GÓP-fréttir
Forsíða

Námskrár-
torg

7. kafli í H&W * upptöku-ferlið

Snaraður - útdráttur - bls. 221 - 229 * 229 - 238 * 238 - 239

Um þennan kafla - upptökuferlið
Þú ættir að ...
Nokkur sjónarhorn - A - B - C
7.1 Inngangur
7.2 Nokkrar skilgreiningar og sjónarhorn: Hvað er átt við með upptöku nýs eða breytts námsefnis?
7.3 Áhrifavaldar á upptökuferlið: Hvaða atriði auðvelda upptöku breytinga?
7.4 Fylgst með upptökuferlinu: Hvað er það sem gerist þegar nýtt námsefni er tekið í notkun?
7.5 Rannsóknir á upptökuferlinu: Sérstakar athuganir.
7.6 Upptakan studd: Margar rannsóknir - nokkrar vísbendingar.

Nokkrar umtalsverðar aðferðir hafa verið notaðar á næstliðnum áratugum. Ýmist beinast þær að hópnum sem starfar að upptökunni eða að einstökum kennurum. Þær fjórar helstu eru:

7.7 Að lokum

Um þennan
kafla

Upptöku-
ferlið

Í þessu kafla er upptöku-ferlið skoðað. Hvað gerist þegar fyrirfram ákveðnu eða skrifuðu námsefni er miðlað í kennslustofu. Sérstaklega er skoðað hvers vegna hið miðlaða efni getur verið verulega frábrugðið því sem ætlað var að miðla og hvenær slík frávik geta verið æskileg og hvenær óæskileg. Auk þess er rýnt í saumana á nýlegum hugleiðingum um sjálfa framkvæmd þess að taka upp nýjungar. Lýst er áætlunum og framkvæmdaatriðum sem virðast reynast vel og skoðað hvað það er í þessari framkvæmd sem áfram reynist valda erfiðleikum og rannsakendur ná ekki tökum á.
Þú ættir að
  • Kynnast helstu úrlausnarefnunum sem fylgja upptöku-ferlinu, - þ.e.: því að breyta um námsefni eða taka upp nýtt.
  • Íhuga hugtökin samkvæmni og aðlögun þegar rætt er um miðlun námsefnis. Samkvæmnin er milli hins áformaða og hins miðlaða námsefnis og aðlögunin er þegar kennarinn túlkar hið áformaða námsefni og miðlar sinni eigin útgáfu.
  • Skoða með grandgæfni hvernig þér líst á þær hugmyndir sem eru grunnurinn undir rannsóknum á sjálfu upptöku-ferlinu.
  • Rýna vel í sumar aðferðir sem beitt hefur verið við upptöku-ferli í skólum.
Nokkur
sjónarhorn
Hægt er að skoða og velja sér sjónarhorn - af þeim þremur sem hér verða tilgreind, út frá þeim skóla eða/og kringumstæður sem þú býrð við í starfinu.
A Ef þú starfar við skóla sem nýlega hefur tekið upp nýtt námsefni - hugleiddu þá:

  • Hvað hvatti kennarana til að taka upp hið nýja kennsluefni í samræmi við þá sérstöku leiðsögn sem henni fylgdi?
  • Að hve miklu leyti féllst þú - og hinir kennararnir - á þann rökstuðning og þá leiðsögn sem fylgdi breytingunni?
  • Bætti breytingin námsárangur nemendanna?

Í kafla 7.5 er fjallað um hugtökin samkvæmni og aðlögun við miðlun námsefnis. Hvernig leggst sú umfjöllun í þig?

Í kafla 7.6 er lýst fjórum aðferðum við upptöku-ferli og einnig fjallað sérstaklega um viðleitni til að tryggja að miðlað námsefni sé hið sama og það sem áætlað var. Finnst þér þetta líkjast þeim hugmyndum sem þú gerir þér um þetta ferli og samspil fagsins við þína miðlun þess?

Þegar þú hefur lesið þennan kafla - íhugaðu þá hvort þær hugmyndir sem vaknað hafa hjá þér breyta í nokkru þínum fyrri viðhorfum til þess námsefnis sem upp var tekið og upptöku-ferlisins.

