Höfundar
GÓP-fréttir


Jakob Hálfdanarson

Jakob skrifaði margt fleira heldur en það sem enn hefur birst á prenti og þar á meðal er þessi frásögn. Hún er rituð í Ættartölubók Jakobs Hálfdanarsonar, Húsavík, hverrar skrift er upp hafin árið 1898. Þessa frásögn ritar Jakob árið 1908 eftir eigin samantekt frá 1900 - eins og fram kemur í innganginum.

Þetta er frásögn og setningaskipan Jakobs sjálfs en greinarmerkja- og stafsetning hefur á einstaka stað verið færð að því sem tíðkast nú um stundir. Atriðisorð í vinstri dálki eru frá GÓP.

Eldgos Eldgosið á Mývatnsöræfum 1875
1900

er efnið
skráð til
flutnings

Nálægt næstliðnum aldamótum, þ.e.: fyrir 8 (?) árum hefi eg skrifað upp eftir því sem mér var þá enn í glöggu minni um eldgos þetta, til að lesa upp til fróðleiks og skemmtunar hér á málfundi.

Þennan upplestur ræð ég af að færa hér inn af lausum blöðum, því ég hefi svo ugglausa vissu um að hér sé svo rétt skýrt frá, sem ég hef haft vit á að taka eftir og skilja.

Des 1874 - feb 1875
- hræringar
Laust fyrir nýárið 1875 fundust jarðskjálftakippir í Mývatnssveit. Þeir voru ekki harðir, en svo tíðir að ekki varð tölu á komið - og um nýárið - ekki man ég víst hvort það var 1. eða 2. janúar, var óslitinn titringur allan daginn. Þessa varð öðru hverju vart í hálfan mánuð. Eftir það hætti þetta og leið svo fram í febrúar að ekki bærði á neinu.
Feb 1875 Þá bar það við að 2 menn voru á ferð austan yfir Mývatnsöræfin. Er þeir voru komnir nokkuð vestur á fjöllin vita þeir eigi fyrri af en að á baki þeirra, þar sem þeir voru rétt búnir að ganga leiðar sinnar, er þotinn upp kolsvartur stólpi í háaloft með dunum og dynkjum. - Þetta hélst meðan þeir sáu til en þeir héldu leiðar sinnar ofan í Mývatnssveit og sögðu fréttirnar. Þar hafði ekki neitt sést né heyrst - og bar ekki á neinu.

Jón dbrm. Sigurðsson á Gautlöndum tók sér ferð á hendur austur á fjöllin að skoða verksummerki. - Ég ætla að það væri 18. febrúar. Þar var komin ný dálítil hraunspilda en engin hreyfing þá á neinu. Jón setti skýrslu um þetta í Akureyrar-blað.

Nú héldu menn að öllu væri lokið og engin tíðindi yrðu meiri. - En það fór á annan veg.

Gos hefst
10. mars 1875
Hinn 10. mars byrjaði hið alvarlega gos. Nú þurftu ekki sjónarvottar að vera austur á fjallvegum til þess að verða varir við það. Það heyrðust firn öll af dunum og dynkjum vestur við Mývatn og reykjarstólpinn stóð ákaflega hátt í loft. Stundum var birtan af eldinum svo mikil á nóttinni að hálfbjart var í húsum inni. Dálitlir jarðskjálftakippir fylgdu en aldrei harðir - og meira titringur.
12. mars 1875
fara Jakob,
Hallgrímur
og
Sigurgeir
að skoða
verksummerki
Nú er menn sáu að þetta varði við, að þó það endur og sinnum félli niður þá tók það sig upp aftur, fór ýmsa að fýsa að koma nær því til þess að skoða svo vel sem unnt væri.

Það var snemma morguns hinn 12. mars að ég, með tveim mönnum öðrum, réðumst í þessa austurgöngu frá Grímsstöðum og Reykjahlíð. Förunautarnir voru Hallgrímur Jónasson, sá er dó á Hólum 1882, bróðir Hermanns, skólastjóra, og Sigurgeir Pétursson í Reykjahlíð.

Veður var hið blíðasta, frostlaust og glaðasólskin en snjór mikill og færi hið versta. Skíði gengu ekki og kálfadjúpur þæfingur. Ferðin gekk því erfiðlega og seint.

Eldurinn hafði kvöldinu áður verið í besta gengi. Þá var ferðin ráðin. Nú var nokkuð dregið úr hávaðanum og því óttinn allur yfir því að missa af því eftirsótta hnossi. Það var því ekki slórt á leiðinni og vorum við nálega 5 klukkutíma áleiðis.

