GÓP-fréttir * Forsíða * Ferðatorg * *

Vonarskarð * Ferðatorg * Ferðafrelsi


 Óbyggðir og öræfi - hin íslenska almannaeign

Ferðafrelsi
> Viðhorf <
Verjum umferðarrétt almennings
Áskorun.pdf!!

Almenningur er m.a. börn, barnafólk, fólk á besta aldri, aldrað fólk, önnum kafið fólk, fólk með rúman tíma, hálaunafólk, láglaunafólk, meira og líka minna menntað fólk, fullfært fólk, hjartveikt fólk, fatlað fólk, örorkufólk, bæklað fólk, fólk sem á stutt eftir - og almennt ferðafólk.  Fólk sem nýtur þeirrar lífsfyllingar að fara fetið um fjallasali - í öryggi bíls. Yfir 90% Íslendinga.
Fólk sem af ótal ástæðum getur ekki uppfyllt þau ólympisku markmið sem íslenskar öræfagöngur krefjast - en er hins vegar svo heppið að víðast um íslensk öræfi er vel bílfært og engra vega þörf.

Öræfagönguhetjur hafa víðáttumikil svæði þar sem engum bíl er fært.


Myndina tók Jón Egill Karlsson af Gjóstubrún 22. okt. 2005 kl. 13:17
suður yfir eyðimörkina, breiðveginn um Vonarskarð.
Músaðu hér til að sjá myndirnar úr ferðinni.

Eyði-
mörkin

Náttúra Vonarskarðs
Vonarskarð er gróðurlaus meladalur milli tveggja jökla. Þótt í dalnum séu vatnaskil til norðurs og suðurs er rennslissvæðið breitt og nærri lárétt sem veldur því að vötn eru straumlítil og sandbleytur varasamar mönnum og skepnum. Þrátt fyrir vatnaganginn er Vonarskarð gróðursnauð eyðimörk þar sem enginn grasbítur getur snapað í sig nema sá sem fyrstur kemur síðla sumars í Snapadal - og stendur stutt við. Á leysingatímum standa vötn hátt, flæmast um tveggja kílómetra breiðan dalbotninn og eira þar engum gróðri. 

Gróður-
far
í
Vonar-
skarði

Gróðurfar norðan Gjóstu má ókunnur marka af frásögn Haraldar Matthíassonar í Árbók FÍ 1963 á bls. 38: "... við höldum norður úr Gjóstu og leitum tjaldstaðar. Gras er auðvitað hvergi, og eftir skamma leit veljum við tjaldstað austan undir melbarði við Skjálfandafljót, skammt norður af Valafelli. Þar er slétt eyri með dálitlum mosagróðri og festingar því lélegar fyrir tjaldhæla. Tjaldeyri er um 910 m yfir sjávarmál."

Gróðurfar sunnan Gjóstu má marka af frásögn Haraldar í sömu bók á bls. 56: "Framundan okkur blasir við dalverpi vestan undir Deili, milli" (Eggja) "og suðausturálmu Göngubrúnar. Dalbotninn er iðgrænn yfir að líta, og stingur það mjög í stúf við svartan sandinn annars staðar í Vonarskarði. Gróðurinn reyndist þó öllu minni en við héldum. Græni liturinn stafar mest frá mosa, sem þekur allan Dalbotninn. Gras sést þó, en ekki er það mikið. Gróður þessi stafar vafalaust af ívolgum vatnsrásum, sem kvíslast um sendinn dalbotninn. Ekki væri þetta góður hagi svöngum hestum. Samt voru ferðamenn hér með 25 hesta náttlangt 25. júlí 1944. Nú, er við skoðum þennan stað 18 árum síðar, virðast þar fremur snapir en hagar, enda köllum við dalinn Snapadal."

Árið 2013 - hálfri öld eftir skrif Haraldar er allt við sama um gróðurfar í Vonarskarði.


Mynd GÓP tekin af Gjóstubrún 22. okt. 2005 kl. 13:16
Músaðu hér til að sjá þær allar.

