Forsíða
Tengibrautin


Þórsmörk - Álftavatn -
Hrafntinnusker

Helgarferð 25. - 26. september 1999 *
Myndasíður nr. 1 - nr. 2 - nr. 3 - nr. 4

Hér voru saman á ferð kennarar úr MK með fjölskyldur. Þar var

  • leiðangursstjórinn Sigurður Þ. Ragnarsson og Hólmfríður með Þóri Snæ,
  • Sólveig Guðmundsdóttir og Guðjón,
  • Rúnar Þorvaldsson og Jakobína,
  • Jóhann Ísak, Ingibjörg Haraldsdóttir og Þórhildur Oddsdóttir,
  • Kristján Rafn Heiðarsson, Hildur og þeirra börn,
  • Guðmundur Jónsson og Birna með Þórunni svo og
  • Samúel Lefever og Salóme og GÓP sem er ritari.
Mildir dagar Hlýir vindar léku um landið vikuna alla með sól og sindri fyrst en síðan háum skýjaþökum og yl um nætur. Þá héldum við á sex bílum austur bjartar og mildar sveitir í september sem heldur að hann sé á sumri. Samt voru haustlitir í hlíðum og skyggnið var aldeilis frábært þótt sól væri ofar skýjum. Áður en varði vorum við 15 saman komin í Hlíðarenda á Hvolsvelli og leiðangursstjóri færði okkur ferðar-ritið.
Lágværar ár Mildur er malbikaði vegurinn austur Landeyjarnar og hár þrumaði Seljalandsfossinn kveðju til okkar er við ókum þar hjá. Gamla Markarfljótsbrúin er orðin sliguð og farlama og lokuð allri umferð. Þar héldum við inn með Fljótinu og ókum lækina og Ljósá og hjá Nauthúsagili þar sem nú er kominn vegur að hlíðinni. Áfram tíndum við upp lækina. Fyrst var Sauðá sem rennur úr Merkurkerinu, þá Fremri Akstaðaá og síðan sú innri. Þá vorum við á sandinum og senn við Jökullónið. Jökulsá var kyrrlát og haustblíð - og við ókum yfir hana.

Okkur var starsýnt á Gígjökulinn sem skríður niður í Lónið. Hann hefur hopað slík býsn á næstliðnum áratugum að nú er hann vart svipur hjá sjón. Eyjafjallajökullinn gaus síðast árið 1823 og skriðjökullinn rennur út úr gígskálinni.

Gígjökullinn er milli tveggja gríðarlegra malarfella sem ef til vill hafa orðið til við það að þungi jökulsins hlassaðist ofan í eðjugrautinn við rætur fjallsins og þrýsti þá upp þessum háu malarsköflum sitt hvorum megin. Þetta er kenningin sem hefur svo eftirminnilegt heiti - en maður nefnir vart í svona frásögn - sennilega vegna hennar vísindalegu tilvísunar.

Inn á Mörk Stóru malarfellin sem halda að Gígjöklinum heita Skoltar, Fremri og Innri Skoltur. Frá Lóninu er ekið yfri Innri Skolt í Hoftorfu og um grófar urðir að Steinsholtsá. Hún er nú jafnan hæg og blíð, gott að komast að henni og upp úr aftur. Þrætt er milli stór-bjarga sem ruddust hingað í flóði úr Steinsholtsjökli í janúar 1967 og voru þá raunar eins og smásmíði hjá þeim ísjökum sem þöktu þessar eyrar. Leiðin liggur hjá grasbalanum í Fagraskógi og ekið inn með Stakkholti, hjá Stakkholtsgjánni og Stakknum. Þá er komið á Hvannáreyrar. Hún er alltaf skaphörð og óvægin, fossar um sinn grófa aur og hreytir skvettum á gesti. Yfir hana fórum við fimlega. Þá vorum við á Goðalandi og ókum hjá Álfakirkjunni fram á Krossáraurinn við Langadal. Krossá var ekki svo lítil en þó í engum ham og þegar við komum yfir hana vorum við á Þórsmörk hjá Skagfjörðsskála. Myndasíðan geymir Krossár-myndir!
Valahnúkur Allir gengu á Valahnúk. Veðrið var yndislegt í blíðu stillilogni undir háum skýjum. Úr sinni efstu stöðu eygði hver fegurð umhverfisins og naut augnabliksins. Þar var einnig á ferð fríður hópur MK-sérsveitar er útskrifaðirst fyrir liðlega tuttugu árum. Þar stóðu menn á spjalli og teygðu á augnablikinu. Upp í hugann kemur gamla vísan:

Öndin kemst á æðra stig
- yndi býr í sinni -
hamingjurnar heiðra mig
hér á Þórsmörkinni.

Útsýni er frábært af Valahnúki bæði fram til vesturs, inn um mörkina og norður til Hattfells og þeirra fella er horfa í Álftavatnið - en þangað var heitið flugi áður en dvínaði dagur.

Klukkan
fjögur
Við runnum frá Langadal og komum í Bása. Þar gengum við í hann Myndahvamm en héldum svo áleiðis niður á Markarfljótsbrú. Á leiðinni vorum við í sambandi við sjöunda bílinn sem við svo hittum við Barkarstaði í Fljótshlíð. Þar var fagnaðarfundur.
Álftavatn Að Álftavatni komum við klukkan 18:45 og höfðu menn á orði að ekki einasta sæi leiðangursstjórinn um veðrið heldur væri hann einnig nákvæmur á öllum tímasetningum í sinni áætlun. Myndasíðan geymir myndir frá þessari stundu! Innan skamms var grillið orðið heitt og kvöldloginn lék í hlýrri nóttinni. Kokkurinn útbjó dýrðlega máltíð og menn urðu bara sælli og sælli og nóttin var lengi ung.