B Hugleiddu upptöku-ferli sem þú hefur farið í gegnum. Hvert eftirtalinna atriða reyndist þér erfiðast:

  • Ný kennslugögn - t.d.: ný kennslubók, kennslumyndir eða önnur gögn.
  • Nýir kennsluhættir.
  • Ný uppröðun efnisþátta.
  • Nýr skilningur og ný sannfæring.

Hvaða þáttur virtist þér fá mesta áherslu hjá þeim sem gekkst fyrir breytinguni? Hvaða áhrif hafði sú forgangsröðun á það hversu til tókst með upptöku hins nýja námsefnis?

Þegar þú hefur lesið þennan kafla allan skaltu íhuga hvort í hug þinn er komin nokkur önnur skoðun eða viðhorf til þess hvað skiptir máli við að ná fram árangri við upptöku-ferlið.

C Kannaðu þetta sjónarhorn ef þú hefur kynnst formlegum aðferðum við upptöku-ferli - svo sem einni af þeim fjórum sem lýst er í kafla 7.6 - sem eru

Hver átti frumkvæði að því að skólinn notaði þessa aðferð?

Hvaða áhrif hafði aðferðin á það hvernig til tókst?

Í kafla 7.5 eru rædd hugtökin um samkvæmni og aðlögun áætlaðs og miðlaðs námsefnis. Ef við þinn skóla er í gangi fræðileg skólaþróunarstefna þá er forvitnilegt að vita hvort á þeim vettvangi er fjallað sérstaklega um athuganir á eða aðferðir við upptöku-ferli. Er hugsanlegt að einhver sérstök þjálfun gæti þar komið sér vel?

7.1
Inngangur
um efni þessa kafla
Áætlun
til alls
er fyrst
Áætlun er til alls fyrst - svo er einnig um námsefni. Það verður ekki að námsefni fyrr en kennari tekur það upp og miðlar þvi til nemenda í kennslustofu - og ætlast til þess að þeir tileinki sér það. Vandleg áætlun og undirbúningur eru auðvitað mjög mikilvæg atriði - en verða til einskis nema kennari geri sér grein fyrir tilganginum og hvernig hann getur hagnýtt sér efnið í sinni eigin kennslu. Þegar nýtt námsefni skal tekið í notkun þá er það sérstakt ferli - upptökuferli, sem hefur það markmið að breyta hinu ritaða námsefni og hinum rituðu áætlunum um miðlun þess - yfir í raunverulegt námsefni sem er miðlað til nemenda - og prófað úr.
Pappírsplan
og
kennsla
Margir telja að kennsluframkvæmdin eigi að fylgja kennsluáformunum til hlítar. Þetta á einnig við um marga fræðendur. Þetta er þó óraunhæft því kennsluáformið er mótað fjarri ólgandi vettvangi kennslustofunnar þar sem kennslan fer fram í hafsjó hugmynda, tilsvara, tenginga og óvæntra atburða augnabliksins. Ennfremur er það trú höfunda bókarinnar (H&W) að nauðsynlegt sé að vera annars vegar ítarlegur í áætlanagerð og hins vegar eigi sjálf framkvæmdin að vera sveigjanleg og taka mið af fólki og fyrirburðum á stund kennslunnar.
Pappírs-
leikrit
fer
á svið
Skoðum samband áætlunar og kennslu frekar eins og samband leikrits-texta og flutnings hans á sviði. Til eru óumdeildir frumtextar leikrita og einnig textar sem vissulega eru ekki frumtextar - svo sem frá Shakespeare. Uppsetning, túlkun leikstjóra og innblástur leikara flytur áreiðanlega til áheyrandans ólíkar víddir og einnig nýjar víddir sem höfundur hefur ekki endilega haft í huga við ritun verksins og þannig er munur á því hvað áheyrendur tileinka sér úr verkinu milli sýninga og milli uppfærslna.

Sama aðgreining á við í kennslunni þótt ólíkar námsgreinar veiti mismikið túlkunarrými.

Kennsla
á
sviði
Í þessum kafla verður kennsla hugleidd og skoðuð með gleraugum og hugtökum sviðssetningar. Litið er á kennara sem leikstjóra og leikara. Þeir hafa hina rituðu ætlan til að styðjast við en þeir blása hana lífi og miðla sinni vídd. Hvort heldur sem kennarinn leikur sinn venjulega einleik eða hann sækir sér meðleikara er það hann sjálfur sem stýrir því sem fram fer, mótar leiktjöldin og stjórnar sýningunni.

