GÓP-fréttir

Jakobsvefur
 


Jakob Hálfdanarson - umsagnir

Efnið er tekið úr uppskriftum Péturs Sumarliðasonar. Hann segir í inngangi:
Efni það sem hér er saman tekið er afritun.
Nr. 1 er úr "Stóru bókinni", handrit Jak. Hálfdanarsonar.
Nr. 2 er úr Endurminningum Friðriks Guðmundssonar, bls. 17.
Hitt efnið er allt úr safni Herdísar Jakobsdóttur, þeim hluta þess, er fjallar um norðurferð hennar 1940 á vegum Niðjafélags Jakobs Hálfdanarsonar.

Aths GÓP: Lýsingu Karls Kristjánssonar hefur Pétur bætt við síðar. Hún er hér höfð efst. Greinarmerkja- og stafsetningu hefur GÓP á einstaka stað fært að því sem tíðkast árið 2004.

>> 1974: Karl Kristjánsson, fyrrum alþingismaður

  1. JH um ömmu sína, Aðalbjörgu Pálsdóttur
  2. Friðrik Guðmundsson
  3. Helgi Flóventsson
  4. Jón í Skörðum
  5. Jón Haraldsson, Einarsstöðum
  6. Sigurður á Narfastöðum, Indriði á Fjalli, Sören Jónsson
  7. Sigurjón Friðjónsson, Laugum
  8. Indriði á Fjalli
  9. Björg Bjarnadóttir
  10. Jón Kristjánsson, Vilpu
  11. Jón Kristjánsson, Tungu
  12. Sigríður Jósepsdóttir, Tungu
  13. Maríus Benediktsson og Helga Þorgrímsdóttir á Húsavík * Ingólfs-strandið
  14. Páll Jónsson, Stafni
  15. Minningarsjóður J.H. heiðrar Sigfús Jónsson
  16. Ummæli á lausum miða
  17. Bréf sem finnst á öðrum stað á Jakobsvefnum.
  18. "Ófeigur"
  19. Herdís Jakobsdóttir skrifar um föður sinn
  20. Bréf Hálfdans Jakobssonar, Mýrarkoti, til Herdísar þar sem ítarlega er greint frá ævilokum Jakobs, föður þeirra, þann 30. janúar 1919 og frá útför hans á Húsavík.
Jól 1974 Jólablað Samvinnunnar 1974
Jól 1974 Karl Kristjánsson, fyrrum alþingismaður:
Gamla og Nýja Ísland samvinnuhreyfingarinnar

Jakob Hálfdanarson var maður stór vexti, liðamótasver, sterkur til átaka, ósérhlífinn, gekk hiklaust að hverju verki sem fyrir lá að gera og kveinkaði sér lítt við líkamlega áverka eða kulda og vondan aðbúnað.

Þannig mann þurfti einmitt til forystunnar á þessum hörðu frumbýlingsárum félagsins.

En hins vegar var hann ákaflega samviskusamur og viðkvæmur fyrir sársauka og vandræðum samferðamanna - og það gerði hann líka hæfari en ella til að fara á undan. Umhyggja hans og nærgætni var á mjög breiðu sviði. Allt mannlegt var honum viðkomandi. Það bera bréf hans til félagsmanna með sér.

Þessi hrikalegi stórræðakarl hafði heitt hjarta og gott.

JH skrifar
bls. 534 í "Stóru bók"

JH um ömmu sína, Aðalbjörgu Pálsdóttur.
Hún er móðir Jóakimssonanna Hálfdanar í Brennuási og Jóns á Þverá.
Aðalbjörg
Pálsdóttir
Aðalbjörg Pálsdóttir, f. 1780, Héðinshöfða, dóttir hjónanna Páls Halldórssonar, meðhjálpara á Héðinshöfða f. 1744, og Guðrúnar Þorgrímsdóttur, f. 1735. Í kirkjubókinni sést fyrst um hana sagt "stafar", "siðsöm og hæglát" (17 ára), þaðan af sést hún ekki því til giftingar mun hún farin 1798. Aftur 1831 - 32 - 33 er hún bústýra í Naustum og 1834 til 1837 húskona í Illugabæ hér á bakkanum. Þá vottorð: "góðfræg", "prýðilega gáfuð". Þaðan fór hún í Brennuás til föður míns, þá 57 ára, dáin í júní 1857, þá 77 ára, og er grafin í Lundarbrekkukirkjugarði. Þess minnst nú að Jón Sigurðsson (sbr. bls. 468 í Stóru bók) ámælti við mig, sonum hennar, föður mínum og Jóni, að þeir skyldu ekki prýða eða geyma legstað hennar, en hér með vil ég þá gjöra nafni hennar viðdvöl til þakklætis fyrir allar hennar skemmtisögur, er hún sagði mér, kvæði er hún las upp úr sér, og bænir og vers, er hún minnti mig á, þá og aðvaranir og áminningar, þetta öll mín uppvaxtarár að 20 ára. Nafn hennar er víða hér í bók (Stóru bók): bls. 5 Ætt 4 - bls. 285 feðratal, og víðar.

Aðalbjörg var sköruleg í orðum og athöfnum, hrein, alvarleg, orðhvöss, - svo að ungum stóð ótti af, en skapofsa hjá henni minnist ég ekki.

Vandvirkni hennar og handbragð á öllu, sem hún snerti, var orðlagt. Það sem hún tætti af t.d. af plöggum og sökkabönd er hún óf mesta firn af, bar svo einkennilega af öðru, að hver kunnugur þekkti. Sem von var, gátu fáir gjört svo vel að henni líkaði, enda var viðkvæði hennar: "Það verður spurt hver hver hafi gjört þetta en ekki hve lengi hann hafi verið að því".

