Höfundar
Forsíða


Jakob Hálfdanarson

Jakob skrifaði margt fleira heldur en það sem enn hefur birst á prenti og þar á meðal er þessi frásögn. Hún er rituð í Ættartölubók Jakobs Hálfdanarsonar, Húsavík, hverrar skrift er upp hafin árið 1898. Þessa frásögn ritar Jakob um 1908.

Þetta er frásögn og setningaskipan Jakobs sjálfs en greinarmerkja- og stafsetning hefur á einstaka stað verið færð að því sem tíðkast nú um stundir. Atriðisorð í vinstri dálki eru frá GÓP.

> Sæluhúsið við Jökulsá


Fugl sem flýgur frá Mývatni beint til Akureyrar fer litlu lengra
en annar sem flýgur stystu leið austur að sæluhúsinu við Jökulsá.

Þörf fyrir
sæluhús á
Mývatns-
öræfum
Fyrir löngu var mönnum ljós þörfin fyrir brúklegt sæluhús á Mývatnsöræfum, ekki einungis fyrir ferðamenn heldur einkum og sér í lagi fyrir innansveitar hestagangna-menn á vetrum. Enda var þar einhvers staðar meðal fleiri smákofa einn sem nefndur var sæluhús. Höfðu sveitarmenn byggt þessa kofa sjálfir.
Hvar?

Til hvers?

Fyrir hvern?

Nú hafði orðið tilrætt um að fá uppbyggt á þessum fjölfarna fjall- og póstvegi viðunanlegt sæluhús á kostnað landsjóðs - og ýmsar uppástungur komu fram um hvar húsið ætti að vera. Landeigandinn, Pétur bóndi í Reykjahlíð, vildi það væri byggt á Austaraseli, aðrir sögðu það heppilegast sett í svonefndum Hrossaborgarlindum. Sú hugmynd kviknaði með húsbyggingarráðagerðinni að íbúð ætti að vera í húsinu og húsráðandi meðfram því, að passa ferjuna frá báðum áttum og yrði að hafa landbú þar á fjöllunum.

Margir loftkastalamenn létust nú sjá þarna all álitlega afkomu sem ekki sýndist heldur nein fjarstæða þá litið er á gengi Hólsfjallabænda. En þessi hugmynd verkaði það víst að Mývetningum varð yfirleitt meinilla við sæluhúsbygginguna.

Jakob
tekur
afstöðu
Þegar ég var nú þarna um slóðir við vegalegginguna tók ég alvarlega að íhuga þetta mál. Fannst mér nú nauðsynin fyrir húsið svo brýn að hér væri engum mótbárum eða vífilengjum að sinna fyrir landstjórnina vegna almennings, sem á öllum árstímum varð að leggja á þessa oft hættulegu leið á milli byggða og landsfjórðunga. Og um það hvar húsið ætti að standa varð ég eins ákveðinn - nefnilega þar sem það er á vestur-bakka Jökulsár.
Deildar
meiningar
Um þetta deildum við Pétur, tengdafaðir minn, nokkuð - þar sem hann hélt fram Austaraseli - en ég færði fram mínar ástæður móti því og fyrir hinu.

Hér kom ekki einasta fram andróður sveitarmanna gegn húsbyggingunni, þ.e. að það stæði við Jökulsá, heldur einnig sýslumanns, Benedikts Sveinssonar, þ.e. í aðalefninu, sem mótmælti, og það í því, sem öðru, með ákafa. Hans mótstaða byggðist á því að hann hélt þeirri stefnu fram í vega- og samgöngumálum að alla áherslu ætti að leggja á leiðir um byggðir sem næst ströndum en leggja niður vegu uppi í óbyggð, sem svo fáir hefðu gagn af.

Þvert á móti þessu var skoðun sumra leiðandi manna sú að afla þeim leiðum sem mest gengis sem greiddu skjótlega fyrir fjarlægum byggðarlögum að ná saman og hrinda sem mest farartálmum úr vegi á innstu fjallvegum í landinu.

Þessari stefnu fylgdi Einar heitinn Ásmundsson. Og það kemur mér til hugar að hann hafi við amtmann lagt gott orð til sæluhúsabyggingar á Mývatnsfjöllum. Því auðsótt var mér við amtmann um þetta mál svo að hann fól mér alla framkvæmd og forgöngu en lét ekki sýslumann neitt þurfa að fást við það.

Amtmaður
felur Jakobi
að sjá til
þess að
húsið verði
byggt
Amtmaður varð mér sammála um hússtæðið, stærð og lögun sem ég stakk upp á. Þetta með tilliti til þess að í því mætti búa - svo og um efni og hvað annað.

Byggingin mun hafa verið ráðin 1880. 1881 um vorið minnir mig að ég færi austur að ánni og ákvæði nákvæmlega hússtæðið - og um sumarið 1882 var því lokið. Yfirsmiður var Steinþór Bjarnason. Næst honum mun Sigurbjörn, nú á Litlulaugum, hafa mest unnið að húsinu.

Verð: 2.800 Ætlað var til þessarar byggingar úr landsjóði kr. 2.000 en reikningurinn kom upp á nál. 2.800 kr. og var ekki fyrirstaða á greiðslu þess. Lítið eða ekki var sótt um að búa í húsinu þegar til kom og aldrei varð þar af íbúð.
Nokkur
eftir-
keimur
Af ónotaorðum sem ég fékk fyrir fylgi mitt að þessu grófu sig helst orð Guðfinnu sál., tengdamóður minnar inn hjá mér og lagði ég sterkan hug á að henni gæfist einhvern tíma færi á að sjá hvort húsið væri óþarft og til bölvunar einnar - og það hefi ég fyrir satt að nú sé fyrir löngu gengið eftir, og að nú sé engum lengur illa við húsið - en hvað sem um það er - þá er ekki hægt að bera af mér að vera eða hafa verið frömuður sæluhússbyggingar við Jökulsá - og lít ég svo á enn að æskilegt væri að engar krónur færu til minna gagns af almannafé en þessar 2.800.


Þrír gluggar á norðurstafninum. Efri glugginn er á svefnloftinu.


Ferjuleiðin er bak við fólkið.


Inngangur á hæðina veit austur að ánni. Hestageymslan er í kjallara hússins.
Þá er farið niður rennuna næst á myndinni. Glugginn er á hesthúsinu.

Neðanmálsgrein
Jakobs:
Það má sjá í sýslunefndargjörðabók frá 1876 í júním. að amtmaður Jul. Hav. hefur með bréfi leitað álits sýslunefndar um sæluhússbyggingu og nefndin játað nauðsyn þess.
Hver var
Jakob
Hálfdanarson?
Hraunin sem upp komu í Mývatnseldunum 1875 runnu yfir gamla veginn austur að Jökulsá. Það varð mál manna að þann veg yrði að lagfæra. Það varð verkefni Jakobs að stýra gerð nýs vegar og um það hefur hann tekið saman stutta frásögn.

Efst á þessa síðu * Forsíða * Höfundar