Forsíða

Uppfært
14.6.2000

Frásögn af
Hvítasunnumóti
niðja Petrínar Pétursdóttur og Jakobs Hálfdanarsonar
við Mývatn 9. - 11. júní 2000

Ættarvefurinn: http://www.gopfrettir.net/jakob.htm
>> Þátttakendalistinn * Undirbúningssagan * Gistikostir við Mývatn
Föstudagur
9. júní

CB-rás 27
Upp úr kl. 18 hittumst við í Gamla bænum við Hótel Reynihlíð.

Gamli bærinn er gamli Reykjahlíðarbærinn sem hefur verið gerður upp og þar er nú matsala við vægu verði og krá. Þar var einnig að hafa vökva fyrir okkur sem erum orðin léleg í áfenginu - eða höfum lokið okkar æviskammti.

Skráð var í ættartalið. Afhent barmmerki og dagskrá en aftan á henni var ættartréð svo auðvelt var að staðsetja sjálfan sig og aðra ættingja.

Lögð var áhersla á að menn keyptu eintök af bók Jakobs Hálfdanarsonar - því hún er auðvitað alveg nauðsynleg!!

Þar var einnig innheimtur aðgangseyrir að Safnahúsinu á Húsavík - sem var kr. 300 fyrir fullorðna og kr. 50 fyrir 6 - 16 ára. Safnahúsið veitti síðan hópafslátt og var hann notaður til að fjármagna hluta af undirbúningskostnaði við mótið.

Laugardagur
10. júní
Húsavíkurferð á eigin bílum
Í samflotinu héldum við hópinn með því að hafa tiltekin bíl fyrstan og annan síðastan. Þeir sem höfðu CB-stöð notuðu CB-rás 27. Þeir sem kunnugir voru Jakobsbókinni stóðu vel að vígi þegar farið var um slóðir hans og Safnahúsið skoðað.
  • Kl. 10 komum við saman á hlaðinu á Grímsstöðum við Mývatn hjá Hauki Aðalgeirssyni og nutum hans leiðsagnar. Hann hafði málverk af gömlu húsunum og ljósrit af teiknaðri mynd úr skrifstofuhorni Jakobs. (Af Grímsstaðabúskapnum segir Jakob frá bls. 30 í bókinni). Síðan ókum við til Húsavíkur.
  • Kl. 11:30 komum við í Safnahúsið til Guðna Halldórssonar.
  • Kl. 13:00 var ekið í fylgd Sigurjóns Jóhannessonar að gamla kirkjugarðinum þar sem er leiði Jakobs og síðan niður að Kaupfélaginu og að Jaðri Þar sem bílunum var lagt á bílastæðið þar sem áður stóð hús Gísla læknis Péturssonar en það var síðar notað sem hótel og brann laust eftir 1960. Við litum inn í Jaðar en Börkur í Gamla Bauki var að gera húsið upp til veitingareksturs. Jaðar (reist 20. júlí 1883), er húsið sem Jakob (borgarabréf 1882) byggði og átti að hálfu á móti Kaupfélaginu. Í það hálfkarað flutti Jakob í október 1884. Þar ólust upp (Guðrún f.1861 var gift Friðriki Guðmundssyni sem vann fyrir Jakob - amk stundum,) Jón Ármann (1866), Hálfdan (1873), Herdís (1875), Jakobína (1877) og Aðalbjörg (1879).
  • Kl. 14 - 15 fengum við okkur kaffi í veitingahúsinu Gamla bauki við höfnina hjá Berki Emilssyni. Þar hvíldum við okkur og Sigurjón sagði okkur sitt hvað sem tengdist Jakobi og samtíma hans.
  • Frá Gamla bauki fórum við að upptökum Eiríkslæks þar sem hann var grafinn úr Botnsánni og leiddur langa leið meðfram fjallinu og að lokum niður til sjávar nærri Jaðri.
  • Á heimleið komum við í Reykjahlíðarkirkju og skoðuðum hana og leiðin í kirkjugarðinum Þar er einn steinn með þessari áletrun: Hálfdán og Aðalbjörg og ástmenni sex en engin ártöl. Við leyfðum okkur að álykta að þar gætu verið foreldrar Jakobs.
Hátíðar-
kvöldið
Kl. 18:30 - 01

