt dreif á daga,* * * *
og hér minnumst við þess!
Við erum hér saman
svo einmuna hress!

Og bókasafnsmálunum lagði hún lið
með lagi og samstarfi þvert yfir svið
- í sinni býr ævinnar farvinafjöld
og faglegir samherjar - næstum í öld

-- hæ! hó! langalangamma * * * *
og hæ! langamma mín!
og amma og mamma,
- og þakkir til þín!

Við vitum að dagur hver nokkru fram nær
sem nauðsynlegt reyndist að fresta í gær
og tilveran elskuleg þylur svo þýtt:
að það má hvern morguninn byrj´upp á nýtt!

:,: -- eftir afmælisgleði * * * *
gríptu geirinn í hönd!
- því enn áttu eftir
mörg ónumin lönd! :,:

>> Ath! syngja lokaviðlagið tvisvar!! <<

 Texti: GÓP Guðrún Gísladóttir 90

Frú ættmóðir kallar í afmælishátíð
með útsýn um veröld í nútíð og þátíð -
já - hag okkar allra í brjósti sér ber'ún
og brosandi til okkar glaðlega fer'ún.
Hæ! Hó! og hérna er' ún!

Við félagsmál hefur hún fengist um daga
og fylgt eftir málum að bæta og laga
og rétt sinn frá köllum með konunum draga
og koma á friði - og halda til haga - .
Hæ! Hó! Jafnréttissaga!

Úr bandi frá Herdísi hefur hún ofið
og hlotið frá nærstöddum hrósið og lofið!
og tuttugu ár hefur bækur inn bundið
svo býsna margt rit hefur skrautbúning fundið!
Hæ! Hó! - svo er það sundið!

Hún færði í tölvuna bréf öll og bindi
svo brátt mátti hvaðeina finna í skyndi
og þannig er fortíðin fléttuð við daginn
við færumst í seiling við fortíðarhaginn!
Hæ! Hó! Iðnin og aginn!

Við niðjarnir ólgum af alúð og hlýju
og óskum til hamingju - heill þér að nýju!
Með ómandi tónum við óskunum klingjum
og afmæliskveðjuna fyrir þig syngjum!
Hæ! Hó! Tíðina yngjum!

Við þökkum þér heilindi, glettni og gleði
- og gleggni sem margsinnis léttir í geði
þín heilræði munum sem hendingum raða
og hjörtum og laufum - já! tiglum og spaða!
Heiðurs!-frúna! - kveðjum við glaða!

Guðrúnarmyndir
og
Gamlar myndir af fólki í Gamla læknishúsinu á Eyrarbakka

GGí+PS * Efst á þessa síðu * Forsíða