Forsíða

 
 

Námskrár-torg * Námskeið fyrir framhaldsskólakennara:

Námskrárfræði og skólanámskrárgerð
(Ágúst 1999-júní 2000)

5. lota: Íslenskar námskrárrannsóknir / staða skólanámskrárgerðar á framhaldsskólastigi

Minnisatriði með bók H&W.

Saman-
tektir:
Útdráttur um innlegg frá Tyler, Walker og Eisner

Leiðarbækur í lotulýsingum námskeiðsins:
Lota nr. > 1 * 2 * 3 * 4

Drög að efnislista skólanámsskrár < Þetta er nokkuð ítarlegur atriðalisti með kaflaskiptingu. Uppsetningin er í formi yfirlitstöflu þar sem merkja má við atriði sem taka skal með, tilgreina hversu vinnu atriðisins er langt komið - eða lokið.

Hvað
meinar
...
Hvað meinar Aðalnámskráin? < Hér er lesin út úr markmiðssetningum Aðalnámskrár skilgreining hennar á þeim persónu-eigindum kennarans sem gera hann hæfan til að fylgja markmiðssetningunni eftir. Vísað er til vinnuskjals um þá greiningu sem aftur vísar til annars vinnuskjals þar sem skilgreining Aðalnámskrárinnar er lögð að nokkrum þekktum skilgreiningum í lýðræðis-röð. Þessi skilgreining á kennaranum er síðan notuð til að geta með góðri samvisku haldið utanfræða-markmiðum utan við fræðamarkmiðin til að geta síðan lagt ýmsar þekktar mælistikur við fræðamarkmiðin.

Með því að kennsluskilgreiningar hafa verið lagðar í lýðræðis-röð eftir þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru - þá er gripið tækifærið til að setja upp dálítinn leik fyrir kennara til að íhuga hvar þeirra eigin kennsla raðast í lýðræðisröðinni. sá leikur er nefndur alvarlegi gamanleikurinn: Svona kennari er ég! Það skal tekið fram að engin dómur er lagður á hvort betra er að vera lýðræðislegur eða einræðislegur kennari. Raunar skal því í staðinn haldið fram - hér og nú - að allt fari það eftir margvíslegum aðstæðum og þeim samskiptum sem eru í gangi hverju sinni.

Þróun Námskrárbreytiferillinn < fjallar um lífs-hlaup námskrárbreytingar og þætti sem því tengjast. Þaðan er sérstaklega vísað í umfjöllun um aðferðir/líkön sem þróaðar hafa verið fyrir vinnu við breytingar á námskrá og til samanburðar á þeim aðferðum. Þá er einnig velt upp formi kennslugagna og kennsluleiðbeininga með nýrri námskrá og vísað í íhugun um þær viðtökur sem ný námaskrá getur átt í vændum í skóla. Í samhengi við námskrárbreytingar eru dregnir saman þættir úr þróunarsögu MK og sérstaklega rifjuð upp tilkoma tölvukennslunnar sem var námskrárnýjung og hvernig hún þróaðist í kjarnanáminu.
Námskrár-
leikurinn

og
persónur
hans
Hverjir eiga að þróa námskrána? < litið er yfir þá aðila sem hrærast í útkomu námskrárleiksins og íhuguð tengsl þeirra við þróun námskrárinnar. Þar er um að ræða kennara, skólastjórnendur, foreldra, nemendur, liðkendur og annan tiltækan liðsauka. Gerð er grein fyrir viðhorfi M&W til námskrárgerðar með því að lýsa námskrárgerðarleik Purves frá 1975.
Aðild útaðila
að mótun
starfskrár
skóla
GÓP hefur sett saman hugleiðingu um aðild útaðila að mótun starfskrár (framhalds)skóla með annars vegar íhugun á því að hvaða leyti viðkomandi aðili geti verið fengur fyrir samstarfið og hins vegar aðeins litið á hvernig þátttökusvið foreldra í störfum tiltekins íslensks grunnskóla virðast vera samkvæmt fréttablaði þess skóla. Áhugavert er að útbúa spurningalista á vefnum til að leita upplýsinga um raunverulegt viðhorf einstaklinga til umtalsverðrar þátttöku útaðila - til dæmis að spyrja hóp framhaldsskólakennara hvað einstaklingum hans þykir sér hæfileg þátttaka í mótun starfskrár þess grunnskóla þar sem börn hans stunda nám.
7. kafli H&W

1. hluti:

2. hluti:

Hér er 7. kafli bókar þeirra H&W lauslega þýddur - en vonandi þó með réttri meiningu. Ef þú rekur augun í atriði sem eru bagalega úti að aka - þá vinsamlegast láttu mig vita.