Aðalbjörg var fremur hávaxin og fönguleg á fæti, ekki fríð en þó með mikið og fallegt enni - harðan og alvarlegan svip, augu ljósgrá, nef mikið að framan og fremur háan tanngarð, - dökkhærð.

FG Friðrik Guðmundsson:
Endurminningar - bls. 77 - 78.
Friðrik
Guðmunds-
son
skrifar
um
tengda-
föður
sinn
...
Jakob var fríður maður, stór og karlmannlegur á velli, og svaraði sér vel að vexti, Hann var fjörmaður og allar hreyfingar hans báru með sér áhugaríki óvanalega mikið. Svipur hans bar með sér einkenni staðfestu og úthalds. Hann var mikill hæfileikamaður og víðlesinn, enda las hann og skrifaði dönsku eins og íslensku. Það var maður, er vogaði sér að hugsa út yfir takmörk alþýðu vanans, jafnt á öllum sviðum, þar sem ástæða gafst til. Fyrri kona mín var dóttir Jakobs og þeirra hjóna, svo að við kynntumst náttúrlega mikið seinna, en þarna sá ég hana í fyrsta sinn. Hann bauð mér inn í stofu og varð samtal okkar langt og allt annað en ég átti að venjast. Ég var sem á skólabekk þeirra hugsunarefna, sem mest vörðuðu daglega lífið og viðburðina, og fannst mér strax sem hann væri langt á undan samtíð sinni að óeigingirni, þekkingu, útsjón og áræði.

Í stofunni, þar sem við sátum og töluðum saman, var eitt af þessum gömlu, algengu kassarúmstæðum, sem líktust mest loklausum lokrekkjum, eftir því sem ég hefi gert mér hugmynd um þær. Í rúmstæðinu voru engin rúmföt geymd, og hafði Jakob hlaðið þar upp dálitlum slatta af útlendum varningi, sem hann hafði pantað, að mig minnir frá Kaupmannahöfn, fyrir peninga, sem hann sjálfur gat afstaðið í bráðina, og peninga, sem hann hafði fengið lánaða hjá góðum nágrönnum. Á þennan vöruslatta var hann búinn að leggja allan kostnað frá Kaupmannahöfn og allt heim í hlað á Grímsstöðum við Mývatn, auk upphaflega verðsins, og þó varð þessi tilraun til að sýna það, að allt sem hann hafði keypt, var einhverja ögn ódýrara en vörur af sömu tegund í verslun í Húsavík.
...

HF Helgi Flóventsson
í samtali við Herdísi Jakobsdóttur 1940
Helgi
Fló-
vents-
son
Ég kom hingað til Húsavíkur (1898) 20 ára gamall. Ég hafði vanist íþróttum í Reykjahverfi eftir því sem þær þá gerðust. Voru þá hér margir unglingar, sem vildu taka þátt í íþróttum. Skorti þá húsnæði yfir vetrartímann.

Jakob Hálfdanarson hafði þá yfir Pakkhúsunum að ráða og til að bæta úr þessum vandræðum unglinganna leyfði hann þeim að stafla saman vörum í húsunum svo að íþróttaæfingar gætu farið fram einhverja stund úr degi. Var hann þá stundum sjálfur áhorfandi og var að segja okkur til þótt hann hefði annars mikið að starfa. Til þess notaði hann bókina Gátur og leikir. Glæddist við þetta íþróttalíf ungra manna hér í þorpinu, sem leiddi til þess, að glímur féllu ekki niður og nokkru síðar tóku ungir menn þátt í Íslandsglímu á Akureyri.

Á öllum sviðum fannst mér Jakob Hálfdanarson ýta undir það, sem til framfara og umbóta mátti telja. Má þar fyrst til nefna Búnaðarfélag Húsavíkur, sem hann var formaður fyrir frá upphafi. Hvatti hann menn með oddi og egg til að rækta, sem óhægt var þó fyrir allan fjöldann þar til hreppurinn keypti fyrir Búnaðarfélagið fyrstu áhöld, sem unnið var með við túnaræktun, t.d. fyrstu hestakerru og moldarreku fyrir hest.  Sjálfur byrjaði hann fyrstur á túnrækt ásamt syni sínum Jóni Ármanni og Sveini Víkingi.

Jakob var snemma bjartsýnn á möguleika Húsavíkur, samanber fyrirlestur, sem hann flutti eitt sinn án skemmtifundi hér á Húsavík. Þar sá hann Húsavík í framtíðinni grædda upp í græn tún upp um allar lágar og mela.

Jakob var ásamt fleurum forgöngumaður að stofnun fyrsta bindindisflokksins á Húsavík haustið 1895. Studdi hann ætíð bindindi fyrr og síðar enda reglumaður ævinlega, en aldrei var hann þó góðtemplar.

Helgi ætlaði að bæta hér við með bréfi því mikil kynni hafði hann af föður mínum, er vel minnugur skýrleiksmaður. H. Jak.

Jón
í Skörðum
Jón í Skörðum - 83 ára
í samtali við Herdísi Jakobsdóttur 1940
Jón
í
Skörðum
Ég man fyrst eftir föður þínum bónda á Grímsstöðum sem myndarmanni og saknaði þess að hafa hann ekki þar áfram. Ég kunni svo vel við að segja Jakob á Grímsstöðum og fannst því fylgja einhver myndarskapur. Hann var svo inni í öllum búskap, talaði um og skrifaði mikið hjá sér. Ég man að hann eitt sinn sýndi mér bók, sem hann hafði skrifað og nefndi Syrpu. Þar var margt að lesa. Hann hafði heyskap hjá mér nokkur ár og fóðraði ég á því kindur og hesta (Grána og Kóf) sem ég passaði fyrir hann að vetrinum.

