*  

Gísli Ólafur Pétursson * Námskrár-torg

Þessa síðu hef ég fengið lánaða úr vefsetri námskeiðsins í því skyni að geta haft hana tiltæka og skrifað inn í hana athugasemdir og viðhorf til spurninga sem í henni er að finna. Síðan er samin af Guðrúnu Geirsdóttur - en innsetningar mínar eru merktar stöfunum GÓP hverju sinni.
  • Sjá hér drög að greiningu markmiða í aðalnámskrá og skilgreinandi afleiðingum þeirra á sjálfa kennsluna og kröfur til kennara. Í framhaldi af hugleiðingum um skilgreiningu kennara og kennslu er uppsett greiningartafla fyrir lokamarkmið upplýsinga-og tæknibrautar og áfangamarkmið í áfanganum TÖL-103. Þau eru metin á skala þeirra Bloom, Krathwohl og Simpson og einnig eru þau notuð til að skoða hvar viðhorf höfunda íslensku aðalnámskrarinnar raðast í flokka Eisner og einnig í flokka Marsh&Willis.
  • Í tengslum við þessar hugleiðingar um skilgreiningu kennslu og kennara hefur verið búinn til alvarlegi gamanleikurinn svona kennari er ég.
  • Í sameiningu höfum við, GÓP, Inga Karlsdóttir, Ingibjörk Haraldsdóttir, Samúel Lefever og Þórhildur Oddsdóttir, kennarar við MK, tekið saman fyrstu drög eða útlínur að sérstökum lista yfir atriði sem tengjast gerð skólanámskrár fyrir Menntaskólann í Kópavogi.
    >> Ennfremur höfum við dregið saman nokkurn lista yfir þær breytingar sem hoppa í hug okkar við fljótlega upprifjun úr starfi skólans. Sá listi hefur hjá okkur hloti nafnið: Þættir úr þróunarsögu Menntaskólans í Kópavogi.

Forsíða

  Námskeið fyrir framhaldsskólakennara:

Námskrárfræði og skólanámskrárgerð
(Ágúst 1999-júní 2000)
 

3. lota: Námskrárgerð og breytingar á skólastarfi / Curriculum Development and Change

Markmið lotunnar

Þátttakendur:

  • ... þekki eftirtalin lykilhugtök í námskrárfræðum:
    • Curriculum Developers: Námskrárhöfundar m - hönnuðir.
    • Curriculum Change: Námskrárbreytingar
    • Innovation: Nýbreytni, nýjungar.
    • Diffusion and Dissemination: Útbreiðsla /dreifing hugmynda og útbreiðslustarf.
    • School Improvement: Skólaumbætur.
    • Curriculum Adoption: Það að taka upp nýja námskrá.
  • ... þekki hvaða hvaða aðilar koma að námskrárgerð
  • ... kunni skil á námskrárferlinu, frá undirbúningi til mats og endurskoðunar
  • ... geri sér grein fyrir því hvaða munur er á námskrárgerð eftir því á hvaða stigi hún er unnin (skóli - land)
  • ... þekki og beri saman ólík námskrár- og skólaþróunarlíkön og leggi mat á þau
  • ... afli sér upplýsinga um stöðu námskrárgerðar í eigin skóla og framtíðaráformum um skólaþróun og geri grein fyrir niðurstöðum
  • ... leggi mat á hvaða skólaþróunarlíkön falli best að áformum í eigin skóla
 

Verkefni:

1. Lestur grunnbókar - leiðarbók.

2. Verkefni: staða skólanámskrárgerðar í eigin skóla

  1. Lestur grunnbókar - leiðarbók
Lesið fimmta kafla Curriculum - Alternative Approaches, Ongoing Issues: Curriculum Development and Change /Námskrárgerð og námskrárbreytingar

Í þessum kafla athygli beint að breytingum á námi og kennslu, einkum að því hverjir geti haft áhrif á breytingastarf og hvaða leiðir komi til greina um það hvernig staðið skuli að breytingum (líkön).