Myndir
á vefinn

Dreifumst

Segjumst

Gleðjumst

  • kl. 18.30 > Komum við í borðsalinn og spáðum í sætaskipan. Notuð var sú einfalda regla að ekki sætu þeir saman sem væru af sama ættarlegg. Það tókst vel.
  • Undir borðum komu fjölskyldur og ættleggir upp, sögðu af sér og foreldrum og skyldmennum til Jakobs og þá voru teknar myndir.
  • Á hótelinu var aðstaða til að horfa á video og þegar leið á borðhaldið nýttu börnin sér þá aðstöðu.
  • kl. 23 - þegar þessari kynningarumferð var lokið og myndatökum voru myndir teknar af kynslóðum. Af þeirri elstu voru aðeins Guðrún Gísladóttir og Dagbjört Jónsdóttir. Fjölmenn var næsta kynslóð - og enn fjölmennari sú þriðja og sú fjórða.
  • Á kaffihúsinu í Gamla bænum var þetta kvöld hljómsveit sem hélt uppi gleði og þangað fóru sumir hinna yngri. Þeir eldri færðu sig til og sátu þéttar og spjölluðu saman uns klukkan var orðin 01.

Matarverð var kr. 2.500 fyrir 12 ára og eldri.

11. júní

Hvíta-
sunnu
dagur

Kl. 11-12 hittumst og kvöddumst framan við hótel Reynihlíð og Gamla bæinn.

Sumir héldu heimleiðis en aðrir fóru saman um sveitina. Þeir sem fóru með ritara komu að Kröfluvirkjun og að hveraröndinni í Námaskarði, gengu í Dimmuborgir, dokuðu andartak við í Höfða og óku síðan að Brettingsstöðum og reyndu að spá í hvernig gamli bærinn hefði snúið með því að bera rústirnar saman við teikningu Petrínar í Jakobsbók.

Um kvöldið sátum við sum saman í Gamla bænum en aðrir í Vogum og í Hlíð. Í því vorum við ekki nógu skipulögð!!

Eftir á

hyggja
Um það sem talin höfðu verið nytsöm atriði:
  • Geislaspilara notuðum við ekki. Hægt hefði verið að setja upp spilverk og dansa í matarsalnum en það hefði ekki verið heppilegt því að við sátum þar og spjölluðum saman og vorum feginn að vera laus við hávaða.
  • Af þessum ástæðum notuðum við ekki heldur neina geisladiska. Hljómsveitin í Gamla bænum var góður kostur fyrir þá sem fýsti í hljómlistina.
  • Við notuðum CB-talstöðvar og notuðum rás 27.
Ættarmótið
Texti: GÓP - Lag: Bellman (Gamli Nói) -
Allir fluttu þessa setningarræðu mótsins !!
Ættarmótið,
ættarmótið,
einu sinni enn!
Allir koma saman
afskaplega gaman!
Erum saman,
erum saman
einu sinni enn!
Allir koma,
allir koma
uppábúnir hér!
Afi minn og amma,
pabbi minn
og mamma
vilja alltaf, vilja alltaf
vaka yfir mér.
Margir skyldir,
margir skyldir
mættir eru hér:
frændur mínir góðir,
frænka, systir, bróðir!
gleðjast allir,
gleðjast allir,
gleðjast yfir mér!
Tímar líða, tímar líða,
tökum hönd í hönd!
Munum ættarmótin,
munum vinahótin!
Tölum saman,
tökum saman,
treystum okkar bönd!

GÓP-fréttir - forsíða