Ég man eftir Jakobi í fyrstu kjallaragryfjunni á Jaðri, þar sem hann seldi vörur. Pétur í Reykjahlíð var þá

JH
Einarsstöðum
Jón Haraldsson, Einarsstöðum, Reykjadal
í samtali við Herdísi Jakobsdóttur 1940
Jón
Haraldsson
Einarsstöðum
Reykjadal
Jón Haraldss.: Sögn eftir Jakobi Guðmundssyni.
Jakob Guðmundsson var vinnumaður á Grímsstöðum, sauðamaður. Hann segir að J.H. hafi verið mjög glöggur fjármaður, fylgdist nákvæmlega með fjárhirðing vinnumanna sinna. Ég var beitarhúsamaður um veturinn. Jakob H. sagði við mig um haustið: "Ef þú hirðir vel sauðina í vetur eins og mér líkar, máttu velja úr hópnum á sumardaginn fyrsta einn þeirra." Þetta gekk að óskum með hirðinguna. Á sumardaginn fyrsta fór J.H. með nafna sínum á sauðhúsin og athugaði sauðina og afhenti nafna sínum verðlaunun. Rétt er að geta þess, að Jakob Guðmundsson taldi nafna sinn hiklaust þann besta húsbónda, sem hann hefði átt og þar besta matarvist á þeim dögum í Mývatrnssveit.

Jón Haraldss.:
Þessi frásaga bendir á tvennt. Fyrst og fremst hversu Jak. H. hefur snemma tekið til athugunar bætta meðferð á sauðfé, vann hann alla daga mjög eindregið að því og var einn liður þess stofnun Fjárrræktarfélags Þingeyinga, sem hann mun hafa verið ein aðal driffjöðurin í. En í annan stað bendir þetta til þess sem síðar kom fram, að hann vildi viðurkenna eða verðlauna vel og trúlega unnin störf við búfjárhirðingu. Stofnaði hann sjóð árið 1907 með 1 þúsund krónum. Ákveður hann í skipulagsskránni, að árlega skuli verðlaun veitt úr sjóðnum til hjúa, sem skara framúr í búpeningshirðingu. Mörg hjú hafa hlotið viðurkenningu með styrk úr þessum sjóði, sem árlega er veit úr.

Jón Harldss. áfram:
Ég minnist þess að faðir minn gat um það, að þegar hann kom stundum til J.H. seint á kvöldum þegar lokið var skrifstofustörfum, sat hann þá oft yfir skýrslum um sauðfé, sem hann hafði safnað á búskaparárum sínum. Á þeim árum hafði hann ferðast um meðal bænda og mælt og vegið sauðfé og haldið árlegar skýrslur um þá athugun.

Þegar J.H. var í þann veginn að hætta störfum hjá K.Þ. tók hann enn upp sama þráðinn Ferðaðist hann um sveitir í Þingeyjarsýslu og mældi og vó fé á mörgum bæjum. Var glöggskyggni hans og minni enn í góðu lagi og mundi hann þá mál og þunga sauðfjárins á fyrri árum og gerði samanburð á því og þeim störfum, sem hann var að leysa af hendi. Alls staðar brýndi hann fyrir mönnum nákvæma hirðingu og bætta meðferð sauðfjárins.

Jón Einarsson, Einarsstöðum.
(Pétur Sumarliðason setur athugasemd: Gæti verið eiginhadarundirskrift)

SJ
Narfastöðum
Sigurður á Narfastöðum, Indriði á Fjalli og Sören Jónsson
í samtali við Herdísi Jakobsdóttur 1940
20. ág. 1940

Sigurður
Jakobsson
á
Narfa-
stöðum

Sigurður Jakobsson á Narfastöðum
segist muna, að fjárbúið var stofnað 1898. Þá var Guðmundur Jóhannesarson fenginn til að flytja frá Halldórsstöðum í Reykjadal svo Sigfús Jónsson gæti flutt þangað og tekið forstöðu búsins. Það haust voru valdar ær til búsins. Sigurður segir, að þau árin sem búið starfaði, muni hann eftir J.H. við valið á ánum (til lífs), sem settar voru á vetur. Hafi hann áreiðanlega verið í stjórn fjárbúsins.

Indriði á Fjalli segir
að Jak.H. hafi í byrjun gefið fjárbúinu það fjármarkið sem honum þótti vænst um, mark föður síns.

Sören Jónsson frá Arndísarstöðum nú á Brún hjá systursyni sínum, segist hafa verið valinn til fyrstu ærkaupanna en sér hefði þótt vera of ábyrgðarmikið að vera einn um það og valið Jakob með sér. Það hafi Jakob svo gjört.

Sören er mikið farinn að tapa minni svo lítið er á honum að græða.
Það man hann þó glöggt að eitt haust á Arndísarstöðum, um það bil sem hann var að verða fulltíða maður, þá réttir Jón, faðir hans, honum bréf og segir "Ég er nú orðinn heilsubilaður og aldraður en þetta er verk fyrir þig". Ég las bréfið, sem var langt og efnismikið. Það var frá Jakobi Hálfdanarsyni. Var það áeggjan að beitast fyrir útbreiðslu þessarar nýju hreyfingar um verslunarfélagsstofnun. Sagt var frá fundinum á Grenjaðarstað og ákvörðun hans um söfnun á hlutaloforðum út um fleiri hreppa sýslunnar. Í bréfinu gat Jakob líka um vöruútvegun, hjá hverjum hann hafi fengið þær um sumarið.

Ég hafði aldrei fyrr komið til starfa meðal almennings. Þarna fór ég af stað í fyrsta skipti um sveitina í áðurnefndum erindum. Er mér minnisstætt að á Bjarnastöðum merkti ég að húsfreyjan byrjaði að gera gys að mér. Það var auðfundið að hún hugsaði hvað hann væri fær um að leggja til mála eða ætti undir sér og braut upp á umtalsefnum sem ég var sagnafár um. Ég fór þá að víkja að þeim málum sem mér voru kunnari en henni svo sem ýmsum viðburðum úr veraldarsögunni. Þetta dugði. Hún gat þá ekki tekið þar undir við mig og hætti ertninni.