  5.1 INNGANGUR / INTRODUCTION (bls. 149)

Í upphafi þessa undirkafla er vakin athygli á skyldleika hugtakanna námskrárgerð (Curriculum Development) og námskrárbreytingar (Curriculum Change). Höfundar leggja áherslu á að þessi hugtök verði að aðgreina.
Gerðu þér grein fyrir með hvaða hætti sú aðgreining er hugsuð.

Glöggvaðu þig einnig á hugtakinu Curriculum Development Project. Hvernig finnst þér eðlilegast að þýða þetta hugtak á íslensku?

 

Gættu að því að höfundar leggja mikla áherslu á námskrárgerð sem samstarfsverkefni.

5.2 SOME IMPORTANT TERMS / NOKKUR MIKILVÆG HUGTÖK

Í þessum undirkafla eru skilgreind nokkur mikilvæg námskrárhugtök:

  • Curriculum Developers: Námskrárhöfundar - hönnuðir.
  • Curriculum Change: Námskrárbreytingar
  • Innovation: Nýbreytni, nýjungar.
  • Diffusion and Dissemination: Útbreiðsla /dreifing hugmynda og útbreiðslustarf.
  • School Improvement: Skólaumbætur.
  • Curriculum Adoption: Það að taka upp nýja námskrá.
  Glöggvaðu þig vel á þessum hugtökum og tengdu það eigin reynslu og aðstæðum hér á landi.

Hugleiddu umfjöllun höfunda um hugmyndafræðilegt eða stjórnmálalegt (political) eðli margra námskrárbreytinga (sbr. neðst á bls. 151). Hvaða dæmi eigum við hér á landi um áherslur af þessu tagi?

  Neðst á bls. 151 er vikið að þeirri hreyfingu sem kennd er við "School Effectiveness". Þeim sem áhuga hafa á að kynna sér þessa hreyfingu má benda á:

Effective Schooling Research Bibliography frá Northwest Regional Educational Laboratory

  5.3 THE CURRICULUM CONTINUUM / NÁMSKRÁRFERLIÐ

Hér setja höfundar upp mynd (Mynd 5.1.) til að lýsa námskrárferli. Gerðu þér grein fyrir því hvernig þessi mynd er hugsuð. Áhugavert er að skoða þessa mynd, t.d. með hliðsjón af þeim breytingum á námskrá sem eiga sér stað hér á landi um þessar mundir.
 

5.4 CURRICULUM DEVELOPMENT AS A PLANNED ACTIVITY / NÁMSKRÁRGERÐ SEM SKIPULEGT VIÐFANGSEFNI

Hér er fjallað um hvernig standa má að skipulegri námskrárgerð, t.d. fyrir heil skólakerfi, t.d. á landsvísu.

GÓP:  Legðu mat á hugmynd Pratt (bls. 154) um hverjir eigi að skipa námskrárgerðarteymi.
Nauðsynlegt er að halda þeirri þekkingu innan hópsins sem tíundum er í upptalningunni. Hún ein tryggir þó ekki að starf hópsins skili sér í raunverulegri breytingu út í hinum einstöku skólum. Eftir á að hyggja: hvergi sá ég Pratts getið að þessari upptalningu.

Hvernig telur þú æskilegast að skipa þá hópa sem semja námskrár fyrir a) landið allt b) einstaka skóla?
Trú mín er sú að því meiri hlut sem kennarar viðkomandi skóla eiga í gerð nýrrar námskrár, öflun og mótun námsefnis og prófunar á því - þeim mun meiri líkur séu á því að tilætluð breyting nái fram að ganga - í þeim skóla.

  Í undirkaflanum Levels of Curriculum Development er vikið að því á hvaða fimm stigum námskrárgerð geti átt sér stað. Hér á landi væru stigin líklega færri.
  Gerðu hliðstæða mynd fyrir Ísland og lýst er í kaflanum fyrir Bandaríkin. Þetta má t.d. gera með hjálp töflu:
GÓP: Tafla:
Á landsvísu Menntamálaráðuneytið breytir nú aðalnámskrá framhaldsskóla.

