Forsíða |
Ofvirkni - bók fyrir kennara og foreldra úr Glæðum 2. tbl. 11. árg. 2001, bls. 59 - 60.
|
Inngangur |
Hér fer á eftir umsögn Guðrúnar Þórðardóttur, sérkennara, sem birtist í Glæðum, tímariti sérkennarafélags Íslands haustið 2001. Umsögnin er birt með góðfúslegu leyfi Guðrúnar Þórðardóttur og Fjölnis Ásbjörnssonar, ritstjóra Glæða. Ath! Efnisorð í fremri dálki setti GÓP. |
Um Ofvirkni- bókina |
Í þessari umfjöllun um bókina Ofvirkni eftir Rögnu Freyju Karlsdóttur verður innihaldi bókarinnar lýst í grófum dráttum og mat lagt á hvernig hún getur nýst kennurum í starfi. |
Um einkenni AMO |
Í fyrsta kafla bókarinnar gerir höfundur grein fyrir hvað einkennir þau börn sem greinast með
athyglisbrest með ofvirkni (AMO). Einkennin eru margvísleg og
afar mismunandi milli einstaklinga. Segja má að hver einstaklingur hafi sín séreinkenni í hegðun og háttum, eins og við höfum öll í einhverjum mæli. Börn með AMO hafa ekki stjórn á þáttum eins og :
|
AMO eða ofvirkni |
Í bókinni velur höfundur að nota orðalagið barn með AMO en í daglegu tali hefur orðið ofvirkur verið notað um greininguna. Höfundur talar um að orðið ofvirkur hafi frekar neikvæða skírskotun. Ég get tekið undir það með höfundi en mín tilfinning er sú að umræða sé að breytast með auknum skilningi á vanda þessara barna. Þessi bók er mjög þörf og góð viðbót til að auka jákvæðni og skilning á erfiðleikum þeirra sem glíma við AMO. |
Góð ráð og ábendingar |
Höfundur fjallar því næst um skólann og börn með AMO. Í upphafi kaflans eru mörg góð ráð og ábendingar til kennara varðandi samskipti við börn með AMO. Ábendingar sem gera kennara meðvitaðri um stöðu sína gagnvart sjálfum sér og nemendum. Þessar ábendingar eiga ekki bara við um nemendur með AMO heldur öll krefjandi verkefni sem kennarar glíma við. Besta innleggið fannst mér vera:
|
Til hjálpar í kennslu |
Ábendingar eins og þessi og margar fleiri styrkja kennara í starfi og fá þá til að beina sjónum sínum að vandanum og horfa framhjá eigin tilfinningum. Höfundur bendir jafnframt á að nemendur með AMO séu krefjandi einstaklingar sem þurfa aðhald, styrkingu og hrós allan daginn. Þar af leiðandi geti þeir ekki eingöngu verið á ábyrgð umsjónarkennara, heldur alls starfsfólks skólans, hvort heldur sem er sundlaugarvörðurinn, skólastjórinn eða gangavörðurinn. |
Góðar ábendingar |
Einnig kemur höfundur með góðar ábendingar og ráð varðandi hvað þarf að hafa í huga þegar kennarar eru að skipuleggja kennslu fyrir nemendur með AMO. Dæmi :
|
Þekking og reynsla höfunar |
Mér finnst þessi ráð afar uppbyggileg og jákvæð og ættu að fá kennara til að eflast við það að glíma við erfiðleikana sem þarf oft að yfirstíga í samskiptum og við skipulagningu á kennslu fyrir nemendur með AMO og fleiri. Þessar ábendingar og ráð gefa til kynna að höfundur hafi mikla þekkingu og reynslu af því að vinna með börn með AMO. |
Sýn nema með AMO á skólann |
Í framhaldi af þessu fjallar höfundur um sýn nemanda með AMO á skólann. Það er gert af mikilli kunnáttu og skilningi á vanda þessara barna innan skólans. |
Gullkorn |
Það sem kryddar umfjöllunina og eykur að mínu mati skilning kennara og annarra eru stutt innskot, Gullkorn frá nemendum með AMO. Þau gefa góða innsýn í líðan þessara barna og hvernig þau upplifa sig sem
persónur.