1. hluti nær yfir upphaf kaflans til og með 7.3
2. hluti: nær frá og með 7.4 - (er í vinnslu). Hér er vísað í samantekt um hina merku 8-ára rannsókn í Bandaríkjunum á árunum 1933-1941 þar sem í ljós kom (!?!) að heimaunnin námsefnisstjórnun er fremri mörgu öðru - kannski öllu öðru?

Kennsluorð < eru heiti og hugtök skilgreind og hugleidd.
 

Námskeið fyrir framhaldsskólakennara:

Námskrárfræði og skólanámskrárgerð
(Ágúst 1999-júní 2000)

5. lota: Íslenskar námskrárrannsóknir / staða skólanámskrárgerðar á framhaldsskólastigi

 

Markmið lotunnar

* þekki dæmi um íslenskar námskrárrannsóknir

* geri sér grein fyrir því hvort og hvernig hagnýta megi íslenskar námskrárrannsóknir

* taki afstöðu til þess hvaða námskrárrannsóknir þyrfti að gera hér á landi

* afli sér upplýsinga um stöðu skólanámskrárgerðar í framhaldsskólum hér á landi og leggi mat á hana

* þekki dæmi um skólaþróun í framhaldsskólum

GÓP

skoðar
markmið
lotunnar

Taylor, Taba, Scheffler, - Dewey, Kilpatrick, Florence Stratemeyer, Hand, King and Brownell, Bellack, Gene Wise, Metcalf and Hunt, John S. Mann, Margaret Ammond, Louise M. Berman, Jerome S. Bruner, Bloom, Krathwohl, Everett Reimer, John Holt, A. S. Neill, Robin Pedley, Nils Christie, Paul Goodman, J. L. Murshell, Noam Chomsky, Paul Francis, Ivan Illitch, John Hajnal, Karl Brodersen, Edward Blishen, Åke Grahm, Klas Melander, Arthur T. Jersild.
Voru þau að rannsaka námskrá?
Aldrei hafði mér dottið það í hug.
Alltaf hélt ég að þau hefðu verið að velta fyrir sér hvert væri eðli barnsins og hvernig mætti sem best koma til móts við það, tilfinningar þess og þann galdur sem býr í huga þess þannig að það mætti sem best nema þau atriði sem mættu verða því bæði til gagns og gleði.
Hvað
er nú
það?
Leit að skilgreiningu á námskrárrannsókn

Ég hóf kennslu fyrir liðlega fjörutíu árum, hef kennt öllum aldurshópum í grunnskóla, unglingaskóla, gagnfræðaskóla og menntaskóla og gegnt svo til öllum störfum innan framhaldsskóla. Þrátt fyrir þetta verð ég að viðurkenna að ég hef aldrei hugleitt fyrirbærið rannsókn á námskrá.

Þetta er merkilegt. Ef námskrárrannsóknir merkja atferli eða starf sem er nytsam eða jafnvel bráðnauðsynlegt fyrir skólastarfið þá hlýtur það að hafa verið unnið á mínum kennsluferli og afar sennilegt að ég hafi unnið það sjálfur án þess að gera mér grein fyrir að það starf ætti svo merkilegt heiti. Það er því tímabært að líta aðeins til starfsævinnar og skoða það sem kallast gæti námskrárrannsókna-samhengi.