Framhaldsskólarnir hafa um árabil starfað saman og kennarar þeirra samræmt innihald námsáfanga og námskröfur í námsgreinum. Þar hafa þeir tekið mið bæði af áætluðum kröfum og raunverulegum kröfum háskólans og af þeirri þróun og umræðu sem er í gangi í þjóðfélaginu.

Innan skóla Einstakar deildir framhaldsskólanna hafa sífellt vakandi auka á því sem er að gerast hjá öðrum skólum og þróun í háskólanámi og sífellt eru í gangi endurbætur á námsefni og miðlun þess í skólunum. Í upphafi hverrar annar leggja kennarar deildarinnar fram ítarlegar námsáætlanir með ýmsum upplýsingum um kennsluna og mat á námsárangri. Þessar áætlanir breytast og þróast og eru sannarlega námskrárígildi. Ákvörðun um að skipta um kennslubók jafngildir ætíð breytingu á námskrá - þótt í litlum mæli geti verið.
Innan stofu Næstum því hverju sinni sem kennari kemur á ný til kennslu í námsefni sem hann áður hefur kennt reynir hann að koma því frá sér á nýjan og betri hátt en síðast.
  Höfundar bókarinnar taka á bls. 156-157 tvö dæmi um breytingar á námskrár á landsvísu.
  Skoðaðu dæmi 2 á bls. 157-159.

Tengdu þessa umfjöllun við þróun tölvu- og upplýsingatækni í skólastarfi hér á landi: Að hvaða marki er um hliðstæða þróun að ræða? Hver er munurinn?
Á Íslandi þróuðust þessi mál hraðar og á vettvangi skólanna sjálfra. Þeir sóttu á menntamálaráðuneyttið um fjármuni og fengu fyrst dræmt og raunar með vondum ráðleggingum en vegna ýmislegrar pólitískrar stöðu á hverjum stað komust þeir yfir nauðsynleg tæki. Þegar kennslan var komin í gang fór að koma leiðbeining úr ráðuneyti um það hvað ráðlegt gæti verið að kenna í tölvunotkun. Nú hefur nýr sérfræðingur náð að sannfæra yfirstjórn skólanámskrárinnar um að bylta beri innihaldi þessa náms. Tölvukennarinn veltir fyrir sér hvaða hugljómun sá aðili hefur fengið - en skiptir sér ekki af því að öðru leyti. Staðreyndir verða brátt ljósar í þessu efni.

  Hugmynd Skilbecks um ólík markmið námskrárhöfunda sem lýst er í undirkaflanum Activities of Curriculum Developers (sbr. bls. 159-160) er áhugaverð. Gagnrýni Popkewitz á námskrárgerð er einnig allrar athygli verð.
GÓP:  Hver er þín skoðun?
Já - þetta er skynsamlega fram sett hjá Skilbeck.

Hvaða breytingar hafa í raun orðið á íslensku skólastarfi undanfarin ár?
Það hafa að minnsta kosti orðið miklar breytingar á skólastarfi í Menntaskólanum í Kópavogi næstliðinn aldarfjórðung. Spurningin felur í sér það viðhorf að breytingar hafi ekki orðið miklar - og ekki meiri en svo að fljótlegt væri að tíunda þær. Ég þekki enga kennslugrein í Menntaskólanum í Kópavogi þar sem ekki hefur verið í gangi umfangsmikil þróun og nýjungar í námsefni og miðlun þess á ævi skólans.

  Í niðurlagi þessa undirkafla er vikið að þeim verkefnum sem námskrárhópar þurfa að huga sérstaklega að.