Athugasemd P.S. neðanmáls í uppskriftinni: Vernikka, kona Sveins á Bjarnarstöðum. Það er auðséð að þetta er 1881-ferðin sem Helga Þorgr. getur um og segir sér minnisstæðan áhuga Sörens og mælsku hans að tala fyrir "hreyfingunni".

Þegar lengra var komið í þessum félagsmálum setti ég mig á móti því að ull væri lofað til útsendingar af því að mér var kunnugt um að bændur ýmsir voru í verslunarskuldum við kaupmenn sem ég áleit að þeir þyrftu að borga með henni. Sumir voru þarna strax á móti þessari hreyfingu og fylgjandi kaupmönnum, afturhaldssamir. Man ég t.d. eftir Guðbjörgu, fósturmóður Sigurðar á Ystafelli, að hún vildi ekki við líta og Sigurður fylgdi henni. En þegar allt var komið á skrið komu þeir líka með og vildu sumir þeirra þá láta svo heita að þeir hefðu verið með frá byrjun, svo sem Sigurður Jónsson í Felli, "en það var lýgi", sagði Sören.

SF
Laugum
Sigurjón Friðjónsson, Laugum, (71 eða 73 ára?)
í samtali við Herdísi Jakobsdóttur 20. ágúst 1940
20. ágúst
1940
Sigurjón
Friðjóns-
son
Laugum
"Ég fór svo snemma að heiman að ég hafði engin kynni af félagsstofnun K.Þ.. Ég fór að Eiðum. Fyrst man ég eftir Jakobi á fundi í Múla. Þar var glatt á hjalla eins og oft var á þeim fundum. Man ég að Jakob var þar þátttakandi þótt hann væri þá orðinn eldri maður."

Ég (Herdís) spurði um hvort hann ætti nokkur bréf frá honum. Því neitaði hann. Ég spurði hvort hann vildi ekki skrifa og gefa mér á blað lýsingu af honum. Þá sagði hann að hann væri að skrifa sögu Benedikts á Auðnum og hefði í því sambandi skrifað nokkur orð um Jakob. Sigurjón las mér þá grein. Hún fjallaði um að Jakob hefði eitt sinn verið nætursakir í Garði. Hefði hann þá séð þar og lesið ritgerð eftir sig um indverskan speking í sveitablaði. J.H. hefði þótt greinin eftirtektarverð og veitt sér athygli eftir það. Af þessu gat Sigurjón dregið að Jakob, sem af nokkrum er talinn upphafsmaður K.Þ., hefði smekk fyrir indversku spekina.

Ég spurði hann hvort hann hefði lesið handrit föður míns af sögu K.Þ.. Nei, því var hann ókunnugur og þessi Æviminning B.J. átti ekki að vera um þau efni.

Margt töluðum við Sigurjón um dægurmálin sem ég hafði gaman af. Vorum við sammála um að sýslan ætti orðið lítið af góðum mönnum. Heldur fjölgaði þó þeim sem vildu ekki lúta ofurvaldinu, en þeir væru eftir. (? setur PS í uppskrift sinni - enda óljóst hvað við er átt í lokin.)

Indriði
á Fjalli
Indriði á Fjalli (71 árs?)
í samtali við Herdísi Jakobsdóttur 1940
Indriði
á
Fjalli
Átti engin bréf því þeir J.H. og hann hittust svo oft að þeir töluðu saman um sín áhugamál, sem voru mörg, Við ræddumst lengi og einlæglega við. Ég sagði honum sumar mínar æskuminningar, frá daglega lífinu, gestaganginum af K.Þ., kaffiburði og mínum afgreiðslustörfum þegar pabbi átti að heita að hafa frí.

Indriði hafði glöggan skilning á öllu sem ég sagði enda samrímdist það við hans eftirtekt og þekking. Hann lofar að skrifa um föður minn og senda á Eyrarbakka í haust, eftir sumarannir. Hann telur sjálfsagt að ég hafi rétt til Ægisdeildarskjala í bókhlöðunni.

Björg
Bjarnadóttir
Björg Bjarnadóttir, kona Bjarna Gunnlaugssonar á Geitafelli
Frásögn Herdísar Jakobsdóttur af ferð hennar að Grenjaðarstað 21. ágúst 1940.
Frásögn
Herdísar
af
för

Grenjaðar-
stað
Björg lofar mér að senda að Geitafelli til Gunnlaugs til að fá hjá honum bréf sem henni er kunnugt að Gunnlaugur á frá J.H. svo og að biðja hann að grennslast um hvort nokkuð er til af bréfum frá J.H. til Snorra, föður Gunnlaugs og fá þau ef til eru. Einnig biðja Gunnlaug að gefa skriflega á blað það sem hann man af viðkynningu við J.H..

Þetta lofar Aðalbjörg að færa mér eða senda til Húsavíkur. Býst við að fara 23. til Reykjavíkur. Hrædd Björg um að bréf Gunnlaugs hafi verið lánað s.l. vetur - hana minnir Karli Krstjánssyni. Tilefni bréfsins hafði verið að Jak. H. kom eitt sinn að Geitafelli. Hafði Gunnlaugur verið sorgbitinn, nýbúinn að missa tvö börn sín, tvíbura. Bréfið skrifaði Jakob eftir að hann var kominn heim. Gunnlaugi hafði þótt vænt um það enda verið huggun í því.

23. ágúst er liðinn en ekkert kom frá Aðalbjörgu.