Til vinstri er Vatnajökull með Bárðarbungu við himin en gróðurlaus fell og tiltölulega mjótt jökulölduland niður að vatnasvæðinu á breiðum dalbotninum. Hægra megin við miðja mynd er í fjarskanum Hamarinn í Vatnajökli. Nær hefjast vesturfjöll Vonarskarðsins með Svarthöfða og Kolufelli sem er stærra og hærra. Þar tekur Skrauti við og er allur ljósari. Deilir er dökkur og mun lægri lengst til hægri. Á móts við hann eru vatnaskilin. Austan (hér vinstra megin) við Svarthöfða er "þar sem Kaldakvísl kemur úr Vonarskarði."

Bárðar-
gata

 - merkustu ferðaminjar Íslandssögunnar
Sagan af för Bárðar úr Bárðardal suður í Fljótshverfi berst íslenskri skólaæsku til eyrna á ævintýraþyrstasta æviskeiðinu. Ævintýraleiðir lífsins eru margvíslegar en fjölmargir hneigjast til ferða um hálendið og þeim er Vonarskarð bæði hinn huglægi og landfræðilegi miðpunktur. Hér verður stuttlega fjallað um leiðir úr norðri og leiðir til suðurs áður en sjónum verður sérstaklega beint að Vonarskarði sjálfu.

 

Í Landnámu segir: "Bárður, sonur Heyjangurs-Bjarnar, kom skipi sínu í Skjálfandafljótsós og nam Bárðardal allan upp frá Kálfborgará og Eyjadalsá, og bjó að Lundarbrekku um hríð. Þá markaði hann af veðrum að landviðri voru betri en hafviðri og ætlaði af því betri lönd fyrir sunnan heiði. Hann sendi sonu sína suður um góu. Þá fundu þeir góubeytla og annan gróður. Vorið eftir gerði Bárður kjálka hverju kvikindi,  því er gengt var, og lét hvað draga sitt fóður og fjárhlut. Hann fór Vonarskarð, þar er síðan heitir Bárðargata. Hann nam síðan Fljótshverfi og bjó að Gnúpum. Þá var hann kallaður Gnúpa-Bárður."

 

Haraldur Matthíasson segir í Árbók FÍ 1963 - á bls. 10: "Þegar ég á barnsaldri las fyrst Landnámu, varð þessi saga mér minnisstæðari en allt annað efni hennar, frásögnin um landnemann, sem heillaðist svo af hlýjum sunnan vindum, að hann lagði upp í hinn tvísýnasta búferlaflutning, sem átt hefur sér stað á Íslandi."

 

Suður
til
Vonar-
skarðs

Norðanleiðir til Vonarskarðs
Góa er fimmti mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu og hefst á sunnudegi í átjándu viku vetrar, eða 18. til 24. febrúar. Vorið 2010 - þegar þessi samantekt er rituð - reyndist veðurfar á Góu ekki vænlegt til ferðalaga. Þrátt fyrir almannaróm um hlýnun jarðar næstliðinn áratug gengu þetta árið yfir landið vetrarveður með frostum og fannkyngi svo að ekki var fýsilegt til rannsóknarferðar frá Lundarbrekku í Bárðardal suður um fjöll. Það leiðir hugann að mun hlýrri tímum í árferði á Íslandi fyrir 1000 árum þegar Vatnajökull var klofinn og Tungnaárjökull ekki til - og Bárðarsynir lagðir af stað suður með Skjálfandafljóti. Fyrsta úrlausnarefnið er hvernig komast má vestur yfir það. Best er að fara það á ísi - og til þrautavara á jökli ofan við framrás þess. Samtímafólk vissi allt um ferð þeirra og héraðspiltar sjálfsagt lengi síðar farið úr byggð beggja vegna jökulárinnar suður til Vonarskarðs - þótt slíkar ferðir hafi fallið niður þegar vetur urðu harðari og afkomustritið meira.
Leiðir um Vonarskarð og vegalengdir


Gróflega dregnar akstursleiðir og gönguleið frá Nýjadal í Snapadal.


Mynd GÓP: Brúin yfir Skjálfandafljót

Frá Fossaleiti suður á Gjóstubrún er greið leið - og tæplega 20 km löng.

Ferðamenn leggja
þó frekar leið sína
fyrst austur
að brúnni yfir Skjálfandafljót


Mynd GÓP: Fossinn Gjallandi

og þaðan upp með fljótinu að fossinum Gjallanda.