Skil-
greining
námskrár
Ég skilgreini námskrá þröngt og tel til þess hugtaks einungis ákvarðanir um námsefni í kennslugreinum. Sú skrá sem lýsir öðrum þáttum í starfsemi skóla fær hjá mér nafnið starfskrá skóla og verður þá mín námskrá aðeins einn kafli í starfskránni. Á minni starfsævi hafa starfsþættir skóla - utan námskrár - verið til umfjöllunar og ákvörðunar á kennarafundum. Þar hefur margt verið ákveðið sem síðar hefur verið breytt á marga vegu og stundum í hringi og í suma af því látið undan harðri sókn áhugasamra nemenda.
Í
grunn-
skóla

og

unglinga-
skóla

Í þrjú ár kenndi ég í barna- og unglingaskóla og kom þar inn með einungis stúdentsnám en hafði þó í sumu meiri menntun er aðrir. Fjarri var að ég teldi mig sérfróðan um nokkurt námsefni og ég minnist ekki samkennara sem teldu sig sérfræðinga um námsefni. Sennilegt er þó að presturinn hafi talið sig nokkuð sérfróðan um kristinfræðina sem hann kenndi. Hins vegar voru margir sem höfðu þróað áhrifaríkar og eftirminnilegar aðferðir við að miðla því námsefni sem á námsbækur var skráð. Fyrir lágu samræmd próf innan skólans eða yfir landið og innan míns nærheims var ekki svipast um eftir réttlætingu þessa námsefnis umfram annað.

Það kerfi sem ég starfaði í hafði sérstaka námstjóra í förum sem fylgdust með því sem gert var. Það var því ljóst að haft var eftirlit með því að við miðluðum því efni sem forskrifað var. Ef námstjórinn hefði einn daginn tjáð skólastjóranum og hann kennaranum að ákveðið væri að kenna nýja kennslubók þá hefði það verið gert. Hæpið hygg ég að nokkrum samkennara mínum hefði dottið í hug að breyta um bók - og enn síður um námsefni - nema námsefnislistar skólavöruverslunarinnar hefðu greinilega tiltekið að hin nýja bók væri sambærilegur kostur við þá eldri. Slíkur listi jafngilti í raun blessum fræðsluyfirvalda.

Í
gagnfræða-
skóla
Í önnur fáein ár kenndi ég ýmsar námsgreinar við gagnfræðaskóla og hafði aðeins mitt stúdentsnám úr stærðfræðideild í farteskinu. Stóru viðmið kennslunnar voru tvö landspróf. Hið fyrra var unglingapróf en hið síðara nefndist landspróf og skammtaði aðgang að menntaskólum. Þannig var vitað að hverju var stefnt hvort sem nemendur voru meira eða minna sprækir í náminu svo einungis var leitað leiða til að miðla að minnsta kosti því efni sem þurfti.

Samkennarar mínir höfðu margir fagmenntun frá háskóla en enginn þeirra sem kenndi mína helstu kennslugrein sem var stærðfræði. Það fór saman að þá var nýkomin út ný námskrá í þeirri grein með nokkuð breyttum áherslum. Það var nokkuð átak fyrir suma stærðfræðikennara skólans að taka upp þá breytingu en þeim gafst ekki færi á frestun þar sem ég tók hana strax upp. Hún studdi þó vel að undirbúningi undir landsprófið og kallaði ekki á neinar frekari umræður um námskrá eða hugmyndir um að það væri hlutverk kennara að móta hana. Síst af öllu hefði mér flogið í hug að það væri á mínu færi. Ég hef sjálfsagt talið að í hinum efstu myrkviðum fræðslukerfisins væri fólginn sá galdur sem sæi um að námskráin væri af ljómandi gerð.

Í
framhalds-
skóla
Í tæp 30 ár hef ég kennt við framhaldsskóla og hefi lokið nokkru háskólanámi (cand. mag. frá Un. i Oslo) í kennslu- og uppeldisfræðum og í sálarfræði, einnig í stærðfræði og síðar einnig í tölvunarfræði. Í starfinu hef ég kynnst mörgum samkennurum og kennurum í öðrum framhaldsskólum. Fjölmargir þeirra hafa haft umtalsvert fagnám að baki í sinni kennslugrein og nokkrir kennt greinina einnig við Háskóla Íslands. Það hefur verið megineinkenni þeirra allra að vera sífellt með í huga endurbætur á námsefni og miðlun þess, breyttar kennsluaðferðir og umbyltingu námsefnis þegar nýir upplýsingarstraumar hafa þar farið um garða. Kennararnir hafa ætíð verið sérfræðingar í námsefninu og það hefur þótt sjálfsagt að hafa veður af því sem gerist í öðrum framhaldsskólum og oft var um skipulagt samstarf að ræða. Hafi einhverju sinni þurft að liðsinna kennara þá hefur það verið vegna einhvers annars en færni hans í námsefninu.