Jón
Kristjánsson
Jón Kristjánsson, Vilpu. Lengst af bóndi á Hofi á Flateyjardal -
í samtali við Herdísi Jakobsdóttur 1940
Jón
Kristjáns-
son
Vilpu

um

Hálfdan
Jóakims-
son
á
Gríms-
stöðum

Kom 1869 á Grímsstaði 14 ára og var þar til 18 ára aldurs. Jakob var sérlega skemmtilegur og góður, vildi upplýsa okkur, unglingana. Ég minnist þess að hann fór með okkur börnin út á kvöldin í heiðskíru veðri til að segja okkur um stjörnurnar, hvað þær hétu. Mér fannst þá að Jakob væri ekki eins mikill búmaður og faðir hans en væri allur í bókum og hneigður fyrir náttúruvísindi. (Hann átti Stafróf náttúruvísindanna).

Háfdan fannst mér mikill búmaður. Hann fór haust og vor í kaupstað, keypti þá á vorin brennivínskút, líklega 20 potta, og gaf staup gestum sem komu og vinnumönnum sínum þegar þeir stóðu við slátt. 2 staup þeim sem duglegir voru, hinum eitt. Kaffi var lítið með farið. Helst á sumrin þegar verið var að þurrka töðuna. Nóg var til af öllum mat. Kjötið náði saman, hangið og saltað. Eggin voru mikið borðuð í brauðs stað þegar siglinguna vantaði.

Féð gjörði afbragðs gagn. Man ég eftir á sem hét Drífa og mjólkaði á fjórðu mörk.

Jakob ætlaði til Brasilíu. Heyrði ég sagt að Pétur í Reykjahlíð, tengdafaðir hans, hefði hótað að taka af honum konuna ef hann færi.

Hálfdan var mesti iðjumaður. Hann var oftast í vefstólnum að kemba fyrir konuna á vetrum. Hann hirti lítið fé á vetrum, líklega þó lömbin. Guðmundur Finnbogason hirti þá ærnar og eitthvað lömbin.

Mæðginin Jón Kristjánsson og Sigurbjörg, síðar á Hriflu, voru þá á Grímsstöðum (og) Baldvin Friðriksson, Mjóaadal, og Jóakim Sigurðsson, bróðursonur Hálfdans, var alinn upp á Grímsstöðum. Hann var skósmiður og dó á Oddeyri. Þá var Guðný Eiríksdóttir líka þarna þá Grímsstöðum og einnig Sigríður Jónsdóttir með syni sína, Tryggva og Hallgrím.

Hálfdan var hestamaður, þótti vænt um þá og lét þá , held ég, aldrei austur á "Fjöll".

Jósep
Kristjánsson
Jósep Kristjánsson í Tungu á Húsavík 82ja ára. Fyrrum bóndi í Ásbyrgi. Fluttist itl Húsavíkur 1893.
í samtali við Herdísi Jakobsdóttur 1940
Jósep
í
Tungu

Herdís
skrifar:
Orðrétt
eftir
Jósep.

Það hefði átt að semja æviágrip föður þíns. Það hefur of lítið komið. Hann var svo merkur maður.

Mig minnir það væri 1884 eða 5 sem ég kom til Húsavíkur með tvo hesta til sölu á markað sem hann var með fyrir pöntunarfélagið. Andvirði hestanna borgaði Jakob mér. Jón gamli blindi skoðaði hestana og ákvað verðið. Hann þuklaði þá alla og skar svo úr með upphæðina sem mun hafa verið 70 - 80 krónur.

Lýsing á manngildi Jakobs eins og hann kom mér fyrir sjónir og reynsla mín af honum:
Ég tel hann hafa verið höfðinglyndan, fastan fyrir að halda fram því er hann áleit réttast vera. Með rólegum umræðum var hann fús að viðurkenna þegar hann sá að hann hafði ekki rétt fyrir sér. Jakob var oft snöggur ef honum fannst hann beittur óbilgirni því hann kunni ekki að hræsna og sagði alltaf það sem hann áleit rétt vera eftir hans skilningi.

Eitt sinn kom Jakob og leit á kindur hjá mér. Var hann þá að mæla kindur hér á Húsavík. Sagði hann að ein ærin mín væri sú stærsta er hann hefði mælt hér á Húsavík. Fjármaður var Jakob og hafði ánægju af að fara með fé. Hann fór frá góðu búi á Grímsstöðum. Sýnir það hvað hann bar almenningsheill fyrir brjósti að hann yfirgaf það til að stofna þessa samvinnuverslun sem nú er orðin - Kaupfélagið

Sigríður
Jósepsdóttir
Sigríður Jósepsdóttir, Tungu,
í samtali við Herdísi Jakobsdóttur 1940
Sigríður
Jóseps-
dóttir
í
Tungu
Ég man eftir að ég sá Jakob. Hann var snemma á ferli á morgnana, tók þá á móti sveitamönnum og hjálpaði þeim að taka klyfjarnar ofan af hestunum. Mér fannst ævinlega allt hans tal ganga út á framfarir og umbætur. Hann var venjulega að segja frá við matarborðið, konu sinni og heimafólki, frá því sem gjörðist í þeim efnum og fréttnæmt var bæði utan lands og innan. Kona hans var gáfuð kona sem fylgdist þarna með. Jakob var framúrskarandi hreinskilinn maður.
Maríus
Benediktsson
Hjónin Maríus Benediktsson og Helga Þorgrímsdóttir á Húsavík
í samtali við Herdísi Jakobsdóttur 1940
Maríus

og

Helga

á

Húsavík

Maríus fluttist til Húsavíkur árið 1880 með föður sínum, Benedikt Benediktssyni, sem bjó þar á prestsetrinu á móti sr. Jóni Þorsteinssyni, síðar presti á Halldórsstöðum í Bárðardal.

Frostaveturinn 1881-82 man Maríus vel.
Fyrstu kynni mín af Jakobi Hálfdanarsyni sem ég man, var að mig bar að í Naustaskemmu, sem var afar lítilfjörlegt hús, þar sem hann var að skipta vörum, kaffi, sykri, tóbaki ofl., og hafði til þess lóðarvog eða reislu, sem kallað var.
Ég minnist fyrstu aðstöðu eða mannvirkja á Kaupfélagslóðinni, litlu Kompunni sem nefnd var, og ískjallarans framan í bakkanum, og minnist þess að sjá þetta smá vaxa.