Hann er einn af sjálfsögðum skoðunar­stöðum svæðisins.

Harðir melar eru alls staðar undir á þessu svæði og góðar leiðir að Skjálfandafljóti bæði að Tjaldeyri og á þau svæði þar sem leita varð vaða áður en brú var byggð yfir fljótið.


Mynd PÖP: Hníflar og Valafell í suðri

Valafell er nú framundan til suðurs og leiðin liggur upp með því  að vestan.
Undir því austanverðu eru tvær litlar móbergshæðir sem í þessari fjarlægð minna helst á hnýfla, vanþroska horn á lömbun.

Sennilega hefur það verið fyrirmynd nafngiftarinnar - en líklegt er að breytileg viðhorf til stafsetningar hafi með tíð og tíma breytt rithættinum hér efra svo að nú skrást þeir einfaldlega sem Hníflar.


Mynd PÖP: Horft til Hníflanna.
Fjær ber hæst Innsta Bálkafell 1228m.

Afar góð leið er að Hníflunum og úrvals náttúrugert bílastæði á milli þeirra.

Þegar að þeim er komið rísa þeir tignir og eru gersemi gestum.

Allar þessar leiðir verða frostleysufærar síðsumars og eru á sumarfærðarlista Vegagerðarinnar.

Gjóstu
-
klif

Gjósta er fjallaskarð í um 1040 metra hæð yfir sjó. Austan þess er Valafellið tæplega 1200 metra hátt en vestan þess lyftast upp undirhlíðar Tungnafellsjökuls. Ekki þarf mikinn andvara til að gjóstur verði umtalsvert í þessu skarði sem af því dregur nafn sitt.

Myndina tók GÓP af Gjóstubrún 22. okt. 2005 kl. 13:15

Lengst til vinstri sést í Kolufellið. Næstur er Skrauti yfir hinum dökka Deili. Bak við hann gengur Snapadalur til suðvesturs. Þar eru heitar uppsprettur. Topparnir á hæðunum sem eru hægra megin heita fjærst Eggja en nær og stærst er Laugakúla. Milli þeirra er háhitasvæði. Lengst til hægri er upphaf Rauðukúlu. Norðan hennar eru upptök Rauðár en mennina ber í ísað rennsli hennar.


Myndina tók Pétur Örn Pétursson á leið niður Gjóstuklif 22. okt. 2005 kl. 13:30

Fram af skarðinu til suðurs er brött melbrekka sem nefnist Gjóstuklif
og var fyrst erfið bílum á norðurleið en á næstliðnum áratugum hefur
umferðin náð að velja um hana torséða en ágæta kambaleið.

 

Annað land undir
fótum og hjólum
sunnan Gjóstuklifs

Umskipti verða á ferðaleiðum þegar komið er niður Gjóstuklifið. Á síðustu árum hafa einstaka fámennir gönguhópar látið aka sér í Gjóstu og valið sér þaðan bílaleiðina eða fjallshlíðina. Hér verða skoðaðar bílaleiðirnar sem bundnari eru við sléttara land og enn meiri aðgát við bleytum.


Myndin er tekin 22. okt. 2005 kl. 14 - norður til Gjóstuklifs. Valafell til hægri.

Aðgát

Vegalengdin frá rótum Gjóstuklifs suður að vaðinu á Köldukvísl við Svarthöfða er um 9 km fyrir fuglinn fljúgandi en hér þarf ferðamaðurinn að gæta fóta sinna, reiðskjóta og farartækis að lenda ekki í kviku og sandbleytum.

Til
ökumanns

Almennt má ætla að deigsendi sem heldur gangandi manni alla leið yfir - megi aka á fjórdrifsbíl með því að halda nokkrum hraða - þeim mun greiðar sem deigara er.

Aðal-
leið

Leiðin liggur í brekkurótum og yfir deigjur og sandbleytuflæmi þar sem færðin fer eftir vatnsstöðu hverju sinni. Þannig tognar úr leiðinni svo hún allt að tvöfaldast ef farin er öruggasta melaleiðin suðaustur norðan Deilis og síðan suður að vaðinu.