Í kennslusýningunni eru nokkur einkennisatriði sem kennarinn hefur ætíð sérstaklega í huga. Þar er um að ræða þá hluta námsefnisins sem koma skal til skila, þá sérstöku þætti í kennslunni sem eiga að miðla tilteknum námsatriðum og viðbrögð nemendanna við kennslunni og eigin viðbrögð við viðbrögðum nemendanna.

Þessi einkennisatriði skoðar kennarinn aftur og aftur í huga sér, bæði áður en til kennslunnar kemur og eftir að hann hefur framið kennsluverkið á sviði kennslustofunnar. Með öðrum orðum: bæði áður en hann fer á kennslusviðið og eftir að hann kemur af því aftur - og áður en hann fer aftur á svið. Af þessum einkennisþáttum metur hann hvernig til tókst. Ef hann er ekki ánægður með þann árangur sem honum finnst hafa náðst eru það þessi atriði sem hann vinnur nánar að, fágar og betrumbætir og ræðir við samkennara eða ber á viðeigandi ráðfærslutorg.

Meginmarkmið kennarans er yfirleitt ekki það að koma áætluninni orðrétt til skila heldur að ná efni hennar þannig fram í miðlun sinni að nemendurnir nái að tileinka sér það svo sem kostur er.

7.2 Nokkrar skilgreiningar og sjónarhorn
Hvað er átt við með upptöku nýs eða breytts námsefnis?
Ekki er
sopið kálið
þótt í ausuna
sé komið.
Til eru ókjör áætlana um nýtt og breytt námsefni sem aldrei hafa orðið að veruleika. Margar þeirra voru frábærlega skrifaðar en upptaka þeirra mistókst. Ljóst er að upptökuferlið sjálft skiptir sköpum.
Á að
breyta?
Hvert er tilefni breytingarinnar?

  • smávægileg breyting - eða nýjung - nýtt sjónarhorn?
  • skólanum berast tilboð um mismunandi námsefnis-pakka þar sem fylgja kennslugögn og leiðbeiningar og kennarar íhuga hvort velja skuli einn pakkann - eða jafnvel engan?
  • kennari telur námsefnið sem hann er að kenna vera óviðunandi og nauðsynlegt sé að útbúa annað?
  • fræðsluyfirvöld ákveða að nýtt námsefni skuli tekið upp?
Kennari
neyðist
til að
breyta

Sviðs-
skrekkur

Setjum svo að kennari standi frammi fyrir því að hann verður að breyta um námsefni. Fyrstu hugleiðingar hans verða þessar:

  • Hvernig fer ég að þessu?
  • Mun mér takast að láta það ganga? - vel?
  • Hver getur liðsinnt mér?
  • Er kennslan mín í samræmi við áætlunina?
  • Hvernig virkar þetta á nemendur mína?
Nýjung
öðlast
fastan
sess

og
vekur
nýjar
hugmyndir

Enginn kennari er öllum nemendum hrífandi - en markmiðið er að hrífa sem flesta sem oftast og sem mest. Ef hrifningin fer niður fyrir innri mörk kennarans þykir honum sér hafa mistekist. Þess vegna eru þetta hans lykilhugleiðingar. Það getur auk þess tekið hann langan tíma að ná upp þeirri færni og tækni sem honum þykir sjálfum viðunandi í kennslu hins nýja námsefnis. Þegar svo langt er komið er fyrst unnt að segja að námsefnið hafi fengið fastan sess í hug hans - og þar með í skólanum.

Þótt nýjung hafi öðlast fastan sess í námskrá skólans merkir það ekki að hún hafi þar með frosið föst. Námsefnið í heild - og þar með er nýjungin sem nú er orðin hluti heildarinnar - heldur áfram að vekja með kennaranum nýjar túlkanir og nemendunum nýjan skilning í nýjum kennslustundum.

Fellst
kennarinn
á
breytinguna?
Flestir kennarar mundu vafalaust vilja velja milli kosta. Margir eru fullkomlega ánægðir með það námsefni sem þeir hafa verið að kenna. Gerum hins vegar ráð fyrir - sem fyrr - að kennarinn neyðist til að taka upp nýtt námsefni.

