Forsíða
Ofvirknivefur
Ofvirknibók 
Kjörþögli
Kærleiksspilið
Umsagnir 
© Ragna Freyja Karlsdóttir, sérkennari:


Kennsla ofvirkra nemenda -

Ráðabanki


Til þess sem notar þessi ráð:

  • Þessi ráð hafa reynst vel við kennslu ofvirkra nemenda.
  • Það verður þó að vega og meta hvað hverjum einstaklingi hentar best hverju sinni og haga kennslunni eftir því.
1 Nýtið alla fræðslu sem í boði er um þetta efni: bækur, greinar, námskeið og fleira.
2 Námsmat. Kennslan verður að byggja á raunhæfri námsstöðu nemandans.
3 Kennsluáætlunin byggist á námsmatinu og þannig er tryggt að námsefnið sé við hæfi nemandans.
4 Gætið þess að halda föstu skipulagi í kennslustofunni. Hafið námsbækur og námsgögn á tilteknum stöðum og setjið fáar en ákveðnar reglur. Gætið samkvæmni og fylgið reglum og fyrirmælum vel eftir.
5 Staðsetjið nemanda í kennslustofu nálægt kennara, þó ekki þar sem ónæðis er von svo sem við dyr eða glugga.
6 Það þykir gefast betur að bóklegar greinar séu í fyrstu tímum nemandans.
7 Yfirleitt er æskilegt að nemandinn sitji alltaf á sama stað.
8 Reynst hefur vel að láta nemandann sitja einan við borð eða nálægt öðrum nemanda sem vinnur af einbeitingu en þá þarf einnig að styðja þann nemanda.
9 Í byrjun skóladags er nauðsynlegt að fara yfir stundaskrá dagsins með nemandanum.
10 Í lok skóladags hjálpar það nemandanum að rifja örstutt upp hvað gekk vel og hvað má betur fara.
11 Verkefni verða að vera við hæfi og taka mið af námsmati og líðan nemandans hverju sinni. Verkefnin þurfa að vera skýr, afmörkuð og hlutlæg.
12 Fyrirmæli þurfa að vera skýr og einföld og í fáum orðum. Gangið úr skugga um að nemandinn skilji fyrirmælin - til dæmis með því að hann endursegi þau með eigin orðum.
13 Í frímínútum og við aðrar óskipulegar aðstæður svo sem ferðir milli kennslustofa, í íþróttahús o.s.frv. verða árekstrar tíðastir og þar er þörf sérstakrar aðstoðar.
14 Allar breytingar þarf að tala um með góðum fyrirvara, hvað á að gerast, hver kemur osfrv.
15 Kennið þá hegðun sem við á - svo sem að heilsa og kveðja, bíða, fara í röð, banka á dyr, bjóða góðan dag og svo framvegis.
16 Mótið rólegt andrúmsloft að loknum óskipulegum aðstæður s.s. frímínútum, til dæmis með því að lesa sögu í nestistíma.
17 Athugið sérstaklega: Nemandinn er í skólanum til að tileinka sér ákveðin vinnubrögð og læra. Hann á að ljúka verkefnum áður er hann byrjar á nýjum. Ef þessu er ekki fylgt veldur það óöryggi og óróleika.
18 Ofvirkur nemandi þolir illa bið og það þarf að kenna honum að bíða eftir aðstoð. Sinnið honum oft í fyrstu en dragið síðan úr með viðeigandi skýringu.
19 Prófkvíði: ofvirkur nemandi þarf lengri tíma en aðrir til að leysa verkefni. Æskilegt er að hann eigi kost á lengri úrvinnslutíma til að svara skriflega eða að kennari skrái svörin. Hann getur líka svarað munnlega inn á segulband. Nemandinn verður rólegri ef hann veit fyrirfram hvernig prófaðstæður verða.
20 Hagnýtið hljóðbækur eins og kostur er. Gefið nemandanum kost á að fara heim með snældu og hlusta á hana þar. Læs nemandi fylgist með á bókinni. Nýtið einnig öll hjálpargögn sem að gagni mega koma til dæmis tölvur og vasareikna.
21 Þrautaverkefnabók getur verið mjög hentug. Þá er safnað saman í hefti þrautum og gátum sem nemandinn getur gripið í milli verkefna.
22 Virðing fyrir vinnu nemanda. Bendið á það sem betur má fara t.d. í vinnubrögðum, uppsetningu verkefna og fleiru. Farið yfir yfir öll verkefni daglega, leiðréttið þau og endurbætið, dagsetjið og staðfestið með nafni.
23 Atferlismótandi aðgerðir - umbunarkerfi. Umbun verður að vera eftirsóknarverð og vísa nemandanum rétta leið.
24 Sumir nemendur einbeita sér betur ef þeir geta handfjatlað eitthvað eða hlusta á lágværa tónlist á meðan þeir vinna.
25 Samskiptabók gerir oft gæfumuninn. Dragið fram það jákvæða. Óþarft er að tíunda fyrir foreldrum og forráðamönnum það sem miður fer. Ef skrifað er: „Gengur betur á morgun" þá skilja þeir það.
26 Best er að leysa í skólanum þau vandamál sem þar koma upp. Látið nemandann ekki fara heim fyrr en búið er að ræða við hann um mál/atburði þannig að hann fari úr skólanum í jafnvægi en ekki reiður, grátandi eða sár.
27 Ef óæskileg hegðun kemur upp í kennslustund verður að fjarlægja nemandann. Ef bekkjarkennari hefur ekki aðstoð inni í bekknum eða getur ekki kallað strax eftir aðstoð, verður hann sjálfur að losa nemandann úr hinum óæskilegu aðstæðum. Hjálpið honum út úr stofunni, helst þangað sem einhver annar aðili getur tekið á móti honum og liðsinnt honum. Leggið áherslu á að þessi aðgerð er hjálp við nemandann en ekki refsing. Þegar hann nær jafnvægi á ný kemur hann aftur inn í tíma.
28 Þegar nemandinn á að vinna heimaverkefni er nauðsynlegt að nota samskiptabókina. Hafið samráð við foreldra/forráðamenn og skipuleggið hvar og hvenær vinnan skal unnin og einnig hvíldir og umbun.
29 Best er að nemendur geti lokið við heimanámið í skólanum eða tengdum stað eins og heilsdagsskóla eða athvarfi.
30 Gott ráð og áhrifaríkt: hringið heim til nemandans og látið vita þegar vel gengur í skólanum.
31 Notið hrós sem umbun þegar tækifæri gefast. Búið tækifærin til ef þau gefast ekki á annan hátt. Tengið hrósið námi, hegðun, æskilegu atferli, samskiptum, jákvæðum samskiptum og svo framvegis.
32 Leggið áherslu á sterkar hliðar nemandans með því að draga fram styrkleika hans, þá er auðveldara að sætta sig við veikleikana. Þetta á við um skóla og heimili.
33 Hafið ætíð þessi lykilatriði í huga: Skipulag - ákveðni - festa - samkvæmni - hlýleg orð - uppörvun - hrós - og bros!

Efst á þessa síðu * Forsíða * Ofvirknivefur * OfvirknibókUmsagnir