Lauga-
leið

Önnur leið liggur vestan Deilis að mynni Snapadals og til jarðhitasvæðisins. Halda má þar áfram suður með Skrauta og Kolufelli og þaðan austur á melinn við vaðið. Sú leið er lítið eitt lengri. Hún er fjölbreyttari og um leið mun seinlegri yfirferðar.

 

Hverjir
fóru
hvert?

Ferðir um Vonarskarð að fornu og nýju

Hvert samfélag þekkir til þeirra samtímamanna sem öruggast er að leita til með erfið ferðaerindi. Afrek þeirra kunna að rata í minni nærstaddra en ekki - hvernig þeir öfluðu sér þeirrar þekkingar sem til þurfti, hvar þeir áður höfðu farið og í hverju lent. Sá sem fer um hálendið og milli jökla sér sjaldnast merki eftir mannaferðir síðasta sumars.
Lítt eru þekktar ferðir manna um Vonarskarð allt frá landnámstíð. Vissulega voru afréttarlönd smöluð og strokudýra leitað. Það voru nytjaferðir. Hinir þóttu undarlegir sem fóru um fjöllin til að eiga þar unaðsstundir og lífsfyllingu í því einu að njóta náttúrunnar og fara leiðirnar - án þess að hafa með sér veiðistöng að tæla vatnamurtur eða byssur að skjóta fugla og án þess að iðka hreystigöngur eða hetjumennsku - aðra en þurfti til að komast aftur heim. Einmitt þeir fara víðast en ræða ferðir sínar aðeins við þá sem þeir vita að til þekkja.

Hver
segir
hverjum
hvað?

Lítið er vitað um ferðir um Vonarskarð frá landnámstíð til 18. aldar þótt Haraldur Matthíasson fullyrði í Árbók FÍ 1963 að þar hafi enginn farið eftir Bárði uns Björn Gunnlaugsson fór þar í ágústbyrjun árið 1839. Rímar það ekki sérlega vel við þá staðreynd að Landnáma segir: "... hann fór Vonarskarð, þar er síðan heitir Bárðargata,". Ekki er síður trúlegt að ferðadirfska Bárðar með búsmala sinn og búslóð hafi kallað fleiri til að fara léttar búna að skoða leiðina - sem annars hafði enga þörf fyrir sérstakt heiti. Það hefur til dæmis þurft að ganga úr skugga um að þarna leyndist ekki þægilegri leið til Þingvalla heldur en sú sem farin hafði verið.

Þekkirðu
til ferða
um
Vonarskarð
fyrir
1950
?

Bílaferðir almennings

Fyrsta bílferð sem ritara er kunnug um Vonarskarð var farin árið 1950. Átta manna hópur úr Reykjavík, sem nefndi sig Minnsta ferðafélagið (M.F.F.) fór þá norður skarðið á fjórum jeppum 13. september- sjá hér frásögn Ásgeirs Jónssonar úr Árbók Ferðafélags Íslands árið 1951 - bls. 165. Þeir luku hálfs mánaðar óbyggðaferð sinni með því að taka veigamikinn þátt í björgunarleiðangrinum frá Akureyri sem sótti áhöfn flugvélarinnar Geysis sem lenti á Bárðarbungu á Vatnajökli 14. september. Sjá nánar um þann þátt í bók Andrésar Kristjánssonar: Geysir á Bárðarbungu - og hér í Tímalínu þeirrar bókar. 

Veðurhamur og vetraröfl svæðisins má út mest öll merki umferðar sumarsins allt frá Gjóstu suður til Jökulheima og eru veðrin þó stríðust hið efra. Merki um vetrarferðir sjást hvergi enda þá allt á snjó og ísum.


Ekkert
er
sem
sýnist

Í júlílok 1958 er Haraldur Matthíasson á leið suður Vonarskarð. Í Árbókinni á bls. 37 segir hann: "Við höldum nú sem leið liggur suður eftir Vonarskarði og ökum rakleitt suður í Gjóstu til þess að litast um. Lengra komast ekki bílar þá leið, því snarbratt er ofan úr skarðinu sunnan megin, og kallast Gjóstuklif."