|
Um aðstæður heimilanna |
Í bókinni fjallar höfundur einnig um aðstæður heimilanna og hvernig skólinn geti best komið til móts við heimilið varðandi samskipti og heimanám. Meta þarf hvert einstakt tilfelli og vinna út frá þörfum einstaklingsins og heimilisaðstæðum. Höfundur leggur mikla áherslu á að það sé gert á jákvæðan hátt og að ekki megi gleyma að draga fram það sem gert er vel. Það er lykillinn að því að fá foreldra í gott samstarf við skólann. Einnig eru í bókinni góð ráð til foreldra varðandi það hvernig hægt er að virkja þessi börn félagslega og koma þeim í einhverja tómstundaiðju. Þetta er áhugaverður punktur því börn með AMO eru oft mjög félagslega einangruð. |
Um fyrir- byggjandi aðgerðir |
Höfundur fjallar því næst um fyrirbyggjandi aðgerðir og hvernig hægt sé að koma í veg fyrir óæskilegt atferli. Þar eru mörg góð ráð bæði varðandi hegðunarmótandi aðferðir og hvernig hægt sé að virkja nemandann sem best í námi. Þetta eru hugmyndir af ýmsum gerðum, allt frá atferlismótandi aðgerðum, umbunarkerfi, einveru og niður í vægari aðgerðir, þannig að allir kennarar ættu að finna eitthvað sem gæti nýst þeim. |
Þrautaráð | Í framhaldi af kaflanum um fyrirbyggandi aðgerðir er svo að finna þrautaráð. Þar er fjallað um ýmsar þrautalendingar varðandi börn með AMO þegar skólinn er búinn að reyna allt til að finna farsæla lausn á skólagöngu nemandans. |
Hagnýt atriði dregin saman |
Í lokin dregur höfundur svo saman ýmis hagnýt atriði varðandi vinnu með nemendur með AMO. Þetta er góð samantekt sem gott er að grípa til ef kennarar eru búnir að vera að glíma við erfið verkefni í kennslu. Þar geta þeir fengið góð ráð og hugmyndir og endurnýjað krafta sína. |
Góð bók og fræðandi |
Bókin er í heild mjög góð. Hún er fræðandi, gefur kennurum og öðrum sem vinna með börn með AMO góða innsýn og aukinn skilning á vanda þessara barna. Ráðin og hugmyndirnar að vinnu með börnin eru mjög fjölbreytt og ættu að geta nýst öllum þeim sem vinna með þessi börn eða eru að glíma við erfið verkefni innan skólanna. |
Hafsjór af góðum ráðum |
Undirrituð hefur bæði sem umsjónarkennari og sérkennari unnið mikið með nemendur með AMO. Oft var mikil leit að góðum ráðum. Þá hefði verið mikill fengur í bók sem þessari, því í henni er hafsjór af góðum ráðum og hugmyndum um hvernig best sé að tala við þessi börn, skipuleggja vinnu þeirra inni í bekk, skipuleggja samskiptin við heimilin og síðast en ekki síst hegðunarmótandi aðgerðir til að auðvelda þessum börnum veruna í skólanum og samfélaginu. Ég hef nýtt mér margar hugmyndir sem fram koma í bókinni með góðum árangri í kennslu barna með AMO í bekkjarkennslu sem og í sérkennslu. |
Lestu Ofvirkni- bókina! |
Bók sem enginn kennari ætti að láta fram hjá sér fara!!! |
2001 - haust | Guðrún Þórðardóttir sérkennari |
Efst á þessa síðu * Forsíða * Ofvirknivefur * Ofvirknibók * Umsagnir