  • Sumir eru samstarfsfúsir og leggja sig eftir að laga sig að hinu nýja námsefni.
  • Sumir eru andsnúnir, finna hinu nýja námsefni allt til foráttu og vilja alls ekki taka það í notkun.
  • Sumir eru svo í móti breytingunni að þótt þeir láti sem þeir fylgi henni neyta þeir um leið allra ráða til að varpa rýrð á hana og grafa undan henni.
Hver
á að ráða
um nýtt
námsefni?

A

Kennara-
skaut

Sá kennari sem hefur aðstæður til að hafa öllum öðrum betri yfirsýn um það hvað heppilegast er að kenna og hvaða breytingar er réttast að framkvæma á námsefni og kennsluháttum þarf að hafa margt til brunns að bera.

  • Hann þarf að hafa vald til að setja á fót námsáfanga eftir því sem hann telur þurfa - án tillits til þess hvort það hæfir skólanum að öðru leyti, skólayfirvöldum eða öðrum rekstrar- og samstarfsaðilum. Hér getur verið um að ræða kennslu sem tekur tíma frá öðrum greinum sem vilja fara eins að, tekur fjármuni frá annarri starfsemi skólans eða rekst á viðtekinn hugsunarhátt í samfélaginu.
  • Hann þarf að vita um og hafa aðgang að þeirri þekkingu, tækni og leikni svo og kennslugögnum og fjármunum sem þarf til að hið nýja námsefni sé vissulega hin rétta framþróun, sett fram og kennt á hinn besta hátt og með þeim búnaði sem tryggir besta námsárangur.
  • Hann þarf að hafa tíma til að útbúa námsefnið og fullgera kennslutækin ef algjör nýjung er á ferðinni.
  • Hann þarf að hafa fjármuni og vald til að ráða nauðsynlega aðstoð til að útbúa kennslugögn sem hann þarf að láta smíða, semja og móta.
  • Hann þarf að gjörþekkja áhuga, þekkingarstig og þarfir nemendanna til að tengja námsefnið og miðlun þess við tileinkunarhæfni nemendanna.

Hann verður að vera pottur og panna í öllu ferlinu frá því að upp kemur hugmyndin um að heppilegt geti verið að breyta um námsefni til þess að breytingin hefur verið framkvæmd og hefur fengið sinn varanlega sess í starfi skólans.

SBCD = School-based Curriculum Development fær oft lýsingar eins og þessa um þátt kennara í þróun námsefnis í heimaskóla. Í raun er lýsingin yfirdrifin. Kennarar hafa vart forsendur til að skila af sér öllu þessu verki. Þá skortir vald og aðgang að fé og færum til að geta annað öllu á eigin vegum.

Hver
á að ráða
um nýtt
námsefni?

B

Útaðila-
skaut

Miðstýrð og utanaðkomandi ákvörðun um allt námsefni með yfirstjórn og eftirliti um aðgerðir kennara í kennslustofu og leiðbeiningum til þeirra um notkun námsefnis og kennsluaðferða. Stundum er gerð krafa um að allir hliðstæðir skólar kenni sama námsefni á sama hátt og á sama tíma undir sama samræmda prófið.

Í raun er hæpið að slík ofurstjórnun á kennurum hafi nokkurs staðar náð fram að ganga til fullnustu. Þrátt fyrir ítarlegar forskriftir að kennsluaðferðum og efnismiðlun eru kennurum ótalleiðir færar til að fara í kringum anda og ætlun forskriftanna. Kennarinn getur tildæmis breytt innihaldi námsáfanga, breytt efnisröðun, lagt áherslur að vild og gefiþáttum rými eftir því sem honum þykir hæfa. Ef ekki er hafður fastur eftirlitsmaður í hverri einustu kennslustund með kennaranum er engin leið að vera viss um hvað raunverulega fer fram í kennslustofunni.

Hver
á að ráða
um nýtt
námsefni?