Víst er að fjallabílar árið 1962 fóru léttilega niður brekkur eins og Gjóstuklifið og alveg víst að ferðaleið Minnsta Ferðafélagsins í Vonarskarð var ólíkt brattari. Haraldur hugleiðir þeirra ferð ekki sérstaklega í frásögn sinni en nefnir hana neðst á bls. 107 er þau ganga niður klifið: Við höldum niður brekkuna, melabungur allbrattar. Undir brekkurótum er Skjálfandafljót. Hér sjáum við óvænta sjón: bílför. Þetta eru spor frá 1950 eftir eina bílaleiðangurinn, sem um skarðið hefur farið.

... og
oftast
sést
ekkert

Einu vissu ferðamerkin sjást í grýttum melum - eins og Gjóstuklifi. Eftir 1999 fór þar að móta fyrir bílfærri kambaleið. Það merkir töluverða umferð þegar hafa má til viðmiðunar að í einni ferð í hvössu blautviðri í hlýjum september árið 1990 fóru þar 16 bílar með 65 manns og eftir þá ferð var engin ummerki þar að sjá þegar nokkrir sömu ferðafélaga voru aftur á leiðinni sjö árum síðar.

*

Í ár - 2010 - eru 60 ár frá Vonarskarðsferð Minnsta Ferðafélagsins en 52 ár frá ferð Haraldar. Hugsanlegt er að bílförin við Skjálfandafljót hafi verið frá för M.F.F. 12 árum áður - en fullt eins líklegt er að þar hafi aðrir verið seinna á ferð. 

Gengið
til
lauga

Gönguferðir

Gönguferðir hafa ætíð verið út frá gististöðum á hálendinu - svo sem frá Nýjadal inn í Vonarskarð og þá helst til jarðhitasvæðisins við Eggju. Ætla má að þar hafi árlega verið á ferð allt frá engum til svo sem hálfs hundraðs manna. Það á raunar einnig við nú á síðustu árum þótt með séu þeir taldir sem láta aka sér að norðan í Gjóstu og sækja sig sunnan Svarthöfða.

Leifur
Þorsteins-
son:

"Perla
göngufólks
í Vonarskarði"

Mbl.
18. sept.
2010

Gönguferðamaðurinn Leifur Þorsteinsson var fulltrúi Ferðafélags Íslands í Samút, sem eru samtök útivistarfélaga, og var fulltrúi þeirra samtaka í svæðisráði fyrir vesturhluta Vatnajökulsþjóðgarðar sem fjallar um Vonarskarð.

Hann hefur farið margar göngur í Vonarskarð með gönguhópa ýmist úr bílum norðan frá Gjóstubrún eða sunnan úr Nýjadal.

Í umræðugrein í Morgunblaðinu 18. sept. 2010 segir hann frá þátttöku sinni í mótun stefnu um ferðir um Vonarskarð. Þar tiltekur hann þá perlu í Vonarskarði sem er áhugaverð fyrir göngufólk: "Annað sem ég lagði til fyrirhönd SAMÚT var að komið yrði upp aðstöðu fyrir göngufólk miklu nær þeirri perlu í Vonarskarði sem er áhugaverð fyrir göngufólk. Þar er hverasvæði með rennandi vatni á yfirborði sem göngufólk nýtir til baða."

Athugasemd
ritara:

Ólíkt
perlumat
eftir
ferðamáta

Í þessu samhengi er þess að geta að ritari þekkir til fjölmargra akandi ferðalanga sem farið hafa Vonarskarð og ekki haft minnsta áhuga fyrir þessu háhitasvæði. Auðvitað er afar ólík aðstaða þeirra sem ganga og hinna sem aka. Þegar lítt vant fólk er drifið í gönguferð er það nokkuð fljótt komið í þreytukeyrslu og þá er það lag góðs fararstjóra að eiga aðlaðandi áfangastað - að ekki sé nú talað um kost til baða. Þessi eina göngumannaperla Vonarskarðs er þar mikill fengur. Þreyttum fótum er hver ófarin gönguleið fremur innlegg til eigin úthaldsmats heldur en kveikja að fegurðarunun.