Þegar við komum austur á Námafjall og sáum austur að gosinu kom það okkur allt öðru vísi fyrir en við áttum von á. Þar var nú engan eldslit að sjá heldur 13 svarta gosstólpa í beinni línu er blasti .þvert fyrir okkur. Eldgosstólparnir misstu sinn rauðalit fyrir sólarljósinu.

Um hin
eld-litu
ský
Nú var hægt að sjá og skilja hvernig því er varið að menn, jafnvel í fjarlægum héruðum, þykjast sjá eldinn þegar eldgos eru, og hvernig móðan, sem leggst þá oft yfir lög og láð, fer að myndast.

Þó að eldurinn sem gýs upp úr gígnum, sé geysihár, þá vantar þó fjarskan allan til að hann stígi svo hátt að hann sjáist sjálfur úr fjarliggjandi héruðum yfir þau fjöll og firnindi sem í voru landi skilja hvarvetna milli byggða, þó þetta hafi verið á orði.

Nei, það sem sýnist eldur eru samandregin ský af gufunni sem myndast og stígur upp af, bæði gosgígunum sjálfum og þó einkum af hrauninu þegar það er að storkna og kólna. Þessi gufuský kneppa sig einatt saman afar hátt yfir eldinum og taka móti birtunni af honum og senda hana í fjarlæg héruð, alveg á sama hátt og tunglið sendir oss frá sér sólarljósið.

Þessi logabjörtu gufuský hreyfast alla vega fyrir loftöldunum og geta menn því ekki séð betur úr fjarlægð á náttarþeli an að þetta sé blossi með venjulegum hreyfingum. Gufuhnoðra sem slitna frá hafa menn haldið glóandi björg sem köstuðust þarna út í geiminn fyrir augunum á manni - en þetta fer allt í rauninni lægra þó stórmerkilegt sé.

Það er eins og þessi smágerða gufa sé svo létt að hún smáþenjist frá þessum stöðvum út í gufuhvolfið og verði að blárri móðu og af því að horfa á þetta sýnist manni ekki undarlegt eða ótrúlegt að hún geti tekið yfir töluverðan hluta af hnettinum.

Önnur stórgerðari gufa sýndi sig nú líka hér og þar, nokkuð út í frá eldgosinu. Það var eins og hingað og þangað væru gjósandi vatnshverir. Hvítir, kafþykkir kúfar gusu upp, losnuðu frá og hurfu í loft upp. Þetta sáum við brátt að var vatnið úr snjónum þar sem hraunflóðið rakst á fannirnar, bræddi þær á vörmu spori og gjörði að gufukúf í loftinu er líkist reyk er sýnist, ásamt hinu, ógurlegt í fjarlægðinni og áfast við gosið. Við sáum þannig að það er vatnsgufa sem kallað er að reykur sjáist þá er eldur er uppi en ekki að það sé nema máske að mjög litlum parti uppleyst eldsneyti eins og t.d. reykur af kolum eða mó.

Þór-drunur Undir þessum hugleiðingum erum við þá komnir í svosem 300 faðma fjarlægð frá sjálfu gosinu. Dunurnar eða urgandahljóðið og brestirnir í eyrunum er nú orðið ægilegt - og þó er hryllilegust í því einhver ógurlega þung og dimm undirrödd sem virðist gagntaka alla jörðina umhverfis mann og undir fótum manns.

Geigvænlegri er ekki hægt að hugsa sér lúðurhljóm á efsta degi en þennan Vulkanusar bassa.

Loftkast Nú fer að liggja á leið okkar smá hrat af pims-ögnum og sjáum við þá að tilkomumeira hefði verið að vera staddur þarna þegar gosið hafði þessum meiri styrk til að skyrpa frá sér. Nú virðist okkur að það skyrpti ekki út frá sér nema 50-60 faðma.
Hraunflóð

og

lífsháski

Nú erum við þá komnir að hraunflóðinu og nemum þar staðar í bráð í hérumbil 60 faðma fjarlægð frá gosinu. Hér er maður kominn eins og í áður óþekktan helgidóm þar sem þessi sannnefnda óttalega fegurð blasir við manni: á einum stað eldsúlurnar og á hinum hraunbreiðan sem nú er að feta sig hægt og hægt á móti manni. Hraunið er strax yfir að líta grásvart, að mestu eins og gamalt hraun á litinn.