Uppskipun vara var eftirminnileg og oft harðsótt. Önnur tæki voru þá ekki en grindabryggja sem alltaf var verið að færa fram og upp eftir sjávarföllum og veðri. Veðrátta var sérstaklega erfið þessi ár. Tjáði ekki að fá til þessarar uppskipunar og útskipunar sauðanna aðra en þá er dugmestir voru. Voru þá helstir Jóhann Sigtryggsson, Óli Ólafsson og Tryggvi, bróðir hans, synir Ólafs Indriðasonar, mágur þeirra Óli Pétur Bjering og Hólmtryggur Árnason, sonur Guðrínar Indriðadóttur, Þorlákur Guðnason í Braut og við bræður, Frímann og ég.

Við uppskipun urðum við að vera í misjöfnum veðrum, oft hríðarveðrum. Við framskipun sauða voru grindur settar ofan í flæðarmálið, sauðirnir reknir þar í og svo teymdir eftir tveimur plönkum fram í bátana. Minnist ég eins atviks sem kom fyrir að við misstum tvo sauði. Annar þeirra synti norður í fjöruna til höfðans en hinum náði ég upp í bátinn. Þegar í næstu ferð mæltist ég til þess við Jakob að þessi sauður yrði ekki sendur aftur í sauðaskipið en Jakob fékk því ekki framgengt fyrir eiganda sauðsins. Þessu atviki hef ég ekki gleymt.

Með því að um þessar mundir var ekki fleirum til að dreifa kom þessi skipavinna oft hart niður á vionnumönnunum þegar svo við bættist að allar vörur varð að bera á bakinu upp bakkann og inn í pakkhús, upp stiga upp á loft. Til dæmis 100 punda sykurkassa og 200 punda sekki.

(Herdís skýtur hér inn: Þetta var sagt um byrjunarárin.)

Uppskipunarbátar voru slæmir og ófullkomnir. Bát, sem hét Draugur og Örum og Wulf-verslunin átti, lánaði Guðjohnsen til sauðaútflutnings. Það var eini báturinn sem var hæfur til þeirra hluta. Setti Guðjohnsen upp að við Óli Bjering værum á þessum báti.

Þau ár sem ég var að rækta upp mín tún var ég í Búnaðarfélagi Húsavíkur. Þá var J.H. formaður þess og hygg ég hann hafi verið meðstofnandi þess. Hann beitti sér fyrir hér í Hísavíkurþorpi, túnrækt og fjárrækt með sérstökum áhuga. Fyrstur manna byrjaði hann hér að halda við fjárrækt, vigta og mæla fé.

Í stofnun Fundafélags Húsavíkur, laust eftir 1890, áttu þeir drýgstan þátt, Jakob Hálfdanarson og Ari Jochumsson, en það var félag sem tók á stefnuskrá sína flest framfara- og menningarmál sem flestar umbætur og framfarir þessa byggðarlags má rekja til.

Helga
Þorgríms-
dóttir
Helga Þorgrímsdóttir minnist þess þegar hún 10 ára gömul átti heima í Stóru Tungu í Bárðardal, var það haustið 1881 að Sören Jónsson frá Arndísarstöðum, seinna á Kálfborgará, kom þar í þeim erindum að vekja áhuga fólksins fyrir þessari Hreyfingu. sem þá var að grípa um sig, Kaupfélagsstofnunin. Sören talaði fyri rþessu með þeim brennandi áhuga semmér er minnisstæður. Í þessum erindum fór Sören boðleið um Bárðardal.
Hjónin
Maríus
og
Helga
Hjónin Maríus og Helga segja mér frá handriti sem þau minnast að hafa lesið, ævisögu Jakobs Hálfdanarsonar, sem þau töldu að væri skrifuð af honum sjálfum en á eftir í bókina skrifað af öðrum vingjarnleg ummæli um hann. Helst minnir þau að þessa bók fengju þau lánaða frá Aðalheiði Jóhannesardóttur, konu Páls Sigurðssonar, símstjóra, sem lengi aðstoðaði Jakob við störf hans síðustu árin á Húsavík.

Þau segja að þegar þau á 100 ára afmæli Jakobs hafi heyrt til Arnórs Sigurjónssonar í útvarpsræðu um hann, hafi þau talið að hann hlyti að hafa haft þetta rit með höndum.

Jakob var heimilisvinur okkar síðari árin. Bar þá oft margt á góma. Ég fékk þá oft að heyra hjá honum ýmislegt semhann hafði skrifað upp, þar á meðal lýsing á Jóni, föðurbróður mínum á Bjarnastöðum, sem var æskuvinur hans.

Maríus
Benedikts-
son
segir
frá
Ingólfs-
strandinu
Ingólfsstrandið er mér minnisstætt.
Það var haustið 1884.

Skipið Ingólfur hafði verið sent il Grímseyjar og Flateyjar til að sækja fisk, þurrkaðan saltfisk, fyrir Örum og Wulf-verslun. Með skipinu fór Grímur Laxdal, starfsmaður við verslunina. Gekk þá í norðvestan veður svo skipið slitnaði upp frá Flatey. Verður þá eigi um annað að gjöra en hleypa skipinu í strand. Landtaka varð þá rétt neðanvið Jaðar. Þar er Kaupfélagshúsið. Hittist svo á að fjara var. Skipið tekur því niðri svo framarlega að tvísýnt þótti um mannbjörg. Úrræðin urðu þau að mennirnir klæðast úr fötum og kasta sér fyrir borð og leggja til sunds.