Úr bíl horfa farþegar síhvíldir eða stíga sér til ánægju út að liðka sig og njóta tilverunnar. Þeir hafa krafta til að njóta útsýnis til allra átta allan daginn. Þeim er allt Vonarskarð samfelld perla. Jafnvel þótt færi sé erfitt hindrar það engan í að njóta til fulls þess sem ber fyrir auga og allir heyra það sem talað er. Farþegi í bíl horfir kvíðalaus yfir víðáttur leiðarinnar því hann veit að bíllinn mun bera hann.

*

Leiðsagðar gönguferðir frá Gjóstu suður til Jökulheima og Veiðivatna hafa nokkrum sinnum verið kynntar og jafnvel gengnar og er það vel því þetta er tilkomumikið landsvæði.

Fyrstu skipulegu gönguferðirnar munu hafa verið farnar stuttu fyrir 1990 og var þá fluttur inn að Sylgjufelli óhrjálegur gámur til skjóls í áfangastað. Hann hefur nú verið fjarlægður fyrir nokkru og kominn er góður skáli þar í einkaeigu og nefnist Sylgjufell.

Í fáein ár voru stopular ferðir fámennra hópa enda þarf þjálfaða gönguíþróttamenn til að halda út slíkar langferðir með allt á bakinu.

Því miður er enn misbrestur á að göngumenn gæti þess að hafa GPS-tæki með sér. Öllum er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að þótt nú sé komin 21. öldin eru öræfin alltaf söm við sig og jafn lífshættuleg yfirferðar sem áður ef hjálpartæki nútímans hætta að virka. Þar segir fátt af einum - villtum.

 

 

Vett-
vangur
veðra

Veðurfarið er
verndari Vonarskarðs

Auðvitað eru allar þekktar tegundir veðra í Vonarskarði - en að auki nokkrar tegundir sem byggðafólk þekkir ekki úr sinni heimasveit. Frost getur hæglega orðið yfir 30 gráður og hvassviðri verða slík að á hálftíma hreinsar sandburður allt lakk af bíhlið. Allt lauslegt feykist. Grófari möl og smásteinar, ísabrot og jakaruddi. Merki mannaferða, gangandi, ríðandi eða akandi mást út í einu slíku áhlaupi - hvað þá á heilum vetri. Á leysingatímum eru ísastíflur sem umbreyta botni dalsins í straumaiður sem öllu róta svo enginn grænn fermetri á sér þar vísan sama sumarlit. Jafnvel stíflugarður Landsvirkjunar dugði þar aðeins fram á sinn fyrsta og eina vetur.
Það er ekki á mannlegu færi að leggja mosateygingum og stingandi stráum lið gegn náttúruöflunum í Vonarskarði. Um leið vernda náttúruöflin form Vonarskarðs eins og það er.

* * *


Mynd GÓP
norður eftir Köldukvísl til
suðurvarðar Vonarskarðs, hins snæljósa
Svarthöfða. Kolufell til vinstri.

Suðurleiðir úr Vonarskarði
Fyrir þúsund árum voru jöklar minni og með öðrum hætti en núna og því ekki augljóst án rannsókna hvernig vötn hafa þá legið eða hversu vatnsmikil. Ljóst er þó að engir jökulsporðar hafa stíflað útrennsli úr skarðinu - hvorki til norðurs né suðurs. Sá sem kominn er suður fyrir Svarthöfða á tveggja kosta völ. Þeir sem forðum riðu suður til þings hafa haldið vestur til núverandi Sprengisandsleiðar og svo áfram til vaðs á Þjórsá. Bárður hefur hins vegar haldið meðfram jöklinum til suðurs. Þessar leiðir hafa ætíð verið uggvænlegar vegna mikilla fjarlægða en frá miðri síðustu öld hafa bílarnir gert þær báðar að almannaleiðum.

Mynd GÓP tekin austur yfir vað á Köldukvísl sunnan Svarthöfða 22. okt. 2005 kl. 14:31
Köldukvíslarjökull í baksýn. Músaðu hér til að sjá þær allar.

Hér skiptast leiðir. Austan megin ár liggur leiðin suður með Vatnajökli til Jökulheima en vestan megin á Sprengisandsleið hjá Syðri Hágöngu.

Efst á þessa síðu * Forsíða