Það má því segja að það sem nefna má svo vísindahljómandi heiti: námskrárrannsóknir hafi í minni starfsvitund við kennslu í framhaldsskóla verið skilgreint sem sjálfsagður hluti af starfi hins almenna framhaldsskólakennara.

En
sem sagt:

námskrár-
rannsóknir

hvað
er nú það?

Námskrárrannsóknir - hvað er nú það?

Rannsókn fer fram til að svara spurningum. Það er því einfaldast að velta upp spurningum sem koma í hugann þegar horft er til námskrár. Hér koma nokkrar:

  • til hvers er námskrá?
  • hvað er í námskrá?
  • hver býr til námskrá?
  • hvað vantar í námskrána?
  • hver er rýmd námskrár?
  • hvernig er efni bætt í námskrá?
  • hvernig er efni numið úr námskrá?
  • hvernig er gert upp á milli efnis sem erindi getur átt í námskrá?
  • hvaða tengsl eru milli námskrár og námsbóka?
    Hvernig er námskrárfylgni námsbókar metin - og hver gerir það?
  • hvernig er ljóst að námskrár-efni hefur skilað sér í kunnáttu nemenda?
  • hversu miklu skiptir að námskrárefnið skili sér í kunnáttu nemenda - og í hvaða mæli?
  • hvaða klukka er það sem slær þegar huga þarf að breytingu á námskrá?
  • hvernig er kennurum, skólum og samfélagi ljóst að breyting á námskrá hefur skilað sér í breyttu námi?

Ljóst er að með skipulegum rannsóknum mætti leita svara við þessum spurningum og öðrum sem varða námskrána og tengisvið hennar út til samfélagsins og inn til nemandans - um miðlun kennarans innan skólakerfisins.

Námskrár-
vinna
Námskrárvinna

Mikill hluti starfstíma framhaldsskólakennarans hefur farið til margvíslegrar vinnu sem tengist skoðun á því námsefni sem hann kennir, tengslum þess við þróun fræðigreinarinnar og leit að hugmyndum til að setja það fram á skýran og skiljanlegan hátt. Stöðug viðmiðun hans eru þau viðfangsefni og sú umfjöllun námsgreinarinnar sem mætir framhaldskólanemandanum þegar hann kemur til frekara náms í háskóla með sitt stúdentspróf.

Þessi sífellda tenging markmiðs við námsefni kallar á þróun námsefnisins, endurnýjun þess og umbyltingu eftir því sem þekkingu fer fram á sviðinu. Ef kennarinn er ekki á verði fær hann óblíða umsögn þeirra nemenda sem hann sendir frá sér. Hans metnaður krefur hann um að senda stúdenta sína sífellt betur og hæfilegar undir búna frá sér.

Oft er hann svo heppinn að fram koma nýjar kennslubækur á nothæfu tungumáli sem halda í við þær nýjungar sem eru á ferðinni. Oft er hann þó í þeirri aðstöðu að hann verður sjálfur að taka saman námsefni og útbúa kennslugögn sem hæfa hinu nýja efni.

Það er líka yfirleitt svo að hann verður sjálfur að reka sig á hvort efnið skilar sér í kunnáttu nemendanna. Hann veit að á kunnáttunni er viðbúin dreifing en hvaða dreifing merkir að hann sé á réttri leið?

Þótt allt þetta taki gríðarlegan tíma og sami kennarinn sé sífellt að starfa við sama efnisbálkinn, jafnvel með mörgum öðrum kennurum innan sama skóla og í öðrum skólum - jafnvel öllum öðrum skólum, þá getur þetta varla hlotið neitt rannsóknar-heiti. Ljóst er þó að kennarinn getur engu að síður haft þekkingu og yfirsýn á sviðinu umfram það sem formlegur rannsóknaraðili næði að afla sér með skipulegri rannsókn á tilteknum þætti þess.

Það kallast ekki heldur rannsókn þótt einn eða allir kennarar skóla taki upp nýtt námsefni eða nýja námsbraut og noti til þess mörg ár að laga hana uns hún verður óumdeilt af bestu gerð. Skiptir þá engu hversu mikil vinna hefur þar verið í lögð eða þótt allir aðstandendur hljóti riddarakrossinn fyrir ómetanlegt framlag til samfélagsins. Slíkt mundi hins vegar mega kalla skólaþróun - sjá GÁMES-dæmi um skólaþróun.