Aðeins hér og þar bregður fyrir eins og leiftri í hraunröndinni. Þar sem flóðið sækir fram, skorpan springur og hvítglóandi gjallleðjan bregður eins og tungunni yfir þá þúfuna, fönnina, pollinn eða hrísluna sem fyrir verður. Það er áminnandi sjón að horfa á dökkgula víðirunna, beitilyngsbrúska og lambablómkolla, sem þarna hafa vakandi og sofandi þolað hita og kulda frá ómunatíð, rjúpum og sauðum til unaðs og nota, hverfa með dauðaveini, þ.e.: smá-brestum og tísti, undir þessar eldviðjar í eilíft myrkur. Þessi jurtalíf önduðu til vor sinni síðustu ilman úr eldinum og hurfu - en við sem þarna höfðum ekki vit eða viðnám til að óttast fyrir okkur, fengum seinna að vita að mótstöðumáttur vor hefði getað litlu meiri orðið en jurtanna þar þetta jarðlag er við stóðum nú á var litlu seinna fallið niður um fleiri faðma og hraunbreiðan fallin yfir.

Mikill hiti
við hraunið

Tilurð
margvís-
legra
hraun-
myndana

Hraunhellar

Hrauntraðir

Þegar þessar breiðvöxnu gjalltungur sletta sér fram úr skorpunni í krappoll þá kemur suðuhljóð og þykkur gufu kúfur stígur í loftið eins og áður er sagt. Pollurinn þornar bráðlega upp og dokkin sem hann var í verður kúfuð með hraun.

Með röðinni á þessu hraunflóði, þar sem það er að fikra sig áfram, þolum við mjög illa vegna hitans, að ganga svo nærri að við náum með göngustaf okkar í það. Mér aðeins tókst að drepa stafnum á, en ekki til þess að geta vitað hve lengi skorpan er að styrkjast. En nú fáum við að sjá hvernig hraunið myndast með sínum kömbum og kvosum og hellum, muli og húsum.

Eldtungunum. sem ég nefni, bregður fyrir að kalla eins og leiftri því óðara en þær sprengja sig út úr skorpunni er komin á þær svört eða grá skorpa. Þessi skorpa verður eftir því þykkri sem straumurinn í eldinum er hægri til áleitni á þeim stað, svo tíminn verði lengri til að storkna. Ef straumurinn er sterkur, springur storkan strax aftur og reisist þá á röð eða rennur með lengra og myndar þá einlægar smáhellu-eggja-raðir upp úr nýrri skorpu sem aftur fer eins og hlýtur því það hraun sem myndast þar sem eldstraumurinn er harður, að verða smágjört hröngl, Undir yfirborði hraunsins (þ.e.: skorpunni) heldur eldflóðið víst lengi sínu rennandi ástandi því þegar við göngum yfir það, sem á einum stað tókst, því þar sýndist það vera hætt að renna og nokkuð farið að kólna, þá sáum við víða í sprungum ofan í glóandi eldinn gegnum allt að alinar þykka skorpu. Það er þá ljóst að þegar eldstraumurinn úr gígnum þrýstir að þessari óstorknuðu leðju undir skorpunni þá má skorðan til að láta einhvers staðar undan og springa upp eða fram enda þó það sé nú orðin þykk hella og þetta getur gjarnan orðið þar sem yfirborðið er hæst og þá fljótlega hlaðist upp háir kambar með raðreistum hellum, eins og líka hin rennandi eldleðja getur náð einhverri framrás, sprengt fram röðina og runnið burtu undan skorpunni sem þá er ýmist orðin nógu sterk til þess að halda sér uppi sem hellisþak um aldur og ævi, eða hún fellur niður og myndar kvos,

Að gígunum

svört
gossúla
með
eldlita
miðju

Ég hef nú leitast við að lýsa hraunmynduninni eins og hún kom mér fyrir sjónir og erum við þá á leið að gígunum. Það er gapaför og hætt við að styttist í skónum okkar