Í undirkaflanum Expertise and Control of Curriculum Development er varpað ljósi á það álitamál hverjir eigi að ráða mestu um námskrárgerð. Hvaða sérfræðingar eiga að koma að verki? Hverju eiga kennarar að ráða?
GÓP:  Hver er æskileg skipan þessara mála hér á landi?
Fyrst þarf að gefa sér að það sé nauðsynlegt að gera breytingu. Eftir það þarf að líta á gildandi námskrá og sjá hvort hún leyfir þá breytingu. Geri hún það ekki verður að fá grænt ljós frá menntamálaráðuneyti. Ef ráðuneytið þarf ítarlegan rökstuðning fyrir breytingunni er hún væntanlega ekki mjög áríðandi og nær sjálfsagt ekki fram að ganga. En gefum okkur að allir aðilar séu orðnir sammála um að taka beri upp nýtt námsefni.
Eins og ég hef fyrr sagt þá er trú mín sú að því meiri hlut sem kennarar viðkomandi skóla eiga í gerð nýrrar námskrár, öflun og mótun námsefnis og prófunar á því - þeim mun meiri líkur séu á því að tilætluð breyting nái fram að ganga - í þeim skóla
  Athugaðu að þessi atriði eru rædd í þaula í 6. kafla (Curriculum Planning: Levels and Participants).

Í undirkaflanum Site of Activities (bls. 162-163) er fjallað frekar um þann mun sem er á námskrárgerð eftir því hvort unnið er að verkefnum sem snerta skólakerfið allt eða aðeins hluta þess. Undirkaflinn Use of Products (bls. 163) lýsir sjónarmiðum varðandi það með hvaða hætti námskráin er birt. Í undirkaflanum Typology (bls. 163-165) er sett fram líkan sem lýsir öllum hugsaunlegum víddum námskrárgerðar.
GÓP:  Hver yrði þín kjörmynd af því hvernig standa skal að námskrárgerð?
Setjum svo að ég yrði til þess ráðinn af menntamálaráðuneytinu að koma á tiltekinni breytingu í tölvukennslu í öllum framhaldsskólum landsins. Verkefnið hjá mér yrði í stórum dráttum framkvæmt í þessum áföngum:
(1) Ég kynni mér málið svo ítarlega sem kostur er. Allt er í góðum gír ef mér tekst að sannfæra sjálfan mig um að þessi breyting sé svo skynsamleg að hún sé greinilegt skref fram á við í tölvukennslu. Takist mér það ekki vík ég frá starfinu.
(2) Ég leggst í ferðalög - helst undir ýmsu yfirskini - og kem í framhaldsskólana. Í leiðinni ræði ég við tölvukennarana. Fyrst breytingin er skynsamleg er hún sjálfsagt á vörum þeirra - hvort sem hugmyndin um breytinguna er komin í loftið eður ei. Ef hún kemur ekki fram í máli þeirra dreg ég inn í umræðuna nægilegar línur að því til þess að þeir nefni hana. Ég styð þessa hugmynd.
(3) Ég ber þessar hugmyndir tölvukennaranna í farteski mínu til nýrra staða - í framhjáhlaupi. Ef vel tekst til vilja þeir knýja á um það við menntamálaráðuneytið að hrinda breytingunni í framkvæmd.
(4) Ef menntamálaráðuneytið gerir sér strax ekki grein fyrir þörfinni - og það gerir það ekki ef ég fæ að ráða - þá kemur félag tölvukennara til skjalanna og beitir sér við menntamálaráðuneytið. Félagið getur þurft að kalla til sérhæfða einstaklinga utan félagsmanna sinna og annars staðar að úr þjóðfélaginu til að leggja af mörkum í rökstuðning og herja á ráðuneytið. Eftir nokkra íhugun lætur ráðuneytið undan.
(5) Kennararnir hafa þegar tiltækar ferskar hugmyndir og nægilegt námsefni og námsefnisbreytingin kemst til framkvæmda án tafar.
(6) Ef heppilegt þykir að hafa aðstoðandi leiðbeiningar fyrir kennara þá munu aðrir kennarar sjá til þess að útbúa þær.
(7) Ég fer sífellt í heimsóknir - og í framhjáhlaupi fylgist ég með stöðugri endursönnun á ágæti breytingarinnar og hlýði á hugmyndir tölvukennara um frekari breytingar - meðal annars breytingar á breytingunni.
(8) Áætla má að þetta ferli geti tekið 3 ár en þó skemur ef breytingin er að flestra áliti knýjandi.
  5.5 THE PROCESS OF EDUCATIONAL CHANGE

Í upphafi þessa hluta er athygli vakin á því að enda þótt stefnt sé að breytingum á námskrá kjósi margir kennarar að halda óbreyttu ástandi. Þá er vikið að hugtakinu "change agent", sem vandþýtt er á íslensku, en vísar til lykilfólks eða burðarása í breytingastarfi. Í þessu sambandi er vert að draga athygli að því að eitt af markmiðum þessa námskeiðs er einmitt að stuðla að því að þátttakendur geti tekið að sér slíkt hlutverk. Þennan kafla er mikilvægt að tengja kynningu Jóns Baldvins Hannessonar á verkefninu Aukin gæði náms.