Næsta morgun klukkan 8 vaknaði Þorgeir Helgi af sínum æskublundi en allir aðrir sváfu. Hæ! sagði Þorgeir Helgi við daginn og tilveruna. Úti var Álftavatnið töfrum slegið í dagrenningunni:

Álftavatn úr niði nætur
nú er slegið töfrablæ.
Þytur dagsins þýðast lætur.
Þorgeir Helgi segir: Hæ!

Torfahlaup Það er ævintýri að aka að Torfahlaupi því ekið er endilangt Álftavatnið. Að vísu er farið með bökkum! Í spegilsléttu vatninu runnu myndir bílanna og við komum að hlaupinu sem sagt er að Torfi hafi hlaupið yfir með meyna í fanginu. Sumir eru þó svo jarðbundnir að halda að Torfa-nafnið sé dregið af hinum gríðarþykku gróðurtorfum sem einkenna þetta landssvæði og hlaup-nafnið sé dregið af straumþunga Markarfljótsins í leysingum.
Laufi
í
Markar-
fljóti
Nú var haldið til baka um Álftavatnið og ekið austur að Markarfljóti og yfir það hjá Laufafelli. Skammt vestan þess greinast leiðir og prestur vísar til Hrafntinnuskers. Þegar kemur norður fyrir Laufafellið er afleggjari niður með Fljótinu að fögrum fossi. Nafn hans kallar á sérstakt innskot í þessa ferðarlýsingu.

Þorsteinn Oddsson heitir maður. Hann er á níræðisaldri og býr á Hellu þar sem heitir Nestún 23 og hefur símana 487-5174 og 896-6874. Þorsteinn er afar staðkunnugur á afréttinum og hefur ritað lýsingu hans í Goðastein sem er rit Héraðsnefndar Rangæinga. Hann hefur einnig verið leiðsögumaður fyrir Ferðafélagið á þessum slóðum og liðsinnt fjölda manns á langri ævi. Hann segir ritara svo frá að þessi foss hafi aldrei haft neitt nafn svo vitað sé. Leitarmenn eigi þangað sjaldan leið og fossinn þá jafnan nefndur fossinn norðan Laufafells.

Skömmu eftir 1980 var Þorsteinn í ferð þar með Ferðafélagsfólki og var beðinn að gefa fossinum nafn. Hann féllst á það og gaf honum nafnið Lýsingur

Samt er það svo að ritari leggur til að notað verði nafnið Laufi á þennan fallega foss. Fyrir því eru tvær ástæður. Önnur er sú að hann notar nafnið Lýsingur á staka, ljósa fjallið suðvestan Ljósufjalla á Jökulheimaleið. Hin er sú að með nafninu Laufi kallast þau á, fossinn og Laufafellið sem gnæfir við hliðina. 

Hrafntinnu-
sker
Leiðin liggur meðfram Markarfljótinu sem nú er að mestu ljúfur lækur og rennur eftir Reykjadal og umhverfis Hrafntinnuhraunið. Vegurinn er alveg ágætur og um leið bæði fjölbreyttur og fjölbugðóttur og all erfiður fyrir hópbíla. Hvergi voru fannir nærri vegi en jökulskerið, sjálft Hraftinnuskerið, geymdi sinn stóra helli og þar var mikilfenglegt að koma. Hlýindin leystu vatn í stríðum straumum niður jökulstálið og virtist sem skerið hefði nokkuð hjaðnað næstliðin ár.
Um Poka-
hrygg

Tröllkonu-
hlaupi
Nú var haldið til baka norður að Pokahryggnum vestur af Mógilshöfðanum þeim minni. Þar er nokkuð bratt upp en mikið útsýni yfir nærlendið og til fjærstu jökla. Að þessu sinni sáum við meira til Hrafntinnufjallsins en dálítill þokuslæðingur fól fyrir okkur Löðmund og hans frændur og Hofsjökul. Það hefur sjálfsagt verið í því skyni að við kæmum þar skjótt aftur til að njóta þess sem nú var misst.

Þessar leiðir eru langar og við runnum viðstöðulítið niður að Sátubarni, ókum yfir Helliskvísl undir Sauðleysum, hjá Rauðufossafjöllum og Valahnúkum, hjá Skjólkvíum og gegnum Sölvahraun á veginn við farveg Þjórsár niður með Búrfelli - þar sem einu sinni var vatnsmikill foss við Tröllkonuhlaup.

Tröllkonuhlaup er enn til staðar - en þar er ekki lengur einn einasti Þjórsárdropi. Ennþá er það nokkuð framandlegt -en mun sjálfsagt venjast vel. Senn munu menn finna akstursleið yfir farveginn og komast þá auðveldlega í Búrfellskóg.

Kveðjur og
þakkir
Hér kvöddust menn og kysstust með kærri þökk fyrir frábæra samfylgd um einstaklega fallegt og margbreytilegt svæði. Allir voru í Reykjavík fyrir klukkan 20. Enn og aftur sendir ritari ferðafélögunum sínar bestu kveðjur.

Efst á þessa síðu * Myndasíður  nr. 1 - nr. 2 - nr. 3 - nr. 4  * GÓP-fréttir - forsíða