Næst var þá að senda eftir sýslumanni, Benedikt Sveinssyni, sem þá bjó á Héðinshöfða. Það fyrsta sem sýslumaður segir fyrir var að festa skipið, sem leit ekki út fyrir að hægt væri. Verður það þá fyrst fyrir að einn hásetinn býðst til að synda með kaðal fram í skipið og festa það. Er mér minnisstætt að sjá hann synda móti stórsjó og vindi og lesa sig upp brjóstastagið og komast þannig upp í skipið. Syndir hann svo í land aftur. Er þá skipið fast eftir föngum.

Þegar þessu er lokið er sýslumaður orðinn helst til mikið drukkinn og vill nú ekki borga manninum, sem lagði þarna líf sitt í hættu, meira en 10 krónur.

Nú var komið kvöld og farið að dimma. Skipar þá sýslumaður mig ásamt fleirum að vaka yfir skipinu um nóttina og herða á köðlunum eftir því sem skipið færist nær.

Nú tekur Jakob Hálfdanarson alla skipshöfnina og veitir þeim alla þá aðhlynningu sem hægt er að veita. Þegar svo klukkan er 12 um kvöldið kemur sýslumaður til okkar, vökumannanna, með Jakob Hálfdanarson með sér og skipar okkur hiklaust að fara að bjarga úr skipinu. Það sé ósköp vel hægt. Við sýndum honum fram á að þetta var óhugsanlegt fyrir brimi. Studdi Jakob okkar mál eins og hægt var. Þegar sýslumaður fékk þessu ekki framgengt sagðist hann skyldu sýna okkur að hann gæti sjálfur komist fram á skipið. Er þýðinagrlaust að ætla að aftra honum þess. Þegar næst sogaði út kemst hann af einhverri tilviljun fram á skipið. Þar er hann ekki fyrr kominn en kjarkurinn er búinn og hrópar nú sitt alkunna upp, þessa setningu sem honum var svo töm ef eitthvað á bjátaði: "Herra Guð og himneski faðir!"

Nú ríður voðalegur sjór yfir skipið og tekur hann út. Heyrist fyrst hvorki né sést til hans.Förum við þá að leita í löðrinu út og suður með fjörunni. Verður Jakob þá til að finna hann í löðrinu rétt upp af skipinu, þá meðvitundarlausan. Var hann þá fluttur upp á Jaðar og hjúkrað þar. Eftir litinn tíma raknar hann við.

Eftir þetta fór heldur að draga úr sjónum. Förum við þá upp til Jakobs og óskum eftir að hann segi nú fyrir hvað skuli gera. Með næstu fjöru er safnað öllum þeim verkfærum mönnum, sem fáanlegir voru, og farið að bjarga úr skipinu. Jakob sagði svo fyrir verkum þangað til sýslumaður var orðinn fær um að taka við stjórn en það var ekki fyrr en næsta kvöld að við vorum eiginlega búnir að bjarga upp úr skipinu.

Ég kynntist aftur hásetnaum sem synti með kaðalinn út í skipið. Lét ég þá í ljósi undrun mína yfir því að hann skyldi hafa skap til að þiggja þessar 10 krónur. Hann svaraði að hann hefði, sökum peningaleysis, verið neyddur til þess.

Maríus Benediktsson undirritar.

Páll
Jónsson
frá Stafni
Páll Jónsson frá Stafni, 80 ára, ern vel,
í samtali við Herdísi Jakobsdóttur 1940
Páll
Jónsson
frá Stafni
Ég man þegar faðir þinn og Sören voru að kaupa ær fyrst til fjárbúsins. Þeir keyptu þrjár af mér. Þá var kotið Partur keypt til búsins. Það lagðist svo síðar undir Halldórsstaði. Fjárbúið lognaðist út af á Einarsstöðum hjá Sigurjóni Friðjónssyni.

Ég man ekki að ég sæi föður þinn fyrr en á Húsavík. Ég man eftir litla, ljóta þorpinu, kofunum með dálítið af grænum þúfum í kring og svo reitnum með öllum hættunum fyrir hestana. Ég man þegar verið var að flykkjast til Húsavíkur að sækja vörurnar um haustið þegar ísinn var búinn að vera allt sumarið og fólkið að vanta svo tilfinnanlega. Einn stórbóndinn sótti þá í kaupstað sex skeffur á hest (25 í skeffu), meira fékk hann ekki um sumarið hjá kaupmanninum með þó nógan gjaldeyri.

Móðir mín fékk þá stundum um sumarið brauðkökur sendar frá systur sinni, Aðalbjörgu Pálsdóttur á Stóruvöllum. (Innskot Herdísar: Sigríður Pálsdóttir, móðir Páls, bjó á Jarlsstöðum í Bárðardal.) Þá var haft eftir J.H. umþessar mundir: "Blessaður maturinn en bölvaðður ísinn". (Innskot Herdísar: Ég heyri á öllu að þetta er sumarið 1882, mislinga.)

Seinast þegar J.H. kom í Stafn sagði hann: "Aldrei fyrr, allar mínar ferðir um ævina þvert yfir Bárðardal og Laxárdal um Stafn, hef ég fyrr látið hest bera mig upp Vatnsbrekkuna í Stafn". (Innskot: Brekkan er há og brött.)

Á
smámiða
í
bréfa-
bóklinni
Árið 1886 komum við Steinþór Björnsson vestan frá Hólum í Hjaltadal. Vorum þar að gera við kirkjuna frá því fyrir slátt þangað til seint um haustið. Komum frá Mælifelli úr heimsókn til Kristbjargar, sem þá var orðin ekkja og búin að missa mann sinn, sr. Einar Jónsson frá Hofteigi, ættfræðings. Hafði ætíð seilst til að gista á Grímsstöðum. Þær voru svo elskulegar, gömlu systurnar Aðalbjörg og Herdís. Hjá þeim hafði ég upp ótæmandi fróðleik í ættfræði, svo ábyggilegan að ég vissi það alltaf sannast vera.