Í undirkaflanum Attributes of an Innovation er vikið að þáttum sem sýnt hefur verið fram á að skipti máli í breytingastarfi. Allt eru þetta þættir sem vert er að leiða hugann að og máta við eigin skoðun á því hvernig vænlegast er að standa að því að hrinda breytingum í framkvæmd.

Undirkaflinn Context of Innovations fjallar eins og nafnið bendir til um aðstæður og samhengi. Lögð er áhersla á hve mikill munur getur verið á aðstæðum í skólum og hve erfitt er að sjá fyrir hvernig breytingum farnast.
GÓP:  Taktu afstöðu til þeirra atriða sem þarna eru nefnd (neðst á bls. 167)?

Ef afstaðan á að felast í því hvort eða að hvaða marki maður er sammála um það að sérstakar aðstæður ríki í hverjum skóla þá er ég einfaldlega alveg á sama máli.

  5.6 CHANGE MODELS

Í þessum kafla er gefið stutt yfirlit um helstu breytingalíkön. Fjallað er sérstaklega um líkön sem byggjast á því að breytingar komi utanfrá (Models External to the School) og þau sem miðast við að frumkvæði komi frá starfsliði skólans (Models Internal to the School). Rétt er að vekja athygli á því að nokkur þessara líkana koma við sögu síðar í bókinni.
GÓP:  Berðu líkönin saman með skipulegum hætti. Hvert þeirra er þér helst að skapi? Hvers vegna?

Sjá þennan samanburð á vefsíðu.

Sjá einnig 2. verkefni í þessari lotu

  5.7 CONCLUDING COMMENTS / NIÐURLAGSORÐ
GÓP:  Hvaða meginhugsun birtist í þessum orðum?

Hver sá sem segir að það sé einfalt mál að breyta námskrá allra skóla í einu og láta menntamálaráðherra svo senda hina nýju námskrá út sem aðalnámskrá sem allir skuli fara eftir - hann er laustengdur við veruleikann. Þvert á móti hafa fjölmargar rannsóknir sýnt að það getur verið óralangur vegur frá hönnun og boðun hins nýja námsefnis til þess að nemendur komi gangandi út úr skólastofunni og hafi notið - eða þjáðst vegna - þessa sama námsefnis. Ef þú ætlar að koma námskrárbreytingu á skaltu hafa alla leiðina í huga - frá upphafi.

Hvaða þættir telur þú að helst hamli breytingum í skólum hér á landi?

GÓP: Í framhaldsskólunum hefur nú yfirleitt verið athyglisverðast hversu gífurlegum breytingum skólarnir og námsefni þeirra hefur tekið. Einmitt vegna þess breytingastarfs sem kennararnir hafa skilgreint að sé á sinni könnu - verða þeir bæði undrandi og telja að sér hafi verið skákað til óvirkni þegar upp kemur sú staða að einhver besserwisser hefur sannfært yfirvaldið um að hann hafi einmitt hina réttu, nýju línu. Þetta er einmitt sama fyrirbærið og þeir Marsh&Willis eru hægt og bítandi að draga undir mælikerið.

Hér - eins og í öðrum spurningum í þessari leiðarbók - er þess að geta að ég hef sett upp vefsíður þar sem fjallað er um námskrárbreytingaferlið - í anda myndarinnar á síðu 153 hjá M&W. Uppsetningin er ekki gerð í úrlausnarstíl heldur sem leiðbeining til þess sem áhuga kann að hafa á námskrárgerð og námskrárbreytingu.