C

Mundangs-
hófið

Raunhæft er að ætla að upptökuferlið liggi milli þessarra tveggja skauta. Sumt námsefni liggur betur við en annað til að taka kennarastýrðum breytingum. Sumt námsefni er líka heppilegra en annað til þess að leiðbeiningar um miðlun þess nái að skila sér gegnum kennsluna. Þannig verður kennslan í samræmi við áætlunina. Aðrar greinar eru þess eðlis að kennaranum er ætlað meira svigrúm til að túlka þær og tendra og glæða nýjar og óvæntar hugmyndir í brjóstum nemendanna. Segja má að kennarinn aðlagi þær námsgreinar.
7.3 Áhrifavaldar á upptökuferlið
Hvaða atriði auðvelda upptöku breytinga?
Lykilatriði

Fullan
(1982)
telur
upp þá
þætti
sem
máli
skipta,

A - Lykilatriði sjálfrar breytingarinnar:

  • Hver er þörfin fyrir breytinguna? skiptir hún máli? er hún viðeigandi?
  • Hversu skýr er áætlunin?
  • Hvert er flækjustig breytingarinnar?
  • Hversu fagleg og hversu raunhæf er áætlunin?

B - Lykilatriði skólahéraðsins, þ.e.: þeirra aðila sem standa að skólanum en starfa þó utan hans svo sem skólanefnd, sveitarstjórn, ráðuneyti, embættismenn, foreldrar.

  • Hver er skólaþróunarsagan?
  • Hvaða merkingu leggur skólahéraðið í upptöku skólanýjunga ?
  • Stuðningur og þátttaka embættismanna og ráðuneytis.
  • Menntun og þátttaka starfsliðs.
  • Fyrirhuguð tímamörk og upplýsingaleiðir.
  • Skólanefndin og sveitarstjórn.

C - Lykilatriði skólans:

  • Stjórnandinn.
  • Innbyrðis tengsl kennara.
  • Viðhorf kennara.

D - Lykilatriði útaðila:

  • Hlutverk stjórnvalda. Í íslenskum framhaldsskólum eru þau - og ráðuneyti menntamála - sá yfirstjórnandi sem heldur bæði faglegu og fjárhagslegu úrslitavaldi í hendi sér.
  • Utanaðkomandi aðstoð.
4
aðferðir
við
upptöku
nýjunga

Fullan
(1989)

Fullan og félagar hafa skoðað þær aðferðir sem virðast hafa verið notaðar við að taka upp nýtt og breytt námsefni og niðurstaða þeirra er þessi:

  • Í fyrstu var látið duga að tilkynna að upp skuli tekið nýtt námsefni. Nú er komin ný námskrá og að allir skuli fara eftir henni. Á árunum eftir 1960 var þetta talið nægilegt. Allir mundu að sjálfsögðu fara eftir slíkri tilskipun. Raunin varð allt önnur.
  • Upp úr 1970 fóru menn að skoða nánar sjálfa framkvæmdina eða notkun hins nýja námsefnis. Umfangsmiklar rannsóknir fóru fram en hlutu meðal annars gagnrýni fyrir að taka ekki tillit til veruleikans. Fullan benti á að verkefni skóla einkennast ekki af því að þar sé verið að taka upp eina og eina nýjung. Þvert á móti sé í hverjum skóla sífellt verið að vinna að framkvæmd fjölda nýjunga og breytinga í senn og til lítils að einskorða athuganir við einhverja eina þeirra.
  • Fullan og félagar skoðuðu upptökuhætti fjögurra áratuga og allan þann tíma var við lýði sú hugmynd og sú framkvæmd að ganga eftir stöðluðum vinnubrögðum við kennslu nýs námsefnis og leggja fyrir samræmd próf. Fullan (1989) skoðaði stöðlunina, þ.e. prófun nemenda og kennara, og komst að þeirri niðurstöðu að þessar ofan-frá aðferðir til námskrárbreytinga væru dæmdar til að mistakast einfaldlega vegna þess að með því yrðu kennarar áhrifalausir um þróun starfs síns og áhugi þeirra fjaraði út.
  • Nýjust er sú aðferð sem nefna má endurskipulagning. Fullan fann út að þar var lögð áhersla á að breyta einkennisatriðum í starfsemi skólans eins og samstarfs- og félagstengslum, starfsframakerfi, þjálfun og handleiðslu. Sumum virðist þetta vera til framdráttar fyrir upptöku nýjunga í námi en aðrir (Hargreaves 1989) telja hér aðeins um yfirborðsmennsku að ræða.
3
sjónarhorn

House
1979,96

House skoðaði upptökuferlið út frá þremur mismunandi sjónarhornum til að gera sér grein fyrir hvers vegna tilteknar aðferðir hefðu viðgengist árum saman.