Norðasti gígurinn af þeim 13 sem ég gat um í röðinni er hættur að gjósa. Við prílum upp á brúnina á honum og lítum ofan í skálina sjálfa. Þar er ekkert merkilegt að sjá nema samanhrunið hraun musl úr kinnunum. En það eru gosin sjálf sem nú er góð aðstaða til að athuga. Þau eru nú 30-40 faðma frá okkur. Það er þessi látlausa eldbuna beint upp í loftið - mér virðist svo sem 30 faðma hátt. Súla þessi er eldlit í miðjunni en í útkastinu og niðurfallinu utan um hana er allt kolsvart að sjá. Niðurfallið hleður þarna upp sinn hring utan um hverja gosbunu, nema á einum stað heldur eldstraumurinn opnu bili. Þar getur enginn niðurburður úr loftinu haft viðnám heldur tekur straumurinn það með sér ef hann er svo sterkur að hann megi við því. Þar sem þessir skálar-hverir eru án þess að nokkurt skarð eða hlið sé í þá hefur gosmagnið ekki verið meira en það að hringhleðsla þessi hefur nægt því. Nokkuð af eldspýju þeirri sem upp í loftið fer er svo létt að það leitar hægt niður og eins og sveimar út í geiminn áður en það fellur niður. Þessu ýrir nú - er við stöndum þarna - dálítið á okkur og er þá aðeins volgt.

Enginn logi Það þykist ég nú með eigin augum hafa séð að enginn logi eigi sér stað í eldgosum - heldur einungis buna af því glóandi efni úr jörðinni sem myndar hraunin, borgirnar og hólana. Eftir að við félagar höfðum nú skoðað þetta lyst okkar og þrammað heim yfir fjöllin um kvöldið þegar dimmt var orðið - þá vorum við í náttmyrkrinu búnir gleggst að sjá aðgreininguna og fjarlægðina milli efri og neðri ljósanna, sem ég gat um áður: hvernig gufuskýin hátt uppi voru að fyrirstilla loga til sýnis áhorfendum í fjarlægum byggðum.
Allt búið?

Ekki alveg!

en
fyrir marslok

Heldur sýndist eldgosið vera að réna. Hugkvæmdist okkur því að þar með mundi öllum undrunum lokið. Breyting var allmikil orðin á útsýninu að sjá að vestan þar sem komin var nú eins og röð af 13 fellum þar sem áður var slétt land. Ég myndaði þetta með blýanti á blað í vasabók minni, sem víst hefur glatast, enda hvarf þetta nýsmíði að 3-4 dögum liðnum. Enn stórfelldara gos sökkti þessum gígum í ógurlegt niðurfall og hraunið margfaldaðist í allar áttir við ný gos hingað og þangað upp úr sama svæðinu.

Útsjón sú er við okkur blasti 12. mars sást því aldrei, hvorki fyrr né seinna.

Blessunar-
ríkur
vestan-
vindur
Fyrir litlu munu gosin þarna á Mývatnsöræfum hafa verið lægð eða að mestu hætt þegar Dyngjufjalla kófið skall á annan í páskum (29. mars ?) - sem kennt er við Öskju.

Þá höfðum við Norðlendingar þann blessunarríkasta vestanvind sem í minnum mætti vera. Glóbjart útsýni allt suður að svörtum vegg um Dyngjufjöll er lá austur allt hvað sást og sem skellti myrkri, eldregni og ösku yfir Múlasýslur eins og ljóslega er víða skrásett. Um mikið lof og þakklæti erum vér skyldugir herra náttúrunnar fyrir verndina yfir þessum byggðarlögum sem næst liggja þessum tveimur eldgosum.

Ég get ekki minnst þess að þau hefðu nokkurn búhnekki í för með sér svo sem vanheilsu í búpeningi eða annað.

Góð tíð
margar
ferðir
en minni
heppni
Tíðarfar var alla þessa útmánuði og vor í mildasta lagi og oft auð jörð. Reið þá fólk fleirum sinnum í hópum neðan úr dölum og stundum úr Mývatnssveit austur á fjöll til þess að sjá býsnirnar.

Aldrei heppnaðist dalabúunum þetta því einatt voru þá gosin fallin niður er austur kom. En frá Mývatni ætla ég að ég vissi um tvenna flokka á eftir okkar för sem hittu á og skoðuðu gos í mesta gengi. Annar þessara var Pétur í Reykjahlíð með förunaut - og mig minnir að hann gæfi stutta skýrslu sem þá kynni að vera í Norðanfara. Hinir létu víst ekkert orð frá sér fara.

Áfram! Hraunin sem upp komu í Mývatnseldunum 1875 runnu yfir gamla veginn austur að Jökulsá. Það varð mál manna að þann veg yrði að lagfæra. Það varð verkefni Jakobs að stýra byggingu nýs vegar og um það hefur hann tekið saman stutta frásögn um vegagerðina og aðra um byggingu sæluhússins við Jökulsá á Fjöllum.

Efst á þessa síðu * GÓP-fréttir