  2. Staða skólanámskrárgerðar í eigin skóla

Verkefni þetta er þríþætt:

I. Fyrri reynsla í skólanum af skólaþróun / breytingastarfi.

Dragið saman í stuttri greinargerð yfirlit um það breytingarstarf sem unnt er að greina í skólanum (t.d. undanfarin fimm til tíu ár).

GÓP: 

Hér er að finna yfirlit yfir breytingar, nýjungar og þróun sem mest hefur borið á í starfsemi Menntaskólans í Kópavogi.

Hvaða breytingar er helst hægt að greina? Hvert var umfang þeirra? Hverjir voru þátttakendur?

Greinilegar breytingar eru sífellt í gangi í skólanum. Nýjar námsbrautir eru gangsettar með tilheyrandi undirbúningsstarfi, kennslu, endurskoðun, meiri kennslu og svo framvegis. Þegar fram líða stundir tekur námsefni og námsstefna brauta stakkaskiptum og kennarar meta hvernig til tekst. Í þau skipti sem ég hef haft umsjón með veigameiri breytingum hafa stundum allir kennarar verið þátttakendur, breytingar snert alla nemendur og að lokum hefur verið aflað álits alls þessa hóps á því hvernig til hafi tekist. Stundum hafa breytingarnar einskorðast við eina námsgrein. Þá stóðu kennarar þeirrar deildar skólans að breytingunni og lögðu mat á hvernig til tókst. Sjá nánar um slíkar breytingar með tölvukennslu sem námskrárnýjung 1975 og þróun tölvukennslunnar við MK.

Hver voru helstu markmið breytinganna?

Markmið umfangsmestu breytinganna voru að breyta kennsluskipulagi skólans og færa það að þeirri skólatísku sem samfélaginu hefur verið talin trú um að sé svo stórfengleg - þ.e meiri og minni upplausn hins gamla bekkjarkerfis. Þetta var nauðsynlegur liður í baráttu skólans fyrir tilveru sinni í sveitarfélaginu á sínum tíma og þáttur í sókn hans eftir úrlausn í húsnæðismálum sínum. Einnig var þetta liður í því að gera skólann samkeppnishæfari um hylli þeirra nemenda sem litu hýrari augum til áfangakerfisskóla. Í hönnun breytingarinnar var líka lögð áhersla á að halda inni sem flestum kostum bekkjarkerfisins.

Hvernig gekk? (Var mat lagt á árangurinn?)

Þessar breytingar tókust mjög vel. Þær voru endurskoðaðar þrisvar á fimm ára tímabili og þróaðar áfram. Sífellt var í gangi vinna við úrlausnir og þróun í smærri málum en með tveggja ára millibili var gerð umfangsmeiri breyting. Sífellt var í gangi umræða og mat kennara á árangrinum og leitað var álits nemenda um atriði sem hægt var að spyrja þá um. Þeir höfðu að sjálfsögðu ekki samanburð við fyrra skipulag hverju sinni.

Hvaða lærdóm er einkum hægt að draga af reynslunni?

Þróunarstarf með þeim hætti sem verið hefur við Menntaskólann í Kópavogi frá upphafi - er í raun ekki svo mjög frábrugðið því sem verið hefur í gangi við aðra framhaldsskóla og milli þeirra. Þetta hefur gefist afburða vel og kennararnir hafa lagt metnað sinn í að leita lausna, prófa þær, fága og betrumbæta.

 

II. Áform um skólaþróun og skólanámskrárgerð.

Aflið eftirfarandi upplýsinga með viðtölum við stjórnendur skólans um:

  • Hver er núverandi staða skólanámskrárgerðar?
    Fyrir liggur áætlun um efnisskipan, tímarammi um efnisskil, stýrihópur er að störfum og ritstjórn.
  • Hvaða áætlanir eru uppi um hvernig standa á að skólanámskrárgerð / skólaþróun á næstu misserum?
    Handrit skal liggja fyrir 1. febrúar 2000 og Skólanámskráin gefin út 1. mars 2000.
  • Hverjir munu taka þátt? (Kennarar, kennarahópar, nemendur, foreldrar, aðrir)
    Stjórnendur og kennarar munu ganga frá efni en nemendur fjalla um það sem kemur fyrir Skólastjórn og Skólanefndin er fulltrúi sveitarfélagsins og almennings, þar með foreldra.
  • Er reiknað með sérstökum stuðningi við námskrárgerðina? (Ráðgjöf, fræðslufundir, endurmenntun, aukinn samstarfstími o.s.frv.)
    Sérstakur stuðningur felst einkum í tvennu. Annars vegar sérstöku námi í skólanámskrárgerð sem 5 stjórnendur/kennarar stunda en 2 þeirra eru jafnframt ritstjórar skólanámskrár. Hins vegar er aukinn starfstími. Nýttur er allur sá tími sem kennarar/deildarstjórar hafa, þ.e. 115 tímarnir, hluti af svigrúmi deildarstjóra auk þess sem greitt er sérstaklega fyrir ákveðin verkefni eins og tekið er fram í vinnuáætlun sem lögð hefur verið fram í skólanum. Stjórnendur hafa auk þess staðið fyrir fræðslufundum og gefið út fyrirmæli um vinnuna og framsetningu efnisins.
  • Hvað gæti helst hindrað gerð og framkvæmd skólanámskrárinnar?
    Þekkingarskortur á gerð skólanámskrár - en þar sem skólanámskrá á að vera í sífelldri endurskoðun er þetta ekkert til að hafa áhyggjur af. Tíminn er líka nokkuð takmarkaður.
    Spurning er hversu bundnir kennarar eru í þeim faglegu vinnubrögðum, verkefnum, kennslu og kennsluefni sem notað hefur verið. Sums staðar er líklegt að skortur verði á kennsluefni og einnig er ljóst að tölvukunnátta kennara er ekki almennt næg til að nýta tölvu sem kennslutæki í öllum námsgreinum.
  • Hvernig verður staðið að mati á þessum þáttum?
    Ekki er gert ráð fyrir að fram fari mat á skólanámskrá í heild heldur verði einstakir þættir hennar metnir:
    > Deildarstjórar / deildir sjá um mat á áfangalýsingum og markmiðum.
    > Kennslustjórar sjá um mat á námsmati, prófum, kennsluáætlunum, kennsluaðferðum o.fl..
    > Gæðahópur MK og GÁMES-hópur sjá um mat á almennum þáttum, sðurningalistum, gátlistum og fl..
    > Stjórnendur annast mat á heildarstarfseminni auk kennaramats með starfsmannaviðtölum o.fl..
 

III. Fræðileg tenging.

  • Hvaða líkön, sbr. 5. kafla, telur þú vænlegast að nota við námskrárgerð í þínum skóla?

Ég fæ nú ekki séð að nauðsynlegt sé að halda sig við aðeins eitt líkan heldur megi taka þær hugmyndir úr fleirum sem góðar þykja. Á því er enginn vafi að breytingar og nýjungar í skólastarfi munu ganga lipurlega fyrir sig með hinni venjubundnu aðferð. Það merkir að þær eru framkvæmdar innan skólans af kennurum viðkomandi deildar. Ef upp koma einhver vandræði vegna mismunandi viðhorfa eða persónulegrar viðkvæmni er gripið til viðeigandi aðferða til að leysa þau. Ef einhver ætlar sér að koma í skólann og tilkynna um nýjungar sem upp skuli taka er hætt við að sá hinn sami verði rukkaður um hvers kyns stýringar á framtíðarþróun þess ferlis sem hann þar með er að setja í gang.

Framhaldsskóakennarar gera hvort tveggja að þeir verða varir við atriði sem unnt er að bæta og finna þar lausnir - og einnig gera þeir sér grein fyrir hvernig sjálf breytingin muni hitta kennara og nemendur fyrir. Þá er það einnig svo að í kennaraliðinu eru alltaf margir sem starfa víðar í þjóðfélaginu og bera viðhorf og reynslu þaðan inn í þróunarstarfið. Það má því orða svarið við þessari spurningu svo að heppilegast telji ég að beitt sé völdum aðferðum úr þeim líkönum sem á bls 169 í M&W eru flokkaðar Internal to the School.

Efst á þessa síðu