(P.S. skrifar: Þetta er á smámiða í bréfabókinni. Ekki gott að átta sig á hvað þarna er verið að fara.)

Heiðraði
Sigfús
Minningarsjóður Jakobs Hálfdanarsonar
heiðursbréf til Sigfúsar Jónssonar, Halldórsstöðum
22. des.
1925
Heiðraði hr. Sigfús Jónsson, Halldórsstöðum:

Þetta bréf með lítilli sendingu vottar þér heila þökk og heiður fyrir dygga vinnu að umhirðu búfjár. Ljóst sé, og verði það sem flestum, að sá starfi hefur ómetanlegt gildi fyrir þrif og menningu þjóðar vorrar. Vel sé ávallt þér og öðrum þeim sem með alúð ástunda hið sama.

J. Hálfdanarson

tileinkað 22. des. 1925

Júlíus Havsteen, sýslumaður
Hálfdan Jakobsson

Minningarsjóður Jakobs Hálfdanarsonar.

Ummæli Á lausum miða:
Ummæli í samtali tveggja orðvarra merkismanna á Húsavík
Á
Húsavík
Annar segir:

"Mér fannst Jakob Hálfdanarson ætíð gjöra sér ljóst, áður en framkvæmdir væru hafnar, að fjárhagslegir möguleikar væru fyrir hendi".

Þá varð hinum að orði:

"Benedikt á Auðnum átti tal við mann, sem var að velta fyrir sér hlut í Söludeildinni, sem hann langaði til að kaupa. Taktu það bara. Einhver andskotinn borgar það."

Þeim sem samtalið áttu kom saman um að þetta væri táknrænt fyrir hvorn um sig.

Ófeigur Ófeigur í febrúar 1982. 35. örk.
Blaðið byrjar með eftirfarandi ritstjórnargrein. Í ritstjórn eru þá Benedikt Jónsson, Pétur Jónsson og Á.J.)
Frá
ritstjórn
Ófeigs
Í fyrravetur sendi Jakob Hálfdanarson ritstjórn Ófeigs ritgerð um viðskipti. Ritgerð þessi þótti oss of löng handa Ófeigi auk þess sem að athugasemdir við hana frá vorri hálfu voru óhjákvæmilegar. Ritgerðin sjálf er 76 blaðsíður og svör og athugasemdir hlutu að verða annað eins.  En þó ekki sé gert ráð fyrir að athugasemdirnar séu nema helmingur þá er ritgerðin með væntanlegum athugasemdum rúmar 7 arkir. - Ritstjórn Ófeigs hefur því verið í óþægilegri klípu: annars vegar eru örðugleikar á og kostnaður við að gefa út í 9 afritum svo langa ritgerð og nálega útilokun um tíma frá öðru umtalsefni en því er ritgerðin hefir, en hinsvegar er afar illt að útiloka mjög góðar og mikilsverðar hugleiðingar og bendingar frá hinum upphaflega höfundi þessa félags, frá þeim manni, sem hefur rétt til að skoða Kaupfélag Þingeyinga eins og afkvæmi sitt og ástfóstur. Oss þætti því verra að binda hendur Jakobs Hálfdanarsonar en nokkurs annars manns, þegar hann tekur til máls um félagið. Þess vegna byrjum vér í þessu hefti Ófeigs að birta fyrsta kaflann úr áminnstri ritgerð.

Ritstj.

Herdís
skrifar um JH
Ummæli Herdísar Jakobsdóttur um föður sinn, Jakob Hálfdanarson.
P.S. segir: Þetta er trúlega skrifað á árunum milli 1950 og 60. Herdís þá um eða yfir áttrætt.
Herdís
Jakobs-
dóttir
Faðir minn, Jakob Hálfdanarson, var að eðlisfari glaðlyndur og bjartsýnn.

Hann var elsta barn foreldra sinn, hraustur og dafnaði vel bæði andlega og líkamlega. En skugga bar senmma á æskugleðina því 10 systkini eignaðist hann sem öll dóu ung utan ein systir 24 ára. Má af því ráða að hann hafi snemma brotið heilann um tilgang lífsins og ráðgátur enda var það svo. Í blöðum hans hefi ég rekist á minningar hans, skrifaðar á hverjum afmælisdegi yfirlit yfir liðna árið. Er þetta tímabil frá barnæsku hans fram að fulltíðaárum.

Þarna gætir mikið sjálfsumvöndunar, að markinu hafi hann ekki náð eins og hann hafði viljað, ekki verið nógu atorkusamur eins og hann vildi. Sennilega fundist hann líka hafa skyldur við foreldra því meiri sem hann var einn. Og svo það að hann brást vonum þeirra að einu leyti.

Þau höfðu komið honum til náms hjá sóknarprestinum, sr. Jóni Austmann, meðal annars var hann látinn byrja á latínunámi án þess nokkuð væri rætt um tilgang þess en þegar það skaust einu sinni upp úr kennaranum varð Jakob, svona ungur, strax ákveðinn og harðneitaði að verða prestur. Sagði hann okkur að fyrsta ástæðan hefði verið að hann náði ekki góðu málfari fyrr en undir tvítugt, gat ekki nefnt R, en auk þess hefði sér strax fundist það mundi verða frelsisskerðing að binda sig svo fyrir lífstíð.

Frá upphafi var hans hugsun að temja sér að verða nýtur þegn í þjóðfélaginu. Til þess bað hann guð um styrk.

Frá Upphafi til æviloka var hann heitur trúmaður, miðaði líf sitt og breytni við væntanlegt framhald þess. Virðingarmat á hverjum einstaklingi fór hjá honum aðeins eftir persónugildi.

Hugsjónamaðurinn J.H.

Efst á þessa síðu * Forsíða