Námskrár-
rannsóknir
Námskrárrannsóknir

Rannsóknir svara spurningum. Rannsóknaraðilinn kortleggur það sem hann þekkir af sviðinu, setur fram þær spurningar sem honum þykja forvitnilegar - og sem hann heldur að hann geti leitað svara við. Hann gerir sér áætlun um aðferðina og fylgir henni. Rannsóknin tekur sinn tíma, bæði undirbúningur, framkvæmd og úrvinnsla. Það þarf að gera grein fyrir niðurstöðum og draga fram ályktanir um hvernig þær megi nýta í hagkvæmum tilgangi.

Það er ljómandi gott ef unnt er að nota niðurstöðu rannsóknarinnar þegar hún liggur fyrir. Hins vegar hættir rannsókn ekki að vera rannsókn þótt niðurstöðurnar reynist gagnslausar að öðru leyti en því að sýna fram á að svona rannsókn sé gagnslaus.

Það er ekki hlutverk rannsóknaraðilans að nota þær nytsömu upplýsingar sem rannsóknin veitir þótt það geti hugsanlega farið saman. Rannsókn hvorki stendur né fellur með þeim notum sem af henni leiða.

Námskrár-
vinna

og

námskrár-
rannsóknir

Kennari starfar innan knapps ramma. Þegar kennsla hefst verður hann að vera þar og skila góðu verki. Þá breytingu sem hann hefur í huga verður hann að íhuga og undirbúa um leið og hann er á leiðinni inni í annan og síðan annan kennslutíma. Oft ýtir hann breytingum úr vör í smáum skömmtum og er þá um leið að lesa í tákn um árangurinn. Hann hefur með öðrum orðum ekki tíma fyrir önnur rannsóknabrot en þau sem rúmast innan lesturs hans á þeim táknum í kennsluumhverfinu sem hann notar til að átta sig eftir.

Með fé og mannafla má stofna til rannsókna sem stutt geta starf kennarans. Þá er hægt að leita svara við brennandi spurningum og gera tilraunir til að rannsaka áhrif tiltekinna námsefnisbreytinga og kennsluaðferða. Um sum atriði mundi það geta auðveldað breytingar eða að minnsta kosti gert menn hiklausari um framkvæmdina.

Loks


kjarnanum:

Hið fyrsta markmið þessarar lotu er orðað svona:

þátttakendur þekki dæmi um íslenskar námskrárrannsóknir

og þegar lokið er undanfarinni skilgreiningu á því hvað átt er við með orðinu námskrárrannsókn er sannleikurinn sá að GÓP getur aðeins komið fyrir sig einu slíku dæmi - lítilli lesningu um skoðun Ingvars Sigurgeirssonar á notkun grunnskólakennara á kennslubókum og námskrárfylgni kennslunnar. Þessi texti var þó einungis lesinn vegna eindreginnar ábendingar Ingvars sjálfs.

GÓP:

2. Verkefni: Mat á stöðu skólanámskrárgerðar í framhaldsskólum hér á landi



Lestu greinargerðir þátttakenda í þessu námi á málstofu um stöðu skólanámskrárgerðar í eigin skóla. Leggðu mat á stöðu skólanámskrárgerðar eins og hún birtist í þessum frásögnum. Dragðu saman svör við þessum spurningum:
  • Hver er núverandi staða skólanámskrárgerðar?
  • Hvaða áætlanir eru uppi um hvernig standa á að skólanámskrárgerð / skólaþróun á næstu misserum?
  • Hverjir munu taka þátt (Kennarar, kennarahópar, nemendur, foreldrar, aðrir)?
  • Er reiknað með sérstökum stuðningi við námskrárgerðina? (Ráðgjöf, fræðslufundir, endurmenntun, aukinn samstarfstími o.s.frv.)
  • Hvað gæti helst hindrað gerð og framkvæmd skólanámskrárinnar?

Hvaða ályktanir má draga af þessu verkefni? Hvað segir það um stöðu þessara mála í heild? Hvert er þitt mat?

Efst á þessa síðu