  • Tæknilega sjónarhornið. Sjá einnig Proactive/interactive Change Model. Hér er gert ráð fyrir að kerfisbundin skipulagning og raunhæf kennsluáætlun geti komið til móts við hin dæmigerðu áhyggjuefni kennarans um skort á tíma og sérhæfni.
  • Pólitíska sjónarhornið. Hér er tekið tillit til þess að fólk hegðar sér ekki alltaf í samræmi við kringumstæður. Skoðað er hvernig valdaskiptingin er í samstarfshópnum og hvernig hún hefur áhrif á það hvernig til tekst með upptökuferlið.
  • Menningar-sjónarhornið. Hér er skoðað hvernig félagslega fastmótuð viðhorf þátttakenda geta verið ólík og hvernig þau geta haft úrslitaáhrif á útkomu kennslunnar. Ef vel skal takast til þarf að byrja á að vinna með þessi fastmótuðu viðhorf og þá menningu sem stýrir þeim.

Líklegt er að hvert þessara sjónarhorna hafi sitt þunga vægi á það sem gerist í skólanum. Corbett og Rossman (1989) hafa fært að því rök að þau stýri viðhorfum og viðbrögðum innan skólans, þau séu samtvinnuð og virki oft samtímis.

4
atriði

McLaughlin
1987

McLaughlin taldi árangur útaðila við að koma á breytingum í skólastarfi vera háðan eftirtöldum fjórum atriðum.

  • Geta skólans skólans til að taka upp nýbreytnina. Þessa getu skólans má bæta með því að veita meiri fjármunum til verksins og þjálfa kennaranna - en þá er nauðsynlegt að fjáraukinn sé umtalsverður og sé ekki bara til skamms tíma.
  • Áhugi og fórnfýsi kennara og stjórnenda skólans. Örðugra er að glæða áhugann og fá menn til að leggja sig fram. Til þess þarf að gera sér grein fyrir gildismati stjórnendanna og mati þeirra á vægi þeirrar nýjungar sem ætlunin er að hrinda í framkvæmd. Stundum er leiðir bein þátttaka stjórnandans til aukins áhuga. Félagsmót og menning skóla, stöðugleiki í starfi og stuðningur við kennara geta haft úrslitaáhrif um vilja þeirra til að taka upp nýtt námsefni.
  • Með öðrum orðum: innri starfsform og starfsskilyrði verða að vera kennurum hvetjandi til að takast á við ný og breytt verkefni.
  • Jafnvægi milli þrýstings og stuðnings. Gæta þarf þessa jafnvægis. Þrýstingur er nauðsynlegur til að fá fram einbeitingu að hinni tilteknu breytingu og hann býr til þörf til að takast á við hið nýja verkefni. Hins vegar er líka nauðsynlegt að leggja til stuðning, hvort heldur sem þarf fé eða ráðgjöf, ef koma á breytingunni í kring.

McLaughlin færir einnig rök að því að upptökuferlið sé ekki einasta það að ná fyrirfram umsömdu efni inn í kennsluna því jafnframt fari fram samningar, breytingar og samkomulag. Breytingarnar verði ætíð í túlkun þátttakendanna, hvatninga þeirra, viðhorfa og getu.

Náms-
staðlar

og

skóla-
vísar

Eftir 1990 hefur borið æ meir á hugtökunum

  • náms-staðall (= educational standard) þar sem gengið er eftir samræmdri kennslu og samræmdum námsárangri og
  • skólavísir (= school indicator) þar sem skólar eru metnir eftir námsárangri nemenda, fjölda kennslustunda, námsefni, hæfni kennara og aðbúnaði í skólanum.

1996 hafa Schmidt o.fl. lagt til að upp verði tekinn margliða námsefnis-skali til að mæla og fylgjast með hvernig hinum ýmsu einingum og atriðum ætlaðs námsefnis reiðir af við upptökuferlið og kortleggja um leið þá þætti upptökuferlisins sem máli skipta.

Efst á þessa síðu * Forsíða * Námskrártorg